þriðjudagur, 25. október 2011

"sprell alife"!

Ég vil þakka öllum sem drukku með mér kaffisopann á dögunum fyrir síðast, og finnst að svona hittingur eigi að verða aftur. ----Er að hvíla mig á sjúkrahótelinu þessa vikuna og dveljum við bestimann í íbúð úti í bæ. Geislar og allt sem þessu fylgir er mín fulla vinna, en í aukavinnu fórum við hjónin á frumsýningu Töfraflautunnar og sáum svo Listaverkið í Þjóðleikhúsinu. Ég ætla ekki að fara grundikt í þessar sýningar, en mikið lifandis skelfing var þetta skemmtileg helgi. Fleira er á döfinni sem er skemmtilegt, sennilega svo skemmtilegt að ég gleymi kláða og bruna á geislasvæðinu. Nú er farið að styttast í annan endann og það veit himnafaðirinn og öll sú fjölskylda að þá verður kátt í kotinu, sko mínu altso!............Held svei mér þá að ég kaupi mér eitthvað fallegt og haldi svo veislu þar til næst. Ps. Ég er að fá fyndið hár!

miðvikudagur, 12. október 2011

og áfram seiglast ég.

Er ekki munur?, en hárið er mjög torkennilegt svo ekki sé meira sagt, þar er marglitt! - Ég þakka ykkur öllum góðar kveðjur, mér þykir vænt um þær. Tíminn líður frekar hægt, en seiglast þó áfram. Þótt ég finni ekkert til í geislunum bregst líkaminn við þeim, og þeim skilaboðum verð ég að hlýða með hvíld og að næra sálina. Það gerði ég t.d. í dag. Fór á hádegistónleika í Fríkirkjunni og voru þeir mikil sálarnæring. Yndislegt að geta farið alltaf á hádegistónleika á miðvikudögum. Þrátt fyrir að notfæra mér ekki Ljósið er margt sem ég geri til að stytta dagana. Fyrir svona landsbyggðardömu eins og mig fara allar þessar vegalengdir fyrir brjóstið á mér, og skortur á bílastæðum víða. Lenti í veseni í gær við Lansann, fékk sekt þrátt fyrir að vera með P merkið. Stöðumælavörðurinn baðst afsökunar en gat ekkert gert. Ég átti að andmæla......mikið djö.....hvað mig langaði að andmæla öllu mögulegu. Endaði í Vonarstræti hvar sem gengið var frá andmælunum! Asnalegt í meira lagi, en svona uppákomur stytta t.d.dagana!. Nú, svo skrapp ég heim um síðustu helgi og var það yndislegt. Bestimann fékk nöldrið sitt heim og allir glaðir. Hann verður svo með mér í viku bráðum. ----- Núna á laugardaginn ætla ég að fara í Kringluna um kl. 3 og fá mér kaffi á kaffibarnum fyrir framan Byggt og Búið. Má bjóða einhverjum með?-----Farið varlega elskurnar þar til næst.