þriðjudagur, 11. maí 2010
Hugleiðingar um strák. Taka tvö.
Fyrir ári síðan skrifaði ég hér inn hugleiðingar og staðreyndir um nemanda sem er voða nálægt hjarta mínu. Nær hjartanu en aðrir nemendur. Kannski ljótt að segja svona, því mér þykir vænt um alla mína nemendur. Nú var altso komið að stóru stundinni í samstarfinu, grunnpróf í píanóleik skyldi tekið með öllu vafstrinu sem því fylgir. Utanaðkomandi prófdómari og lestur af blaði í boði prófanefndar, semsagt, bara staðurinn og stundin. --- Einn sjéns.--- Það get ég sagt í einlægni að hjartsláttur minn og blóðstreymið þar með var dálítið ofarlega á skalanum. Minn maður aktaði prófdómarann, lét sér í raun fátt um finnast um allt þetta vesen svona eftir á séð, lokaði augunum og spilaði eins og maður hefði sjálfur vilja spila við samskonar aðstæður. Hann var blaðalaus með öllu, allt í réttri röð, allt í nákvæmum takti og hann kunni skil á öllum höfundum. Óundirbúinn lestur reyndist "skrítið lag" en hann rúllaði honum upp. Ofan í kaupið heillaði nemandinn prófdómarann með góðri og einlægri framkomu. Getur kennari farið fram á meira? ---Varla. --- Nema hvað að þessi nemandi minn er einhverfur og því ekki á sama róli í mörgu og "við hin". Hverjir "við hin"erum hef ég oft velt fyrir mér, en hef engin svör. Ég á ekki svar við neinu sem mér og mínum kæra nemanda fer á milli í skólastofunni, en eitt veit ég. Ég hefði ekki viljað missa af þessum árum með honum. Hann er ljós, hann er manneskja sem kennir mér, hann er klár, hann er góður og heitir Jóhann Árni. Takk fyrir mig þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)