Takk fyrir góðar kveðjur, og brúðkaupsdagurinn var frábær, bæði hjá okkur besta helmingnum sem og hjá brúðhjónunum sem stálu senunni. Þau voru svo falleg. Mikil veisla haldin um kvöldið með öllu tilheyrandi, en þá veiktist ég. Jamm, í byrjun skólaárs. Náði þó að henda hækjunum og stíga rólegan dans við minn mann svona í tilefni áranna 33. ---- Kvef og bronkítis eiga aldrei rétt á sér og alls ekki á þessum tíma árs. Læknir og lyf hjálpuðu, og komst ég í skólann í dag, og vonandi stenst stundataflan þegar ég prufukeyri hana á mánudaginn. Mig langar oft að vera galdrakerling þegar kemur að púsla saman stundatöflu, segja bara HVISS, og allt klárt í fyrstu tilraun.--- 23 nemendur í einkatímum, skólinn einsetinn og ALLIR þurfa að komast að á sama tíma! Þá kemur að því, altso forgangsröð þeirra sem stjórna okkur pupulnum. Ég hef verið nokkuð límd við skjáinn síðustu daga og hef oft ekki haldið vatni við þá iðju. Það er bruðlað í öllum hornum þjóðfélagsins, og sukkið er yfirgengilegt. Sumir eru með 60 millur í mánaðarlaun, menn veiða lax í massavís, fljúga um á einkaþotum til að geta keypt sér eina með öllu í einhverri vegasjoppu, og upptalningin er sko ekki búin. En ég læt staðar numið.--- Ljósmæður flýja stéttina, erfitt er að manna í heilbrigðisgeiranum, útigangsfólk er látið lönd og leið, fötluðum úthýst og alltof margir eru látnir lifa undir fátækramörkum. Mér verður illt. Hvar eru þessir menn sem vilja stjórna öllu, hvað eru þeir að gera? Þegar stórt er spurt verðu oft fátt um svör. Svörin á ég því miður ekki, en ráðamennirnir svokölluðu verða að vakna upp af sínum Þyrnirósarsvefni. Mitt í öllu skjáglápinu var þó glæta, ég horfði á Sound of music, örugglega í skipti nr. 203! Lygalaust, ég kann hana utanbókar, bæði lög og texta, en verð alltaf jafn meyr í hjartanu og spennt í maganum við áhorfið. Ég hlýt að vera með einhver heilkenni! Hvað um það, þá er Tónflóð mynd sem hreyfir við mér á svo margan hátt, og svo elska ég Disney myndir! Þar hafið þið það. Reyndi eftir áeggjan Ameríkufarans í eina tíð að horfa á Júragarðinn, en þegar ég var búin að sitja dágóða stund með lokuð augun, og var farin að kíkja blind fyrir vegghornið þá gafst ég upp. Síðan þá held ég mig við Tónaflóð og Disney. Er mér ekki fyrirgefið? Þar til næst. |
fimmtudagur, 28. ágúst 2008
Mér er fyrirgefið
þriðjudagur, 19. ágúst 2008
Halló þið öll.
Takk fyrir kommentin, það er gaman að þessu öllu. Þó ekki þættinum sem var á RUV í gærkvöldi um fimleikaþjálfun ungra barna í Kína. Mér varð hreinlega flökurt. Heyrði svo viðtal við kínveskan þjálfara í kastljósi kvöldsins, og er himinn og haf milli þessara landa hvað þjálfun varðar. Ég var samt glöð að heyra að honum fannst íslenski veruleikinn betri.--- Ég varð líka mjög glöð með hvert lottóvinningur laugardagsins fór, þótt ég sjái litla glætu í því að einn maður skuli fá alla þessa peningaupphæð. Vonandi verður þeim vel af og fái að vera í friði með sitt fé. ---Ég er líka glöð yfir vel unnu dagsverki hérna á Hólabrautinni, og er líka glöð yfir að vera í góðu formi til að hefja kennslu eftir næstu helgi.---Það er sem sagt margt sem ég get glaðst yfir.--- Á laugardaginn kemur ætla ég að spila við brúðkaup og hef mér til fulltingis ágæta söngmenn.--- Þá er 23. ágúst. ---Þann dag höfum við besti helmingurinn alltaf haldið uppá, og gert okkur dagamun því þá giftum við okkur. Mér finnst núna við hæfi að gefa brúðhjónum dagsins alla mína gleði, og get eingöngu vonað að þau nái að minnsta 33 árum eins og við "bestimann". En það er ekki gefið eins og allir vita, og við hjónin höfum verið heppin. Fyrir það fyrsta að finna hvort annað, og að hafa getað hlúð að þessu "fyrirtæki" sem hjónaband er án þess að verða fyrir "gjaldþroti". Kannski asnaleg lýsing á hjónabandinu, en dugir mér vel. ---Verð að láta eina flakka sem er mjög fyndin í minningunni. Pabbi minn elskulegur leiddi mig inn kirkjugólfið á sínum tíma. "Lingemand" var MJÖG nákvæmur maður og við vorum búin að æfa þennan gæsagang vel heima í stofu. Pabbi átti að leiða mig inn í takt við brúðarmarsinn, og hann söng ég á æfingunum. Þegar til kastanna kom skreið fluga eftir nótum organistans, eða að hann verið svo imponeraður af athöfninni að allt spilið fór einhvernveginn í vaskinn. Pabbi lét það ekki á sig fá heldur stikaði inn kirkjugólfið með mig í eftirdragi,var stundum í takt, en stundum hreinlega stopp. Hann gerði nefnilega allt rétt og það sem fyrir hann var lagt. ---Þegar Svanfríður og Bert giftu sig þá spilaði ég alla tónlistina í athöfninni. (að vísu með smá hjálp frá herra Eyjólfi sem söng stórum) Mér var mikið í mun að spila nú vel og rétt svo sagan endurtæki sig ekki. Það tókst og feðginin birtust svo fallega að ég fæ alltaf ´"kött" í kokið við tilhugsunina. Þetta er nú orðið gott kæru bloggvinir af góðum gömlum minningum, en þær eiga samt alltaf rétt á sér. Látið ykkur líða vel, og mig langar til Ammmerííku! Þar til næst. |
mánudagur, 11. ágúst 2008
Fréttir af flækingi...taka tvö
Jæja gott fólk, þetta var langt bloggstopp, því ég var svo upptekin í að vera með faraldsfætur á flækingi. Settist niður áðan og skrifaði að ósk dóttlu minnar langan pistil, en hann fór fjandans til! Veit ekki hvernig gengur núna og krossa fingur. Fyrir allt þetta brölt mitt vil ég fá mikið af kommentum, og hana nú. Áður en við besti helmingurinn fórum til Spánar eyddum við dásemdardegi í að keyra um Reykjanesskagann, og mikið lifandi hvað hann er fallegur. Í mollunni sem tók á móti okkur syðra hugsaði ég fallega um skagann, og í raun um að ég tel að við búum í besta landi veraldar. Nú er ég ekki að deila á þá sem kjósa að búa annarsstaðar, af og frá, er bara að slengja á ykkur mínum heimóttarhætti. ---Ég tel mig vera frjálslynda konu og nokkuð siglda eins og sagt var í gamla daga, en nú var bleik brugðið í ferðinni syðra. Í sundlauginni busluðu tvær mæður með börn í sundfötum, en þær voru huldar svörtu frá toppi til táar. Eiginmennirnir höfðu það svo huggulegt á bakkanum í flottum NIKE stuttbuxum. "Ja, mikill er máttur þinn drottinn hugsaði ég." Við hinar fáklæddari höfum sennilega litið út eins og bjánar. Spánn, eins og venjulega tók vel á móti okkur og við nutum í botn allra gæða sem við gátum. Eyddum degi með spönskum vinum, það er svo dýrmætt að fá að upplifa það sem ekki liggur á lausu fyrir marga. Þegar við lentum í Keflavík var hitastigið þar ekki mikið lægra en syðra, og lá við að farþegarnir æjuðu. Tveimur dögum eyddum við svo með góðum vinum í Borgarfirði, ferðuðumst og pottuðumst í íslenskri náttúru. Við heimkomu fengum við góða gesti og þefuðum að rósunum, og brakandi þerrir gerði allt svo auðvelt. Svo var lagt aftur af stað, og nú í brúðkaup. Athöfnin fór fram í garði hjónanna og var yndisleg. Ég vil endilega endurtaka brúðkaupið með besta helmingnum, því þetta er svo fallegt! Á Spáni gerði ég það sem allar pæjur gera, ég keypti RAUÐA skó og tösku í stíl! Nú er ég hæf í hvað sem er, og auðvitað skartaði ég þessum fínheitum í brullaupinu. Um næstu helgi langar okkur til að eyða meiri olíu.... eftir það sláum við á puttana, heftum hægri fótinn, og etum fjallagrös og bláber fram yfir sláturtíð. Munið eftir kvittinu því ég hafði töluvert fyrir þessu. Þar til næst. |
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)