sunnudagur, 23. desember 2012
Þorlákur í blíðu.
Veit ekki alveg hvort minn kæri nemandi verður hress með þessa mynd, en ég tek því þá bara. Yndisleg stund í kirkjunni í dag hvar við spiluðum fjórhent jólalög. Þessum unga manni hef ég kennt frá því hann var smágutti, í dag er hann í framhaldsnámi en nú skilja leiðir. Hann fer á vit lífsins í útlöndum, en ég veit líka að ekkert af náminu og samvinnunni verður tekið frá okkur.--- Í gær var hér á Höfn heilmikil hátíð, vígsla á Bárunni, nýja knatthúsinu sem góðir menn gáfu samfélaginu hér. Eiga þeir heiður skilinn því þeir eru heiðursmenn. Þar var bigband og karlakór ásamt stuttum en innihaldsríkum orðum góðra manna.--- Skötuátið í dag hjá vinum klikkaði ekki og í kvöld enduðum við svo Þorlák með söng í búðinni okkar. Stemningin hér í litla samfélaginu mínu er engu lík, og samheldnin mikil. Það er gott að fara inn í jólahátíðina með blíðuna í hjartanu. --Ég vildi svo sannarlega hafa litlu fjölskylduna mína hér, en það verður bara seinna. Nú fer "kötturinn" í kokinu að gefa eftir, aðventan liðin og tárin hjá okkur mæðgum að þorna. Allavega svona dags daglega! Á morgun (aðfangadag) ætla ég að dunda mér við rjúpurnar og hugsa fallega.--- Ég óska öllum gleðilegra jóla- og ánægjustunda með ykkar fólki þar til næst.
laugardagur, 8. desember 2012
Aldur?
Mér finnst gott að fara svona eins og einn blogghring áður en ég skríð í bólið. Gaman að fylgjast með hvað fólk er að bardúsa án þess að nokkur forvitni sé í gangi. Netið er jú alnet. Fyrir alla ekki satt? Las á hring mínum um netheima áðan stadus frá yndislegum "gömlum" nemanda mínum hvar hún sagðist hafa þurft að sýna skilríki í ÁTVR. Í þessu tilviki myndi ég segja að það væri hrós, og vera glöð með það. Á ferð okkar bestimanns til Svanfríðar minnar í sumar þá fengum við okkur í gogginn á JFK flugvelli. Við vorum með sitt hvora samlokuna, ég með bjór en bestimann með kók. Þegar þjónninn kom með drykkina bað hann mig um skilríki:) Eftir þriðjastigs yfirheyrslu hjá Ameríkönunum á mér við komuna til landsins þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að fíflast og fara að hlæja. "Ég er 61. árs" sagði ég sisona, og brosti undurblítt. Neibb....passann takk sagði sá ungi maður graf-alvarlegur. Mér var ekki hlátur í hug og langaði helst að segja honum að hella þessu andsk....öli í vaskinn, sýndi passann en naut ölsins alls ekki. Asnalegar reglur sem fáir skilja. Hvernig skyldi þetta fara fram í Arabalöndum? en segi eins og konan: Hvað veit ég? --- Nú hefur bæst við jólasveinadýrðina hér á Hólabrautinni, og er ég eins og lítil stelpa í dúkkuleik. Ein elskuleg bloggvinkona er nýkomin heim úr heljarinnar mikilli ferð út í hinn stóra heim. Hvað gerðist? hún sá jólasvein (altso styttu) sem henni fannst passa við mig, keypti hann og nú trónir hann í heiðurssessi. (Hvað eru mörg ess í því?) Aðventan er yndisleg, ég er meyr, sakna litlu fjölskyldunnar í stóra bláa húsinu, ég spila rassinn úr buxunum, syng og spila jólalög með nemendum, baka alveg fullt af kökum sem þykja alveg hryllilega óhollar og nýt alls þess sem lífið færir mér þar til næst. Og farið svo vel með ykkur.
sunnudagur, 2. desember 2012
"Að gláta bala pínulítið"
1. sunnudagur í aðventu, og þá hefst biðin og jafnvel "gláturinn". Þetta með "glátinn" er svolítið sætt. Þegar bestimann var pínupons var stóra systir að passa hann. Foreldrarnir skruppu aðeins frá, og stóra systir alveg manneskja að sjá um snáðann. Alltaf verið mikil til allra dásemdarverka. Bestimann fór að gráta og stóra systir tók hann og ruggaði honum. Þið vitið, svona fram og til baka í fanginu, sussaði og söng. Alltaf grét snáðinn meir og meir, og þetta voru orðin hálfgerð vandræði. Þegar foreldrarnir komu heim sat hún sveitt með þann litla og ruggaði og ruggaði. Aðspurð hvort hann væri búinn að gráta mikið var svarið þetta: Ekki gláta mikið, bala svolítið. Málið var að hún sat upp við vegg og hausinn á mínum bestamanni skall alltaf í vegginn við hvert rugg! Núna er þetta haft að orði þegar syrtir í álinn eða menn eru daprir. "Ætla ekki að gláta mikið" Á aðventunni á ég það til að gráta við hin ýmsu tækifæri, en það er nú ekki mikið né merkilegt...bara svona vellíðunargrátur þar sem maður saknar þeirra sem ekki eru hjá manni. Sorglegra er það nú ekki. ----Búin að spila "dinner", á gömludansaballi og við tendrun jólaljósa á bæjartrénu, og spilaði ásamt öðrum fjórhent jólalög á jólamarkaði okkar Hafnarbúa. Þetta er bara skemmtilegt, og í gærkvöldi dundaði ég mér við að setja upp nokkra af sveinkunum mínum.Ég var eins og smástelpa í bleikri dúkkubúð þegar ég sá ofaní kassann....jebb... og Jesú og María eru komin á nótnaskápinn og flotti flygillinn sem spilar eitthvað fínt er kominn á sinn stað. Mikið hvað maður getur verið mikill labbakútur.--- Finnst ykkur ekki neðsta myndin töff?. það finnst mér, og farið vel með ykkur þar til næst. Ps. ég á miklu fleiri sveina...nananabúbú!
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)