mánudagur, 27. september 2010

Dag skal að kveldi lofa

Það eru forréttindi að vakna hress á hverjum morgni, sem segir að maður er lifandi. Ég var alveg lifandi í morgun er hef þó vaknað hressari. Matarboð með kærum vinum og mikilli spilamennsku getur tekið á. Þrjár nikkur í gangi og flygill, ekki veitir af fyrir þá silverboys. Músíkin myndi sennilega ekki hæfa Hörpunni, en dugir vel með góðum vinum. Ákvörðun um Tenerifeferð tekin á milli spilapása, því ekki þýðir að safna endalaust í sjóð og sauma svo vasa á líkklæðin þegar þar að kemur. Silverboys eru fermingarbræður og eiga allir afmæli í febrúar. 60. afmælið þegar fara átti í ferð komu ljótir kallar og settu landið á annan endann, svo við fórum hvergi. Sjóðurinn stækkar og við förum í febrúar. Eftir það verður aftur byrjað að safna fyrir gönguferð um Laugardalinn, því þá verða allir orðnir svo voðalega fúnir fyrir Nepalferð. Bara gaman að þessu. Næsta ár verðum við bestimann því dálítið á faraldsfæti. Tónleikaferð til Kanada og þaðan í lítið blátt hús. Þá verða allir fjölskyldumeðlimir heima og það veit sá sem allt veit að þá skal verða kátt í blárri höll. Það er nefnilega þannig að þar sem hjartarými er nóg er húsrúm fyrir alla. Það er svo ósköp einfalt. Dagurinn í dag átti að vera náttbuxnadagur og lestrarstund án matargerðar, ákveðið fyrir löngu. Neibb, tveir af Ástralíuviðhenginu birtust hér nánast óforvarindis, þannig að náttbuxurnar viku fyrir huggulegri klæðnaði og bókin lá óhreyfð. Borðum dýrindismat annað kvöldið í röð, en slepptum músíkinni. Andfætlingar kunna ekki á svona huggulegheit. Nú býð ég góða nótt með ljúfusum yfir þar til næst

miðvikudagur, 8. september 2010

Látið´ða ekki fara lengra.

Einu sinni gerðist ég þjófur.... en nota bene, ég var bara fimm ára. Í bókabúðinni í Hlíðunum var svo falleg dúkkulísubók ofan á glerborði, og hún freistaði mín. Komst klakklaust með hana heim og sýndi mömmu. Hún varð nú ekki par hrifin sú fróma kona.-- Skrýtið--- eða hvað? Í stuttu máli, við mæðgur löbbuðum í téða búð, ég látin skila dásemdinni og einnig til að biðjast fyrirgefningar. Enginn eftirmáli varð af uppátækinu, en ég gleymi þessu aldrei. --- Í dag komast menn upp með að stela og það drjúgt. Þurfa ekki að skila góssinu, hvað þá að biðjast afsökunnar. ( Mér finnst þó afsökunarbeiðni ekki eins sterkt og að biðjast fyrirgefningar). Mér er eiginlega allri lokið þessa dagana. Það er sama hvar drepið er niður fæti, allsstaðar er spilling og óheiðarleiki. Ég er ekki að tala um hinn venjulega Jón, því hann bara vinnur og reynir að láta allt ganga upp. Það eru HINIR sem ég fjargviðrast yfir án þess að halda lengri ræðu. Einnig virðist allt vera grín nú á dögum. Borgarstjórar Reykjavíkur hafa einatt verið í fréttum dagana langa gegnum tíðina, en nú ber svo við að núverandi stjóri er ekki spurður eins né neins. Kannski er það vegna þess að enginn þolir að hlusta á öll hikorðin, "grínið," hikstann og þetta allskonar sem vellur uppúr honum. Ekki er hann krafinn um mál OR, ekki um.... ok. Hér þagna ég. Í könnunum er Mr. grín vinsæll meðal landsbyggðarfólks.... halló, er landsbyggðin að grínast líka? Sem hluti af dreifbýlinu er mér ekki hlátur í hug. Ekki yfir neinu sem yfir mig er hellt á degi hverjum af fjölmiðlum. Segi mig sennilega frá öllum fréttaflutningi nema þegar hann er jákvæður. Kíki bara fyrir horn og horfi á það sem er jákvætt en loka eyrum og augum fyrir hinu. Ef það er strútsheilkennið, þá líkar mér það vel. --- Fyrir utan þetta raus gengur allt sinn vanagang hér og verkefnin eru næg. Nótnabunki á flyglinum og skólinn fullur af lífi. Einhverra hluta vegna líður mér betur eftir að hafa blásið hér, en enn og aftur, látið þetta alls ekki fara lengra, því þá veit maður ekki hvað gerist þar til næst.