laugardagur, 26. júní 2010

Rignir gulli!

Jæja, þetta er að hafast, Gullregnið að opna sig og gullin mín lenda á morgun.
Ég er nánast að fara á límingunni, og finnst mér ég vera eins og lítill krakki að bíða eftir jólunum. Bara að sofa tvisvar! Krossa fingur að dóttlunni minni og litlu gullunum gangi vel á ferðalaginu. --- Annars allt gott að venju hér á Hólabrautinni, og má ég til með að segja frá því að minn kæri einhverfi nemandi fékk 88 stig á grunnprófinu. --- Segi og skrifa.--- Kæru vinir út um allt, nú ætla ég að að njóta þess að vera amma, mamma og "allskonar" þar til næst.

sunnudagur, 20. júní 2010

Í boði hússins.











Nú er ég farin að telja niður, og er ofvirk í talningunni. ( Hættu að telja, þetta er ég Svanfríður mín!) Dagarnir eru góðir og veðrið eins og best gerist. Allt er í blóma og mannlíf gott. Í gær var svo gott veður að það minnti helst á útlönd. Þá skrapp ég út með myndavélina og myndaði í bak og fyrir, ætla að hlýja mér við að skoða þær þegar veður verða válynd. Núna hef ég þetta allt "sprell alive"! Við bestimann föndruðum svolítið í fyrrakvöld í tilefni þess að myntkörfulánin ku vera ólögleg, og byggðum nokkur hús. Ekki eru þau slétt og felld, en hver segir að allt verði að vera þannig? Álfabjálfinn á einni myndinni var svo ómótstæðilegur og skömmustulegur að ég varð hreinlega að eigna mér hann og hengja upp öðrum álfum til viðvörunar.
Hann er búinn að lofa bót og betrun, en uppi skal hann hanga þar til í haust. 7 ungar eru komnir í hreiðri máríerlunnar við kirkjuna í Lóni, og vei þrestinum ef hann stelur svo mikið sem einum eins og hann gerði hér um árið. --- Sprittið dugði vel á þær grænu sem létu sjá sig í rósaskálanum, sennilega hafa þær dáið áfengisdauða greyin. Skrítið, en mér slétt sama. Næst þegar ég skrifa verður gullregnið komið í blóma. Þar til sendi ég ljúfastar yfir.



mánudagur, 14. júní 2010

Fari það og veri!

Eldhúsdagsumræður og HM! --- Hvað gerir maður ef eldhúsmellustimpillinn á ekki við og er ekki með .. veikina, nú eða aðrar stöðvar? Pirrar sig á ósköpunum en heldur út í garðskála og drepur fáeinar grænar pöddur, en samt á umhverfisvænan hátt. (ef spritt telst umhverfisvænt) Pensillinn verður mundaður á morgun og góðir gestir koma í hús. Þá ætla ég að gefa þeim steiktan þorsk með kartöflumús og miklu hvítvíni. Sorrý, tók bara úr frystinum nóg fyrir okkur, þið fáið bara seinna. Þar til næst.

fimmtudagur, 3. júní 2010

Jamm....

Þarf varla að taka það fram að myndin er tekin á vortónleikum Gleðigjafa
þar sem ungir og aldnir stilltu saman strengi. ----Sá mér til armæðu að ég skrifaði síðast 11. maí. Ekki að það snerti landslýð, en ég ætlaði að vera duglegri. Þetta er í raun eins og dagbók í mínum huga hvort sem fólk nennir að lesa hana eður ei. Gerði mér það til dundurs um daginn að fletta til baka, og sjá, það hefur sko margt á daga mína drifið sem mér fannst vera prenthæft. Annað sem ekki hefur verið fært til bókar hefur sem sagt ekki verið prenthæft.--- Eftir annir maímánaðar var hugur í mér. Vaknaði óvenju snemma á morgnana og var til í allt sem setið hafði á hakanum lengi. Eitthvað var ég sein í gang til að byrja með og ráfaði um húsið eins og svefngengill. Viti menn, einn daginn fylgdi líkaminn sálinni, og þá varð ekki stoppað. Nú er rósaskálinn, garðurinn, fataskápurinn, vaskahúsið og dittenogdattinn frá. Nú eru 98 heimalagaðar kjötbollur í frysti, (gerði þær sjálf) og milljón kleinur. (ó nei, góð vinkona í Gleðigjöfum færði mér þær fyrir Ameríkufarana) Fiskibollurnar verða gerðar fljótlega. Af mér nota bene. Inni í skáp eru tvö yndisleg lopavesti á guttana mína, prjónuð af góðri vinkonu, mikilli listakonu. Búið að fá sandkassa, playmo, lego, hjól , og fullt af bílum, og er ég búin að hugsa upp "lesu-skot". 7. júní skal verða pantað fyrir Eyjólf á ævintýranámskeið, en Natti minn er víst of ungur í svoleiðis. Þá "skutlumst" við bara í staðinn, en dóttlan mín verður bara að ákveða sjálf hvað hún vill gera, hef sumsé ekkert ákveðið fyrir hennar hönd! ---Þetta eru góðir dagar, en eins og lesa má get ég varla beðið eftir að fá þá sem ég elska mest í hús. -- Potaði í dag niður 130 sumarblómum í minningarreitinn við kirkjuna, æfði kvartettinn fyrir söng á laugardaginn og fór í langan "göngutúr" á nýja veginum meðfram ströndinni þaðan sem útsýnið er milljón dollara virði. Komið ef þið þorið í bollur og göngutúr þar til næst.