laugardagur, 15. febrúar 2014

Ritstífla... eða leti?

Ég á ekki hund eða kisu til að sýna ykkur, en ég á fólk sem mér þykir svo undurvænt um og vil gjarnan deila því með ykkur.--  En bara smá.--  Mér finnst þessi mynd svo falleg, og ferð litlu fjölskyldunnar út í Papey var yndisleg. --- Ég hef ekki ennþá komist uppá lag með að vera fésbókarkona, ekkert frekar en að vera með heimabanka og "solleiðis". Ákvað eftir að Kristbjörg (sem kíkir ALDREI í kaffi) kom mér til að blogga að skrifa nú reglulega. Hef alls ekki staðið við það, en hef gaman af því þegar ég nenni og ritstíflan truflar ekki og  fann andann til skrifta akkúrat í þessum rituðu orðum.  Evrovísíon afstaðin og ljóst að leikskólakórinn fer fyrir okkar hönd.  Gott mál, hressir menn þar á ferð. Mér finnst nú að það mætti gefa Gleðibankanum einn séns enn..... en hvað veit ég?  Lífið hjá okkur bestimann gengur sinn vanagang sem er bara nokkuð góður gangur. Vinna og allt annað eins og hjá öðrum líður áfram eins og enginn sé morgundagurinn. Mér finnst eins og ég sé kannski að missa af einhverju. Hvar er allur þessi tími sem telur í sólarhringum og misserum? Ég sit með sveittan hársvörð og reyni að halda í þetta allt saman. Tekst þokkalega og tel mig vera komin vel á veg með að læra það sem til þarf þennan veturinn. Svo vill gjarnan bætast í sarpinn og þá er stuð. --- Um þessar mundir eru þrjú ár síðan ég greindist með krabbamein, segi og skrifa: fari það og veri, en ég er heppin. Heppin að ekki fór verr. Samt er eitt sem hefur ekki komist inn í minn gráa haus. Ég hef heyrt og lesið um fólk sem segist ekki hefði viljað fara á mis við svona reynslu. Ég bara hreinlega get ekki sagt það sama, því ég hefði svo sannarlega viljað vera laus við yfir tug hné-aðgerða og krabbamein. Aftur á móti verð ég eins og allir að takast á við það sem í mig er hent hvort sem mér er það leitt eða ljúft.  Ljúft er að hafa staðið sig og ég ætla líka að láta sem ekkert sé þótt táneglurnar kjósi enn og aftur að láta sig hverfa. Helvít...á þeim en einhver ofur jákvæður myndi sennilega segja: farið hefur fé betra, en ég hefði frekar kosið að þær héngu á. Lyf og geislar bjarga, en skilja líka eftir ýmislegt sem ég hef ákveðið að ulla á þar til næst.....segi svo að lokum saltkjöt og baunir....65.

4 ummæli:

Gróa sagði...

Gulla mín .... það er alltaf gaman að lesa bloggið þitt. Og þó það stíflist í smá tíma þá verður maður bara glaðari þegar þú hleypir úr "pennanum" :)
Bestustu kveðjur,
Gróa.

Nafnlaus sagði...

Ég hefði líkað óskað þess að þú hefðir sloppið við þetta allt en er svo þakklát styrk þínum og seiglu elsku mamma mín. Og já þetta var góð ferð út í eyjar:)Knus Svanfríður

Frú Sigurbjörg sagði...

Mér sýnist þið bestimann taka vel á því sem lífið fleygir að ykkur og hlúið að því sem máli skiptir. Dásamleg mynd!

Ragna sagði...

Alltaf svo gott að rifja upp svona góðar stundir eins og ferðina ykkar í Papey.
Ég segi nú sama og þú um reynsluna. Sama væri mér þó ég hefði farið á mis við hana. Við erum líklega bara svona "ligeglad".
Hjartans kveðja í fjörðinn fagra þar sem ég þekki svo góð hjón.