miðvikudagur, 28. maí 2008

Syngjandi sæl öllsömul.

Eftir mikla vinnutörn sl. föstudag fórum við bestu helmingarnir í ferðalag. Þegar bílnum var lagt við hótelið í Stykkishólmi voru 620 km. að baki. Yndislegt veður og falleg er leiðin vestur, sérstaklega Vatnaleiðin. Hólmurinn tók vel á móti gestum sínum, og voru samferðarmenn okkar yfir helgina ekki af verri endanum. Á laugardeginum fórum við í siglingu um Breiðafjörð, og fylltist ég einhverri vellíðan sem erfitt er að útskýra. Læt það vera, en hvílík kyrrð og friður yfir öllu. Um hundrað manns voru í bátnum, og þegar hann renndi sér ljúflega nánast upp í hreiður fuglanna hefði mátt heyra saumnál detta. Enginn vildi raska rónni. Tvo Erni sáum við í návígi svo og alla fuglaflóruna sem þarna verpir. Skipverjar veiddu svo ofan í mannskapinn skelfisk sem við átum og skoluðum niður með kældu hvítvíni. Er hægt að komast nærri móður náttúru en þetta? (að vísu hefur hvítvínið ekkert með náttúruna að gera!) Ef ég þyrfti að velja milli helgarferðar til London og siglingu er ég ekki í vafa hvor ferðin yrði fyrir valinu. Nú á ég bara eftir að fara út í Flatey, og vona ég svo sannarlega að sú ferð verði farin fyrr en síðar. Við fórum svo fyrir jökul á sunnudeginum, og þótt Snæfellsjökull sé kyngimagnaður er sá stóri sem vofir yfir okkur hér öllu glæsilegri! Ekki dvöldum við lengi í Reykjavík, og fórum ekki niður fyrir Ártúnsbrekkuna. Reykjavík nefnilega þrengir að mér. Það er oft sagt að sunnanmönnum finnist svo óendanlega langt að fara upp fyrir brekkuna, en ég er ekkert betri þegar ég þarf að fara til borgarinnar. Rólegheitin og kyrrðin í umhverfinu hér á einfaldlega betur við mig. Á mánudeginum kom svo sumarið....byrjaði í gróðrarstöðinni Borg. Í gær potaði ég svo öllu niður, og nú getið þið svo sannarlega komið í sumarkaffi þegar ykkur hentar! Sumarrósaskálakaffi var það heillin. Tvíbíla vorum við helmingarnir heim, og var það skondið ferðalag. Ég var alltaf með hvíta bílinn fyrir aftan mig og fannst asnalegt að skipta upp helmingunum. Vera í sitt hvorum bílnum. Ég talaði upphátt við sjálfa mig megnið af leiðinni. Eitthvað var bóndinn að tala um þreytu hjá mér, fannst ég hægja fullmikið upp ef ég sá fé á beit uppi í fjalli, ég tala nú ekki um allar einbreiðu brýrnar. Lái mér hver sem vill, og það var gott að koma heim. Nú er bara að fara að yrkja garðinn sinn og huga að ýmsu sem hefur setið á stóra hakanum. Syngjandi sæl kveð ég þar til næst.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Af blómum og froskum

Það má til sanns vegar færa að ég er letibloggari, en hvað um það nú læt ég vaða. Eftir að Ameríkufararnir héldu til síns heima var ég með stóran leiða í hjartanu og kökkinn í kokinu. Sú líðan hinsvegar léttist er frá leið og líður mér bara vel, takk fyrir!  Tíminn hefur liðið hratt og hefur verið ótrúlega mikið að gera. Tónlistarlífið blómstrar, prófavika í skólanum stendur yfir, skólaslit og tvennir tónleikar framundan. Ég er eiginlega að verða búin að fá nóg þetta vorið. Þetta er ekki sagt til að kvarta, heldur til að afsaka bloggletina! ---Þessi tími árs er yndislegur með björtum kvöldum, fuglum og gróðri, allt er að lifna. 18. mars var ekki blaðarða á rósastilkunum í sólskálanum, en núna eru þær að verða feitar og pattaralegar. Eftir tæpan mánuð springa þær fyrstu út og þá verður gaman. Á myndunum hér að ofan sjáið þið fínasta skrautið í sólskálanum, það er grænu froskastígvélin hans Eyjólfs og fyrstu skóna hans. Natti tók þá að vísu í smá fóstur í Íslandsdvölinni, en ég fékk að halda tauinu. Nú á þetta fína tau sinn sess á gömlu rullunni, og er ég að hugsa um að setja örlítið blóm í fínheitin. (þó án þess að skaða tauið eða hylja það) Minn árlegi blómaleiðangur verður 26 maí,  þá er sumarið komið, og ég tek ekki þátt í fleiri krummagusum eða öðrum hretum. ----Þegar sumarið kemur, (þann 26 maí) ætla ég að eyða mörgum stundum í skálanum mínum og garðinum...Ég ætla að....svo ætla ég......ég mun svo....og eftir það ætla ég á Spán. Eftir Spán verða batteríin hlaðin og þá get ég tekist á við annan vetur, sem verður vonandi betri en sá síðasti. Bæði veðurfarslega séð og að helv....hnén verði til friðs. Nú er ég komin svolítið fram úr mér, en ég sagðist ætla láta vaða!--- Þar sem ég elska grænt ( gróður!) má ég til með að láta eina fylgja  varðandi hvursu "græn" ég get verið, og með langan fattara. Um árið vorum við hjónin að keyra suður og hafði gamla brúin yfir Markarfljót skemmst þannig að takmörkuð umferð var leyfð yfir hana. Það hafði alveg farið fram hjá mér. Austan megin við ána stóð á skilti að hafa minnst 10 metra á milli bíla. Bóndinn lagði út í kant og drap á bílnum. Þannig sátum við lengi og spjölluðum. Allt í einu datt mér í hug að spyrja "afpellu" við sætum hér. "Nú það eiga að vera 10 metrar á milli bíla, og það er enginn bíll á undan okkur!" Ok, sagði ég og hélt áfram að spjalla......Heyr heyr, eftir dúk og disk áttaði ég mig, og ég hélt að bóndinn myndi deyja úr hlátri. 25 árum síðar er ég enn svona græn og skil aldrei brandara fyrr en eftir útskýringu. Hver nennir því að eyða á mig bröndurum? En mér er sko nett sama því ég kann að spila á píanó! Þar til næst með grænni kveðju.

mánudagur, 5. maí 2008

Fyrr var oft í koti kátt...

Ekki misskilja titilinn, en kotið er afar tómt núna. Var líflegra, er þó kátt en bara hljóðara. Ég ætla ekki að skrifa sorgarpistil en læt ykkur þarna úti vita að ég sakna Ameríkufaranna. Þó er þetta að jafnast út. Ég held ég taki undir með nokkrum bloggvinum að það er afar erfitt að horfa á eftir ástvinum á flugstöðinni. Allir verða einhvernveginn svo umkomulitlir. ---Dvöl þeirra hér var dásamleg, og við afi urðum börn að nýju. Þrátt fyrir ótrúlegan annatíma upplifðum við öll samveruna á besta hátt. Svanfríður mín er svosem ekki óvön miklum önnum foreldranna á þessum tíma árs. Eitt hefur verið heilagt hér á bæ í áranna rás, kvöldmatur með öllum! Þá er dagurinn krufinn og hver og einn segir það sem honum liggur á hjarta. Í hjarta Eyjólfs var ýmislegt sem þurfti að fá krufningu. Hún var veitt ef hægt var..nú ef ekki þá spurði hann opineygður: APELLU? (Hann getur ekki sagt "afhverju") Ég spurði hann einn daginn apellu við gerðum þetta ekki svona. "Amma mín, talaðu íslensku"! Afinn spurði snúð daginn eftir apellu þetta eða hitt væri svona. Eyjólfur leit í forundran á hann og leiðrétti strax. "Afi, ekki apellu, það er AFPELLU". Þar höfðum við það. Hvað er eitt lítið F milli vina?--- Natti tók fjögur skref á íslenskri grund, en nennti ekki að ganga lengra, og ég hafði ekki roð við honum á skriðinu. ---Svanfríður er falleg og góð sem örvar syni sína frábærlega. Ég þarf því ekki að kvarta, öllum líður vel. Það er bara þetta með fjarlægðina. Talandi um hana. Við komum heim í gærkvöldi úr vel heppnaðri söngferð karlakórsins, en heimferðin tók lengri tíma (frá Hvolsvelli) en að fljúga til Boston! --- Vortónleikar Jökuls eru frá þetta vorið ásamt öðrum framkomum í bili svo og landsmót kvennakóra. Það er gaman að geta sagt það á opinberum vettvangi að mótið gekk mjög vel og allir gengu glaðir frá borði. Ef einhver kvennakórskona kíkir hér inn þá þakka ég fyrir að fá að hafa tekið þátt í mótinu. Kórkonur og eiginmenn þeirra stóðu vel undir öllu því amstri sem fylgir því að halda svona stórt mót. Framundan er svo meiri tónlist, próf, tónleikar, en inn á milli dudda ég í sólskálanum. Þar er nýtt skraut sem ég mun sýna ykkur í næsta pistli. Þar til bið ég ykkur vel að lifa.