þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Af tækni og fegurð!

Kærar þakkir fyrir fallegar kveðjur til bestemann. Dagurinn var yndislegur og kom strákurinn bara nokkuð vel undan tugunum á undan. ---Sómapiltur---.Dagurinn byrjaði nánast um miðja nótt með miklum karlakórssöng fyrir utan svefnherbergisgluggann. Þar stóðu félagarnir hrollkaldir með Sveina káta á vörunum og stóran pappakassa af morgunmat. Dagurinn varð svo eftir því. ---Eitt er það sem við bestemann eigum í fórum okkar og þykir undurvænt um, en það eru tugir af 78 snúninga plötum með öllu mögulegu og ómögulegu á. Sigurður Skagfield með Hærra minn Guð til þín er td. eitthvað sem við verðum reglulega að hlusta á, ásamt áramótabragnum hans Brynjólfs Jóhannessonar leikara. Í þessu safni okkar eru líka perlur sem ekki eru til á nótum en ég vil gjarna nota. Þá var að finna upp tækni til að taka upp af þessum plötum svo hægt væri að útsetja. Marga hringi fórum við, fónninn er gamall og "plug" ekki til í þessa fornaldargræju. Hvað gerðu Danir þá? Náðum í eldgamalt upptökutæki með "utanborðsmike", stilltum upp fyrir framan surgandi 78 snúningana og hipp hurrey, það virkaði og kvartettinn er að verða búinn að læra eina perluna. Ég er enn að hlæja að aðförunum. Ipod, tölvur og nútímadrasl komu semsagt ekki að neinu gagni í þessu tilviki. --- Í Reykjavík á dögunum þurfti ég að endurnýja pínulitla og mjóa augnpensilinn minn og fannst nú ekki mikið til koma og fór í snyrtivöruverslun. Þar tók á móti mér undurfalleg stúlka með mikil svört augnalok og rauðar varir. Henni var sko treystandi að selja mér téðan pensil. Hún útlistaði fyrir mér gæði gripsins og úr hverju hann væri. Mér var nokk sama, vantaði pensilinn svo ég gæti talist boðleg á Hart í bak um kvöldið. Innstimplaður í kassann sagði daman fallega: þetta gera 3.800 hundruð krónur. Jawell, eins og maðurinn sagði, því mér vafðist tunga um tönn. Það versta er að ég keypti helv....! Nú spyr ég ykkur dömur þarna úti. Hvað kostar að fara berstrípaður í framan í snyrtivörubúð og vill verða fallegur? Þá er ég að meina allt...krem til allra þarfa, burstaræfla, (sem ég hefði frekar átt að kaupa í Pennanum) næturolíur og allsherjar makeup? Bara forvitni! Kannski snýst málið bara um tæknilega fegurð. Þar til næst sendi ég góða strauma.

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Ég lagði land undir fót...

Eða þannig, er á fjórum tæknilega séð og ofan í kaupið var farið fljúgandi. Til Reykjavíkur höfum við bestimann ekki komið í rúma 6 mánuði. Núna rötuðum við um allt því lítið hefur farið fyrir mannvirkja/gatnagerð á þessum tíma. Tilefnið: jú, minn bestimann á feiknarfínt afmæli bráðlega og því var lagt í stórferðalag! Sáum Hart í bak, og erum enn uppnumin. Sennilega hefur Jökull verið á forspár, svo vel eldist inntak sýningarinnar. Mikið vildi ég að Davíð nokkur gæti staðið upp og sagt: Ég skulda Guði ekki neitt, en ég skulda þjóðinni skip.--- Mjög sterkt.--- Þar sem ég þvoði nýju fínu píanógleraugun mín (auðvitað óvart) á 60 gráðum þurfti ég að versla ný, og það tókst. Eitthvert búðarráp reyndi ég en hafði lítið uppúr krafsinu nema slatta af SALTKJÖTI og buff á snúðana mína í Ameríku! Jájá, ég bar saltkjöt með mér heim! Hittum yndislegt fólk og fórum á fimmta þorrablótið á yfirstandandi Þorra, og er ég því gjörsamlega útpunguð það sem eftir lifir árs. Að fara á þorrablót brottfluttra Hornfirðinga var mikil skemmtun, eitt allsherjar ættarmót þar sem fólk stendur saman. Náði líka að hitta góðan vin sem útsetti lag fyrir kvartettinn minn og hlakka ég til að byrja að vinna það í vikunni. Síðasta vika var mikil músík vika, og sú næsta stefnir í annað eins ásamt saltkjötsáti og afmælissöng. Þar til næst bið ég ykkur vel að lifa.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

vort daglegt raus.

Nú er langt um liðið síðan síðast, en dagarnir æða áfram. Eitt er ofarlega í huganum akkúrat nún: Ef ég fengi uppsagnarbréf frá mínum yfirmanni yrði ég sennilega fljót að taka pokann minn. Það er einhver víðáttuauðn sem ríkir hjá þeim sem sitja sem fastast þótt löglegt sé, en siðlaust engu að síður. Það verður því örugglega mikil músík í fyrramálið fyrir utan stóru bygginguna í hjarta Reykjavíkur. Í hjarta litla bæjarins míns ríkir þó ró og friður og mikið er byggt. Risasundlaugin er að taka á sig endanlega mynd, og í sannleika sagt finnst mér þetta mannvirki ekki eiga heima hérna! --Þarf greinilega bara að venjast öllum þessum gulu og bláu rennibrautum sem teygja sig til himins. En hvað um það, landinn þarf að baða sig og þá skal byggja það besta.-- Nú eru farmiðarnir vestur um haf komnir ofan í skúffu og ég byrjuð að telja niður. Það geri ég á mjög auðveldan hátt. Rósa frænka hennar dóttlu minnar á bara eftir að kíkja í bláa húsið 3 sinnum! Varð gáttuð yfir miðaverðinu. Það er það sama og síðast þegar við flugum út. Fyrir okkur tvö að fljúga til Rvík. og heim aftur borgum við kr. 44 þúsund, og er það innan við klukkutíma flug. Hver skilur svona verðlagningu?--- Núna um miðjan mánuð ætluðum við ásamt vinahjónum að fara í afmælisferð "strákanna" okkar til Tenerife, en sú ferð var slegin út af borðinu af ferðaskrifstofunni.Eftir að hafa safnað í mörg ár í afmælisferð var þetta vitanlega dálítið fúlt, en við fengum endurgreitt og höldum bara áfram að safna. Þetta riðlaði þó áætlun okkar allra, en er náttúrulega bara lúxusvandamál sem leysist síðar. Kannski bara þegar ég verð sextug. Kannski læt ég drauminn rætast og fer í hvíkalkað hús fyrir sunnan þar sem ég sit og horfi út á hafið með laptoppinn á heilum hnjám og skrifa endurminningarnar. Þar á meðal minninguna þegar ég og annar ormur í sveit ætluðum að moka okkur í gegnum gamla harða fjóshauginn. Sama hvað við mokuðum mikið þá hrundi allt yfir okkur. Nú, eða þegar við stálum hestunum og allt komst upp. Jú svei mér þá, ég fer suður á bóginn þegar ég verð stór. Þar til næst sendi ég hlýjar yfir.