sunnudagur, 14. desember 2008

Taka tvö!

Ýtti á vitlausan takka eins og fleiri. Ætlaði að ýta á save now, en tók feilspor. Hefst þá taka tvö.-- Já, þetta ljóta fer semsagt í mig. Ég er meyr í eðli mínu, en samt sterk, svo lengi sem ég þarf ekki að "díla" við það ljóta. Ég sting þó hausnum ekki í sandinn, og ég veit að heimurinn er ekki tandurhreinn. Horfi þessvegna ( þegar ég horfi) á saklausar myndir, svona góðan endi og allt það. Eitt er það sem ég get ekki ráðið við eru tilfinningar og get skælt yfir ótrúlegustu hlutum. Það eru ekki sár tár, aðeins tilfinningar sem ég get ekki útskýrt. Tónlist hreyfir við mér, og er ég því best geymd réttu megin þegar hún er annars vegar. Þá hrynja ekki tár, en sem njótandi er ég til alls vís. Þessa dagana er ég á þeim buxunum að allt hreyfir við mér. Ég sakna litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu svo mikið á þessum árstíma að mig verkjar stundum. Þetta er kannski bara ömmu/mömmuvæl því það amar ekkert að, og allir eru hraustir. En samt.--- Jólin nálgast og tek ég á móti þeim með vellíðan og tilhlökkun þrátt fyrir litla hjartað. Ég hef lært það gegnum tíðina að baka til jólanna í nóvember vegna anna í desember. Sá mánuður er svo yfirfullur af öllu sem viðkemur tónlist og menningu að það er nóg fyrir mig. Er frekar sein á fæti þrátt fyrir rauðu bomsurnar! (mikið helv... hvað þær virka vel) Í gær fór ég með tónskólabörn sem spiluðu á jólastund fyrir eldri borgara. Börnin voru á öllum aldri, og flest áttu þau ömmu/afa eða langömmu í boðinu. Það hreyfði sko aldeilis við mér. Enn einn plús að búa í litlu samfélagi. Í gærkvöldi fórum við svo bestimann á danskt jólahlaðborð sem er árlegt hér. Það var mjög gaman og löbbuðum við í rólegheitunum heim um eittleytið í stafalogni, á auðri jörð og fullur máninn glotti við tönn. Dagur er að kveldi kominn. Þar til næst, verum eins og við erum ,og góð hvort við annað.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir pistilinn Guðlaug mín, það er alltaf gott að koma hérna í heimsókn til þín. Mikið skil ég vel að hugur þinn reiki til fjölskyldunnar í litla bláa húsinu. Ég vona að ykkur líði öllum vel beggja vegna hafs og sendi kæra kveðju,

Nafnlaus sagði...

já, mikið skil ég vel þennan söknuð, við erum líka svo mikið fjölskyldufólk, ég get ekki hugsað mér að liðið dreifist út um heim í þessu efnahagsfjúki!

Það er samt alltaf gott að vita af fólkinu sínu öruggu og hamingjusömu, og Skype með myndavél er snilld...

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég "glátti" bara smá í dag og fékk faðmlag og mikið var það gott. Mér líður betur í sálinni í dag eftir laufabrauðsbaksturinn með stelpunum en svo verð ég aftur orðin eins og þú á morgun:/ Ég elska þig og takk fyrir sms í dag:)

Nafnlaus sagði...

Það er erfitt að vera langt frá sínum, þegar þessi tími er. Hann er nefnilega akkúrat tími samveru með þeim sem manni þykir vænst um. Ef ég ætti fullt af peningum þá myndi ég senda ykkur hjónakornin beinustu leið yfir hafið í bláa húsið.
Vona að þú gleymir söknuðinum stund og stund í tónlistarveislu desembermánaðar.
Kveðjur Íris Gíslad

Nafnlaus sagði...

Mér þykir þú góð að geta skipulagt þig svona vel og bakað í nóvember. Vantar uppskrift að þessum aga þínum!
Söknuður, jeminn eini - ef það væri hægt að loka hann ofan í kassa og geyma fram á vorið - væru kinnarnar ekki svona társtroknar. En þetta hefst og það lærist að lifa með honum söknuði blessuðum!

bestu kveðjur í fjörðinn þinn...

Nafnlaus sagði...

ég tárast mjög oft yfir tónlist, það er alveg rakin leið til að skrúfa frá krananum..

Nafnlaus sagði...

afa finnst Það líka stundum erfitt að hafa hluta af fjölskyldunni erlendis. Einkum og sér í lagi um þetta leiti ársins. afi sendir innilegar jólakveðjur austur á Hornafjörð.