laugardagur, 29. nóvember 2008

Stígvél og fleira gott!

Þrátt fyrir góðan ásetning líður of langur tími til skrifa, en nú skrifta ég. Fyrir nokkrum vikum kom hér góð vinkona í heimsókn í þessum líka flottu gúmmístígvélum, eldrauðum með svörtum hulsum, reimum og alles. Ég bókstaflega slefaði yfir túttunum háu og einfaldlega varð að eignast eins! Vinkonan reddaði kaupunum og mikil varð ég glöð þegar sendingin kom. Hins vegar er ég alltaf að bíða eftir veðri og færð til að nota dýrðina, varla get ég plampað á þeim rauðu í sól og blíðu. Ég bara máta þau reglulega og dáist að þeim. Síðasta sunnudag fór ég með kvartettinn minn í söng á Breiðdalsvík, hávetur og örugglega not fyrir tútturnar. Nei, ónei, dandalablíða, og alls engin túttufærð. Ég, sem þoli ekki vonda færð er farin að bíða eftir slyddu og snjó! ---Ég hef ákveðið að aflétta leyndóinu úr síðasta pistli, og láta allt í loftið.---Er nánast búin að baka, jólapakkinn til Ameríku farinn, skeifan fer eftir helgi til Ástralíu og ég er búin að læra þá músík sem fyrir liggur. Íslensku jólasveinarnir komnir í glerskápinn, folaldið (dautt náttúrulega) skorið og hakkað, (síðurnar af dýrinu fékk krummi) og síðast en ekki síst, Jesú og fjölskylda með diskóljósunum er komin á nótnaskápinn, og fallegi jólabangsinn gægist undan flyglinum. Mikil herlegheit! --Nú er tíminn sem ég sakna, altso aðventan. Ég aflétti leyndóinu og viðurkenni hér með að ég sakna litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu, og það verulega. Nú hefst tími stóra kökksins, en honum kyngi ég ekki fyrr en á jólanótt. Þá er einhvernveginn sá tími liðinn, og ég get farið að hlakka til að fara í bláa húsið. Tíminn líður nefnilega svo hratt segir Pollýanna mér reglulega. Kæru vinir þarna úti, látið ykkur líða vel þar til næst.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Algjört leyndó!

Það sem ég skrifa hér vil ég ekki segja nokkrum lifandi manni, því alþjóð veit er tveir vita. Það er alls ekki mér að kenna þótt einhver verði fúll vegna þagmælsku minnar, og hið rétta mun aldrei koma í ljós ef ég fæ einhverju ráðið. Ég ætla td. ekki að upplýsa hvar dóttir mín, þá ung að árum týndi fermingarfötunum sínum, ekki segja hvernig gekk á kvartettsæfingu í kvöld, ekki hvað ég set í jólapakkann til Ameríku og alls ekki hvernig mér leið í síðustu viku. Þetta er sko mitt mál, en ég veit þetta allt saman, og miklu meira. Ég kjafta semsagt ekki frá því ég held nefnilega trúnaðinn við mig, en hinir sem ekkert vita geta bara átt sig. ---Þessi inngangur er í takt við talsmáta ráðamanna þjóðarinnar. Yfirklór þeirra er afar sorglegt en bráðfyndið ef maður lítur þannig á málið. Ég hélt í barnaskap mínum að sandkassaleikurinn tilheyrði leikskólabörnum, en þarf greinilega að endurskoða þá trú mína á fyrirbærið. ---Hvað um það, hér er allt í góðu, (en látið ekki nokkurn mann vita af því ) og veðrið leikur við hvurn sinn fingur. Um helgina á ég frí að ég best veit, og ætla þá að baka smákökur, eta þær á síðkvöldum og drekka kalda mjólk með. Gjörssovel! ---Þeir segja að jólin byrji í IKEA, en ÉG veit að það er tómt bull, ef ekki bara eintómt samsæri. Ég fór í Húsó í dag til að "finna" þefinn af jólunum því búðin er full af jóla jóla. Ekki fann ég jólin, en sveif þess í stað á verslunarstjórann og bað hann um að gefa mér gamla, notaða og ryðgaða skeifu með fjöður í. (maðurinn er nefnilega hestamaður í húð og hár) Þarna datt ég niður á eina yndislega og þjóðlega jólagjöf, fer hún alla leið til Ástralíu og á að færa væntanlegum eiganda gæfu og gleði. (ekki segja frá ). Bráðum set ég svo upp hina helgu fjölskyldu með diskóljósunum. Þeir lesendur sem muna dramatíkina í kringum þau kaup "halda munn". Munið svo að þessi pistill er algjört leyndó þar til næst.

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Ja nú er (s)-tuð.

Takk fyrir innlitið síðast, mér þótti vænt um það. Mér finnst að fólk ætti að vera duglegra að kvitta fyrir kaffið, og þá sérstaklega þeir sem segjast vera svokallaðir laumulesarar. Það er víst nóg um laumuspil í okkar annars ágæta landi! Eins og flestir, ef ekki allir er ég fyrir löngu orðin gáttuð og þreytt á fréttaflutningi/leysi dagsins, og hef tekið þann pól í hæðina að trúa engum í stöðunni. Ætla því að taka þessu með æðruleysi og sjá til, en finnst það fúlt. Reiði sem slík er ekki í mér, en mér ofbýður sukkið og óheiðarleikinn sem dúkkar upp á hverjum degi. Fréttamiðlar verða að gæta að því hvað þeir láta í loftið þó svo að þeirra skylda sé að upplýsa okkur, en það er allt á neikvæðum nótum. Ég veit að málin eru grafalvarleg, en það er bara fullt af fólki í þjóðfélaginu sem blátrúir öllu og þolir ekki svona neikvæðni daginn út og inn, og það dugir ekki að segja þeim að hætta að hlusta, þetta smýgur allsstaðar. Í síðustu viku fór ég nokkrum sinnum inn á heimasíðu okkar Hornfirðinga, hornafjordur.is og þar voru eingöngu góðar og spennandi fréttir. Ekki rötuðu þær í ísl. fréttamiðla. Hér er uppgangur, bæjarfélagið stendur vel, næg atvinna og mannlíf gott. Þórbergssetur fékk merka viðurkenningu á dögunum, Matís líka, Nýheimar/þekkingarsetrið fékk flotta viðurkenningu+ Hótel Höfn. 7.bekkingar í grunnskólanum urðu Íslandsmeistarar annað árið í röð í Lego, og Sinfó kom í heimsókn. Í fyrra héldum við UMFÍ landsmót og landsmót ísl. kvennakóra, en hvorugt komst í fréttir nema í pínulitlu framhjáhlaupi. Það nefnilega var enginn drepinn! Eins var það á UMFÍ landsmóti í Þorlákshöfn í sumar sem leið. Ég er þess fullviss að góðar fréttir eru víðar en hér, en ekkert fréttist af því sem gott er og vel gert. Vissulega get ég tuðað vel og lengi um þetta, en læt staðar numið. Í Fréttablaðinu í dag var haft eftir Pétri H. Blöndal eitthvað gáfulegt, og hann titlaður þingmaður Samfylkingar...Missti ég af einhverju af því að mér leiðast fréttirnar? Hafið það gott elskurnar og afsakið (s)tuðið þar til næst.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Söngurinn göfgar og glæðir... og græðir.

Þegar ákveðið var að fara í söngferð og hitta annan karlakór á miðri leið komu á mig vöflur. Tónleikar og gisting á hóteli með húllumhæi fannst mér eitthvað svo út úr mynd þessa dagana. Hvað um það, ég er undirleikari og hef því ósköp lítið að gera með skipulag. Ferðin var farin, og það rann upp fyrir mér mikið ljós í þessari ferð. Ekki það að ljósið hafi ekki verið til staðar, en núna varð það afar sterkt. 60 söngmenn voru samankomnir ásamt sínum konum. Tónleikarnir glimrandi, og alltaf er gaman að fylgjast með hvað aðrir kórar hafa fram að færa. Hótel Laki/Efri Vík við Klaustur var samastaður okkar allra, og þar var ekki í kot vísað. ---Hvernig fara menn að því að reka svona glæsilega, fagmannlega en heimilislega aðstöðu í alla staði svo fjarri "stórborgarmenningunni"? Þeir voru sko ekki í vandræðum með það í Efri Vík.--- Takk, takk, ef einhver ykkar rekst hérna inn.---Glæsilegt hlaðborð og kórarnir skiptust á skemmtiatriðum, og í lok borðhalds komu vertarnir fram og sungu fimmundarsöng.--- Ótrúlegir.--- Ekki heyrði ég minnst á kreppu eða svartsýni í selskapnum, en það skal enginn segja mér að allur þessi fjöldi fólks hafi ekki fengið smörþefinn af frk. kreppu á einhvern hátt. Það getur varla verið að allur hópurinn hafi mikil fjárráð, góða heilsu, haldi sinni vinnu og sé yfir sig hamingjusamt. Þetta kvöld var sungið "nonstop" frá klukkan 10 og fram úr, og það var ekkert gefið eftir. Hvorki í textum né radd "gæðum"! Fjórir gítarar, tvær nikkur, píanó, hristur, skeiðar og jakalele sáu um að söngurinn yrði sem vænlegastur. Sumir kórmenn nestuðu sig til að eiga bita fyrir svefninn, en staðarvoffinn sá sér leik á borði þar sem menn settu kræsingarnar út fyrir svaladyrnar! "Guð blessi hann" sögðu þeir sem höfðu tapað flestum flatkökunum. Allir fóru heim glaðir og kátir eftir vel heppnaðan söng, bæði þann sem var "alvöru" og þeim sem var svona í gleðskap. Kæru bloggvinir, allir ættu að syngja, ef ekki í kór , þá bara í sturtunni, því söngurinn göfgar og glæðir, guðlegan neista í sál. Vittu til eins og maðurinn sagði: Það syngur enginn vondur maður. Þar til næst.