sunnudagur, 22. júlí 2007

Debet og kredet

Nú er komið að síðustu færslunni í bili hjá B konunni því Spánn kallar.--Ekki veit ég bloggfélagar af hverju þessi litla saga kom upp í kollinn, en svona er þetta bara. Fyrir margt löngu kom lítil hnáta og bað mig um að "lána" sér aura, en upphæðin er gleymd. Aðspurð sagðist hún þurfa að versla tyggjó. Aurana fékk hún að "láni" vel að merkja, keypti tyggjó en afganginum af kaupunum skilaði hnátan og sagði sperrt: "Nú skuldar þú mér X krónur"! Bíddu við, sagði ég, þú fékkst lán, og skuldar mér þar af leiðandi. Nei.... nei... ekki var það svo að sú stutta skyldi viðskiptin, en allt gott með það. Á þessum tíma fékk daman gjarnan "lánaða" peninga til að kaupa sér lítið eitt smotterí, skilaði alltaf afganginum, og taldi þá að ég skuldaði sér þá upphæð! Við, foreldrarnir, reyndum hvað við gátum að koma hnátunni í skilning um debet og kredet en lítil viðbrögð fengust við þeirri kennslu þá. Höfðum reyndar gaman af öllu saman svona okkar í millum. ( lesist með L hljóði!). Þegar sú stutta var með okkur í Búlgaríu hér um árið var landið enn handan járntjalds og efnahagur landsins afar sérkennilegur að okkar mati. Engin kort, bara beinharðir dollarar, og var þeim alltaf skipt á svörtu. Fyrir það fengust margar "lefsur" eins og sú stutta kallaði myntina, en nota bene þegar hér var komið var sú stutta orðin eldri en tvævetur. Lítið var hægt að kaupa í þessu fallega landi, en mannanna gæði voru yndisleg. Á leið okkar á ströndina tók daman eftir gömlum manni sem sat í litlu rjóðri með eldgamla baðvog sér við hlið. Á þessum tíma var fullkomin vigtunargræja út um allt í hinum vestræna heimi og var nýlunda. Pupullinn setti peninga í rauf til að finna út hæð og "rétta" þyngd viðkomandi. Þetta vissi daman, og var því óþreytandi að láta vigta sig hjá þeim gamla og borga vel fyrir!! Hún sem sagt vorkenndi manninum, og skildi stritið. Ég hef aldrei séð, eða kynnst neinum sem hefur verið vigtuð eins oft, og það í sumarfríi! Þetta var fallegt-- Nú er þessi stutta löngu búin að læra á debet og kredet og hefur í áranna rás margfalt borgað tyggjópeningalánið til baka. Nú er bara að sjá hvernig hennar synir fara að þegar þá vantar aura fyrir smotteríi. Lifið heil, og gaman væri að sjá ykkur kvitta. Spánarfari kveður úr hornfirskri ró.

miðvikudagur, 18. júlí 2007

Út um mýrar og móa....

syngur mjúkrödduð lóa...--- Spóinn er þarna líka því nú iðar allt af fuglalífi. Nóttin er björt og B manneskjan á langlokuskónum! Á þessum há-bjargræðistíma er allt svo bjart og gott. ---Eitt er það sem ég hef aldrei vanist á er að horfa mikið á sjónvarp, og allra síst á þessum tíma. Gerði þó heiðarlega tilraun í nokkur skipti nú á dögunum, en ekki varð ég nú uppnumin. Allar þessar auglýsingar gera mig hálfarga. Lu-skrækjandi stelpur, óléttur karlmaður að bíða eftir boltanum, bl(a)ka Vanisssssið sem tekur burt bl(a)ttina og ofaní kaupið eru svo þessar "dásamlegu" dressman auglýsingar, þar sem ég get sko valið minn eigin dressman! Ég er búin að horfa með öðru hvernig hægt er að læra að taka til í húsinu, velja bestu dansarana, bestu fyrirsæturnar, gera "upp" annars falleg andlit og keppni í öllum andsk...... og ég gæti haldið áfram. Læt hér þó staðar numið. ---Fyrir helgi komu til okkar góðir gestir, tveir spánskir herramenn. Annar er atvinnuljósmyndari en hinn er mikill áhugamaður um ljósmyndun, og fóru þeir hringinn til að taka myndir. Þetta er í annað skiptið sem þeir koma til okkar, og eru uppnumdir af landinu. Á föstudagskvöldið þegar þeir fóru yfir þær 400 myndir sem þeir höfðu tekið þann daginn sáu þeir að einn ísinn við Jökulsárlónið hafði ekki komið nægilega vel út. Nú voru góð ráð dýr. Morguninn eftir skruppu þeir því vestur að lóni, tóku myndir og drifu sig síðan austur á land! Ég vona svo innilega að þessi tiltekni jaki hafi ekki verið farinn. Fjandakornið að maður sjálfur hefði nennt þessu í öðru landi, en það er gaman hvað þeir eru hrifnir af landi og þjóð.---Það eina sem var Spánverjunum mínum örlítið til trafala var blessuð sólin, en eftir viku ætlum við hjónin að fara til Spánar og láta hana gæla við letigenin í okkur. Þá skal legið og lesið, spáð og spekúlerað. Á kvöldin ætla ég að njóta þess að sitja úti og horfa á heitt myrkrið og hlusta á stjörnurnar. Þegar Svanfríður dóttir okkar var að ferðast með okkur í útlöndum sem lítil stelpa horfði hún oft upp í dimman himininn og sagði angurvær og blíð: Heyrið þið ekki í stjörnunum? Hljóðið sem hún heyrði var í bjöllum og öðrum skordýrum, en í dag segi ég og skrifa, við heyrum í stjörnunum! Útskýringar hjá börnum eru svo einfaldar og flottar að við eigum að reyna að hugsa stundum eins og þau.-- Fyrir svefninn ætla ég með bókina mína út í rósaskála og finna ilminn á meðan ég les, þá hlýtur að síga á mig höfgi. Á blaðsíðu 165 í þessari frómu bók stendur orðrétt. Stysta setning sem inniheldur alla stafi íslenska stafrófsins er: "Kæmi ný öxi hér ykist þjófum nú bæði víl og ádrepa". Ástkæra ylhýra kveður.

fimmtudagur, 12. júlí 2007

Það er margt skrítið í kýrhausnum

Það fylgir starfi mannsins mín að sjá um tvo kirkjugarða. Á vorin þegar sú vinna hefst má ég teljast heppin að fá hann í vinnu hér heima við. Til að létta undir og blíðka bóndann rétti ég honum oft hjálparhönd í þessum tveimur görðum og hef gaman af. Við kirkjuna að Stafafelli í Lóni er yndislegur garður, gamall, gróinn og friðsæll. Í stóru barði norðan við kirkjuna verpir máríuerla og önnur í grjóthleðslunni undir kirkjunni. Sambúðin við garðyrkjumanninn gengur vel, og tekur hann mikið tillit til búskaparins í barðinu. Allt í einu sjáum við hvar þröstur er að bauka við hreiðrið, og flýgur hann með eitthvað í gogginum á brott. Bölvaður, hann var að ræna! Máríuerlan var í upphafi með 5 unga, en nú eru eftir þrír. Garðyrkjumaðurinn jarðsetti einn. Í gær kíktum við ofur varlega í húsið í barðinu, og voru allir þrír við góða heilsu, en þrösturinn missti tvö væn prik hjá okkur hjónum. Fræðingur sem ég hafði tal af hafði ekki heyrt um að þröstur rændi hreiður nema ef vera kynni að máríuerlan hefði rænt hreiðurstæði hans, þá væri ævarandi fýla í gangi. Þetta fannst mér merkilegt, en náttúran lætur ekki að sér hæða.---Í dag vorum við hjónin svo í Hafnarkirkjugarði að hreinsa beð. Í kringum okkur vappaði þröstur, svo nálægt að hann nánast snerti okkur. Hann vissi sem var, að við að snúa öllu við var von á möðkum. Ég "eiginlega" fyrirgaf þrestinum í Lóninu! --- Þeir vita greinilega sínu viti.--- Annað í haus þessa stundina er þetta með að vera A eða B manneskja. Sennilega telst ég til B flokksins að þessu leyti. Allavega yfir sumartímann. Veit fátt betra en að snudda í rósunum mínum seint á kvöldin meðan nóttin er björt. Á það jafnvel til að tætast í beði eftir "háttatíma" þeirra sem telja sig vera A. Mér finnst þetta allt í lagi, en það er oft talað dálítið niðrandi um þessar B manneskjur! "Af hverju ferðu ekki fyrr að sofa, og vaknar svo snemma í fyrramálið til að rótast í beðunum" heyri ég stundum. Er ekki bara allt í lagi að vera B manneskja? Ég bara svona velti þessu upp. Mér líður mjög vel með það, og tek það fram að ég get vel vaknað árla morguns ef með þess þarf. --- Ég veit ekki hvað er tilhlýðanleg lengd á færslu, og ef ég er með langloku sem enginn nennir að lesa til enda þá verður svo að vera. Langlokan hefur kannski eitthvað með hæð mína að gera, það er 1.80! Kveð ykkur með brosi á vör klukkan að verða ELLEFU.

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Blómahaf


Þessi blóm eru í blómaskála okkar hjóna. Hlúum við vel að þeim og finnst okkur birta til þegar þau opna sig á sumrin.
Finnið þið ekki lyktina?

mánudagur, 9. júlí 2007

Bærilega gekk það síðast, þannig að ég legg í hann aftur. Hornfirðingar hafa gjarnan sagst vera með sundfit því mikið getur ringt hér. Nú er öldin önnur, varla kemur dropi úr lofti. Bæjarbúar þenja því garðslöngur sínar í allar áttir svo gróðurinn skrælni ekki. Við hjónin höfum ekki tekið þátt í svoleiðis austri og bíðum bara eftir vætunni sem við þekkjum svo vel. Vittu til, eins og karlinn sagði bráðum fer hann að rigna og við förum á kaf eins og hér um árið. Það er nefnilega annað hvort í ökkla eða eyra. Hvað um það, lífið er gott og ég er loksins búin að hafa betur en arfinn. Fari hann og veri því garðurinn ER stór. Rósaskálinn minn er í fullum skrúða og er hann er eins og Eden yfir að líta. ( Ég er viss um að sá garður hefur litið líkt út!) Það er því mikil lukka að ég skyldi veljast í tónlistarkennslustarfið, þá á ég góðan sumartíma. Ef þið lesendur góðir eigið leið um Hornafjörð langar mig að benda á nýjan veitingarstað sem heitir Humarhöfnin. Þar er aldeilis frábær humar á boðstólum. Ekki það að það sé eini humarstaðurinn, Höfn er "nebblega" HUMARBÆR. Kveðja úr kotinu

laugardagur, 7. júlí 2007

Heil og sæl þið sem kíkið hingað inn. Ég veit svosem ekkert hvað ég að koma mér í, en mátti til með að prófa. Vinkona dóttur minnar kom til mín og sagði þetta blog dæmi ekkert mál, en eftir hálftíma kennslu og áhorf á dömuna vinna helltist yfir mig þessa gamalkunna tölvu- og tæknifóbía. En, nú er ég að kasta mér út í þá djúpu og verð að krafla mig áfram. Til hvers að blogga spyrja margir. Svar mitt er ósköp einfalt, það er gaman að lesa blogg hjá pennafæru fólki, og þótt ég sé kannski telji mig ekki í þeim hópi finnst mér gaman að skrifa. Ég ætla ekki að rægja mann og annan eða vera stóryrt. Mig langar bara eins og svo marga að skrifa stundum, og þá um eitthvað sem kemur upp í hugann. Dóttir mín hefur bloggað í langan tíma og hef ég mjög gaman að lesa skrifin hennar, þrátt fyrir að vera í nær daglegu sambandi við hana símleiðis eða í gegnum tölvuna. Á síðu dóttur minnar eru margir linkar, og fer ég daglega rúnt á síðunni, og hef mjög gaman að. Þar eru mjög margir góðir bloggarar, og vil ég þakka ykkur öllum fyrir skemmtileg skrif. Það stendur yfirleitt efst á síðu "alvöru" bloggara: Allt um mig! Úpps, þar gleymdi ég að læra Kibba mín, en það kemur. Hver er ég? Ég er 56 ára Reykvíkingur en flutti til Hornafjarðar 1974. Ég er tónlistarkennari, kórstjóri og píanóleikari. (meðleikari). Er gift góðum manni sem heitir Örn og saman eigum við dótturina Svanfríði Eygló Ameríkufara. Þar eigum við hjónin fyrirmyndartengdason og tvo algjöra gullmola, þá Eyjólf Aiden tæpra þriggja ára og Nathaniel Nobel fæddan 24. apríl, nánast nýr.-- Þeir eru flottastir.-- Lífið er gott, því það er gott að eiga góða fjölskyldu. Nú er ég búin að marglesa yfir þennan texta svo nú er bara að ýta á réttan takka og þá, plúpps,! veraldarvefurinn tekur við. Þvílík tækni. Það væri gaman ef einhver kvittar, því þá veit ég að ég get þetta sko alveg. Heilsa úr kotinu.

föstudagur, 6. júlí 2007

Nýtt Blogg

testing testing