föstudagur, 20. desember 2013

Er líða fer að jólum....

Heil og sæl þarna úti í víðáttunni. Hér á kærleiks eins og ein orðar það svo skemmtilega gengur allt vel og jólin á næsta leiti. Maður spyr gjarnan annan: ertu búinn að öllu?  Ég svara því til nokkuð satt og rétt að ég hafi ekki svo mikið fyrir hlutunum, við erum jú bara tvö og getum gert alla skapaða hluti nánast á öllum tímum. Ég baka alltaf í nóvember því jólamánuðurinn er oft ansi þungur hjá tónlistarfólki, og  er það bara hluti af jólunum. Sveinkarnir mínir eru allir komnir á sinn stað, og sjáið bara eineggja "tvillingana" á efri myndinni, þeir eru sko búralegir, og ef vel er gáð má sjá þann montna frá frú Sigurbjörgu.  Eftir helgi fæ ég einn feitan frá Þýskalandi, hlakka til að kynnast honum. Í dag kom gömludansadiskur Jökuls í okkar hendur, og svei mér þá, hann er þrælskemmtilegur, er eiginlega mjög stolt af honum. Syng þar eitt lag með strákunum og hafði gaman að öllu saman.  Ef þið viljið kaupa hann og dansa eftir honum á stofugólfinu látið mig bara vita.  Rúsínan í þessum hornfirska pylsuenda er að nú hef ég í höndunum farmiða fyrir okkur bestimann til Kaliforníu í sumar, kvittað og greitt, sagt og skrifað! Núna finnst mér stór köggull farinn af brjóstinu og aðventukökkurinn hefur mildast einungis við að horfa á seðlana.  Ég veit varla hvernig maður færi að án skybe...en, mamma lifði af með okkur systur langdvölum í útlöndum og við bestimann lifðum af skiptinemaárið hennar Svanfríðar minnar. Þannig að þegar upp er staðið er styttra á milli allra í dag en i den tid. Svo mikið er víst. Ég vil óska ykkur öllum með kíkið í kaffi, kvittað eða ókvittað innilegrar jólahátíðar og megi nýtt ár færa okkur frið í hjarta þar til næst.  Gleðileg jól.  

laugardagur, 7. desember 2013

Heima er best...


Jæja þá er Reykjavíkurferðin frá, og sú næsta verður ekki fyrr en í mars, ef guð lofar eins og kerlingin sagði. Veðurkrákan ég ætti helst ekki að fara út fyrir pípuhlið frá hausti og fram á vor. Bara það eitt að þurfa að mæta í Rvík. að vetri til á sérstökum degi getur hreinlega gert út úr mér. Hálka, stormur, snjór og grjótfok er það sem ég hugsa um daga og nætur áður en farið er. Ég veit....asnalegt. Núna bar svo við að við  fengum nokkurnveginn sumarfæri og rjómablíðu báðar leiðir, þannig við bara sungum hástöfum okkur til skemmtunar og til að fagna góðri skoðun á frúnni. Meinlaust var brjóstið mitt, bara bólgur sem hægt er að meðhöndla. Þar með ætla ég ekki að eiga fleiri andvökunætur út af því. Vil heldur vaka af einhverju skemmtilegu.--- Mikið hvað ég varð glöð þegar bestimann sótti jóla-jóla kassann, þvílík dýrð og dásemd.  Jesú og fam. er komin á nótnaskápinn og spiladósaflygillinn  stendur ofaná mínum ekkidósaflygli! Fyrir mörgum árum keypti ég lítinn feitan sveinka sem situr eins og klessa og brosir fallega. Í byrjun nóv. fórum við bestimann í Rauða kross búðina á Háaleitisbraut að kaupa lesefni. Þar sá ég í einu horninu einn einmana sveinka, albróður þess sem ég hafði keypt fyrir löngu. Þessi situr bara öðruvísi og afslappaðri. Nú hafa þessir eineggja tvíburar náð saman og haga sér vel á eldhúsbekknum mínum.  Á góðum stað stendur svo einn sveinki sem er langur og mjór, og jafnvel alþakinn glimmeri. Hann er monthani, en mjög elskulegur. Hann heldur á pakka í annarri hendinni og glottir út í annað. Mér finnst alveg óendanlega vænt um þennan svein. Hún frú Sigurbjörg sá hann í Ástralíu, hugsaði til mín, keypti hann og gaf mér. Sveinkastelpu á ég líka sem mér þykir jafnvænt um og slánann. Þórunn í Kotinu gaf mér hann þegar ég lauk geislameðferðinni.  Litla sveina situr á útvarpinu. Þegar ég sé þessa vini mína hugsa ég  fallega til gefendanna. Í þessum skrifuðu orðum er ég svo þakklát. Ég er þakklát fyrir lífið með öllu því sem það fleygir í mig, og ætla að reyna að láta þras og leiðindi fljóta hjá þar til næst.

föstudagur, 22. nóvember 2013

Að kveldi dag.....

Mér finnst þessi mynd af dóttlu minni algjör draumur, hvílík litadýrð í öllu, plús brosinu hennar. Hún nefnilega var "doldið" sein að starta sér í gang. Hékk einhvernveginn út á hlið og brosti, en ég tróð koddum allt um kring og tók myndir. Natti minn, litli snúður er mjög líkur mömmu sinni og það er vel hægt að sjá fjölskyldu og ættarsvip úr öllum áttum. Einhverntíman skrifaði ég hér inn á síðuna upphaf míns lífs og er það ekkert drama, en dapurlegt eigi að síður. Ég er afskaplega fegin og glöð yfir að hafa eignast að endingu foreldra og systkini þrátt fyrir að blóð okkar sé ekki samkvæmt dna. Það er nefnilega svo merkilegt að manni þarf ekki að líka blóðið, og ekki er öllum í mun að leita upprunans til að kynnast  því. Ég hef haft allan þann tíma sem ég hef viljað til að kynnast mínu blóðfólki, en mömmu og pabba fólk er mitt fólk. Það er því gaman í raun að sjá að ég og dóttlan mín erum ekki bara líkar hvor annarri, heldur nánast öllum blóð-ættflokknum. Þó eru þeir til sem hafa talið mig líka mömmu í tali og töktum!  Hver dregur dám af sínum. -- Nú er aðventan á næsta leiti og kökkurinn fer að segja til sín. Þið munið...hann hverfur þegar jólin ganga í garð. Þangað til skælum við dóttla mín sennilega af og til til að hreinsa loftið í kringum okkur.  ---Við bestimann héldum, og vorum alveg ákveðin í að til Rvík. færum við ekki fyrr en í mars, en plön breytast. Það á að skoða brjóstið mitt vel og vendilega aftur til að segja okkur að Rvík. sé ekki á dagskrá fyrr en í mars!  Krossum alla fingur og tær, en fyrst við þurfum að fara suður ætla ég að kaupa enn einn feitan og flottann sveinka í safnið þar til næst.

föstudagur, 8. nóvember 2013

Öppdeit...


Það er sama og venjulega, skrifa ekki eins og ég ætla mér. Kannski vegna þess að ég þarf að vera í ró og næði og spá og "spögúlera" eins og gengur og gerist á ritvellinum. Var að ljúka við lestur Skuggasunds eftir Arnald og dáist að sagnameistaranum,  því sá hlýtur að hafa þurft að spá. Það eru svoooo margar bækur sem mig langar að lesa og ætla að lesa því bráðum koma blessuð jólin. Nú eru liðin  tæp 2 ár síðan ég kláraði  krabbameinsmeðferðina og skil ég varla hvernig þetta tókst alltsaman. Hef verið í strangri gæslu síðan, og hef ég/við aldrei þurft að kvarta undan okkar ágæta heilbrigðiskerfi án þess að ég fari  nánar út í rekstur þess og forgangsröðun. Þið vitið alveg hvað ég á við. Málið er líka að við heyrum oftar um það í fjölmiðlum það sem miður fer, en alltof sjaldan góðu hliðarnar.  Við eigum hins vegar alveg úrvals læknateymi sem vill sínum sjúklingum vel. Eins hef ég oft undrað mig á umræðunni um allan kostnaðinn sem konur eins og ég þurfum að punga út. Þekki það ekki á eigin skinni. Áður en ég fer út á hálari brautir þá hefur mér verið sinnt af einstöku teymi. Um daginn fór að ágerast hnútur í mínu eigin brjósti og fór þá virkilega að fara um mig, mig hryllti við hugsuninni einni saman um annan eins skammt og fyrir tveimur árum. Óþarfa svartsýni kannski, en var send í góða rannsókn til að útiloka óhroðann. Kom vel út en sálin hvekktist allnokkuð. Búin þó að ná vopnum mínum og hugsa enn og aftur fallega til allra sem halda í höndina á mér. Myndirnar sem fylgja með þessum  skrifum eru teknar síðla sumars á Sólheimum í Grímsnesi. Þar dvöldum við bestimann í viku á yndislegum stað, Bergmáli, sem rekið er af algjörlega yndislegu hugsjónarfólki. Þarna vourm við um 30 manns, öll með einhverja sögu en nutum þess að kynnast hvert öðru í dásamlegu umhverfi. Við bestimann fórum á stúfana og skoðuðum staðinn og allt það sem hann býður uppá. Vinnustofur og slíkt. Þar mættum við fullorðnum manni sem tók okkur tali og var hinn mælskasti. Bestimann spurði sem sannur Íslendingur hverra manna og allt það..... Árni heitir hann og sagði okkur deili á sér, og nefndi þar móður sína sem bar sérstakt nafn. Hann hafði ekki hitt neinn sem hafði þekkt hana, en spurði mig hvort ég hefði kannski kannast við hana. Ég átti ekki til orð, ég bjó á hæðinni fyrir ofan fjölskyldu hans og kom þar mjög oft. Árni var hins vegar ekki þar vegna sinnar fötlunar. Þið hefðuð átt að sjá andlitið á honum þegar þetta uppgötvaðist, hann varð eins og fallegasta sól í heimi. Ég heimsótti hann svo á heimili hans og við spiluðum og sungum. Þetta var dásamlegt og staðurinn Sólheimar eru eitthvað undur sem erfitt er að skilgreina. ---Svo finnst mér steinninn a tarna eitthvað svo yndislegur og auðveldur. ---Lífið semsagt gengur sinn vanagang við vinnu og önnur störf. Cd upptaka að verða búin, kórarnir starfa af miklum móð og styttist í jólalög hjá tónskólanemendum. Hlakka til að taka upp sveinkana mína...einn bættist við í síðustu Rvík. för! Með það í farteskinu sendi ég ljúfar yfir þar til næst.

laugardagur, 26. október 2013

Saknisakn...


Þar sem ég var alveg viss um að mín væri saknað skellti ég mér á svosem eitt blogg. Það eru að vísu flestir hættir að blogga eða kíkja í kaffi, en mér finnst þetta form miklu skemmtilegra en fb. Mín sérlunda. Ég nefnilega ætlaði aldrei að byrja að blogga, en ung og góð stúlka taldi mér trú um að þetta yrði ég að gera og setti mig upp eins og hún  kallaði það svo fagmannlega! Sjálf er hún svo löngu hætt að skrifa! --- Fyrir tveimur vikum fórum við bestimann ásamt fylgdarliði norður á Vopnafjörð, og alveg í himinsins blíðu. 16 stiga hiti báða dagana. Þar upplifði ég algjöra menningarveislu, og fékk að taka þátt í henni með kvartettssöng vopnfirskra karla + bestimanns. 3ja tíma veisla, troðfullt hús og engum leiddist. Vopnfirðingar: ef þið læðist hér inn þá eigið þið hrós og heiður skilinn.  Fagridalur, Framtíð, Holt og allt hitt....takk. --- Nú, ekki létum við bestimann deigan síga eftir Vopnafjarðarför heldur drifum okkur í málningarvinnu hér á bæ. Nú er allt svo skínandi hvort sem það er bókarskotið, dóttlusvítan eða lyklakippusafn bestimanns. 1100 kippur á vegg og hver og ein þvegin! --- (Er þetta ekki hálfgerð "belun"?!) Skólinn, kórarnir og allt annað sem tengist lífi okkar gengur sinn besta gang, cd upptökur Jökuls að klárast og ég sit sveitt yfir h moll svítu Bach. --- Minn draumur hefur verið lengi að skrifa pistil sem er bara á neikvæðum nótum....þið vitið, svona um ambögur, íþróttamál, ljótar fréttir og dýrkun á vitlausu fólki úti í hinum stóra heimi.  En núna komst ég ekki í þann gírinn.  Lífið er nefnilega svo miklu skemmtilegra án þessa sem ég ætla þó einhverntíman að skrifa um þar til næst. Sendi ljúfar yfir og allt um kring.

laugardagur, 5. október 2013

Já lífið.....



...er gott,  og mikið gott. Síðan síðast hef ég fengið brautskráningu frá kr.meins.skurðlækninum mínum og hinn gaf mér góða skoðun og þarf ekki að koma aftur fyrr en eftir 6 mánuði.  Efsta myndin er svolítið skemmtileg. Eftir brjóstnámið dvöldum við bestimann á sjúkrahótelinu í góðri umönnum og mikilli hlýju.Ég átti að æfa mig á að "ganga" upp vegg til að ná góðri teygju á handlegginn. Déskolli sárt. Alltaf þegar við höfum þurft að "ganga til lækna" (þið munið, Guðrún frá Lundi!) þá gistum við á téðu hóteli og mjög gjarnan í sama herberginu. Meðal annars var það mitt verelsi í fimm vikur meðan á geislum stóð. Bestimann setti lítið blýantsstrik í upphafinu, og sést það enn, allavega sjáum við það. Á myndinni sést hversu mikilli teygju ég hef náð, og á samt töluvert eftir .Hef alltaf getað spilað,  sú hreyfing tapaðist aldrei, (svona út og suður hreyfing)  en ég á erfiðara með að hengja upp þvott, og þar kemur bestimann oft sterkt inn! Síðan síðast:--- Bestimann vaknaði MJÖG snemma daginn eftir góða skoðun frúarinnar og datt þá í hug að skoða bílakaup, og jafnvel að kaupa einn slíkan. Skemmst er frá að segja að bíll var keyptur....algjör drossía! Við þennan fína bíl gat frúin varla látið sig sjást á komandi jazz og dixilandtónleikum öðruvísi en í nýjum kjól. Til að gera langa sögu stutta: Það er lítil yndisleg búð á Njálsgötu 62 sem selur það sem drottningar þurfa, og það fyrir mjög sanngjarnt verð. Þangað fer ég svo sannarlega aftur og mæli með búðinni. --- Síðan síðast: --- Afmælistónleikar og ball....sungið og spilað og ágóðinn rann til Krabbameinsfélags suð-austurlands. Alveg fullt af "pjéningum" sem Hornfirðingar gáfu af heilum hug í viðbót við þá skemmtun sem sóst var eftir. --Alveg magnað hvað samstaða fólks getur náð langt. Bestimann var í denn tid....sko fyrir heilum 49 árum í hljómsveit, Pan kvintett sem spiluðu víða og voru að mér skilst déskolli góðir. Fyrir mína tíð. Áttu búninga og æfðu grimmt. Flottir gæjar. Nú komu þeir saman aftur og hafa bara orðið betri með árunum ef eitthvað er. Fyrir 49 árum voru þeir kornungir og kunnu lítið fyrir sér, en allir músíkalskir og höfðu stóra drauma sem þeir létu rætast. Allar götur síðan hafa þeir verið viðriðnir tónlist hver í sínu lagi og stundum saman og hafa nú reynslu, grátt hár og yfirvegun.--- Síðan síðast ákváðum við bestimann að skreppa aftur norður á Vopnafjörð á næstunni og taka þátt í söng og gleði með heimamönnum. Ég er veðurskræfa og bið því um gott veður í öðrum skilningi en svo oft áður. Því skyldi það ekki ganga upp núna eins og fyrr?  Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.

sunnudagur, 15. september 2013

Uppsafn og uppsóp!

 Þetta ætlar ekki að ganga eins og til var ætlast. Ég er að átta mig á því að tæknin og ég eigum alls ekki samleið. Kann að setja myndir af myndavélinni á tölvuna, senda og setja inn á þessa síðu. Nú hins vegar gerist ekkert, og ef þetta blog skilar sér ekki verð ég fantafúl. Síðan síðast hefur margt gerst í lífi kotkerlu. Fór í aðgerð í lok ágúst í vonandi lokahnykk á brjóstsvæðinu og eftir það dvöldum við bestimann í algjörri sæluviku á Bergheimum á Sólheimum í Grímsnesi. Dvölin þar gerir manni eitthvað svo ótrúlega gott, maður kemur ekki alveg sami maður til baka. Þeir sem að þessu "batteríi" standa eiga allar heimsins orður skildar.--Eftir þessa dásemdardvöl  hófst kennslan og söngför Gleðigjafanna minna undirbúin af krafti. Í gærkvöldi komum við svo heim ferðalúin en alsæl með yndislega tónleika og frábærar móttökur Vopnfirðinga. Ég hef oft spilað þar tónleika  sem alltaf hafa verið vel sóttir, og þeir eru höfðingjar heim að sækja. Vopnafjörður er einn af fallegustu bæjarstæðum sem ég þekki og landslagið ótrúlega fallegt. Það er auðfarið á Vopnafjörð, beinn og breiður vegur alla leið. Mæli með honum.  Framundan er lífið í allri sinni mynd, og með öllu því sem það býður uppá gott eða slæmt. Ég hef því ákveðið að lífið verði gott og ég hlakka til komandi verkefna sem eru ærin. Þar stendur "doldið" uppúr: Ég er  nefnilega að æfa jass og dixilandlög á píanóið og er algjör tréhestur. Sko, ég er ekki dökk á brún á brá hvar sem þeir eru bestir í þessari tegund tónlistar. Ég er rétt aðeins sólbrún eftir Spán með klassík í puttunum. Mér er samt talin trú um að ég geti þetta og fyrst svo er ætla ég bara að æfa mig í að vera swinguð! Núna í vikunni förum við bestimann til Rvík. og þar ætla ég að biðja mína góðu lækna um gott veður fram að næsta vori. Ætlum líka í leikhús og ef ég verð dugleg og heppin hitti ég kannski einhverja góða í Kringlukaffi....læt vita síðar þar til næst.
Posted by Picasa