fimmtudagur, 22. desember 2011

Og aftur hækkar sól.

Ojæja, ekki er myndin eins falleg og blessað bragðið, og er komin á þá skoðun að það eigi að alfriða rjúpuna. (Leyfa sósuna, en banna fuglinn!) Í foreldrahúsum var ég vön hamborgarhrygg og fannst ekki vera jóla án hans. Eftir að við bestimann héldum okkar jól var úr vöndu að ráða, því bestimann var rjúpumann í gegn! Mér aftur á móti fannst þessi matur lítt kræsilegur, en hvað gerir ekki ástfangin kona? Úr varð samkomulag: Hamborgarhryggur önnur jólin og hin jólin rjúpa. Ok, en samkomulagið fólst í að byrja á rjúpunum! Og rjúpa hefur það verið síðan heillin, og allir glaðir. Núna finnst mér eins og fuglinn eigi að fá að vera í friði, við eigum nóg af öðrum mat.... græðgistuðrurnar sem við erum! Munið þið hér um árið? Kengúra, og hvað veit ég, gott ef ekki kjöt af krókódíl. ---Hér á bæ er allt í góðum gír, og ég hef verið í fullri vinnu við að jafna mig á hremmingum ársins. Gengur það bara þokkalega, en aukaverkanirnar verða sennilega seint út af dagskránni. Hef þó vel funkerað og tekið þátt í jóla jóla. Það eina sem hrjáir mig er söknuður eftir litlu fjölskyldunni minni. Svona er þetta bara og ekkert til að væla yfir í raun, því öllum líður vel og er það fyrir mestu. Eitt er víst að með vorinu þá mun sjást undir iljarnar á okkur bestimann hvar sem við fljúgum vestur.--- Þangað til verður undrið skybe að duga. Ég minnist oft mömmu minnar þegar systir mín bjó úti í Danmörku með litla ömmustelpu. Þá var ekkert nema handskrifuð bréf og símtal þegar mikið lá við. Mamma fór þá í sína fyrstu utanlandsreisu og dvaldi hjá systur minni og fjölsk. í mánuð. Þegar við pabbi tókum loks á móti henni var hún lygalaust með ruggustól undir hendinni. Sko, mamma var innan við 1.60 en stóllinn ansi gerðarlegur. Pabbi fór í flækju en tollararnir brostu. Ég veit alls ekki hvernig hún fór að þessu. (Smá útúrdúr) Í dag setjum við spjaldtölvuna í vasann og leggjum í´ann. --- Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðsældar þar til næst.

þriðjudagur, 6. desember 2011

Úr snjó og hjartaryl.
Hér er snjór, en hér er friður. Hún elskuleg dóttla mín varð að fá sumt staðfest, svo þessar myndir af foreldrunum eru sérstaklega ætlaðar henni. -- Vessogú hjartans mín! --Annars staðfesta myndirnar líka annarsvegar að ég er að baka tertu + að ég hef marglitt og skrítið hár, og bestimann hnoðast sem best hann má. Bara gaman að þessu. Dagarnir eru rólegir hjá mér, en samt tek ég þátt í lífinu. Ætla að vera með á jólatónleikunum með mínu fólki, og stefni á að fara í kennslu eftir áramótin. Heilsan kemur eins og ljósið, langt og mjótt, finn mikinn mun frá fyrri viku. Að vísu er ég tilfinningarlítil í tánum og með náladofa í öllum puttum, hef samt tilfinningu í blá-fingurgómunum. Ég get spilað, en úthaldið frekar snubbótt. Allt frekar skrítið, en lífið er samt dásamlegt og nokkuð auðvelt fyrir utan meyrnina sem fylgir mér og mínum á þessum tíma, svona ljúfsár tilfinning ef þið skiljið mig. ---Úti er snjór sem fýkur þvers og kruss en innandyra er allt hlýtt og bjart. Flestir jólasveinarnir eru komnir á sinn stað og líka Jesú og familí. Yndislegi jólabangsinn er kominn á flygilinn og brosir kampakátur út í lífið eins og ég þar til næst.