föstudagur, 25. apríl 2014

Fjörutíu ár og hananú


Gleðilegt sumar þið þarna úti og takk fyrir veturinn. Nú  er enn einn að baki, og leið hann í sjálfu sér mjög hratt þegar litið er í baksýnisspegilinn. Þessi baksýnisspegill er dálítið magnaður. Fyrir rétt rúmum 40 árum flutti ég á Höfn og hér hefur mér liðið vel. Þá var hér nýstofnaður karlakór, karlakórinn Jökull. Frumkvöðlarnir voru stórhuga og kór skyldi stofna. Þáverandi stjórnandi sá um það sem til þurfti og var vel lipur á píanóið. Eg þá kemur bestimann til sögunnar, og  kórnum til uppdráttar! Bestimann fór suður, féll fyrir ungri konu og flutti hana inn! Fyrir það þakkaði fyrrverandi yfirvald hér honum ævinlega fyrir.  Ég semsagt byrjaði sem undirleikari Jökuls fyrir nákvæmlega 40 árum. Ég var bara 23ja ára og kunni ósköp lítið inná þetta alltsaman. Hafði þó alla tíð sungið í kórum og stundað tónlistarnám. Fyrsta lagið sem ég spilaði með Jökli var Íslands hrafnistumenn, og síðan bættust þau við eitt af öðru, og nú er svo komið að ég á fullar hirslur af karlakórsnótum, og margar handskrifaðar af mér meiri meisturum. Þegar ég var yngri leit ég óskaplega upp til undirleikara þess tíma og fannst þeir alltaf hafa verið til og yrðu örugglega alltaf til staðar. Nú er svo komið að ég er orðin ein af þeim, og alltaf með sama kórnum. Yngsti söngmaður Jökuls er fæddur eftir 1990. Þetta er skrítið, því tíminn hefur liðið hraðar en 40 árin segja til um. Tvenna tónleika utan héraðs á þessum árum hef ég ekki spilað: Dóttla mín var á leið í heiminn, og var í hnjáaðgerð  hitt skiptið. --- Dóttlan ólst upp með karlakórinn sér við hlið eins og svo mörg önnur börn hér á staðnum. Flottasta lag sem Svanfríður mín heyrði 5 ára gömul var Brennið þið vitar.....með KARLAKÓR RVÍK:! Hef löngu fyrirgefið henni það, því KRingar eru flottir. Allavega, Jökull lifir enn og ég lifi með honum eitthvað áfram, en ég yrði bara glöð ef einhver 23ja ára kæmi og bæði um pláss þar til næst.

laugardagur, 12. apríl 2014

Enn legg ég í'ann.


Mætti halda að ég væri sérstaklega sjálfhverf, en mér finnst þessar myndir alveg dásamlegar. Sú efri var tekin á Borginni í den tid, þarna erum við uppstrílaðar frá fínni fatabúð og greiddar og málaðar í takt við  tísku tímans. Það sem kemur mér til að brosa er hversu gjörsamlega dauðar við erum á svipinn, vorum þó bara nokkuð góðar og glaðar. Þarna er greinilega alvara á ferð. Seinna þetta kvöld vorum við svo komnar í síðkjóla með öðruvísi greiðslu. Sú mynd er líka mjög fyndin, en yndisleg. Á  neðri myndinni er ég hinsvegar nokkuð glaðlegri og komin í tískuföt þess tíma. Útvíðar buxur með mjöööög háum streng, hálfgert magabelti en sést ekki fyrir nótnastatífinu.  Í dag......syng ég bara,  er glöð og til fjandans með tískuna.-- Lífið hér á kærleiks eins og einhver orðaði það svo skemmtilega gengur sinn vanagang. Mikið að gera á öllum vígstöðvum. Ég ætla að nota páskafríið í að elda góðan mat,  þurrka af og spila músíkina mína, og æfa með söngkonu og oktettinum mínum. Síðan en ekki síst: dúlla mér í sólskálanum hvar sem allt er á fleygiferð. Þetta  er gott plan. Svo ætla ég líka að spila páska- og fermingarmessu í lítilli kirkju í sveitinni. Ég hlakka til þess. Þar kemst maður nefnilega mjög nálægt lífinu eins og flestir vilja hafa það. Fyrir margt löngu spilaði ég við húskveðju. Það var fallegt, eitthvað sem ég gleymi aldrei, og það var líka í sveitinni. Í dag eru stóru kirkjurnar með stóru orgelin eitthvað svo mikið og stundum yfirþyrmandi. Þá er líka gott að eiga þess kost spila í litlu samfélögunum þar sem lífið virkar hægar, en er það ekki. Lífið er nefnilega ekki bara 101 á hverjum stað. ( Við eigum 101 hér á Höfn!)  Í lok maí fer ég "söður" og verð í 3 vikur.  Er bara nokkuð brött með það, því eftir þá meðferð skal ég ætla að ég verði eins heilbrigð og danska meri kóngsins. Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.