miðvikudagur, 5. september 2007

Um hvað?

Þessir titlar vefjast oft fyrir mér því ég læt gjarnan hugann reika. Hvað um það, nú er tími á að reyna sig á ný á ritvellinum. Kærar þakkir fyrir kikkið og kvittið lesendur góðir, mér þykir vænt um innlitið. ---Fyrir nokkru setti ég inn myndir af fallegu rósunum mínum. Þær eru enn blómstrandi. Við hjónin höfum oft velt því fyrir okkur hve gamlar þær eru, og hversu lengi rósir yfirleitt lifa. Sólskálinn var til staðar þegar við keyptum húsið, 1990. Í dag vitum við að rósirnar okkar voru settar niður 1983 og blómstruðu ári seinna. Þær eru sem sagt orðnar 23 ára gamlar! Það væri gaman að heyra frá einhverjum þarna úti sem þekkir til aldur rósa! --- Nú þegar haustar langar mig til að taka út sumarið. Það hófst með miklu ferðalagi til fjölskyldunnar í litla bláa húsinu í Ameríku. ( Í mínum huga er bara eitt lítið blátt hús í Ameríku) Þar var yndislegt að vera, og taka þátt í lífinu sem þar er. Eitt er víst að ég er mjög stolt mamma/tengdamamma, en ekki síst amma, það er stórt hlutverk og gott. Eyjólfur Aiden er dásamlegur strákur, greindur og skemmtilegur, og sterklíkur föður sínum í útliti. Nathaniel rólegur og vær, og afar líkur mömmu sinni í útliti eins og hún var sem lítið barn. Þau hjón hafa fengið góða blöndu, og tekst vel upp í sínu hlutverki. --- Heimkoman var erfið, söknuður og tímamunur sáu til þess, en það fennti svolítið í sporin er á leið. Humarhátíð, garðvinna, gestakomur og þessháttar hélt öllu í réttum skorðum í rúman mánuð, en þá fórum við í letigírinn á Spán. Það er nefnilega nauðsynlegt að gæla við þann gír af og til. Brún, sátt og sæl erum við svo tilbúin í slag vetrarins. -- Kennslan hafin og er ég með alla mína fyrri nemendur, og bætti við mig einum nýjum. Það var gott að hitta þá og hefja leik. Kórarnir eru almennt ekki byrjaðir, en líður að því, þá verða þrjú til fjögur kvöld frátekin.-- Oft á þessum tíma árs hef ég fundið fyrir smá depurð. Dimmt, kalt, ófærð, hálka. Ekki beint tilhlökkunarefni, en nú ber svo við að ég finn ekki þessa tilfinningu. Veturinn hlýtur því að verða ljúfur, og jafnvel bjartur! Með þessum orðum kveð ég, ljúf, björt og brosandi.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo skemmtileg Gulla.

Ekkert veit ég um líftíma rósa. Þó, er undirrituð orðin 31. árs, og mun vonandi blómstra lengur.

Veturinn já. Ég er engin vetrarmanneskja. Vona bara að það snjói sem minnst.

Takk fyrir kveðjuna.

Kv,
Birta RÓS c",)

Nafnlaus sagði...

kíki reglulega
og hef gaman af

Nafnlaus sagði...

Ekki þekki ég til aldurs rósa en það stendur ekki á mér þegar kemur að því að dáðst að þeim.
Ég skil vel að þú saknir fjölskyldunnar í bláa húsinu í henni Ameríku því þar áttu gersemi mikla.
Ég vona að veturinn fari um þig mjúkum höndum og verði ljúfur og bjartur hvernig svo sem veðráttan verður.
Kær kveðja,

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég yrði ekki hissa ef rósirnar myndu lifa miklu lengur því þú og þið hugsið svo vel um þær...er ekki sagt að ást og umhyggja drífi langt?
luf jú, Svanfríður

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég gúgglaði um aldur rósa og þetta er svarið sem ég fann, allavega eitt af þeim svörum; What I have read is that roses on rootstock last ten years maximum and own root roses can live fifty to a hundred years (some perhaps more) and that many of the newer roses won't grow on their own roots well. What is true and what isn't? I don't fancy digging up roses and rebedding soil every ten years.

Védís sagði...

Ég kíki kannski ykkur í kaffibolla næstu helgi og kíki þá á rósirnar í leiðinni.
Eitthvað rámar mig í að tvær dömur hafi sofið í sólhúsinu fyrir nokkrum árum, getur það verið?

Syngibjörg sagði...

Sæl kæra blómakona.Ér loksins búin að setja þig inn á linkalistann minn,svona er að komast í ham:O)
Deili skipulaginu með þér mjög fljótlega.

Nafnlaus sagði...

Já Védís mín, ykkur var potað út í gróðurskála á sínum tíma, rétt er það. Þá gistu hér yfir tuttugu manns, manstu? Þeir sem sváfu í flatsæng á stofugólfinu fengu engan frið fyrir Krúsu, hún elskaði spottana á svefnpokunum. Þið Svanfríður aftur á móti vöknuðu í svitabaði eftir nótt í sólskálanum. Ill meðferð, en skemmtileg í minningunni!!Gulla Hestnes

Nafnlaus sagði...

Það er alltaf svo ótrúlega skemmtilegt að geta miðlað þekkingu sinni, en ég veit ýmislegt um aldur rósa.... eða það er að segja ég veit að það eru í raun engin takmörk fyrir því hvað rósir geta lifað lengi, ef plantan fær næga næringu og ólífræn efni sem hún þarf á að halda til að lifa getur hún gert það í 100 jafnvel 1000 ár.
þannig er nefninlega mál með vesti að plöntur geta endurnýtt vefi sína, en verða ekki hrukkóttar og gamlar eins og við mannfólkið.
vonandi svalar þetta forvitni ykkar hjónanna, annars hef ég fleiri grasafræðitengdar upplýsingar í pokahorninu sé þess óskað. ;)