
Það fór aldrei svo að ég eignaðist ekki skutlu, og ég er mjög hamingjusöm takk fyrir. Í gærmorgun var ég svo spennt að ég setti klukku til að missa nú ekki af neinu. Bestimann kom siglandi á henni heim ( á 15) og þá var ekki eftir neinu að bíða. Maður einn hér á Höfn hefur átt svona skutlu í nokkur ár og fór hann með mig í prufutúrinn, og í þessari himinsins blíðu gærdagsins fannst mér ég vera eins og fuglinn fljúgandi. Valli kom með rétta nafnið á skutluna: Frelsi skal hún heita. Fór svo í þriggja tíma "göngutúr" í dag, og sé bæinn minn í allt öðru ljósi, fer hægt yfir og tek eftir öllu. Hafi ég einhvern tíman gert góð kaup um ævina voru það þessi. ----Dóttla mín var náttúrulega yfir sig hrifin af kaupunum, en hefur sitthvað við útigallann minn að athuga. Kannski ekki skrítið hann er 18 ára! Mér þykir bara svo vænt um hann, og litadýrðin í honum hlýtur að fara að komast í tísku aftur. Ég er íhaldssöm þegar kemur að góðum fatnaði, þið ættuð bara að sjá íþróttaskóna sem ég nota við viss tækifæri. Þeir eru af dótturinni frá því hún var 13 ára, að ég tali nú ekki um úti- vinnufötin mín. Uppgjafa íþróttagalli af dótturinni frá unglingsárunum. -----Þetta eru semsagt fréttir dagsins, en líka þær að ég fór til vinnu á föstudaginn. Vonandi slepp ég við fleiri flensur. Það virðist vera alveg sama hvað etið er til að byggja sig upp og til varnar flensum. Akkúrat ekkert dugar. Á meðan við erum mannleg fáum við svona pestir, og þá er bara að taka því. Nú fæ ég sprautur á sprautur ofan og ætti því að vera vel varin, því Frelsið verð ég að nota þótt kaupið sé lágt. --- Húrra fyrir mér og þér.--- Á þessum nótum kveður Frelsisskutlan og bið ykkur um að fara varlega þar til næst.