miðvikudagur, 26. mars 2008

Ættarsilfur og gersemar.

Þegar ég var unglingur fékk ég í arf eftir góða konu, heljarinnar matarstell, kaffistell, súkkulaði- og mokkastell. Með öllu þessu "góssi" er mikið af fylgihlutum, og er allt þetta mjög gamalt og fallegt. Einnig fékk ég silfurborðbúnað frá þessari góðu konu. Í þeim pakka er allt frá hatti ofan í skó, og á heimilinu gengur þetta undir nafninu ættarsilfrið. Vitanlega þykir mér vænt um ættarsilfrið og tel mig eiga gersemar. En það fellur á þessar gersemar, og stellin eru notuð við hátíðleg tækifæri.( Ég myndi t.d. aldrei sanka að mér svona hlutum, og borga offjár fyrir) Núna veit ég aftur á móti vel hvernig ættarsilfur og gersemar virka, og virka vel. Það er í formi tveggja lítilla stráka sem hafa stolið hjartanu mínu. Ættarsilfur nr.1 er dóttirin sem fæddi þá af sér, og hún hefur ekki slegið slöku við. Eyjólfur talar íslensku, að vísu enskublandna, en honum fleygir fram með degi hverjum. Mig need vettlinga... I need fara í rennibraut...en kann allt faðirvorið uppá íslensku. Eyjólfur er mikill karakter, sérstaklega þegar hann er í grænu froskastígvélunum! Ég var á æfingu í gærkvöldi fyrir útför, og hann sat á orgelbekknum hjá mér, prúður, með opna bók og stjórnaði! Gerði það nokkuð þokkalega. Syngur fallega og kann að hoppa á annarri! Leggur á borð, gerir það rétt og er yfirsmakkari á sósum. Í þykjustuleikjum er Eyjólfur flottur. Natti minn patti er óskrifað blað ennþá. Meðan hann fær gott í gogginn og þurra bleiu er hann alsæll. Rólegur og alveg ofboðslega fallegur með nýju Navy klippinguna, sex tennur og flott slef. Sko,--- ég held að Eyjólfur eigi eftir að láta að sér kveða á listasviðinu, en Nathaniel verður sagnfræðingur og bókaormur. Kannski hef ég svo mikið rangt fyrir mér, "but so be it". ( svona talsmáti er bannaður á Hólabrautinni nú um stundir!) Nú er klukkan orðin margt, strákarnir steinsofa, bóndinn líka en ættarsilfrið nr.1 horfið á DVD. Semsagt rólegheit. Væmin amma? Ónei, en ég elska fólkið mitt óendanlega og vona að allar góðar vættir veri með þeim. Ég hef sagt áður að ég öfundast ekki út í neinn , en verð að viðurkenna að það er ekki satt! Ég get ekki haldið á Natta mínum nema í sitjandi stöðu. Eyjólfur skilur fótafúann og kyssir á bágtið, en sá stutti nýtur góðs af afa fangi. Á göngu sinni raula þeir saman, annar er djúpur bassi en hinn kvakar yndislega, og saman mynda þeir fallegt tónverk. ----Bert, if you read this blog.... don´t forget we love you and miss you a lot. Your boys are beautiful,( let alone your wife) so keep up the good job. You two are doing great. ---Þar til næst.

þriðjudagur, 18. mars 2008

Nú gaman gaman er..

Gefi lán og yndi hvert ógengið spor, gæfusömum vini hug og þor.--- Þetta er meint í fleirtölu. ---Nú eru tveir litlir strákar steinsofandi í ömmubæ, fallegir og góðir, og mér líður svo sannarlega vel. Þar til næst.

mánudagur, 17. mars 2008

Eirðarleysi...

Það er að hrjá mig eirðarleysið, og það verulega. Var að tala við dótturina sem bíður í Boston eftir flugi heim. Ferðin frá Chicago gekk vel, en núna er komin þreyta í þá bræður. Vonandi sofa þeir í næsta flugi. Bóndinn fór suður í dag og var ansi búralegur með tvo barnastóla í bílnum. Ég get ekki keyrt bíl eiginmannsins svo daginn átti að nota í annað en ferðast á milli staða. Í hvað fór svo dagurinn? Mestmegnis í vafr um húsið og festi ég ekki hugann við neitt, en þóttist þó gera sitt lífið af hverju. Var á kóræfingu í rúma tvo tíma í kvöld en fannst ég spila með báðar hendur fyrir aftan bak. Hvar endar þetta? Jú, ég veit.....þetta endar annaðkvöld, þegar fólkið mitt hefur skilað sér í hús. Núna er ég að bíða eftir sms frá Svanfríði þar sem hún segir mér að nú sé flugferðin heim að hefjast, eftir það ætla ég að fara með allar bænirnar mínar og vita hvort Óli lokbrá heimsæki mig ekki. Í þeim skrifuðu orðum býð ég öllum góða nótt. --- Ps. Getur maður verið með gæsahúð í mallanum af spenningi? Þar til næst.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Með birtu og yl. Taka tvö.

Nú eru farfuglarnir farnir að koma til landsins. Tjaldurinn er kominn í fjöruna fyrir framan Tónskólann sem segir mér að vorið er á næsta leiti. Þessi "bévítans" vetur er að verða búinn og ég sakna veðurfarsins ekki baun. Mér þykir leiðinlegt að vera föst í mínum eigin bíl í innkeyrslunni vegna snjóa, og bóndinn fastur annars staðar. Þrátt fyrir 4 fætur komst ég hvorki lönd né strönd, en gott er að eiga góða granna. Nei, veturinn er ekki minn tími! Þennan óveðursdag fékk ég laaangþráð gleraugu til að hafa á nefinu, og mikið hvað ég var búin að hlakka til. Að þurfa að nota tvenn gleraugu hefur lengi farið í mínar fínustu, og virðist ég aldrei vera með þau réttu þegar á þarf að halda. Vel var vandað, Music tact heitir dýrðin. Í votta viðurvist setti ég svo brillurnar á nefið, og sjá...ég sá ekkert! Fékk kókflöskubotnagler, margfalt sterkara en ég þarf. Mér féllust hendur en þar með byrjaði pirringurinn á óveðursdeginum, og gat því illa höndlað veruna í innkeyrslunni. Lái mér hver sem vill. ---Annars hefur tíminn liðið ljúft, og er mikið að gera í tónlistinni. Herbergi Ameríkufaranna eru tilbúin, ég bara bíð...og bíð og bíð. Bækurnar frá Hildigunni ( fyrir Eyjólf) eru komnar í hillu, bílarnir, púslið og allt hitt er tilbúið í gullakassanum. Natti á líka gullakassa, bara svo það sé á hreinu. Nú er ég sko virkilega farin að telja niður, 6 dagar! ---Þar sem fermingar eru framundan verð ég að láta eina góða fjúka. Þegar Svanfríður fermdist var bara ein athöfn, á Skírdag. Þar sem sá dagur var ansi nærri tónleikadögum varð að hugsa vel í tíma, en fyrst var hún spurð hvort hún vildi fermast. Já, hún vildi það. Þá kom að því að ákveða hvað daman vildi hafa í veislunni, mat eða kaffi. Nei....hvorugt vildi hún. Þá kom spurnarsvipur á okkur foreldrana..Svanfríður vildi brauð, og við það sat. Hún fékk því hlaðin borð af brauði! Þegar hnátan sýndi engin merki um fataáhuga tók ég af skarið, því ekki gat hún fermst í íþróttarbuxum. Fín föt fékk hún, en það vildi svo "óheppilega" til nokkru síðar að þau týndust! Ja, það er vandlifað í henni veröld, en núna elskar hnátan kjóla og rauða skó. Með þessum orðum kveð ég og hlakka óendanlega til farfuglanna minna úr vestri. Þar til næst.

þriðjudagur, 11. mars 2008

Nú fór illa!

Ég vil fá komment! Er búin að sitja sveitt við skriftir, og fannst pistillinn góður. Búmm, allt farið og ég ÞOLI ekki tölvudót. Reyni aftur annaðkvöld undir titlinun Birtu og yl í bæinn. KOMMENT! Frúin frekar fúl kveður.

miðvikudagur, 5. mars 2008

Og ég tek þátt í því..

Bara að láta vita af mér, annað er ekki sæmandi fyrir bloggfrúna. Ég fer minn daglega rúnt um bloggheima og ætlast til nýrra skrifa nokkuð reglulega, en er svo með dratthalahátt sjálf. Lífshlaupið er núna og allir hvattir til að taka þátt í því. Ég hélt að mitt lífshlaup hefði staðið undanfarna hálfa öld og nokkrum árum betur. En fyrst allir eiga að vera með skorast ég ekki undan. Núna er ég til dæmis að eyða orku við að skrifa, það tekur á putta og hugsun. Alla daga príla ég upp margar tröppur í tónlistarskólanum, og niður aftur. Ég eyði sirka 8 klukkutímum á viku með kórum, og þarf að læra mikinn undirleik. Það hlýtur að teljast með í hlaupinu, og í öllu vetrarríkinu eyði ég svo töluverðri orku í að passa mig á að detta ekki á leið minni í bíl og úr. Ég hef aldrei farið í líkamsrækt, eða stundað fjallgöngur og skíði, og aldrei eytt orku í megrunarkúra, þannig að ég á svolítið inni. Ég ætla þó að láta mitt daglega líf duga í átakinu, en hvet náttúrulega alla dyggilega sem skunda á fjöll eða skokka upp í vindinn. Lífshlaup og lífskapphlaup er kannski náskylt, hver veit. --Nú er ég sko farin að telja niður í Ameríkufarana, nákvæmlega 13 dagar! Þrettán dagar í að geta tekið utanum þá, og draumar mínir snúast um þá. Þegar ég var stelpa beið ég eftir að verða stór og beið eftir hinu og þessu, svo óx ég uppúr því að ég hélt. Núna er ég aftur farin að bíða og biðin er jafn óþreyjumikil og hún var í bernsku. En ég kann líka að láta mig hlakka til, því hef ég aldrei gleymt. Ég hlakka til 18.mars, ég hlakka til vorsins, ég hlakka til að fara á Spán í sumar, og ég hlakka til áframhaldandi lífshlaups. Þess vegna tek ég þátt í því. Að endingu þakka ég kommentin frá ykkur og hlakka til að fá fleiri! Þar til næst......