miðvikudagur, 29. desember 2010

Grýluljósmynd


Titillinn hefur alls ekkert að gera með myndina, bara að komi skýrt fram! Myndin atarna er af þeim mönnum sem ég elska mest að öðrum ólöstuðum. Það er þetta með Grýlu, en Eyjólfur minn er ekki alveg að gúddera þetta gerpi. Elskar hana en er alveg dauðhræddur við illfyglið. Natti minn er svoddan garpur ennþá (enda bara baby) að Grýla er ekkert svo skelfileg. Ég á alla sveinkana í styttuformi ásamt foreldrunum og kattarræksninu og hef verið í gegnum stutta ævi Eyjólfs sýnt honum þetta hyski á skybe. Augun hafa alltaf orðið stór og þessi svipur komið, elska ykkur og hata. Þegar við bestimann fórum svo með "dýrðina" til Ameríku gat þessi litli gutti ekki beðið eftir að sjá familíuna. Allspenntur, frómt frá sagt. Hann stóð við hjónarúmið og hélt sér vel í. Þegar Grýla birtist seig hann neðar og neðar þar til hann hvarf og kallaði á mömmu sína. Þetta var dásamlegt andartak. Tek það fram að enginn hefur nokkurn tímann hrætt hann á kellu, en gömlu vísnabókina á hann. Það segir sitt fyrir hugmyndaflugið.---- Þá kemur altso að bestimann og hans Grýlu. --- Í fyrstu ferð okkar vestur sá hann ljósmynd af verkamönnum í kaffipásu við að byggja Rockefeller center hvar þeir sitja á þverslá og hafa það huggulegt. Fyrir neðan blasa skýjakjúfarnir við eins og legókubbar að stærð. Minn maður tók andköf og fékk gæsahúð af lofthryllingi, en vildi óður og uppvægur eignast svona mynd. Ekki gekk það þá og ekki næst eða þarnæst. Hvað kemur svo upp úr pakka frá dóttlunni.... ljósmyndin góða, og minn maður tók andköf þegar hann sá hana. Rétt eins og Eyjólfur þegar Grýla birtist. Nú er þessi hrikalega mynd komin upp á vegg í góðri augsýn fyrir bestimann, og er eins víst að hann venjist henni með tímanum eins og litli snúðurinn lærir að kella venst með aldrinum. --- Litli kettlingurinn minn bæklaði í formi jólatrés stendur sig vel, og þar sem stærsta holan var liggja jólasveinar og könglar í hrúgum. Þar sem mesta gapið er neðanmáls sitja tvær flottar steinstyttur af manni og konu í íslenska búningnum, en þær gerði góður nágranni. Þetta er bara fallegt og vona ég að tréð kunni okkur góðar þakkir fyrir nostrið. Ég sendi mínar bestu óskir um friðsæl áramót og gott komandi ár þar til næst.

miðvikudagur, 22. desember 2010

Bráðum koma jólin.

Ekki veit ég hvert tíminn flýgur, en ég ræð svosem engu um hversu hratt hann fer. Það segir mér þó eitt, ég er lifandi og nýt þess að vera til. --Fékk skemmtilegan tölvupóst frá Ástralíu hvar sem fannst mynd af mér, sennilega eins og hálfs árs gamalli. Ég vissi ekki að nokkur hefði haft rænu til að taka mynd af mér á þessum tíma, en vænt þótti mér um að fá hana. Nú þarf ég bara að eignast "orginalinn". Eftir skóla og tónleikahrinu var gott að komast í jólafrí og njóta þess að undirbúa jólin, hef t.d. verið mjög dugleg að lesa, leggja kapal, ráða krossgátur og spila scrabbl. Þess á milli hugsa ég með söknuði til fólksins míns í litla bláa húsinu, og set upp svona einn og einn jólasvein. ---Við bestimann fórum á stúfana og keyptum okkur jólatré, normansþin. Núna sem oftar vildi ég lítið og feitt tré, og keyptum við eitt án þess að skoða það. Ákváðum bara að þetta væri fallegasta tréð hingað til. Jamm, svo var nú ekki með þennan kettling. Tréð er afskaplega misheppnað, eiginlega "doldið" ljótt. Samt sem áður erum við ákveðin í að þetta tré sé verulega fallegt. Allavega styrktum við gott málefni með kaupunum, og jólin koma ekkert endilega með þráðbeinu og ófötluðu tré. --- Umbúðir?--- Ég þekki góða og fallega konu sem hafði tengdamömmu sína, mjög fullorðna á heimilinu. Þá var fiskbúðingur í dós nýnæmi fyrir gömlu konuna, og eini maturinn sem hún vildi hafa á aðfangadagskvöld, því ket gat hún etið alla aðra daga! Þau áttu góð jól.--- Meyr í hjarta sendi ég mínar bestu jólaóskir til allra.---

sunnudagur, 12. desember 2010

Jamm og jæja

Ef þið haldið að ég sé þarna bara upp á punt er það hinn mesti misskilningur, og það er mjög gaman að tromma á svona flott hljóðfæri. Svei mér þá ef ég væri ekki til í að eiga eitt slíkt. Í morgun var hinn árlegi jóla-morgunverður hjá hópi góðra kvenna, og þá kemst ég í jólaskap. Fyrstu tónleikar tónskólans búnir og tvennir eftir. Stakir Jakar sungu á HSSA í dag, og í gær var jólastund hjá heldri borgurum staðarins. Í gærkvöldi fórum við bestimann á danskt jólahlaðborð að hætti Vivi, og var ég í raun uppgefin á átinu. Hvað eiga þessi jólahlaðborð eiginlega að þýða? Á maður ekki að hálfsvelta sig á aðventunni? Ég bara spyr svona í barnaskap mínum. ---Oft hefur verið ritað og rætt um slys í heimahúsum, og margar fyndnar sögur fylgt, þótt slys séu alls ekki fyndin. Ég lenti sem sé í hinu mesta basli í fyrrakvöld við klósettþvott! Allt orðið hreint og fínt þegar ég sé að seturnar á stellinu eru við það að falla með skelli, og skelli þoli ég ekki. Með undraverðum viðbrögðum hnjálausrar konu rak ég hægra "hnéð" uppundir til að draga úr skellinum....Úff.. hann lenti beint á hnjáskelslausum lið, og ég horfði á marið koma fallega fram. Með báðar hendur fullar að hreinsiefnum stóð ég á hinni ónýtu löppinni og sagði voða ljótt. Þetta var eiginlega bæði hallærislegt og asnalegt, en jafnframt fyndið. ----Næsta vika verður undirlögð af jóla jóla, tónleikum og alles. Ég ætla að njóta þess að vera með og bið ykkur öll að gera slíkt hið sama þar til næst.

fimmtudagur, 2. desember 2010

Misjafnt hefst ég að ------ líka reiðist ég.



Fyrst voru há-klassískir tónleikar með þeim ungverska, og allt ætlaði um koll að keyra rétt sem á rokktónleikum væri, enda maðurinn fantafínn. Kvöldið eftir var gömludansaball með karlakórnum, allt önnur tónlist sem ég hef gaman af líka, en kýs þá klassísku. --- En þá að reiðinni: Horfði í kvöld á fréttir sem komu mér til að gráta. Gráta af meyrheitum, væntumþykju og yfirleitt af öllum tilfinningaskalanum. Ætla "þeir" virkilega að slá út heimahjúkrun langveikra bara? Er ekki allt í lagi með þessa svokölluðu ráðamenn sem ætla svo að eyða allt að 700 milljónum í stjórnlagaþing.( sem verður örugglega hærri upphæð, því "þeir" kunna ekki að gera almennilega áætlanir) Mér verður bumbult og fæ aukaverki í hnén. Ég skal glöð borga meiri skatta ef ég get verið viss um að svona þjónusta leggðist ekki af. Skömm sé þeim öllum barasta sem láta sér detta yfirleitt svona nokkuð í hug. --- Ég er reið, en það þarf yfirleitt mikið til.--- Nú er ég búin að ná mér niður, en ég ætla rétt að vona að "velferðarstjórnin" raði upp á nýtt. --- Á rólegri nótum er ég að upplifa aðventuna og öll ljósin í kringum mig. Jólasveinarnir komnir á sinn stað og sennilega fer Jesú og hans fólk blikkandi upp um næstu helgi. Hugurinn dvelur þó drjúgum hjá dóttlu minni og guttunum tveimur, eins hjá föðurnum sem er í aðstæðum sem ég vildi ekki vera í. Lifið lífinu fallega, og njótið þess að vera til með ykkar fólki, og ekki gleyma smáfuglunum þar til næst. Ps. Músarrindillinn er mættur í sólskálann. Mikið hvað var gott að sjá hann. Örugglega sá sami og dvaldi þar í fyrra.