mánudagur, 30. desember 2013

Til móts við nýtt ár.

Jæja," þá eru jólin búin" ku ég hafa sagt hátt og snjallt 5 ára hnáta þegar síðasti jólapakkinn var opnaður. Síðan þá hefur þetta verið orðatiltæki hjá stórfjölskyldunni. Mín jól í dag eru hins vegar ekki búin, nýt friðarins og rólegheitanna, náttbuxnanna minna og bókanna. Nýt þess að dunda í eldhúsinu og hugsa fyrir næstu máltíð! (Steiktur fiskbúðingur úr dós var í kvöld með allskonar gúmmelaðe!) Ekki segja neinum frá. Óskandi að svona líðan væri á öllum bæjum, allsstaðar. Eftir að Svanfríður mín flutti að heiman og tengdamamma féll frá höfum við bestimann alltaf haldið jól og áramót hvort með öðru. Margir undra sig á þessu því allir vilja sig á stórhátíðum. Okkur líður vel með tvímenninginn því við erum svo vel gift sjáið til! Það sagði gömul frænka bestimanns þegar hún var að hrósa mér fyrir eitthvert spileríið. Hennar fleygu orð voru: Þetta er ekkert mál fyrir þig Gulla mín, þú ert svo vel gift! Það var og......Málið var að henni fannst allt sem ég gerði vel vera af því að ég var svo vel gift. Dásamlegt. Semsagt, stórhátíðar eru ekkert vandamál nema bara stundum þegar kemur að kaupum á jólagjöfum og pakkaálesningu. ( við eigum nefnilega meira en okkur vantar) Bestimann er frárri á fæti en ég, ég elda og hann skal svo sannarlega fá að hlaupa með pakkana. Það eina sem heftir helst hlaupin eru of margar rjúpur í maga karls, og þar af leiðandi tekur þetta allt sinn tíma. Nú, svo er lestur jólakorta og seinni messa bestimanns. Það er semsagt heilmikil prósessía sem fer fram á okkar bæ. Margar góðar gjafir fengum við, en upp úr stendur árlegt myndadagatal frá Ameríku og sex metra langur stigi sem ég gaf mínum heittelskaða. Já, ég sagði og skrifaði sex metra langur stigi og hann varð yfir sig glaður. Þarf þá ekki lengur að kvarta yfir stigaleysi, vondum lánsstigum og heimagerðum klömbrurum þegar þarf að fara hátt. Allir sáttir með sitt og prjónakjóllinn sem ég fékk var yndislegur. Nú er enn eitt árið að renna sitt skeið, og fólk gjarnan lítur um öxl og jafnvel strengir heit fyrir næsta ár. Ég kem nokkuð vel undan þessu ári, heilsan bara vel við hæfi og heilbrigðiskerfið virkar. Ætla því ekki að dvelja í fortíðinni, en lifa í núinu því það er það sem heldur. Eina  heitið mitt er fyrir næsta ár er að láta mig hlakka til Ameríkuferðar í sumar. Allt kvittað og klárt. Myndin hér að ofan er af því fólki sem ég elska mest, en það vantar þó einn á hana, en hann munum við knúsa líka á sumri komanda. Kæru vinir, gleðilegt ár þar til næst og kærar þakkir fyrir rafræna og lifandi samfylgd á árinu.

föstudagur, 20. desember 2013

Er líða fer að jólum....

Heil og sæl þarna úti í víðáttunni. Hér á kærleiks eins og ein orðar það svo skemmtilega gengur allt vel og jólin á næsta leiti. Maður spyr gjarnan annan: ertu búinn að öllu?  Ég svara því til nokkuð satt og rétt að ég hafi ekki svo mikið fyrir hlutunum, við erum jú bara tvö og getum gert alla skapaða hluti nánast á öllum tímum. Ég baka alltaf í nóvember því jólamánuðurinn er oft ansi þungur hjá tónlistarfólki, og  er það bara hluti af jólunum. Sveinkarnir mínir eru allir komnir á sinn stað, og sjáið bara eineggja "tvillingana" á efri myndinni, þeir eru sko búralegir, og ef vel er gáð má sjá þann montna frá frú Sigurbjörgu.  Eftir helgi fæ ég einn feitan frá Þýskalandi, hlakka til að kynnast honum. Í dag kom gömludansadiskur Jökuls í okkar hendur, og svei mér þá, hann er þrælskemmtilegur, er eiginlega mjög stolt af honum. Syng þar eitt lag með strákunum og hafði gaman að öllu saman.  Ef þið viljið kaupa hann og dansa eftir honum á stofugólfinu látið mig bara vita.  Rúsínan í þessum hornfirska pylsuenda er að nú hef ég í höndunum farmiða fyrir okkur bestimann til Kaliforníu í sumar, kvittað og greitt, sagt og skrifað! Núna finnst mér stór köggull farinn af brjóstinu og aðventukökkurinn hefur mildast einungis við að horfa á seðlana.  Ég veit varla hvernig maður færi að án skybe...en, mamma lifði af með okkur systur langdvölum í útlöndum og við bestimann lifðum af skiptinemaárið hennar Svanfríðar minnar. Þannig að þegar upp er staðið er styttra á milli allra í dag en i den tid. Svo mikið er víst. Ég vil óska ykkur öllum með kíkið í kaffi, kvittað eða ókvittað innilegrar jólahátíðar og megi nýtt ár færa okkur frið í hjarta þar til næst.  Gleðileg jól.  

laugardagur, 7. desember 2013

Heima er best...


Jæja þá er Reykjavíkurferðin frá, og sú næsta verður ekki fyrr en í mars, ef guð lofar eins og kerlingin sagði. Veðurkrákan ég ætti helst ekki að fara út fyrir pípuhlið frá hausti og fram á vor. Bara það eitt að þurfa að mæta í Rvík. að vetri til á sérstökum degi getur hreinlega gert út úr mér. Hálka, stormur, snjór og grjótfok er það sem ég hugsa um daga og nætur áður en farið er. Ég veit....asnalegt. Núna bar svo við að við  fengum nokkurnveginn sumarfæri og rjómablíðu báðar leiðir, þannig við bara sungum hástöfum okkur til skemmtunar og til að fagna góðri skoðun á frúnni. Meinlaust var brjóstið mitt, bara bólgur sem hægt er að meðhöndla. Þar með ætla ég ekki að eiga fleiri andvökunætur út af því. Vil heldur vaka af einhverju skemmtilegu.--- Mikið hvað ég varð glöð þegar bestimann sótti jóla-jóla kassann, þvílík dýrð og dásemd.  Jesú og fam. er komin á nótnaskápinn og spiladósaflygillinn  stendur ofaná mínum ekkidósaflygli! Fyrir mörgum árum keypti ég lítinn feitan sveinka sem situr eins og klessa og brosir fallega. Í byrjun nóv. fórum við bestimann í Rauða kross búðina á Háaleitisbraut að kaupa lesefni. Þar sá ég í einu horninu einn einmana sveinka, albróður þess sem ég hafði keypt fyrir löngu. Þessi situr bara öðruvísi og afslappaðri. Nú hafa þessir eineggja tvíburar náð saman og haga sér vel á eldhúsbekknum mínum.  Á góðum stað stendur svo einn sveinki sem er langur og mjór, og jafnvel alþakinn glimmeri. Hann er monthani, en mjög elskulegur. Hann heldur á pakka í annarri hendinni og glottir út í annað. Mér finnst alveg óendanlega vænt um þennan svein. Hún frú Sigurbjörg sá hann í Ástralíu, hugsaði til mín, keypti hann og gaf mér. Sveinkastelpu á ég líka sem mér þykir jafnvænt um og slánann. Þórunn í Kotinu gaf mér hann þegar ég lauk geislameðferðinni.  Litla sveina situr á útvarpinu. Þegar ég sé þessa vini mína hugsa ég  fallega til gefendanna. Í þessum skrifuðu orðum er ég svo þakklát. Ég er þakklát fyrir lífið með öllu því sem það fleygir í mig, og ætla að reyna að láta þras og leiðindi fljóta hjá þar til næst.