laugardagur, 27. október 2007

Dóttir mín, hnátan.

Fallegt fyrir mína hönd var síðasta blogg hnátunnar Svanfríðar. Á dögunum þegar við mæðgur vorum að tala saman á "skypinu" þá var "Eyjóju" að skottast í kringum mömmu sína með sífelldum spurningum, og hann krafðist líka svara. Þetta var yndislegt, því mér fannst eins og ég væri í litla bláa húsinu. Allt í einu galaði Eyjólfur: Ég er búinn mamma!! Þá sprakk ég, og ég mundi svo margt. ---Fyrir 28 árum var ég að spila sem oftar við giftingu og hafði hnátuna með mér í kirkjuna. N.B. Daman var svo meðfærileg og kirkjulega prúð, strax á unga aldri. Dundaði sér við að lita, sama á hvað gekk. Rétt áður en brúðhjónin áttu að ganga inn kirkjugólfið heyrðist á klósettinu undir kirkjuloftinu: MAMMA, búin...o.s.fr.! --- Þökk sé guði fyrir að allir þekktu alla.--- Einu sinni við messu sat sú stutta í kirkjunni í fangi góðs manns og skoðaði bók, vel þegjandi. Þá þurfti presturinn endilega að kynna organistann, og sú stutta þekkti hann sko mjög vel... "það er mamma mín!-- og hátt og snjallt.--- Ég er eins og aðrar mömmur.. búin að tína orma úr vösum hnátunnar, (Heiðarvatn) tína gullsteina og demanta úr vösunum,búin að kaupa ótal sigti eftir síðustu sílaveiðar, bjarga hömrum úr bílskúrnum, reyna að klæða dömuna eftir MÍNUM smekk, og rífast við hana á unglingsárunum að kaupa sér FÖT... Það gekk ekki andskotalaust... henni fannst miklu betra að eyða fatapeningunum í nótur og geisladsiska! Hnátan Svanfríður elskar í dag að sulla með sínum strákum og kaupa á þá föt... og stígvél.. hún er trú sér og sínum. Eyjólfur elskar stígvél, og þau nýju eru græn með froskaaugum.! Skora á þig dóttir góð að sýna þau á blogginu. Eplið fellur nefnilega sjald.. og allt það! Hnátan mín ,dóttirin ameríkufarinn , er semsagt að upplifa allt það sem ég á í farteskinu... yndislegar minningar.--- Ég segi nú bara "tattuduva"....

miðvikudagur, 24. október 2007

Blómlegt


Á vorin, áður en héraðsmótin eru haldin hefst vinnan í þessum yndislega skála. Hann er nokkuð stór og er blómahafið mikið. Í febrúarlok eru rósirnar klipptar nánast niður og skálinn þveginn í hólf og gólf uppúr grænsápu með mikilli natni, og málað það sem þarf. Rósarstilkana þvæ ég líka, róta upp í moldinni og gef áburð. Svo er bara að bíða. Meðan við bíðum er allt sem í skálanum er þvegið uppúr grænsápu, hvert eitt og einasta snitti, smásteinar sem annað. Teppinu rúllað út og húsgögnin sett inn, og enn bíðum við. N.B. rás eitt verður að vera á! Einn góðan veðurdag gerist svo undrið...út úr lágu stilkunum gægjast lítil blöð sem stækka ótrúlega hratt. Bóndinn setur ævinlega prik við Friðarrósina í byrjun maí, áður en við förum í söngferð með karlakórnum.-- (alltaf á svipuðum tíma)-- Frá föstudegi fram á sunnudagskvöld hefur rósin oftast stækkað sirka 7-9 sentimetra. Þótt úti sé köld norðanátt en sól er mjög hlýtt í skálanum og því kjöraðstæður. Þegar skóla lýkur á vorin og allir tónleikar búnir fer ég í mína árlegu blómaferð í Hveragerði. Þar kaupi ég öll pottablómin og næringarríka gróðurmold. Í þessari ferð er ég ein á ferð og vind ofan af mér eftir veturinn. --Versla í gróðrarstöðinni Borg, og hef gert í 12 ár. --Þegar heim er komið pota ég þessu niður, og þá er sko sumarið komið í allri sinni dýrð. Kringum 10. júní springur svo fyrsta rósin út, Friðarrósin. Eftir það er enginn hörgull á rósum hér á bæ vel fram á haustið.--Að drekka morgunkaffið í skálanum er gott, að leggja sig í hádeginu er líka gott, að hafa gesti í skálanum er enn betra, en að sitja að kvöldi til og horfa á undrið er hápunkturinn. Þegar Svanfríður dóttir okkar og Bert giftu sig voru öll blómin við þá athöfn úr skálanum, svo sem brúðarvöndur, rósir í hnappagöt og rósir til veisluskreytinga.-- Þegar rósirnar eru búnar og fella blöðin sýð ég þau gjarnan í potti á eldavélinni og vökva svo rósabeðið með afrakstrinum. Ilmurinn er ótrúlegur! Til að forðast lús strái ég neftóbaki yfir moldina og í gluggakisturnar, en drep þar af leiðandi margt annað kvikt, þ.e. járnsmiði og flugur, en hungangsflugan er sterkari en neftóbakið. Hún gerir nefnilega sitt gagn í svona umhverfi. -- Í októberbyrjun leggst deyfð yfir skálann og þá er bara gengið frá fyrir veturinn, og við hefjumst handa við að bíða....og bíða.. og bíða. --Tíminn líður svo hratt að febrúar verður kominn fyrr en varir og allt hefst á ný.--Hringrás-- Ég þarf að segja ykkur frá Gleðigjöfum--- Það bíður betri tíma, en núna kveður blómakonan frá Hornafirði.

miðvikudagur, 17. október 2007

Þarf ég að lemja mann?

Skrítinn titill, en ekki út í hött. Maður getur nú blásið yfir ýmsu, og hér kemur romsan. Fréttamennskan í fjölmiðlum landsins er stundum (eða oft) ótrúleg. Af hverju þarf alltaf að draga fram það sem er neikvætt? Ef það er ekki neikvætt skal það samt borið á borð fyrir landslýð sem neikvæð frétt.(Á við um öll byggð ból á Íslandi) Hornafjörður er ekki stór bær á landsvísu, en hér er margt í boði og margt mjög jákvætt. Atvinnulíf gott, mannlíf einnig og menningin blómstrar. Þeir sem hér búa vita það, og hví skyldi ekki restin af landsbyggðinni fá fréttir af því líka? Nei, fréttamennska fjölmiðla nær ekki svo langt. S.l. verzlunarmannahelgi var haldið hér landsmót ungra íþróttamanna sem fór fram í yndislegu veðri, og allt gekk mjög vel... Ónei, litlar sem engar fréttir voru fluttar af mótinu í fjölmiðlum, en tekið fram að á Siglufirði gisti enginn fangageymslur! Gott... Eitt og eitt fíkniefnamál komu þó upp hér og hvar á eynni, en duglegi og prúði ungdómurinn á landsmóti var vart talinn til frétta. Árið 1995 hélt karlakórinn Jökull á Hornafirði Kötlumót. (samband sunnlenskra karlakóra) Þar voru samankomnir nokkur hundruð syngjandi karla ásamt sinfóníuhljómsveit Íslands. Ónei, ekkert fjölmiðlafár! ---Enginn laminn---. Um síðustu helgi var landsmót skólalúðrasveita haldið hér á Höfn og tókst það með sæmd, en... ekki létu fjölmiðlar það sig miklu skipta. 450 ungmenni spilandi um allan bæ er ekki fréttnæmt.. enginn lamdi mann og annan...Mig langar að telja svo margt annað upp, en þá fer ég að hljóma enn frekar eins og nöldrandi kona í vesturbænum. Á vori komanda verður á Höfn landsmót kvennakóra og vonandi tekst að koma því á koppinn í fjölmiðlum, hver veit. Ekki það að þetta hafi ekki verið reynt af heimamönnum, en Ártúnsbrekkan en greinilega markmiðið í sparnaðarskyni. "The bottom line is" á góðri íslensku: Af hverju má ekki oftar flytja fréttir sem gleðja hinn venjulega áhorfanda-hlustanda? (Ég veit um "góðar fréttir" sem stundum eru auglýstar í RUV, hef verið þar sjálf). ---Með neikvæðum, nú, eða tvíræðum fréttayfirlýsingum er verið að kynda undir svartsýni fólks utan "nafla alheimsins", og það er að mínu mati ekki verjandi.--- Nú er ég búin að blása nóg..--- Karlakórsæfing, Gleðigjafaæfing og kvartettsæfing það sem af er viku gerir mig glaða.. glaða í hjarta og sinni. Þar hefur ríkt sönggleði, enginn hefur lamið mann og annan og telst því ekki til frétta! Þetta eru samt fréttir vikunnar, mínar fréttir. Látið ykkur líða vel, en ef þið viljið komast á blað sögunnar þá sláið næsta mann.... Ég ætla hinsvegar að halda áfram á rólegu nótunum án þess að komast á blað. Hornfirsk kveðja til allra.

miðvikudagur, 10. október 2007

Vort vikulegt mas...

Miðvikudagarnir virðast vera góðir til skrifa... Sú sem hvatti mig einna mest til að blogga, og setti upp síðuna mína átti erfitt með að kommenta á síðasta pistil. Við hvert innlit las hún alltaf um "kalt malt", og drakk þá þann góða drukk. Mér telst að hún sé búin að innbyrða 7 flöskur.. Hún las semsagt vitlaust!-- Í nokkur ár var ég prófarkalesari, og var mér bölvanlega við ef ég las svo nýprentað blaðið með stafsetningarvillum. Af þeim sökum las ég allt afar vandlega, bæði það sem var skrifað í heimabyggð, og eins það sem kom frá viðurkenndum auglýsingarstofum annarsstaðar frá. Ein slík litaauglýsing var send til birtingar, og hljómaði svo: "Brundæla" til sölu! Ég las oft, og ég las lengi þótt svo mér kæmi þessi auglýsing ekkert við, hún var altso unnin á stofu. Ég spurði minn ektamann hvort hann vissi hvað þetta væri og fékk dulítið glott, en fátt varð um svör. Þessi heiðursstofa var að auglýsa tæki sem dælir upp úr brunnum allskyns óhroða, en mönnum láðist að setja eitt N til að gjörbreyta orðinu! Jamm... átti líka í erfiðleikum með að lesa "skólager" sem skó lager.... Kibba mín, ég skil þig......Um daginn blés hún dóttir mín dálítið... Eyjólfur Aiden er sullari! Meðan dóttirin útlistaði drenginn varð mér hugsað til hnátunnar sem dóttirin var þá. Hvursu oft var hún ekki dregin upp úr forarsvaðinu, stígvélafull, allar buxur blautar, búin að týna vettlingunum og með mikla hárið í einni bendu. Ég tala nú ekki um öll sigtin sem týndust við sílaveiðarnar, og hamrana sem "hurfu" úr bílskúrnum. Eyjólfur Aiden líkist mömmu sinni með þetta, og hann má sulla í gúmmítúttunum og fylla þær. Hann má líka búa til engil í snjónum og forinni, það gerði hnátan!, og hún vildi ekki bleika sæta kápu, það var ekki hægt að hreyfa sig í henni eða leika skemmtilega. Á þessari tölvuöld bíð ég bara eftir að við setjum upp vefmyndavél svo við hér í kotinu sjáum fjölskylduna í litla bláa húsinu í Ameríku. Erum komin uppá lagið með Skype og þykjumst góð. Allt kemur þetta. Eins er það með stigana í Tónlistarskólanum, ég er ennþá í þremur mínútum og er alveg sama. Ég kemst samt þótt hægt fari. Tek orð hnátunnar í munn og kveð ykkur í kútinn.

miðvikudagur, 3. október 2007

Bleik tilkynningarskylda

Takk fyrir innlitið þið í bloggheimum, það er bara gaman að þessu. Þegar ég var í foreldrahúsum var nauðsynlegt, og partur í uppeldinu að láta vita af ferðum sínum. Þar sem ég lét alþjóð vita af hnjámálum mínum skal tilkynnast hér með: Ég fór í vinnu s.l. mánudag. Mér var vel fagnað, en sérstaklega af yndislegum einhverfum ungum manni, hann brosti hringinn og sagði djúpum rómi: GOTT... Þar hafði ég það, og þær fjórar mínútur sem það tók mig að labba upp stigann urðu að engu. Þær voru altso taldar. Í fyrramálið mætir þessi sami nemandi, og þá ætlum við að hafa mínúturnar bara þrjár. ---Semsagt, allt skríður þetta þótt í hægagangi sé.-- Nú er ég farin að hlakka til vetrarins því hér á Hornafirði verður mikið um að vera í öllu lífinu sem endranær. Komandi helgi verður hin árlega frumsýning Skemmtifélagsins og landsmót skólalúðrasveita blæs svo til sóknar eftir rúma viku. Kórar, leikfélög og annað sem tilheyrir mannlegu lífi er að vakna úr sumardvalanum og lífið blómstrar. Í lok apríl verður svo annað landsmót haldið, og það var landsmót hér um verzlunarmannahelgina. Hornafjörður er sumsé ekki bara humarbær, heldur landsmótsbær með stóru Béi! Annað (á landsvísu) fylgir vetrarbyrjun , en það er hið háa Alþingi. Nú rífst þar hver og einn sem hann getur, en finnst mér mestur tíminn fara í það hvað "hinir eru asskoti" vitgrannir. Þessir þjóðkjörnu fulltrúar þjóðarinnar ættu að huga frekar að því sem er mikilvægt og sleppa fúkyrðunum hvers í annan garð.---Kalt mat!---Nú,- svo er forseti vor út um allar koppagrundir, er hér í dag, en þar á morgun....Kínverjar til í allt.... Nú um stundir er bleiki liturinn allsráðandi á landinu, og vona ég að allir kaupi sér bleika slaufu. --Konur, -ekki slugsa þegar krabbameinsleit er annarsvegar, drífum okkur. Pistilinn skrifaði ég.