laugardagur, 17. apríl 2010

Kýrhausinn sendir bros.


Nú gengur mikið á í íslensku þjóðlífi og náttúröflin brjáluð. Ég ætla ekki að tjá mig um hið fyrrnefnda því mér er ofboðið, og mér vöknar ekki einu sinni um augun við að horfa/hlusta á grátandi afsökunarbeiðendur. Ef ég ætti að kjósa á morgun yrði það bara hún Ása frænka. Hún er þó heiðarleg. --- Náttúruöflin eru ofarlega í huga mér þessa dagana og finn ég fyrir ótta. Ég finn virkilega til með bændum og búaliði undir fjöllunum og bið allar góðar vættir að vaka yfir mönnum og búfé. Íslenski bóndinn er útsjónarsamur og harðduglegur. Við eigum öflugt almannavarnarkerfi, frábærar björgunarsveitir og greinilega yfirstjórn sem veit hvað þarf að gera. Ef það virkar ekki eiga þessir aðilar "plan" B, og jafnvel plan C. (Það höfðu bankamennirnir og stjórnvöld ekki, og því fór sem fór.) Þessvegna trúi ég að fólkið undir fjöllunum haldi sjó og komist frá þessum ósköpum. --Síðan síðast hefur ýmislegt gerst hér á bæ. Komst lifandi frá kjálkaskurðlækninum, en með naumyndum þó. (vitlaust skrifað?) Tunguhelvítið leitar sí og æ í plötuna sem er yfir skrúfunni og get ég varla beðið eftir lokasprettinum til fegurri geiflu. Upptakan á geisladisk kvartettsins er yfirstaðin og langur laugardagur Jökuls einnig. Ég fer að verða of gömul fyrir svona spretti. Í næstu viku verða svo vortónleikar Jökuls hér heima og söngferð austur á land. Tónleikar eldri nemenda skólans verða líka í vikunni svo ég ligg ekki í leti frekar en hinir sem taka þátt í þessu. Af skutlumálum er það helst að hún er notuð við hvert tækifæri sem gefst, og rósirnar í sólskálanum brosa við mér á hverjum degi. Lóan er komin og öll tún morandi af gæs. Nú er klukkan 21.18 og það er bjart úti. Ég vildi óska að það verði bjart undir fjöllunum, ekki seinna en núna.--- Hefur örlítið grynnkað í kýrhausnum, þar til næst bið ég ykkur að hugsa fallega til allra undir Eyjafjöllum.

6 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Hæ mamma mín. Ég hugsa fallega heim-eins og alltaf en enn meira núna.
Gott að lesa skrifin þín..þau eru svo mikið þú-ég heyri röddina þína líka :)
Ég elska ykkur...Svanfríður.

Íris Gísladóttir sagði...

Já það er ótrúlegt að svona hamfarir séu svona stutt frá okkur, en hafi engin áhrif hingað. Hræðilegt að sjá þetta allt í fréttunum. Ég segi eins og þú ég vona að allt fari á besta veg og þetta fólk gefist ekki upp.

Lífið í Árborg sagði...

Gott þú slappst vel frá lækninum, hálfnað er verk þá hafið er.Ég sendi góðar óskir og bænir vegna allra sem eiga erfitt sökum ösku og flóða.

baun sagði...

Ég dáist líka að bændum og björgunarliði við þessar hrikalegu aðstæður.

Vona að tennurnar verði til friðs eftir aðgerðina:)

stella sagði...

greinilega alltaf nóg að gera hjá ykkur...

Nóna sagði...

Ég vissi alltaf að það væri nóg að gera á þínum bæ, en mér fallast soldið hendur og finnst ég pínu letiblóð. Þú ert alltaf svo kjarkmikil og drífandi kona, nákvæmlega eins og ég óska mér, hvað get ég sagt meira, þér til hróss kæra vinkona. Svo veit ég af reynslu minni tennur og sál eru sannarlega eitt.