þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Leikhús,"fjötlun" og hnátan!

Takk fyrir innlitið þið í bloggheimum sem kíkið og kvittið. Bara gaman að því. Vika síðan síðast og margt hefur áunnist sem betur fer. Ég er alveg að verða búin að læra syrpuna sem endar í "klæmexi", þarf sennilega að læra hann utanbókar! Mér varð um margt skemmt þegar ég las blogg hnátunnar um leikhúsferðina á dögunum. Svanfríður hefur kunnað Vesalingana í mörg ár, og sagði gjarnan að þegar hún yrði stór ætlaði hún að fara að sjá sýninguna. Nú hefur draumurinn ræst, og gat ég samglaðst henni verulega.--- Alltaf verið hrifnæm hún Svanfríður.--- Í gegnum tíðina höfum við foreldrarnir farið oft með henni í leikhús, og ekki þekki ég neinn annan sem tekur eins mikinn þátt í leiknum. "Hallæristeórinn" kemur upp í hugann: Hann svaf hjá einhverri, og tómt vesen. Við mæðgur sátum mjög framarlega, og þegar pabbi dömunnar í leiknum kom að þaut tenorinn út en skildi eftir sig buxurnar. Þá stóð sú stutta upp, baðaði út öllum vængjum og hrópaði hátt: Þú gleymdir buxunum!---Hún tvítók það---! Þegar pabbi hennar fór með hnátunni á gott leikrit í Þjóðleikhúsinu gleymdi hún gleraugunum, en dó ekki ráðalaus því maðurinn fyrir framan hana hafði sín á nefinu sem greinilega pössuðu henni allvel. Sat skökk og skæld allan tímann og hreyfði sig í takt við manninn til að sjá sem best. Henni leiddist ekki að fara á tónleika hjá Sinfó, eða í óperuna. Allt var þetta hin besta skemmtun. Í útlöndum var hnátan hinn besti ferðafélagi, var fljót að skanna svæðið og finna út hvað hægt var að gera skemmtilegt. Dubbaði sig upp fyrir kvöldið, pantaði súpu í forrétt og gleypti í sig allt sem hún sá og heyrði. Ekki skrítið þótt Svanfríður hafi "misst" vatnið, fengið gæsahúð og hroll við að sjá loksins Vesalingana. Hef ekki spurt Bert hvort hún hafi látið hátt á sýningunni. Kæmi mér ekki á óvart. Í síðasta pistli dótturinnar tæpir hún á fötlun. Þegar ég þurfti að dvelja langdvölum t.d á Reykjalundi var daman stundum með í för. Á Reykjalundi var mikið af fötluðu fólki, enda staðurinn endurhæfingarstöð. Svanfríður sá aldrei athugarvert við neinn. Þvældist aftan á rafmagnshjólastólum, leiddi blinda, og spilaði við þá sem kunnu svarta pétur. Er skrítið þótt hún þoli ekki steriotýpur, eða þá sem koma ekki til dyranna eins og þeir eru klæddir? Nei, segi ég, mamman. ---Kannski hef ég farið yfir strikið í upprifjunni á gömlum dögum, en þeir eru mér svo kærir, þeir koma upp í hugann á hverjum degi. Mér finnst gott að hugsa til þeirra og finnst þá endilega að allir vilja deila þeirri gleði með mér. Hvað um það, nú er stutt í Ameríkufarana og ég ætla sko að segja mínum snúðum að þeir eigi að taka vel eftir öllu sem er í kringum þá og læra að lifa lífinu lifandi. Það hafi mamma þeirra gert. Þar til næst....

7 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég held að það sé hollt að rifja upp gamla daga-það er enginn að tala um að lifa í þeim-en það er bara gaman að rifja upp e-ð gamalt og gott. Ég segi eins og þú, ég geri mikið af því en ég þarf sosum ekki að segja þér það.
Ég minnist þessara leikhúsferða með gleði í hjarta og finnst ég rík að hafa átt foreldra sem ekki töldu það eftir sér að gera hluti með barni sínu. Það eru bara ekki allir það heppnir,því miður.
Hlakka til að láta ykkur vita um komutíma-og dag á morgun:)
lofjú,Svanfríður

Nafnlaus sagði...

það er yndislegt og einmitt hollt að rifja upp gamla tímann, því hann er nú einu sinni hluti af þeirri manneskju sem maður er í dag.

Ég er farin að hlakka til heimsóknar og endurfunda fjölskyldunnar fyrir ykkar hönd. Get vel gert mér grein fyrir spennunni og eftirvæntingunni, því ég verð í sömu sporum eftir örfáa mánuði..

Bestu kveðjur í fallega fjörðinn ykkar,
Linda

Nafnlaus sagði...

mikið held ég að Svanfríður hafi verið líflegt og skemmtilegt barn:)

Nafnlaus sagði...

Svanfríður er bara söm við sig, eins í dag og hún var þá, lífleg skemmtileg og frábær að deila stundum með. Og svona karakter getur ekki annað en komið frá góðum, staðreyndir lífsins eru að ....sjaldan fellur eplið langt frá eikinni! Meðan ég þekki ykkur ekki nánar persónulega, kæru hjón, finn ég ykkur samt í Svanfríði....
bestu kveðjur

Egga-la sagði...

Ég hef sjaldan hlegið eins mikið eins og þegar Svanfríður sagði mér einhverja ferðasögu af sér frá Alcudia(að mig minnir).Ég hló í mörg ár.Hún kann sko að segja skemmtilegar sögur.

Nafnlaus sagði...

Ég nýt þess að hlusta á sögurnar þínar Gulla mín.

Þær eru svo skemmtilegar.

Kv,
B

Syngibjörg sagði...

Þú skrifar á þann hátt að maður dettur alveg inn í atburðarásina og gleypir í sig hvert orð og langar að lesa meira....