Fyrir mörgum árum fór ég á ball. Gerði töluvert af því að syngja á gömlu dönsunum í þá tíð, en átti fríkvöld og skrapp heldur önug með kunningjakonu á dansleik á miðvikudagskvöldi. Enga þekkti ég á ballinu, enda ekki gömlu dansarnir, en kunningjakonan settist við borð hjá einhverjum sem hún þekkti og gleymdi mér gjörsamlega. Mér var kurteislega boðið sæti við sama borð af ungum fallegum manni sem bauð mér svo í dans. Hann bauð mér líka appelsín!--- Þið munið að miðvikudagskvöldin voru þurr i den tid.--- Það var gaman að dansa við unga manninn, og svo var hann líka mjög skemmtilegur. Þetta var í októberlok. Í byrjun janúar kvöddumst við, ég var að fara í stóra hnéaðgerð en hann á vertíð, en vorum ákveðin í að hittast eftir vertíðina. Í lok janúar hringdi móðir hans og bauð mér, bláókunnri stúlkunni að koma á sitt heimili meðan ég væri að jafna mig eftir aðgerðina. Ég átti þó mitt heimili og yndislega foreldra. Með leyfi lækna, en án vitundar unga mannsins fór ég því í sjúkrakörfu á vit ástarinnar, og borin frá borði í körfu, með gipsi upp og niður. Þvílík sjón hefur þetta verið. Á Hornafjörð var sumsé tengdadóttirin mætt og hefur örugglega ekki öllum þótt hún burðug. Nú eru 35 ár liðin, ég er enn á Hornafirði og er ennþá gift unga fallega manninum. "Það er eins og gerst hafi í gær". Á þessum árum höfum við haft að láni tvö yndisleg börn, annað horfir til okkar af himnum en hitt býr í Ameríku. Í dag eru 3 ár liðin síðan Ameríkufarinn flaug á vit sinnar ástar með lítinn ömmu og afastrák í poka á maganum, lítinn strák sem ég horfði á koma í heiminn. Það er líka eins og það hafi gerst í gær. Nú hefur annar strákur bæst við, svo árangur ballferðarinnar forðum hefur verið gulls ígildi. Þegar við horfðum á eftir hnátunni með snúðinn í pokanum færast með rúllustiganum í Leifsstöð á vit lífsins var mér allri lokið. Það bráði þó af mér með tímanum....Hún var allavega ekki í sjúkrakörfu! (svartur þessi!) Þegar Svanfríður og Bert giftu sig með pompi og prakt hérna á Höfn dansaði fallegi ungi maðurinn dóttur sína í fangið á öðrum góðum og fallegum manni undir laginu "það er eins og gerst hafi í gær". Ég vona að þau dansi þennan dans reglulega í litla bláa húsinu næstu 35 árin eða svo. Vemmileg? Ég ? ónei...Góðar kveðjur til allra. |
miðvikudagur, 30. janúar 2008
Þar er eins og gerst hafi í gær.
miðvikudagur, 23. janúar 2008
Vort vikulegt mas...
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp fjölmiðlafréttir vikunnar, en þó var þetta sterkt endatafl hjá skákmeistaranum látna. Ég er svo sjálfhverf að telja að mínar fréttir séu miklu skemmtilegri, og þess vegna er ég sest. Hér er allt í ró og spekt fyrir utan stöku gól frá bóndanum. Það er merkilegt hvað annars rólegir menn geta spennst upp við að horfa á boltaleiki. Skyldi þetta hafa eitthvað með forna eða horfna veiðikarlmennsku að gera? Er alveg úti á þekju í svona málum. Nú er vika liðin frá síðustu skrifum og margt hefur verið gert. Spilaði td.við fallega útför í Breiðdal sl. föstudag og sveitin skartaði sínu fegursta í öllu vetrarríkinu. Þrátt fyrir glærahálku á vegunum stóð ég mig bara nokkuð vel, og var félögum mínum ekki til mikilla leiðinda að ég held. Þeir vita sem satt er að ég er skræfa í vetrarfærð. --Lít upp til atvinnubílstjóra---.Hjónaherbergið steinliggur líka eftir þessa viku,er voða flott, nýmálað og fínt parkett á gólfi. Gangaparkettið verður svo lagt milli mjalta og messu! Kórastarfið á öllum vígstöðvum er í fullum gangi, og píanó "masterclass" hjá okkur á mánudaginn. Hlakka til að fá Peter Máté. ---Samkvæmt fyrri áætlunum værum við hjónin á leið til Ameríku eftir viku, en nú erum við mæðgur búnar að sannfæra okkur um að Mars kemur bráðum. Hann kemur nefnilega bráðum, og eiginlega fyrr en við höldum! Svanfríður er þeim eiginleikum gædd að búa yfir ótrúlega miklum hæfileika aðlögunnar og breytinga, hefur sennilega þurft að læra það snemma. (hnátan telur yfirleitt í mig kjarkinn) Ég tel mig svosem hafa þessa hæfileika líka, en eftir því sem árin líða finnst mér ég ekki EIGA að bíða, sjá...ég er komin á þann aldur. Nú vil ég allt STRAX, eða þannig. Sumir kalla þetta unglingaveiki, ef svo er, er ég bara stoltur unglingur að nálgast sextugt! Á mínum unglingsárum var ég nefnilega voða pen og prúð, og fór td. aldrei í Glaumbæ eða Klúbbinn. Svo brann Glaumbær, og það eina sem ég kann um hann er lagið með Dúmbó og Steina, "Glaumbær brann og fólkið fann sér annan samastað". Hins vegar fann ég mér minn samastað, og hann er á Hornafirði. Hér líður mér vel, og með þeirri líðan sendi ég góðar kveðjur í bloggheima. |
miðvikudagur, 16. janúar 2008
Gaga, ga ga eða Gag(g)a!
Djúpur titill þar. Fyrir margt löngu fannst litlum fjölskyldumeðlimi algjörlega ómissandi að horfa á gaga. Þetta voru semsagt sjónvarpsauglýsinGA! Hljóp til og kallaði ga ga til að magna upp spennuna hjá sér. Þar hitti "Bingil Fannal Leynison" naglann á höfuðið án þess að kunna orðið almennilega, því auglýsingar í sjónvarpinu eru oft á tíðum alveg gaga. Þetta er annars ekki svo galið orð, mér finnst t.d. veðrið núna alveg gaga, var að verða gaga á að vera heima með veikt hné (fór til vinnu í gær) og ljótar fréttir sem ríða görðum og grindum eru algjört gaga. --Þá dettur mér hún Gagga Lund í hug, gamli söngkennarinn minn, en það var sko ekkert sameiginlegt með henni og orðinu. Þótt maður beri nafnið hennar fram með mjúku g hljóði. Dásemdarkona og skemmtileg. Í þessu gaga veðri í dag sá ég skondna sýn en fallega. Vel dúðuð kona dró snjóþotu með voffann sinn á þotunni, sá kunni að njóta sín en leit svolítið gaga út. Af þessu má sjá að "Bingil glillali" hefur sáð fínu orði og hugsa ég t.d. alltaf til hans þegar ég sé sjónvarpsauglýsingar. Nú er hann hins vegar orðinn stór, kann að segja rr, og hefur örugglega ekkert gaman að gaga lengur.---- Því miður verður ekkert af Ameríkuferð okkar hjóna í litla bláa húsið núna eins og til stóð, og er það miður.. Mikið miður... Útrætt og útgrátið að hætti hússins, en ég vil samt fá smá samúð! Gengur bara betur næst, en nú líður ekki svo langur tími þar til íbúar bláa hússins koma til okkar, og þá verður kátt í höllinni skal ég segja ykkur.--- Þegar undirleikarinn minn hjá Gleðigjöfum veifaði dagbókinni sinni og bað um tímasetningar fram á vorið féllust mér hendur yfir hvað tíminn líður hratt. Það er nánast allt bókað í tónlistinni fram á sumar, fyrir utan allt skólastarfið. Hvert flýgur tíminn?, og minn elskulegi kvað uppúr með það í dag að nú færi að líða að því að klippa rósirnar í sólskálanum...Ég hlýt að hafa misst eitthvað úr tímatalinu....Hvað um það, lífið er gott en svolítið gaga. Með þeim orðum segi ég búinn og heilagur. |
mánudagur, 7. janúar 2008
Nú árið er liðið....
Gleðilegt ár þið öll þarna úti, og takk fyrir samskiptin á liðnu ári. Á nýju ári er gjarnan litið yfir farinn veg og er ég bara nokkuð ánægð með hann, en nýja árið mitt ætlar að byrja brösulega. Búin að fljúga suður til borgarinnar í brjáluðu veðri, reyna tvisvar lendingu á Hornafirði í bakaleið, en frá að snúa. Ljóti rúnturinn þar. Það er sem ég segi og skrifa: vetrarferðir eru ekki fyrir mig, hvorki akandi eða fljúgandi. Fékk óþrifa verk í mitt annað hné, og hef ekki verið göngufær á þessu ári, en eftir sprautumeðferð og fljúgandi hræðslu ætti þetta að fara að koma. Ligg semsagt og les...sem er kannski ekki svo slæmt út af fyrir sig. Bíbí er frá, Frjáls, Útkallið og Hnífur Abrahams, en Arnaldur er í vinnslu og eftir hann er ég að hugsa um Guðna! Vonandi hef ég þó ekki nægan tíma í bráð til að lesa allt sem mig langar til, því mig langar í vinnuna, og hana nú! ---Langar að deila með ykkur einni hrakfarasögu af sjálfri mér---- Fyrir margt löngu bjó ég í London. Eftir 6 vikna dvöl fór ég með "underground" og ætlaði niður í borg, en ég bjó í úthverfi. Hafði aldrei í lest komið, var bara vön Hlíðarvagninum í Reykjavík. Ég fór í mína jómfrúarferð á mesta annatíma, og var lestin troðfull af fólki og hvergi hægt að halda sér í. Mér fannst leiðinlegt að grípa alltaf í fólk mér til stuðnings þegar lestin var að stoppa eða taka af stað. Ósjálfrátt, eins og í Hlíðarvagninum forðum daga rétti ég upp handlegginn og fann handfang. Mikið var ég fegin! Ég varð mjög ánægð með að þurfa nú ekki stuðning af samferðarfólkinu, sérstaklega eftir að ég fann handfangið góða. Smám saman stoppaði lestin með miklum rykkjum, en ég hélt fast!!! Þarf kannski ekki að klára söguna, þetta var neyðarhemillinn og "undergroundið" stoppaði. Allt endaði þó þokkalega en lögreglan bað húsbændur mína að hleypa mér ekki aleinni út í heiminn án þess að kenna mér á hann! Nú hef ég hins vegar lært aðeins á heiminn og á eftir að læra miklu meira, en þetta atvik varð til þess að ég er afar næm á umhverfi mitt og tek litla áhættu. Tók þó þá áhættu að blogga og hefur ekki orðið meint af, en ætla samt ekki að gerast áhættuleikari í íslenskum vetrarferðum. Læt hér staðar numið og sendi hlýjar kveðjur á alla bæi. |
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)