föstudagur, 25. apríl 2008

Jamm og jæja.

Allt tekur enda, en þennan endi á ég erfitt með og því best að blása það frá sér. Yfirleitt er ég glöð og kát, en nú er ég full af söknuði því Ameríkufararnir fóru með morgunfluginu suður og kotið er svo tómt. Ég veit, ég veit,--- við erum búin að eiga yndislegar vikur og upplifa margt, en núna er allt samt svo tómt. Ég veit líka að öllum líður vel og ekkert amar að, en samt...Ok..ég veit þetta alltsaman. Mér bara líður svona núna og það skal í ykkur sem nenna að lesa þessar kvartanir. Móðurtilfinningin er sterk, en ég kann ekki að lýsa ömmutilfinningunni, hún er eitthvað fiðrildi sem flögrar um heila, maga og hjarta. Kökkurinn er mjög ofarlega í kokinu og þarf lítið útaf að bera til að hann blómstri. Núna er ég að æfa t.d. lagið ömmubæn fyrir landsmót kvennakóra, og það er stutt í að kökkurinn fái að blómstra við það. Ætla samt að standa mig þegar stundin rennur upp. Kæru bloggvinir nær og fjær, ég óska ykkur gleðilegs sumars og þakka fyrir veturinn. Eftir erilsama tónlistarhelgi ætlum við afi að keyra suður og fylgja okkar fólki úr hlaði. Minna getur það ekki verið. Þar til næst kveður amman og biður góða vættir að vísa veginn.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Smá fréttir.

Hér á bæ er bannað að telja niður, en ég skil ekki hvert tíminn flýgur. Ég hef, ásamt afanum upplifað margar yndisstundir með litlum snúðum og reynt að svara mörgum spurningum. Á bara eftir að reyna að útskýra hvort "guð sendi okkur jólin". Þegar ég var að bögglast við að svara Eyjólfi um hækjurnar mínar og hnén endaði ég á að segjast vera bara gömul amma, og þóttist góð. Nei, sá stutti sagði að ég væri ekki gömul, bara falleg! Þar hafið þið það. Hann var líka sá eini sem tók eftir mikilli breytingu á ömmunni eftir yfirhalningu hár- og snyrtidömunnar. " Þú ert fín og falleg". Bara flottur. Natta hefur farið mikið fram í öllum hreyfingum, er farinn að standa upp sjálfur og tók nokkur skref um daginn. Montinn náungi þar á ferð sem kann að dansa. Sl. laugardag fórum við í fimleika með Eyjólfi, og það var gaman. Langur laugardagur var svo hjá karlakórnum og kom Svanfríður með strákana á æfinguna. Natti skildi lítið í listinni, en sá stóri stóð á kórpallinum hjá afa með opna sálmabók og söng hástöfum. Sem betur fer náðist sá söngur á video. ---Sem sé, lífið er gott á Hólabrautinni.--- Í dag fóru frá okkur bandarískir vinir Svanfríðar og Berts, voru í sinni fyrstu heimsókn. Þau tóku vel á móti okkur vestra og var gaman að geta endurgoldið það á heimavelli. Þau heimsóttu grunnskólann, skoðuðu Jöklasýninguna, löbbuðu um bæinn og snarfestu sig úti á fjörum, varð kalt, lentu í snjóbyl en nutu hverrar mínútu.---Hangikjöt, harðfiskur, nýr fiskur, skyr, síld, og malt + appelsín fór vel í þessa góðu gesti. --- Nú er lokatörnin í tónlistinni, karlakórstónleikar sumardaginn fyrsta og landsmót kvennakóra tveimur dögum seinna. Hljómsveitaræfing var í kvöld fyrir hátíðarkór landsmótsins og gekk vel. Verst að geta ekki fílað sig algjörlega og haft gryfju! Þar til næst....

fimmtudagur, 10. apríl 2008

krakkar út kátir hoppa

Það er svoleiðis á mínum bæ, og hér er mikið fjör. Húsið beinlínis iðar af lífi. Ég veit varla hvar ég á að byrja, mig langar að segja svo margt.--- Í fáum orðum: Ég á yndislega dóttur sem gaf mér tvo ömmustráka, stráka sem eru heilbrigðir og haldið er utan um af foreldrunum. Þótt Svanfríður ætli að læra sagnfræði sé ég hana ekki fyrir mér sem slíkan fræðimann...hún er uppalandi og fræðari sem hvetur á bæði borð. ( Nú hlýt ég að fá komment frá dömunni) Eyjólfur Aiden: Dansar, fer í fimleika, leggur á borð, stjórnar garðvinnu, tvistar með viskastykki á höfðinu, fer í veghús (n.b. Húsasmiðjuna) pissar úti í garði, hjólar, fer í langa göngutúra og stjórnar kórnum mínum. Nathaniel Noble: Hann brosir, borðar, klappar saman höndunum og tyllir sér á tær við flygilinn og spilar. Hann spilar náttúrulega tóma steypu, en hún hljómar fínt. Sérstaklega þegar ég er að vinna við hljóðfærið og Eyjólfur syngur með! Væri gott og verðugt verkefni fyrir tónskáldið Hildigunni að vinna úr! ---Lífið er semsagt gott, en heldur mikið álag í tónlistinni fyrir ömmu sem vill helst vera heima þessa dagana. Allir kórar að uppskera og tónleikar í bunum. Löngum bunum. Takk fyrir að fylgjast með lífinu hér á Hólabrautinni...Þar til næst.

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Námskeið?

Bara að láta vita af mér, öllum örugglega til mikillar gleði. Hér á bæ er mikið líf og vildi ég svo gjarna vinna aðeins minna út á við, og vera meiri spretthlaupari en ég er. Snúðarnir mínir eru miklir ungherrar, fallegir, og sennilega "bestastir" hérna megin Atlandsála! Mér er nokk sama þótt lesendur séu þessu ósammála því ég VEIT betur.--- Matur: Á morgun verða fiskibollur úr dós í bleikri, lambalærin reykt og steikt hafa verið etin, einnig soðinn humar með majonesi og kaldri mjólk. Annað eins léttmeti og pizza, kjúlli og spaghetti hefur verið á borðum, og fljótlega skal á borð borið saltkjöt og baunir....túkall. Snúðar borða nokkuð vel, sá stutti aðeins betur en hinn og kjamsar vel. Lífið er gott. Allir sofnaðir í bænum og ég kveð með bæn á vör. Megi allar góðar vættir vera með mínu fólki sem og öðrum. Þar til næst.