sunnudagur, 28. mars 2010

Lífíð

Já, það er bara gott takk fyrir og páskafrí frá og með morgundeginum. Það er oft tönnlast á því að kennarar fái svo mikil og góð frí, en mér telst til að ég fái nú umfram margar aðrar stéttir fjögurra daga frí frá kennslu. Hitt eru helgidagar sem eru jú lögbundnir rauðir. Hvað með það og allt hitt sem gengur á. --- Á meðan ég svaf hófst gos syðra svo Icesafe varð undir, og einhverjir röltu á strigaskóm til að berja gosdýrðina augum. ---Þá vaknaði ég.---Harðir viturbloggarar heimta þjóðaratkvæðagreiðslu um sjávarútveginn, og gott ef ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Jamm, ég varð hugsi. Ekki ætla ég, sem ein af þjóðinni að nýta mér sjávarútveginn og græða á honum. Það eru fyrirtæki um allt land sem gera út á slíkt, halda sínum byggðarlögum gangandi og veita fjölda manns vinnu. Þar get ég ekki séð að ég geti gert eitthvað betur. Hvað varðar kirkjuna og það dæmi hef ég ekki vit til að greina hvað gott sé eða slæmt. Veit bara að fólk verður að una við sitt, það er svo auðvelt að þykjast vita og kunna allt. Ég t.d. veit voða fátt ef út í það er farið, en ég veit að dagurinn í dag var góður og vona að næstu dagar verði það líka.-- Ætla "nebblega" að njóta þess sem ég hef og ergja mig ekki á því sem ég ræð ekki yfir þar til næst.

sunnudagur, 21. mars 2010

Ég býð þér upp í dans!


Hverjum óvitlausum hef'ði dottið í hug að halda gömludansaball með karlakór og halda að hann kæmist upp með það? Við gerðum þetta þó og fjörið var ósvikið. Stanslaust dansað frá tíu til hálf eitt, og engin pása! Sennilega verður þetta árvisst, því það eru mjög margir sem hafa gaman af því að dansa gömlu dansana. Þverhausinn ég var bara fyllilega sátt við spilamennskuna, en myndi nú ekki vilja leggja þetta fyrir mig. Líkar betur við að syngja þessa tónlist. Í gær var svo langur laugardagur hjá kvartettinum, og satt best að segja vorum við "doldið" lengi í upphitun! Flott æfing sem endaði með söng upp undir jökli í kalsaveðri þar sem þeir sungu hástöfum "logn og blíða sumarsól", og allir að krókna úr kulda. Tilefnið var opnun á yndislegri ljósmyndasýningu af Hoffellsjökli, gerð af listamanni héðan. Kvöldið endaði svo í frábærri fiskisúpu með góðum vinum. Fór á Frelsinu í góðan túr í dag, fékk rauðar kinnar og er tilbúin fyrir vinnuvikuna. Bið ykkur vel að lifa þar til næst.

miðvikudagur, 17. mars 2010

Fært til bókar!

Tjaldurinn er kominn í fjöruna, deginum fyrr en á síðasta ári! Þá er vorið handan hornsins, því sá fugl veit alveg hvenær best er að flykkjast til landsins. ( Að vísu dvelja hér einhverjir kjánar allt árið, en láta ekki sjá sig) --- Kominn skikkur á allt pappírsflóðið og gömludansaballið á föstudaginn. --- Langur æfingadagur hjá kvartettinum á laugardag, verðum síðan við opnun ljósmyndasýningar og etum svo saman súpu um kvöldið. Jebb. Hafið það huggulegt þar til næst.

sunnudagur, 7. mars 2010

Prjónles og blues.

Hreinlega varð að setja inn þessa mynd til að monta mig af nýja kjólnum/kápunni/peysunni eða hvað svo sem við viljum kalla þetta fat. Falleg er vinnan svo mikið er víst. Þegar ég var spurð hvort ég hefði prjónað þetta sjálf varð mér verulega skemmt. Ég get ekki gert svona, né heldur tengt rafmagn eða lagt skólplögn. Til þesslags verka fæ ég fagmann, en ég get spilað. Vildi svo gjarna geta gert þetta allt, en það er ekki á allt kosið í henni veröld.--- Hér á Höfn, eins og allsstaðar eru listakonur sem prjóna eins og enginn sé morgundagurinn og ég horfi bara öfundaraugum á afraksturinn og nýt góðs af þegar flott flík hentar mér. ---Norðurljósablús, hinn árlegi var haldinn á Höfn þessa helgina og var blúsað í öllum hornum. Ég er bara ekki nógu hrifin af þessari tegund tónlistar til að sitja kvöld eftir kvöld og hlusta því þá langar mig bara að heyra gamlan og góðan vals. En maður er manns gaman og fjöldi manns skemmtu sér vel og allsstaðar nánast fullt útúr dyrum. Ég hef oft furðað mig á hvað mikið er í boði hér í sýslunni, og það allan ársins hring. Byggðarlagið er ekki mjög mannmargt, en ef þú vilt hefurðu úr svo miklu að moða að vandinn er að velja og hafna, þannig að þetta getur kallast lúxusvandamál. Ef vandamálin væru ekki stærri en þetta yrði lífið auðvelt. ---- Er á fullu við að læra að spila "gömludansa" músík, er sko altso komin í "band", karlakóraband! Karlakórinn ætlar að halda gömludansaball bráðlega, og gera allt sjálfir nema náttúrulega að dansa. Aðrir verða að sjá um það. Þetta verður bara gaman, en ég vildi að ég væri svolítið svona örlítið meira þannig séð á píanóinu! Það er ekkert gaman að hlusta á ferkantaðan gömludansaspilara. Ok, æfingin skapar meistarann, en þeir í Tónó kenndu ekki svona húllumhæ í den tid. Lífið er gott, veðrið spillir ekki þessa stundina og innan tíðar kemur Tjaldurinn í fjöruna fyrir neðan Tónskólann. Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.