miðvikudagur, 29. október 2008

Held enn haus

Þrátt fyrir lélega stöðu mína í bloggheimum held ég sjó og líður bara nokkuð vel. Vetur konungur er mættur og var snjór yfir öllu í dag, og merkilegt nokk, ég fékk ekki í hnén við að sjá þann hvíta. Gæti aldrei búið á snjóþungum stað nema eiga þrúgur, fjallajeppa með stóru effi, snjósleða og sexhjól með keðjum. Yrði líka að eiga "snjósjálfmokara", vélknúinn, því ég myndi ekki nota minn bestahelming í þvílík verk. Ég er semsagt ekkert að huga að búferlum og lúxustækin eru víst auðseld til útlanda nú um stundir. Dettur mér þá hug allar þær vörur sem hafa verið svo auðfengnar, höfum við eitthvað þær allar að gera? Af hverju þarf maður að vera í kvíðakasti að velja á milli margra tegunda af tómatsósu? Af hverju dádýrs- og kengúrukjöt, og afhverju danskan kjúlla og írskar svínalundir? Að vísu búum við ekki til tómatsósu, en Íslendingar eru sjálfum sér nógir á matvælasviðinu. ---Kaupum íslenskt.--- Ég er að mörgu leyti gamaldags í matarstússi, og finnst búmannlegt að eiga mat í kistunni minni. (við erum svo heppin að hér er sláturhús) Vetrarforðinn tekur kannski í budduna á haustin, en mér finnst þetta betra. Er yfirleitt ekki komin fyrr en seint heim úr kennslu, og kvöldvinna 4 kvöld í viku. Þá er bara að fara í kistuna og ákveða daginn áður hvað borðað verður það kvöldið. Elda svo fyrir fjóra og hita upp afgang...Bingó... Ameríkufarinn er alinn upp við að þurfa að gefa jafnvel út seint að kvöldi hvað hafa skuli í matinn kvöldið eftir! Þetta fannst dóttlunni alltaf svolítið spaugilegt, en svei mér þá, nú á hún kistu! Kannski spyr hún þá bræður/eiginmann hvað þeir vilji hafa í matinn á morgun, hver veit? Með þessu matarkjaftæði verð ég að láta fylgja með að í fyrsta sinn á ævinni bjó ég til sviðasultu um daginn, og mikið hvað hún er góð! ---Svona í lokin er ég að velta því fyrir mér hverjum ég á að trúa, er nefnilega komin með upp í kok af ráðleggingum fræðinga. Það er eins og þetta blessaða fólk hafi ekki lesið sömu skólabækurnar. Ég lærði að 2+2 væru 4, og ekkert hægt að teygja það né toga. Nú ætla ég hinsvegar að trúa á sjálfa mig í einu og öllu, standa með mér og falla, og draga engan með mér í svaðið. Þar til næst.

þriðjudagur, 21. október 2008

Að halda haus.

Alltaf er ég söm við mig, ef ég pirra ekki bloggvini þá pirra ég bara sjálfa mig. Ég get tekið því, en ég á bágt með að skilja afhverju landar mínir í útlöndum skammast sín fyrir að vera Íslendingar og tala tungum. Hvernig í veröldinni er hægt að leggja heila þjóð í einelti, og er ég þá að tala um hinn almenna Jón, en ekki þá fáu sem "bera ábyrgð". Þetta er forheimska af þeim sem stunda. Ég legg ekki fæð á Dana sem þó eru sagðir hafa kúgað íslenska þjóð, eða Breta sem töpuðu þorskastríðinu við okkur. Eftir það voru það sko ekki Bretar sem keyptu af okkur fisk eða seldu okkur olíu. Eigum við að spýta á Dani og Breta? Nei, nei, svona á fólk ekki að haga sér, og ég ætla að gerast svo djörf að halda mínu þjóðerni á lofti hvar og hvenær sem er. Stolt í lopapeysu eða á upphlut, og hinir mega bara eiga sig. Vonandi geta einhverjir tekið undir með mér, eða er ég kannski sú eina með þessa skoðun? ---Síðan síðast hefur tíminn flogið við ýmislegt. Karlakórinn tekur sinn tíma, svo er einnig um kvartettinn að ég tali nú ekki um Gleðigjafana. Allt á fullu í aukastörfunum, og er það vel, því söngurinn göfgar og glæðir. ---Í dag voru flottir tónleikar í tónskólanum þar sem 20 píanónemendur komu fram, og eingöngu með fjórhent. Lífið er gott, og ég ætla að halda haus og vera Íslendingur í húð og hár! Þar til næst.

miðvikudagur, 15. október 2008

Samkennd og hlýhugur.

Ekki veit ég hvernig kaffigestir taka þessum pistli, þeir skammast þá bara í kommentunum. Í þeim "bloggheimum" sem gægist í hafa systurnar reiði og örvilnan ráðið ferð oft á tíðum. Það er ekkert skrítið, ég virði það, og tek heilshugar undir margt sem þar er skrifað. Ég er ekki endilega að leika frk. Pollýönnu, en nú held ég að við ættum öll að skrifa svosem eins og einn pistil hvert þar sem bjartsýnin skín í gegn, og kommenta á slíkum nótum hvert hjá öðru.--- Ég tek það fram að ég finn til með því fólki sem misst hefur vinnuna, að ég tali nú ekki um lífssparnaðinn sem margir hafa tapað. Þá er ég að tala um hinn venjulega mann, um hina er mér nokk sama. Ég hef fengið e-meil frá fjarlægum slóðum þar sem þarlendir fullyrða að við séum að sökkva í sæ með manni og mús og uppétin af Rússum. Mér leiðast svona fullyrðingar, þær gera engum gagn. Virða ber að það eru margir sem þola ekki slíkan fréttaflutning. Því að bæta gráu ofaná svart? Íslendingar hafa um aldir gengið í gegnum hremmingar (að vísu oftast af náttúrunnar völdum), en komist frá þeim. Svo gerum við nú, en til þess þarf samstöðu, og hana eigum við! --Þegar ég tek þátt í afmælum eða brúðkaupum og hef míkrófóninn við höndina læt ég gjarnan gestina fara útá gólfið og mynda hring. Allir takast í hendur og syngja saman eitthvað fallegt lag, rólegt. Þá skapast mikil vinátta sem sýnir að fólki er annt um hvort annað. Núna bið ég mína kaffigesti að búa til stóran hring, og við skulum syngja hvert með öðru "fram í heiðanna ró". Þar til næst, kveðja á alla bæi.

föstudagur, 10. október 2008

Lesist með húmorinn í fyrirrúmi.

Eins og flestir sem ég þekki og hitti eru þreyttir á fréttum dagsins, og ég ætla ekki að bæta þar um. Hugurinn er þó hjá þeim sem hafa unnið hörðum höndum allt sitt líf og tapað sparnaði sínum, og hugurinn er líka hjá hinum venjulega launamanni sem á í erfiðleikum. Ég semsagt vona að við sem þjóð náum að vinna úr þessu ömurlega ástandi, og að þeir háu herrar sem eru í eldlínunni haldi sjó. Framhaldið verður að skýrast síðar. ---Ég hef alltaf haldið uppá góðar fréttir, en með því segja sumir að ég stingi hausnum í sandinn og vilji ekki sjá lífið eins og það er. Það er ekki rétt, ég vil bara halda geðheilsunni! Í dag söng litli Eyjólfur fyrir mig sönginn um dagana, og það var fallegt. Hann er að vísu ekki kominn með alla dagana ennþá, en þetta mjakast. Natti klifraði upp á borð í beinni og var örlítið rasssíður! Þeir bræður eru yndislegir og ég, þessi algjöra tæknifæla elska skybið því það viðheldur nándinni. Svanfríður syngur mikið fyrir strákana sína og elskar Eyjólfur músíkina um Pétur og úlfinn. Nú er altso bókin komin út fyrir börn og er hún á leið til Ameríku. Eyjólfur kíkir á póstbílinn á hverjum degi og bíður, og hann bíður ogg bíííður! Natti nýtur góðs af stóra bróður og er farinn að dilla sér. Ég sakna þeirra, en tíminn flýgur, og áður en varir verður allt gott aftur og við besti helmingurinn á leið til Cary. Þá verður gaman. Í þessum skrifuðu orðum rifjast upp fyrir mér þegar við vorum að koma úr einhverri mall-ferð s.l. sumar í Cary. Á rauðu ljósi renndi maður í bílnum við hliðina niður rúðunni og spurði mig hvert við værum að fara. Jú, ég vissi það og benti vel og rækilega. Ekki vissi ég nákvæmlega þá hvert dóttir mín ætlaði því upplýsingar af þessu tagi eiga bara heima í Hlíðunum! Ég í sakleysi mínu var að ég held að vísa manninum í rétta átt, en í hvaða átt veit ég ekki. Held að mér höndum næst. Ein góð að lokum: Þegar ég á góða stund með sjálfri mér spila ég gjarnan skrabbl við sjálfa mig, og vinn mig iðulega. (stundum vinnur Sigtryggur) Besti helmingurinn ruddist inn í eina svona róstund, gekk að útvarpinu, skipti um rás gekk til dyra og hvarf. Jamm, hver var tilgangurinn? Veit ekki--- en ég veit að þar til næst ætla ég að spila fallega yfir góðri vinkonu og líka að spila við brúðkaup. Kveðja á alla bæi.
Natti undir styrkri afa hönd að læra að labba, skref fyrir skref
Vinnumaður sem kveður að