Titillinn hefur alls ekkert að gera með myndina, bara að komi skýrt fram! Myndin atarna er af þeim mönnum sem ég elska mest að öðrum ólöstuðum. Það er þetta með Grýlu, en Eyjólfur minn er ekki alveg að gúddera þetta gerpi. Elskar hana en er alveg dauðhræddur við illfyglið. Natti minn er svoddan garpur ennþá (enda bara baby) að Grýla er ekkert svo skelfileg. Ég á alla sveinkana í styttuformi ásamt foreldrunum og kattarræksninu og hef verið í gegnum stutta ævi Eyjólfs sýnt honum þetta hyski á skybe. Augun hafa alltaf orðið stór og þessi svipur komið, elska ykkur og hata. Þegar við bestimann fórum svo með "dýrðina" til Ameríku gat þessi litli gutti ekki beðið eftir að sjá familíuna. Allspenntur, frómt frá sagt. Hann stóð við hjónarúmið og hélt sér vel í. Þegar Grýla birtist seig hann neðar og neðar þar til hann hvarf og kallaði á mömmu sína. Þetta var dásamlegt andartak. Tek það fram að enginn hefur nokkurn tímann hrætt hann á kellu, en gömlu vísnabókina á hann. Það segir sitt fyrir hugmyndaflugið.---- Þá kemur altso að bestimann og hans Grýlu. --- Í fyrstu ferð okkar vestur sá hann ljósmynd af verkamönnum í kaffipásu við að byggja Rockefeller center hvar þeir sitja á þverslá og hafa það huggulegt. Fyrir neðan blasa skýjakjúfarnir við eins og legókubbar að stærð. Minn maður tók andköf og fékk gæsahúð af lofthryllingi, en vildi óður og uppvægur eignast svona mynd. Ekki gekk það þá og ekki næst eða þarnæst. Hvað kemur svo upp úr pakka frá dóttlunni.... ljósmyndin góða, og minn maður tók andköf þegar hann sá hana. Rétt eins og Eyjólfur þegar Grýla birtist. Nú er þessi hrikalega mynd komin upp á vegg í góðri augsýn fyrir bestimann, og er eins víst að hann venjist henni með tímanum eins og litli snúðurinn lærir að kella venst með aldrinum. --- Litli kettlingurinn minn bæklaði í formi jólatrés stendur sig vel, og þar sem stærsta holan var liggja jólasveinar og könglar í hrúgum. Þar sem mesta gapið er neðanmáls sitja tvær flottar steinstyttur af manni og konu í íslenska búningnum, en þær gerði góður nágranni. Þetta er bara fallegt og vona ég að tréð kunni okkur góðar þakkir fyrir nostrið. Ég sendi mínar bestu óskir um friðsæl áramót og gott komandi ár þar til næst.
miðvikudagur, 29. desember 2010
miðvikudagur, 22. desember 2010
Bráðum koma jólin.
Ekki veit ég hvert tíminn flýgur, en ég ræð svosem engu um hversu hratt hann fer. Það segir mér þó eitt, ég er lifandi og nýt þess að vera til. --Fékk skemmtilegan tölvupóst frá Ástralíu hvar sem fannst mynd af mér, sennilega eins og hálfs árs gamalli. Ég vissi ekki að nokkur hefði haft rænu til að taka mynd af mér á þessum tíma, en vænt þótti mér um að fá hana. Nú þarf ég bara að eignast "orginalinn". Eftir skóla og tónleikahrinu var gott að komast í jólafrí og njóta þess að undirbúa jólin, hef t.d. verið mjög dugleg að lesa, leggja kapal, ráða krossgátur og spila scrabbl. Þess á milli hugsa ég með söknuði til fólksins míns í litla bláa húsinu, og set upp svona einn og einn jólasvein. ---Við bestimann fórum á stúfana og keyptum okkur jólatré, normansþin. Núna sem oftar vildi ég lítið og feitt tré, og keyptum við eitt án þess að skoða það. Ákváðum bara að þetta væri fallegasta tréð hingað til. Jamm, svo var nú ekki með þennan kettling. Tréð er afskaplega misheppnað, eiginlega "doldið" ljótt. Samt sem áður erum við ákveðin í að þetta tré sé verulega fallegt. Allavega styrktum við gott málefni með kaupunum, og jólin koma ekkert endilega með þráðbeinu og ófötluðu tré. --- Umbúðir?--- Ég þekki góða og fallega konu sem hafði tengdamömmu sína, mjög fullorðna á heimilinu. Þá var fiskbúðingur í dós nýnæmi fyrir gömlu konuna, og eini maturinn sem hún vildi hafa á aðfangadagskvöld, því ket gat hún etið alla aðra daga! Þau áttu góð jól.--- Meyr í hjarta sendi ég mínar bestu jólaóskir til allra.---
sunnudagur, 12. desember 2010
Jamm og jæja
fimmtudagur, 2. desember 2010
Misjafnt hefst ég að ------ líka reiðist ég.


Fyrst voru há-klassískir tónleikar með þeim ungverska, og allt ætlaði um koll að keyra rétt sem á rokktónleikum væri, enda maðurinn fantafínn. Kvöldið eftir var gömludansaball með karlakórnum, allt önnur tónlist sem ég hef gaman af líka, en kýs þá klassísku. --- En þá að reiðinni: Horfði í kvöld á fréttir sem komu mér til að gráta. Gráta af meyrheitum, væntumþykju og yfirleitt af öllum tilfinningaskalanum. Ætla "þeir" virkilega að slá út heimahjúkrun langveikra bara? Er ekki allt í lagi með þessa svokölluðu ráðamenn sem ætla svo að eyða allt að 700 milljónum í stjórnlagaþing.( sem verður örugglega hærri upphæð, því "þeir" kunna ekki að gera almennilega áætlanir) Mér verður bumbult og fæ aukaverki í hnén. Ég skal glöð borga meiri skatta ef ég get verið viss um að svona þjónusta leggðist ekki af. Skömm sé þeim öllum barasta sem láta sér detta yfirleitt svona nokkuð í hug. --- Ég er reið, en það þarf yfirleitt mikið til.--- Nú er ég búin að ná mér niður, en ég ætla rétt að vona að "velferðarstjórnin" raði upp á nýtt. --- Á rólegri nótum er ég að upplifa aðventuna og öll ljósin í kringum mig. Jólasveinarnir komnir á sinn stað og sennilega fer Jesú og hans fólk blikkandi upp um næstu helgi. Hugurinn dvelur þó drjúgum hjá dóttlu minni og guttunum tveimur, eins hjá föðurnum sem er í aðstæðum sem ég vildi ekki vera í. Lifið lífinu fallega, og njótið þess að vera til með ykkar fólki, og ekki gleyma smáfuglunum þar til næst. Ps. Músarrindillinn er mættur í sólskálann. Mikið hvað var gott að sjá hann. Örugglega sá sami og dvaldi þar í fyrra.
sunnudagur, 21. nóvember 2010
Mannauður.
Það hefur oft verið erfitt að manna stöður tónlistarkennara á landsbyggðinni, og kemur margt til. Íslendingar fara utan til frekara náms, launin ekkert til að hrópa húrra yfir og allt fyrir ofan Ártúnsbrekku er of langt fyrir einhverja. Í litlum skólum á landsbyggðinni telst til tekna að geta kennt á mörg hljóðfæri, en það er ekki öllum gefið. Samt sem áður er tónlistarlíf víða á landinu með miklum blóma og gerir ekkert nema gott fyrir viðkomandi stað. Þá er að leita til útlanda eins og margir hafa þurft að gera og fengið margan góðan manninn til sín. Djúpivogur er einn þeirra staða sem hafa fengið svolítinn happdrættisvinning. Þar eru hjón sem eru að byrja sitt annað ár, og virðast gjörsamlega falla inn í umhverfið. Við megum heldur aldrei gleyma því að uppúr seinna stríði ( og jafnvel fyrr) komu hingað til lands frábærir tónlistarmenn sem settu svo sannarlega víðari "kúltúr" á tónlistarlífið og urðu góðir og gegnir Íslendingar. Þetta vil ég kalla mannauð í víðasta skilningi. Nú er ég að vinna einsöngstónleika með mínum manni frá Djúpavogi, og verða þeir fyrstu þann 25. nóvember. Marga músíkina hef ég spilað, en enga frá heimalandi söngvarans fyrr en núna, og skil þar af leiðandi ekkert í orðunum! En alheimstungumálið er í raun auðskilið, það er músíkin. Þess utan eru óperuaríur, léttmeti og þrjár íslenskar söngperlur, og er ég undrandi hvað maðurinn gerir þeim góð skil. Hið undur fallega lag "í fjarlægð" fer vel í Ungverjann, að ekki sé talað um Inga T. Það eru margir sem fjandast út í að útlendingar séu að koma hingað, setjast að fyrst í stað á litlum stöðum úti á landi en flytjast svo suður og hertaka allt. Ef "við" getum ekki mannað stöðurnar þá gera það aðrir, svo einfalt er það. --- Allt í friði og spekt hér á Hólabrautinni, píanóstillarinn hamast hér um grundir og móa og skilur eftir sig stillta slóð. ---Þrjár smákökusortir bíða í dunkum eftir aðventunni, búin að lesa fjórar nýútkomnar, jólapakkar farnir út og suður og gleðigjöfunum mínum fjölgar. -- Af þessu má sjá að lífið er gott þar til næst.
sunnudagur, 7. nóvember 2010
Rugl, eða hvað?
Fékk tilkynningu um smápakka frá Ásralíu á dögunum. Í honum var bleik peysa, svona algjör inni/heima peysa, og var hún gjöf frá systur minni. Á tilkynningunni stóð að ég þyrfti að borga tæpar 5.000 kr. fyrir herlegheitin sem ég var ekki par sátt við. Hringdi í þjónustusíma og kvartaði, en var alltaf kurteis. Þar sagði kona mér að samkvæmt kennitölunni ætti ég afmæli í apríl svo ekki væri þetta afmælisgjöf, og of langt til jóla að þetta gæti verið jólagjöf. Þessvegna ætti ég að borga téða upphæð. Mér varð allri lokið, og fannst þetta jaðra við dónskap. Gat ekki sætt mig málalok og hringdi annað. Til að gera langa leiðinlega sögu stutta var gjaldið fellt niður og sú bleika er komin í notkun. Hvaða endemis rugl er þetta? Spyr sá sem ekki veit með kærri þar til næst.
fimmtudagur, 4. nóvember 2010
Dinglumdangl
Nokkuð gott orð, dinglumdangl..þannig líður mér núna! Hugsanirnar og plönin út og suður og gott ef ekki upp og niður. Langar að skreppa og passa barnabörnin, langar að leyfa foreldrum þeirra að labba hönd í hönd upp og niður Hillcrest Rd. Langar á Rigoletto, en allt uppselt, og mig langar að allir hafi það jafngott og ég. Ætli þetta endi ekki bara á að ég baki jólasmákökur í marga stauka. Áður en af því verður ætla ég að hitta ungverskan tenorsöngvara og saman erum við að æfa tónleikaprógram. Vonandi náum við saman í fyrstu umferð. -- Skrýtið þetta líf.--- Þessi Ungverji er hámenntaður tónlistarmaður en hefur það betra á Íslandi heldur en í heimalandinu. Á litlum stað á austfjörðum lifa þau hjón í allsnægtum að eigin mati. Hreint loft, ómengað vatn og fólkið gott, en Íslendingar hinsvegar flykkjast til annarra landa þessa dagana. Kannski vegna þess að við erum svo góðu vön, en þegar lífsstandardinn dalar finnst mörgum að grasið hljóti að vera grænna hinu megin. --- Mér dettur oft í hug beljurnar heima á Gunnlaugsstöðum sem tróðu hausnum gegnum gaddavírsgirðingarnar og teygðu tunguna eins langt og þær gátu í grasið hinumegin. Kannski erum við með belju-hugsunarhátt! Þrátt fyrir annir er ég búin að lesa fyrstu bók væntanlegs bókaflóðs. Á vængjum söngsins, sögu Kristjáns Jóhannssonar. Ekki kom margt þar fram sem ekki hefur áður verið sagt, en sennilega er eitthvað látið ósagt. Hvað sem því líður hefur sá ágæti maður víða komið við. Á þessum dinglumdanglsnótum bið ég ykkur vel að lifa þar til næst.
sunnudagur, 24. október 2010
Góðir hálsar...
Veit aldrei hvað barnið á að heita.... en góðir hálsar, lífið er bara nokkuð gott, en þó hikstaði ég og bölvaði hressilega í morgun þegar ég leit út. Landið leit út eins og á fallegu jólakorti, og það á Hornafirði. ( Skutlan hreyfir sig ekki á meðan) Kötlumótið á Flúðum gekk vel, en það skal enn og aftur fara í "pirrurnar" á mér þegar fjölmiðlar sjá ekkert fréttnæmt við viðburð sem svona kóramót eru, en þeir eru ekki lengi að þefa uppi og segja okkur blá-saklausum frá brjóstskorum og rasslyftingum þeirra "frægu". Ég veit svosem ekki hvar pirran í mér er, en hún kemur ansi oft við sögu. ---Vitið þið hvar pirran er?-- Skyldu t.d. fimleikadömurnar í Gerplu fá rauða dregilinn og veislu við heimkomuna, og ætli einhver muni eftir þeim þegar á að velja íþróttamenn ársins? Nei góðir hálsar, svoleiðis gerist ekki. Ef ég myndi lemja nágranna minn og saga niður trén hans kæmist ég fljótt í fréttirnar, en með þannig fréttamennsku er enn frekar verið að ala á depurð og vanlíðan landans. Já, máttur fjölmiðlanna er mikill, og finnst mér sannast sagna að þeir mættu gegnumgangandi vera á jákvæðari nótum þótt útlitið sé ekki alltaf bjart. Þessi vika sem liðin er fá Kötlumóti hefur verið nokkuð létt, en í komandi viku fer allt í sömu skorður. Mér líkar bara nokkuð vel við skorður þar til næst.
fimmtudagur, 14. október 2010
Alveeeeg að hafast!
Ja, nú hefur verið nóg að gera. Kötlumót um helgina og mikill lærdómur því fylgjandi sem vonandi skilar sér. Mér finnst "doldið" eins og ég sé að verða eins og geirfuglinn þarna um árið. Að vísu ætla ég mér ekki að verða útdauð á næstunni í þessu karlakórastarfi, en það hlýtur að koma að því. ---Af eðlilegum orsökum.--- Fyrsta mótið sem ég fór á var 1978, og hef farið allar götur síðan. Sennilega fer þetta að verða gott, en næsta mót verður eftir fimm ár! Lífið hér á Hólabrautinni hefur semsagt verið nokkuð litað af söngæfingum á kvöldin og lítið annað gerst. Allavega, ég er að fara á Kötlumót, ætla að spila eins vel og ég getá góðum degi, ætla að vera með mínum bestu vinum, ætla að hitta aðra nörda eins og mig og njóta lífsins. So long þar til næst.
mánudagur, 27. september 2010
Dag skal að kveldi lofa
Það eru forréttindi að vakna hress á hverjum morgni, sem segir að maður er lifandi. Ég var alveg lifandi í morgun er hef þó vaknað hressari. Matarboð með kærum vinum og mikilli spilamennsku getur tekið á. Þrjár nikkur í gangi og flygill, ekki veitir af fyrir þá silverboys. Músíkin myndi sennilega ekki hæfa Hörpunni, en dugir vel með góðum vinum. Ákvörðun um Tenerifeferð tekin á milli spilapása, því ekki þýðir að safna endalaust í sjóð og sauma svo vasa á líkklæðin þegar þar að kemur. Silverboys eru fermingarbræður og eiga allir afmæli í febrúar. 60. afmælið þegar fara átti í ferð komu ljótir kallar og settu landið á annan endann, svo við fórum hvergi. Sjóðurinn stækkar og við förum í febrúar. Eftir það verður aftur byrjað að safna fyrir gönguferð um Laugardalinn, því þá verða allir orðnir svo voðalega fúnir fyrir Nepalferð. Bara gaman að þessu. Næsta ár verðum við bestimann því dálítið á faraldsfæti. Tónleikaferð til Kanada og þaðan í lítið blátt hús. Þá verða allir fjölskyldumeðlimir heima og það veit sá sem allt veit að þá skal verða kátt í blárri höll. Það er nefnilega þannig að þar sem hjartarými er nóg er húsrúm fyrir alla. Það er svo ósköp einfalt. Dagurinn í dag átti að vera náttbuxnadagur og lestrarstund án matargerðar, ákveðið fyrir löngu. Neibb, tveir af Ástralíuviðhenginu birtust hér nánast óforvarindis, þannig að náttbuxurnar viku fyrir huggulegri klæðnaði og bókin lá óhreyfð. Borðum dýrindismat annað kvöldið í röð, en slepptum músíkinni. Andfætlingar kunna ekki á svona huggulegheit. Nú býð ég góða nótt með ljúfusum yfir þar til næst
miðvikudagur, 8. september 2010
Látið´ða ekki fara lengra.
Einu sinni gerðist ég þjófur.... en nota bene, ég var bara fimm ára. Í bókabúðinni í Hlíðunum var svo falleg dúkkulísubók ofan á glerborði, og hún freistaði mín. Komst klakklaust með hana heim og sýndi mömmu. Hún varð nú ekki par hrifin sú fróma kona.-- Skrýtið--- eða hvað? Í stuttu máli, við mæðgur löbbuðum í téða búð, ég látin skila dásemdinni og einnig til að biðjast fyrirgefningar. Enginn eftirmáli varð af uppátækinu, en ég gleymi þessu aldrei. --- Í dag komast menn upp með að stela og það drjúgt. Þurfa ekki að skila góssinu, hvað þá að biðjast afsökunnar. ( Mér finnst þó afsökunarbeiðni ekki eins sterkt og að biðjast fyrirgefningar). Mér er eiginlega allri lokið þessa dagana. Það er sama hvar drepið er niður fæti, allsstaðar er spilling og óheiðarleiki. Ég er ekki að tala um hinn venjulega Jón, því hann bara vinnur og reynir að láta allt ganga upp. Það eru HINIR sem ég fjargviðrast yfir án þess að halda lengri ræðu. Einnig virðist allt vera grín nú á dögum. Borgarstjórar Reykjavíkur hafa einatt verið í fréttum dagana langa gegnum tíðina, en nú ber svo við að núverandi stjóri er ekki spurður eins né neins. Kannski er það vegna þess að enginn þolir að hlusta á öll hikorðin, "grínið," hikstann og þetta allskonar sem vellur uppúr honum. Ekki er hann krafinn um mál OR, ekki um.... ok. Hér þagna ég. Í könnunum er Mr. grín vinsæll meðal landsbyggðarfólks.... halló, er landsbyggðin að grínast líka? Sem hluti af dreifbýlinu er mér ekki hlátur í hug. Ekki yfir neinu sem yfir mig er hellt á degi hverjum af fjölmiðlum. Segi mig sennilega frá öllum fréttaflutningi nema þegar hann er jákvæður. Kíki bara fyrir horn og horfi á það sem er jákvætt en loka eyrum og augum fyrir hinu. Ef það er strútsheilkennið, þá líkar mér það vel. --- Fyrir utan þetta raus gengur allt sinn vanagang hér og verkefnin eru næg. Nótnabunki á flyglinum og skólinn fullur af lífi. Einhverra hluta vegna líður mér betur eftir að hafa blásið hér, en enn og aftur, látið þetta alls ekki fara lengra, því þá veit maður ekki hvað gerist þar til næst.
laugardagur, 28. ágúst 2010
Öppdeit!




Heil og sæl þið sem kíkið hérna inn. Eðlilega hefur verið deyfð í blogginu í sumar sem segir manni að allt annað hefur forgang. Hér hefur sumarið liðið allt of fljótt, en það kemur að ári liðnu svo maður á ekki að kvarta. Myndirnar af snúðunum segja sína sögu, þar sem lítil kók í gleri og skutlutúr gerir gæfumuninn. --- Stafafellskirkja í Lóni er alveg yndisleg, að ekki sé talað/skrifað um garðinn umhverfis hana, og útsýnið maður minn, engu líkt. Ég skil ekki hvað við Íslendingar erum alltaf að planta trjám um víðan völl. Við eigum fegurst víðsýni og ósnortið, en skemmum það oft með trjám sem vilja náttúrulega vaxa, og þar af leiðandi byrgja fjallasýn. Þetta er of víða að sjá á Íslandi. --- Eftir að Ameríkufararnir héldu heim drifum við bestimann okkur til Spánar, sleiktum þar sárin og sólina og komum heim með "óeðlilegan" lit en ró í hjarta.
Fjandinn hvað það var erfitt að horfa á eftir gullunum sínum í Leifsstöð. --Nú er lífið þó að komast í sinn eðlilega vetrarfarveg, og er ég barfa nokkuð tilbúin í þann slag. --- Hef stundum skrifað hér á síðunni hve lengi fattarinn í mér er. --- Eftir heimkomu frá Spáni ákváðum við bestimann að örva svolítið íslenska hagkerfið og keyptum okkur sitthvorn "dægindastólinn", með handfangi, skemli og alles.
(Get þó með sanni sagt að ég hef ALDREI sofnað fyrir framan sjónvarpið). --- 23. ágúst áttum við bestimann 35 ára brúðkaupsafmæli, og vorum við bæði með það á hreinu, en fórum dagavillt og steinsváfum í þessum hægindum haldandi að dagurinn væri á morgun! -- Svona fór um sjóferð þá, en við gerðum okkur dagamun daginn eftir án þess að sofna í herlegheitunum. --- Bið ykkur vel að lifa þar til næst.
mánudagur, 19. júlí 2010
Ættarmót og mikið frelsi.


Eyjólfur minn er einn af fimm Eyjólfur og langyngstur þeirra, en græddi á nafninu. Ís og þessháttar frá þeim eldri. Búskapurinn á Hólabrautinni gengur eins og í sögu því þetta eru heiðursmenn aldir upp af góðum foreldrum. Tíminn líður bara svo hratt, og þá verð ég svo meyr. Frjálsræðið er nýtt fyrir snúðana, og ég fann Eyjólf á hjólinu sínu alsælan úti við nýju sundlaugina, fékk hnút í magann, en hann vissi sem var að þetta var heldur langt ferðalag. Mér fannst innst inni hann vara þrælduglegur og varð bara stolt án þess að láta hann finna það. Natti elskar skutlutúra, ég tala nú ekki um þegar hann sér kleinuhringabúðina! (Bakaríið) Ómetanlegir dagar og það er undravert að heyra hvað þeim fleygir fram í málinu. Þetta er alltsaman þarna, og margt skemmtilegt kemur frá þeim. Keyrðum framhjá skreiðarhjöllum á dögunum, og í þeirra augum var þetta risatrampolín! Gæti að hætti ömmunnar blaðrað frá mér allt vit, en segi bara enn og aftur. Lífið er gott þar til næst.
fimmtudagur, 8. júlí 2010
Nú gaman gaman er!

laugardagur, 26. júní 2010
Rignir gulli!

Ég er nánast að fara á límingunni, og finnst mér ég vera eins og lítill krakki að bíða eftir jólunum. Bara að sofa tvisvar! Krossa fingur að dóttlunni minni og litlu gullunum gangi vel á ferðalaginu. --- Annars allt gott að venju hér á Hólabrautinni, og má ég til með að segja frá því að minn kæri einhverfi nemandi fékk 88 stig á grunnprófinu. --- Segi og skrifa.--- Kæru vinir út um allt, nú ætla ég að að njóta þess að vera amma, mamma og "allskonar" þar til næst.
sunnudagur, 20. júní 2010
Í boði hússins.





Hann er búinn að lofa bót og betrun, en uppi skal hann hanga þar til í haust. 7 ungar eru komnir í hreiðri máríerlunnar við kirkjuna í Lóni, og vei þrestinum ef hann stelur svo mikið sem einum eins og hann gerði hér um árið. --- Sprittið dugði vel á þær grænu sem létu sjá sig í rósaskálanum, sennilega hafa þær dáið áfengisdauða greyin. Skrítið, en mér slétt sama. Næst þegar ég skrifa verður gullregnið komið í blóma. Þar til sendi ég ljúfastar yfir.
mánudagur, 14. júní 2010
Fari það og veri!
Eldhúsdagsumræður og HM! --- Hvað gerir maður ef eldhúsmellustimpillinn á ekki við og er ekki með .. veikina, nú eða aðrar stöðvar? Pirrar sig á ósköpunum en heldur út í garðskála og drepur fáeinar grænar pöddur, en samt á umhverfisvænan hátt. (ef spritt telst umhverfisvænt) Pensillinn verður mundaður á morgun og góðir gestir koma í hús. Þá ætla ég að gefa þeim steiktan þorsk með kartöflumús og miklu hvítvíni. Sorrý, tók bara úr frystinum nóg fyrir okkur, þið fáið bara seinna. Þar til næst.
fimmtudagur, 3. júní 2010
Jamm....

þar sem ungir og aldnir stilltu saman strengi. ----Sá mér til armæðu að ég skrifaði síðast 11. maí. Ekki að það snerti landslýð, en ég ætlaði að vera duglegri. Þetta er í raun eins og dagbók í mínum huga hvort sem fólk nennir að lesa hana eður ei. Gerði mér það til dundurs um daginn að fletta til baka, og sjá, það hefur sko margt á daga mína drifið sem mér fannst vera prenthæft. Annað sem ekki hefur verið fært til bókar hefur sem sagt ekki verið prenthæft.--- Eftir annir maímánaðar var hugur í mér. Vaknaði óvenju snemma á morgnana og var til í allt sem setið hafði á hakanum lengi. Eitthvað var ég sein í gang til að byrja með og ráfaði um húsið eins og svefngengill. Viti menn, einn daginn fylgdi líkaminn sálinni, og þá varð ekki stoppað. Nú er rósaskálinn, garðurinn, fataskápurinn, vaskahúsið og dittenogdattinn frá. Nú eru 98 heimalagaðar kjötbollur í frysti, (gerði þær sjálf) og milljón kleinur. (ó nei, góð vinkona í Gleðigjöfum færði mér þær fyrir Ameríkufarana) Fiskibollurnar verða gerðar fljótlega. Af mér nota bene. Inni í skáp eru tvö yndisleg lopavesti á guttana mína, prjónuð af góðri vinkonu, mikilli listakonu. Búið að fá sandkassa, playmo, lego, hjól , og fullt af bílum, og er ég búin að hugsa upp "lesu-skot". 7. júní skal verða pantað fyrir Eyjólf á ævintýranámskeið, en Natti minn er víst of ungur í svoleiðis. Þá "skutlumst" við bara í staðinn, en dóttlan mín verður bara að ákveða sjálf hvað hún vill gera, hef sumsé ekkert ákveðið fyrir hennar hönd! ---Þetta eru góðir dagar, en eins og lesa má get ég varla beðið eftir að fá þá sem ég elska mest í hús. -- Potaði í dag niður 130 sumarblómum í minningarreitinn við kirkjuna, æfði kvartettinn fyrir söng á laugardaginn og fór í langan "göngutúr" á nýja veginum meðfram ströndinni þaðan sem útsýnið er milljón dollara virði. Komið ef þið þorið í bollur og göngutúr þar til næst.
þriðjudagur, 11. maí 2010
Hugleiðingar um strák. Taka tvö.
Fyrir ári síðan skrifaði ég hér inn hugleiðingar og staðreyndir um nemanda sem er voða nálægt hjarta mínu. Nær hjartanu en aðrir nemendur. Kannski ljótt að segja svona, því mér þykir vænt um alla mína nemendur. Nú var altso komið að stóru stundinni í samstarfinu, grunnpróf í píanóleik skyldi tekið með öllu vafstrinu sem því fylgir. Utanaðkomandi prófdómari og lestur af blaði í boði prófanefndar, semsagt, bara staðurinn og stundin. --- Einn sjéns.--- Það get ég sagt í einlægni að hjartsláttur minn og blóðstreymið þar með var dálítið ofarlega á skalanum. Minn maður aktaði prófdómarann, lét sér í raun fátt um finnast um allt þetta vesen svona eftir á séð, lokaði augunum og spilaði eins og maður hefði sjálfur vilja spila við samskonar aðstæður. Hann var blaðalaus með öllu, allt í réttri röð, allt í nákvæmum takti og hann kunni skil á öllum höfundum. Óundirbúinn lestur reyndist "skrítið lag" en hann rúllaði honum upp. Ofan í kaupið heillaði nemandinn prófdómarann með góðri og einlægri framkomu. Getur kennari farið fram á meira? ---Varla. --- Nema hvað að þessi nemandi minn er einhverfur og því ekki á sama róli í mörgu og "við hin". Hverjir "við hin"erum hef ég oft velt fyrir mér, en hef engin svör. Ég á ekki svar við neinu sem mér og mínum kæra nemanda fer á milli í skólastofunni, en eitt veit ég. Ég hefði ekki viljað missa af þessum árum með honum. Hann er ljós, hann er manneskja sem kennir mér, hann er klár, hann er góður og heitir Jóhann Árni. Takk fyrir mig þar til næst.
laugardagur, 17. apríl 2010
Kýrhausinn sendir bros.

Nú gengur mikið á í íslensku þjóðlífi og náttúröflin brjáluð. Ég ætla ekki að tjá mig um hið fyrrnefnda því mér er ofboðið, og mér vöknar ekki einu sinni um augun við að horfa/hlusta á grátandi afsökunarbeiðendur. Ef ég ætti að kjósa á morgun yrði það bara hún Ása frænka. Hún er þó heiðarleg. --- Náttúruöflin eru ofarlega í huga mér þessa dagana og finn ég fyrir ótta. Ég finn virkilega til með bændum og búaliði undir fjöllunum og bið allar góðar vættir að vaka yfir mönnum og búfé. Íslenski bóndinn er útsjónarsamur og harðduglegur. Við eigum öflugt almannavarnarkerfi, frábærar björgunarsveitir og greinilega yfirstjórn sem veit hvað þarf að gera. Ef það virkar ekki eiga þessir aðilar "plan" B, og jafnvel plan C. (Það höfðu bankamennirnir og stjórnvöld ekki, og því fór sem fór.) Þessvegna trúi ég að fólkið undir fjöllunum haldi sjó og komist frá þessum ósköpum. --Síðan síðast hefur ýmislegt gerst hér á bæ. Komst lifandi frá kjálkaskurðlækninum, en með naumyndum þó. (vitlaust skrifað?) Tunguhelvítið leitar sí og æ í plötuna sem er yfir skrúfunni og get ég varla beðið eftir lokasprettinum til fegurri geiflu. Upptakan á geisladisk kvartettsins er yfirstaðin og langur laugardagur Jökuls einnig. Ég fer að verða of gömul fyrir svona spretti. Í næstu viku verða svo vortónleikar Jökuls hér heima og söngferð austur á land. Tónleikar eldri nemenda skólans verða líka í vikunni svo ég ligg ekki í leti frekar en hinir sem taka þátt í þessu. Af skutlumálum er það helst að hún er notuð við hvert tækifæri sem gefst, og rósirnar í sólskálanum brosa við mér á hverjum degi. Lóan er komin og öll tún morandi af gæs. Nú er klukkan 21.18 og það er bjart úti. Ég vildi óska að það verði bjart undir fjöllunum, ekki seinna en núna.--- Hefur örlítið grynnkað í kýrhausnum, þar til næst bið ég ykkur að hugsa fallega til allra undir Eyjafjöllum.
mánudagur, 5. apríl 2010
Líkindi?

föstudagur, 2. apríl 2010
af ungum og gungum.

sunnudagur, 28. mars 2010
Lífíð
Já, það er bara gott takk fyrir og páskafrí frá og með morgundeginum. Það er oft tönnlast á því að kennarar fái svo mikil og góð frí, en mér telst til að ég fái nú umfram margar aðrar stéttir fjögurra daga frí frá kennslu. Hitt eru helgidagar sem eru jú lögbundnir rauðir. Hvað með það og allt hitt sem gengur á. --- Á meðan ég svaf hófst gos syðra svo Icesafe varð undir, og einhverjir röltu á strigaskóm til að berja gosdýrðina augum. ---Þá vaknaði ég.---Harðir viturbloggarar heimta þjóðaratkvæðagreiðslu um sjávarútveginn, og gott ef ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Jamm, ég varð hugsi. Ekki ætla ég, sem ein af þjóðinni að nýta mér sjávarútveginn og græða á honum. Það eru fyrirtæki um allt land sem gera út á slíkt, halda sínum byggðarlögum gangandi og veita fjölda manns vinnu. Þar get ég ekki séð að ég geti gert eitthvað betur. Hvað varðar kirkjuna og það dæmi hef ég ekki vit til að greina hvað gott sé eða slæmt. Veit bara að fólk verður að una við sitt, það er svo auðvelt að þykjast vita og kunna allt. Ég t.d. veit voða fátt ef út í það er farið, en ég veit að dagurinn í dag var góður og vona að næstu dagar verði það líka.-- Ætla "nebblega" að njóta þess sem ég hef og ergja mig ekki á því sem ég ræð ekki yfir þar til næst.
sunnudagur, 21. mars 2010
Ég býð þér upp í dans!


miðvikudagur, 17. mars 2010
Fært til bókar!
Tjaldurinn er kominn í fjöruna, deginum fyrr en á síðasta ári! Þá er vorið handan hornsins, því sá fugl veit alveg hvenær best er að flykkjast til landsins. ( Að vísu dvelja hér einhverjir kjánar allt árið, en láta ekki sjá sig) --- Kominn skikkur á allt pappírsflóðið og gömludansaballið á föstudaginn. --- Langur æfingadagur hjá kvartettinum á laugardag, verðum síðan við opnun ljósmyndasýningar og etum svo saman súpu um kvöldið. Jebb. Hafið það huggulegt þar til næst.
sunnudagur, 7. mars 2010
Prjónles og blues.

fimmtudagur, 25. febrúar 2010
Fréttir dagsins..... eru....
Svosem ósköp litlar hjá mér samanborið við "aðal" fréttirnar. Er satt að segja að uppgefast á þeim eins og Guðrún frá Lundi tók svo skemmtilega til orða. Mínar fréttir eru þó allavega heilbrigðar. (hinar tel ég helsjúkar) Síðasti pistill hefði þessvegna mátt standa óhreyfður fram eftir ári og alltaf verið ferskur! -- Undirbúningur vorsins, vinnulega séð er í fullum gangi, tónleikar, próf og kórastarf. Allt tekur þetta sinn tíma og hann líður hratt. Þegar litið er í baksýnisspegilinn skilur maður ekkert í hvert tíminn flaug, og vildi ég óska að rúmlega næsta ár verði fljótt að líða bæði í áframgír og bakkgír. Asnalega til orða tekið, en ég get ekki lýst þessu betur. Jæja, nú er Bleik brugðið hvað varðar vígin, það síðasta er fallið! Hún dóttla mín er farin að stunda sprikl eins og hinir!. Ég virði alla þá sem nenna að stunda þetta pungsveittir daginn út og inn, og ætla ekki, segi og skrifa að gera lítið úr hoppinu. Ef grannt er lesið er þetta sagt með dassi af öfund, því ég arkaði á fjöll i den tid og dansaði gömlu dansana af þrótti, en íþróttir voru aldrei í myndinni. Hvað þá að líkamsræktarstöðvar væru til. --En aftur að dóttlunni. Í barnaskóla var alltaf gaman hjá henni nema þegar leikfimin var annarsvegar, þá kom mín heim örlítið stúrin. En viti menn, einn daginn kom hún syngjandi sæl heim. Hafði komist upp í rimil tvö, og allir glaðir með það, en hinar krakkaskammirnar höfðu þá hlaupið upp og niður rimlana í sirka tvo ár! Sprikl hefur alltaf verið fallegt "joke"milli okkar mæðgna, en nú tek ég hattinn minn ofan fyrir henni (geri það þó alltaf) á meðan hún endist, og endist hún sem lengst. ---Músarindillinn er horfinn úr sólskálanum og búið að klippa rósirnar. Nú bíð ég eftir að geta snuddað þar með hækkandi sól, og eitt er víst að hann verður í blóma þega litla fjölskyldan mín kemur í ömmu- og afa hús. Megi tíminn líða sem hraðast þar til næst.
miðvikudagur, 10. febrúar 2010
sagan endalausa
Nú hef ég fundið upp heljarins mikið ráð, og fæ ykkur með í bisnissinn. Auðvita bara þá sem hafa áhuga. Ég ætla nefnilega að taka lán út á andlitið á mér, altso á langveginn, því ég er öll uppí móti. (eða níðrí móti). Lánið verður sirka svona stórt/langt..... Svo lána ég þér bloggvinur góði sirka helminginn af því og þú borgar mér með engu veði, en lánar aftur á móti ömmu þinni hlut af þínu og maki þinn afa sínum. Þar er kominn slatti af millum. Til að gera enn betur taka töntur og aðrir sem lítið hafa að segja innan familíunnar veð í lánum afa ykkar og selja það til fjarskyldra móðurafa. Gott ef þeir eru ekki þrír, en þegar þarna er komið sögu hljóta allir að hafa grætt töluvert og geta hætt að fjárfesta í andlitinu mínu. Ekki er það svo, því familían, vinir og þeir sem leigja kjallarann vilja sinn skerf af kökunni þannig að þá þarf ég að taka lán út á bestimann! Þar segi ég stopp. Ég hef nefnilega smá standard, en það hafa ekki spekingarnir sem ég horfi of oft á þessa dagana. "Meikar þessi pistill sens" ? Svari mér hver sem best hann getur þar til næst.
laugardagur, 6. febrúar 2010
Þefur af vorinu?
Jamm, fór í skutltúr í dag og sá fólk klippa í görðum sínum. Fór á markaðinn og keypti hrogn og lifur, og ég át yfir mig. (tilheyrir) Krakkar voru í boltaleik á götum úti en aðrir fóru í sund. Nú er bara að bíða eftir að rauðmaginn skili sér frá Djúpavogi og/eða Vopnafirði. Músarindillinn er ennþá að kroppa í sólskálanum, en það er sennilega orðið fátt um fína drætti þar. Þykir súrt að klippa frá honum rósirnar, látum það bíða enn um stund. Á svona dögum er engu líkara en að vorið sé handan hornsins þótt enn sé þorri. Ætli ég segi ekki bara eins og kerlingin: þetta hlýtur að koma í bakið á okkur, sennilega vísar þetta á gos! Suðursveitungar blóta þorra í kvöld, og eins gera burtfluttir Hornfirðingar í Reykjavík. Vonandi skemmtir fólk sér vel og fallega, en þar til næst ætla ég að fara út á pall (kem inn aftur)og þefa meira af vorinu.
laugardagur, 30. janúar 2010
af húfum og "opplivelsi"

laugardagur, 23. janúar 2010
þegar kötturinn sefur....
Lífið á mínum bæ akkúrat núna er rafmagnað. Bestimann og píanóstillarinn sitja æpandi í stofunni, og það er ekki allt guðsorð sem upp úr þeim rennur. Tveir vel fullorðnir menn, og ég er hrædd við hjartaáfall með áframhaldandi látum. Hvað er svona merkilegt við handboltaleik? Staðreyndin er sú að ég hef alls ekki taugar í svona æsing, en mér finnst boltastrákarnir flottir yfir rass og læri! Þar með er það upptalið. Svarið mér ef einhver hefur orðið nennu til að kíkja hér inn. Af hverju eru körfuboltamenn í svona hallærislegum hnébuxum? Ég hef aldrei haft tækifæri á að skoða á þeim fyrrgreinda líkamsparta! Annars er allt í góðu, var á þorrablóti í gærkvöldi þar sem ég graðgaði í mig hákarli og súrmeti og hélt ásamt öðrum uppi fjörinu. Í þessum skrifuðu orðum heyri ég mikil óp úr stofunni, fer og tékka á stöðunni þar til næst.
mánudagur, 18. janúar 2010
Æfing

sunnudagur, 10. janúar 2010
Rólegheit

Jólasveinarnir farnir í Ketillaugarfjallið og glotta yfir fjörðinn. Þessir sem eru á myndinni lölluðu sér hinsvegar bara út í skúr, en áður en ég lít við verða þeir komnir í hús aftur, og svei mér ef ég bæti þá ekki í hauginn. Við þessi ræfilsgrey var hún dóttir mín svo hrædd í eina tíð að ég setti enga upp til skrauts. Eftir að daman yfirvann óttann kaupi ég fátt skemmtilegra fyrir jólin en jólasvein, og það skemmtilega er að hún elskar þá í dag! ----Kennslan hafin og kórastarfið byrjar á morgun og þá er rútínan eins og hún á að vera, en alltaf kemur þó eitthvað upp sem riðlar þessu venjubundna. Hvað varðar fréttir þessa dagana eru þær ekki þess fallnar að ég sitji við og gleypi allt hrátt. Er búin að reyna það, en þá kemur einhver spekingur og raskar öllum mínum ákvörðunum. Þar sem leiðslan í mér er mjög löng á sumum sviðum er ég hætt að reyna að botna í öllu veraldarvafstrinu og einbeiti mér þeim mun betur að reyna að skilja knock knock brandarana hjá litla Natta mínum. Sannast sagna gengur það ekki nógu vel, þrátt fyrir að Eyjólfur komi mér til hjálpar, en ég er betri í að syngja með honum (Eyjólfi) skvetta falla hossa og hrista. Þar er ég á heimavelli. ---Eiga ömmur að vera góða í bröndurum, og verða ömmur að geta prjónað og saumað? Í þessu er ég voða léleg.--- Nú er nýtt ár gengið í garð og ætla ég að einbeita mér að því að láta það verða gott. Litla fjölskyldan í bláa húsinu tekur að sér erfitt verkefni og ég ætla alltaf að vera til taks á hliðarlínunni ásamt því að hugsa vel um mæðginin í ömmuhúsi í sumar, en minn góði tengdasonur verður að láta sér nægja allar mínar bænir. Á þessum rólegheita nótum sendi ég kærastar yfir þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)