miðvikudagur, 11. mars 2009

Lygalaupur?

Ég kann ekki að ljúga, og ég kann ekki við þegar aðrir ljúga. Það er búið að ljúga svo oft upp á síðkastið að mér eiginlega blöskrar, og menn hafa virkilega haldið að það kæmist ekki upp um þá. Þegar ég var að alast upp var mér sagt að "upp komast svik um síðir", og betra væri að segja alltaf satt hversu erfitt sem það væri. Í húsinu sem ég ólst upp í bjó kona sem var voða leiðinleg að mati okkar krakkana. Hún hafði allt á hornum sér. Einu sinni var í heimsókn hjá henni frú sem átti hvíta háhælaða skó. --Þeir voru skildir eftir á dyramottunni.-- Ég og önnur til sáum okkar sæng uppreidda, tókum annan skóinn og grófum hann í sandkassanum. Héldum svo okkar striki við að leika, en blístruðum hástöfum af spenningi. Allt fór á hvolf og við kallaðar á teppið hjá mömmu. Við harðneituðum auðvitað, en ég öllu minna en vinkonan, og ég blístraði af enn meiri ákafa. (nýbúin að læra þá iðju) Mömmu datt það snjallræði í hug að bjóða okkur túkall ef við vildum vera svo vænar að hjálpa til við leitina að skónum. Í stuttu máli fann ég skóinn strax, augun og blístrið kom upp um mig. Það sem meira var að mamma stóð við orð sín með túkallinn. Hún hafði heitið fundarlaunum, og loforð er loforð. Svona gerast kaupin á eyrinni í dag víst ekki. Menn halda áfram að ljúga og fá marga túkalla fyrir. En ég segi og skrifa: þetta borgar sig ekki. ---Eins og lesendur vita sem kíkja hér inn fórum við bestimann í leikhús þjóðarinnar um miðjan febrúar. Eftir að við komum heim fundum við okkur knúin til að þakka fyrir yndislega kvöldstund, og það gerðum við í smá bréfkorni til aðstandenda sýningarinnar. Á dögunum fengum við svo símtal frá einum leikaranna þar sem hann þakkaði fyrir þakkarbréfið! Þá varð ég hissa, en þótti vitanlega vænt um símtalið. Skyldi vera að við séum frekar reiðubúin til að kvarta og rakka niður frekar en að þakka fyrir það sem vel er gert? Það hlýtur bara að vera.--- Síðan síðast hefur tíminn flogið sem endranær. Nú er vorið í skólanum niðurneglt, lagalisti kóranna tilbúinn, og undirleikur frúarinnar að verða nokkuð ljós. Nokkrir langir laugardagar eru eftir og tónleikahrinan byrjar í apríl. Rósirnar í skálanum klipptar og eru farnar að segja halló. Bíð bara eftir þokkalegum degi til að þrífa allt hátt og lágt og bjóða þær velkomnar til leiks enn og aftur. Mig langar svo að endingu láta ykkur vita af því að ég er bráðum að fara í lítið blátt hús! Pössum okkur svo á lygalaupunum. Þar til næst.

8 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

hahaha-grófuð þið skóinn í sandkassann!!! En e-ð hefur amma Hóffí grunað sinn Gvend..vitað að hverju hún gekk?
Næst takk, panta ég söguna um flygilinn hans Carls heitins Billich og berin sem fóru inn í bréfalúguna.:)
En jú það er rétt-lygar borga sig aldrei og engan veginn. Segi ekki meir en það. Jú,annars ég segi eitt enn-luf jú:)

Nafnlaus sagði...

hver er að ljúga? ertu að tala um stjórnmálamennina, bankakúkalabbana og útrásarhelvítin?

Nafnlaus sagði...

Já mín kæra baun, ég er að því. Gulla

Nafnlaus sagði...

Það er alveg ótrúlegt hvað óprúttnir náungar komast upp með. afi á ekki til orð í eigu sinni yfir þessarri ósvífni sem viðgengst í þjóðfélaginu.

Nafnlaus sagði...

Já ég tek undir með þér að maður veit ekki í hvorn fótinn maður á að snúa sér þessa daga og hverjum maður á að trúa....svo endar maður sennilega á því að trúa engum og það er mannskemmandi!
Ég er alveg sammála þér að við erum allt of löt við að hrósa því sem vel er gert en fljót að gagnrýna það sem ekki er nógu gott....best að taka sig í gegn með það....mér finnst þessi skrif þín t.d. mjög góð og hrósa þér fyrir að vera góður penni.
Bið að heilsa í fjörðinn fagra.
kv. Helga Sigurbjörg

Nafnlaus sagði...

gott að fá svona áminningu! auðvitað á maður að vera duglegur að þakka fyrir það sem vel er gert! ég ætla taka mig til og senda frá mér allavega tvö slík - akkúrat núna... eitt, hér með; gulla, takk fyrir skemmtileg og fróðleg blogg og svo annað sem fer á til húseigandanna sem ég leigði húsið frá í nóvember, hef ætlað mér síðan þá að þakka fyrir mig...

hafið það gott!

Nafnlaus sagði...

Hæ hó og takk fyrir góðar kveðjur. Þú ert ekkert smá heppin að vera á leiðinni í litla bláa húsið. þar verður nú aldeilis tekið vel á móti ykkur:-D
Maður hefur nú alveg gefist upp á lygalaupunum. Svo koma kosningar, sömu andlitin, sömu loforðin...ég hef ekki lyst á þessu en samt verður maður eiginlega að vera ábyrgur og kjósa...Er þetta virkilega það sem í boði er? Er ekkert annað fólk til í landinu sem nennir í framboð?

Nafnlaus sagði...

Sannarlega þörf ábending hjá þér og þetta með lygar, það er engin spurning að þær komast upp um síðir en sumir eru ótrúlega frakkir við að halda áfram að ljúga þó hið sanna sé komið í ljós. Þetta ástand virðist engan endi ætla að taka, það er alveg ótrúlegt hvað margir hafa tekið þátt í þessum ljóta leik. En það verður ólíkt skemmtilegra að koma í bláa húsið en að láta mata sig á leiðinlegum fréttum á hverjum degi.
Ég vona að þú farir að komast réttu leiðina í heimsókn til mín, kann ekkert annað ráð en að þú sláir inn á leitarvélina slóðina til mín og setjir hana svo í favorite. Þórunn