miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Gamaldags?

Ég held það, enda fædd um miðja síðustu öld. Kanasjónvarpið, þvottalaugarnar, strætóar með stórt húdd og fáar steyptar götur í Reykjavík og svo mætti lengi telja. Íslenska sjónvarpið kom þegar ég var unglingur, og fyrsta kvöldið sem sent var út voru götur borgarinnar tómar. Det var i den tid eins og sagt er, en ég stend mig að því að hugsa stundum afturábak og bera saman nútíð og fortíð. Ekki er það alltaf fortíðinni í hag, en samt....... Ég hef áður þeyst hér um á síðu minni um tækniundur nútímans og þarf ég endilega að bæta um betur. --Gamaldags?--- eða hef ég bara ekki náð að fylgjast með? Lái mér hver sem vill, því tæknin er fljótari en heilinn í mér virkar. Hver sá sem kominn er á minn aldur man ekki eftir auglýsingunni: Frá hatti ofaní skó,PLÓ.--- Í dag las ég auglýsingu sem sagði mér að ég ætti að breyta viðhorfi mínu til lísins, sagði mér einnig að með því að kaupa bæri það vott um félagslegan hreyfanleika!! Að endingu stóð: Vertu genuine.--- Það var og.----- Það var verið að auglýsa bíl, af tegundinni Ford.--- Við hjón höfum átt Ford, en ég man ekki til að viðhorf okkar til lífsins hafi breyst á nokkurn hátt við að eiga þannig tegund. Viðhorf mitt til lífsins hefur ekki breyst þrátt fyrir allt auglýsingaskrum heimsins, ég held bara mínu lífi áfram í sátt og samlyndi við (vonandi) Guð og menn.--- Í dag horfði ég á haustið smjúga um garðinn minn. Tugir þrasta voru að róta upp fína kurlinu í birkibeðinu, örugglega að tína alla þá maðka sem þeir geta borið við flug sitt burt frá landinu. Þá kom "soldið" haust í mig, en það er allt í lagi, því í dag var ég glöð. Glöð yfir yndislegum tónleikum sem ég hlustaði á í gærkvöldi, (Sigurður Flosason og Sólrún Bragadóttir)yfir stundaskránni minni sem er að smella saman, yfir litla Nattanum mínum í Ameríku sem er orðinn 8 kíló, og yfir æðstasnúð sem var svo duglegur hjá tannlækninum í gær. Þrátt fyrir allt ELSKA ég nútímatækni, því hún færir mig nær þeim sem ég elska mest. Þakka þeim sem á hlýddu!!

mánudagur, 27. ágúst 2007

Heyr heyr!

Stutt og laggott: Hvað varð um teljarann?

mánudagur, 20. ágúst 2007

haust?

Hvenær eru skilin milli sumars og veturs, og hvenær byrjar haustið? Kannski þegar skólarnir byrja, kannski eftir verslunarmannahelgina eða kannski bara um miðjan september. Ég hallast að því síðastnefnda. Að mínu mati byrja skólarnir of snemma, og lenging skólaársins er ekki fýsilegur kostur, allavega ekki fyrir mörg landsbyggðabörn. Núna er farið að rökkva en börnin á Höfn eru ennþá í fallin spýta og öðrum útileikjum því veðrið er einfaldlega of gott til að fara inn að sofa. Ég er að setja mig í haustkennaragírinn, og hlakka til eftir mánuð, þá er nefnilega haustið komið og allt farið að renna ljúflega. Þá eru allir "ástar,menningar,franskir,danskir,ítalskir og færeyskir dagar yfirstaðnir en kjötsúpuát og sláturtíð tekin við. Það er annað sem fylgir haustinu:, alto hausttískan sem tröllríður í öllum glanstímaritum nútímans. Núna veit ég t.d að Smoky augnförðunin verður áberandi á vetri komanda. Það er gott að vita það, en auðvitað gat ég svosem sagt mér það sjálf .. liggur í augum uppi. Náttúran og gróðurinn breytist eftir árstíðum, allt er svo bjart á sumrin en "smoky" á veturna, því þá er allt svo kalt! Svo á maður líka að nota gott rakakrem sem fyllir upp í hrukkur og aldeilis ómissandi er að nota rakasprey! Þá veit maður það. Konan sem var á undan mér í Leifsstöð fyrir stuttu hefur vitað þetta langt á undan mér, því hennar snyrtivörur kostuðu 35 þúsund krónur, en hún var bara ekkert fallegri en ég!!--- En, til að við konur séum nú réttu megin í tískunni við súpu-berja og sláturgerð á haustdögum skulum við ekki gleyma að eiga "nauðsynlegustu" hluti í buddunni. Sumsé, augnhárabrettara, gott sólarpúður og hyljara. (nb. hvað eigum við að hylja?) Ég býð góða nótt með hausttísku-augnförðun á heilanum.

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Gæðablóð

Ég hef lengi talið mér trú um að ég sé gæðablóð, góð við menn og málleysingja. Í raun hef ég alltaf vitað það með sjálfri mér. Núna er það deginum ljósara en með pínulítið öðrum formerkjum. Moskítóflugur sem sagt elska mig, því ég er svo mikið gæðablóð. Fyrsta kvöld okkar hjóna í sæluríkinu Spáni gleymdi ég öllum varúðarráðstöfum og var því gjörsamlega etin upp að hnjám. Það ætla ég rétt að vona að þessi óværa komi aldrei til Íslands því þá flyt ég á Norðurpólinn. Þrátt fyrir flugnabit áttum við yndislega daga þar sem letigenin voru allsráðandi. Aðalspurningin þegar líða tók á daginn var sú að spá í hvað við vildum borða! Að lalla um undir heitum himni og skoða mannlífið er ljúft. Að sitja úti á svölum og "hlusta" á stjörnurnar í 27 stiga hita er gott fyrir sálina. Þó er best fyrir sálina að koma heim. Eftir hverja utanlandsferð finn ég svo vel hvað við eigum gott land. Við getum endalaust þrasað út af alltof háu verðlagi,vitlausum pólitíkusum, virkjunum, samráðum og álverum, en þegar upp er staðið búum við í hreinu og tæru landi, og leyfum okkur að bruðla með ýmislegt, t.d.vatn. Talandi um vatn, þá finnst mér alltaf fyndið þegar Íslendingar kaupa sér vatn úti í sjoppu, við sem eigum dásamlegt vatn beint úr krananum, og það er barist í heiminum um vatn. -- Það er gott að vera komin heim, og með þeim orðum kveður gæðablóðið bitna!