mánudagur, 27. júní 2011

Ósár og sæl.

Ekki þýðir að segjast ætla að skrifa sig frá hlutunum og gera það svo ekki. Kanadaferðin var alveg ógleymanleg, og ég kom ekki söm heim. Veikindi mín létu ekkert á sér kræla og var ég ótrúlega hraust og heppin með sjálfa mig. Gott ef mér bara líkar ekki við mig! ---Tónleikar okkar tókust mjög vel og segi það enn og skrifa: Ég þekki ekki eins sterka liðsheild og karlakórinn Jökull er. Hef ferðast með þeim í 36 ár, og aldrei neitt komið uppá sem spillir tilgangi ferðanna eða vinskapnum. Ég vissi að Íslendingar í Vesturheimi halda í gamla landið með margs konar hætti, en að mér dytti í hug að upplifa það svona sterkt. Að hitta 3ju kynslóð landnemanna og heyra þá tala á nánast lýtalausri íslensku kom virkilega við hjartað í mér. Skil ekki hvernig fólkið komst af á þessum endalausu sléttum með tvær hendur tómar, kunni ekki að yrkja landið, mállaust og allslaust. Svo erum við varla talandi nema að sletta og ælandi hikorðum út og suður! Flugum út og heim með litla appelsínugula fuglinum, og það er ekki gott til afspurnar. 6 klst. seinkun á heimleiðinni og var ég því orðin harla úldin. Inngjöf morguninn eftir, en þrátt fyrir mikla þreytu var dokski voða ánægður með mig og mín gildi. Hef svo gott gildismat sjáiði til. Myndin sem fylgir þessu bloggi sýnir okkur bestimann uppstríluð í konsertfötum og með regnhlíf sem ég fékk að gjöf eftir tónleika. ---Ósköp venjuleg mynd, en tek ég fram að kjóllinn minn er sko Design from Dior. Þannig er nú komið að þessi annars fínu föt urðu eftir í fataskáp á hóteli okkar í Winnipeg! (vonandi hanga þau þar ekki lengur) Hver gleymdi? Nú það veit ég ekki, en sá sem er orðinn meira en sextugur í karlkyni verður að skrifast fyrir þessu. Nú eru hinir og þessir vonandi að redda Diornum og dressi bestimanns. -- Nú ætla ég að njóta þess að vera til og eins hraust og hugsast getur. Hef ekkert orðið veik, og asnalega tímabilið gengur yfir á 4-6 dögum. Eftir næstu inngjöf verð ég hálfnuð með lyfin. Allt líður þetta. Nú er bara að vona að allt gangi fljótt og vel hjá litlu fjölskyldunni minni vestanhafs, þar eru allar bænir mínar. Ég vildi óska að ég gæti einhverju ráðið, þá er ég að tala um það sem ekki er hægt nema í draumum. Enginn á að fá krabbamein fyrr en vel fullorðinn. Hljómar asnalega, en vel fullorðin manneskja hefur lífsreynsluna og langt líf að baki. Ég læt þessa setningu standa þar til næst.

laugardagur, 11. júní 2011

ha ha!Las í rólegheitum Fréttablaðið með mitt fína höfuðfat....Þessi náungi fyllti út eina síðuna og ég er enn að hlæja, og þannig ætla ég til Kanada, en með annarskonar höfuðfat. Ha ha þar til næst.

miðvikudagur, 1. júní 2011

Veit ekki....allt mögulegt.

Skipað gæti væri mér hlítt, og mér var bæði hlýtt og hlítt þegar myndin atarna var tekin. (Ástkæra ylhýra og allt það) Þar sem engin hafði áhuga á skrautlegu orðunum úr síðasta pistli ætla ég ALDREI að upplýsa hvað þau þýða! -- Þetta með málið, hef bæði heyrt gos sett í margföldun þar sem útkoman varð gös, og heyrði konu tala fjálglega á öldum ljósvakans um menningararf.... sem varð að menningarörfum! Er ekki með tuð og tuldur, bara datt þetta svona í hug í þessum "töluðum" orðum. Svo get ég endalaust pirrað mig, en jafnframt brosað þegar íþróttafréttamenn og iðkendur "allskonar" eru að lýsa gangi mála. Fyrir leik, og eftir að hafa tapað leik, nú eða unnið með jafntefli! Hvaða vit hef ég á svosem á svona uppákomum. -- Af mér er annars allt gott að frétta, og hafi ég haldið að ég væri gerð úr afgöngum er það sannast sagna alrangt. Ég er greinilega sterk bæði andlega og líkamlega. (Ok, þrátt fyrir hnén) Mér hefur ekki orðið flökurt og þaðan af síður gubbað. Að vísu geng ég í gegnum asnalegt tímabil í sirka 3-4 daga, en það er varla til að kvarta yfir. Svefnleysi og lopabragð í munni angra mig mest. Lopabragðið gengur fljótt yfir en svefninn er ferlega skrykkjóttur, en hef ákveðið að láta það ekki á mig fá. Það er enginn sem rekur mig á fætur klukkan 7 á morgnana, og ef ég á vonda nótt þá bara sef ég þegar Óli lætur sjá sig. Hafi ég lært á lífið þegar ég átti í sem mesta basli með að halda hnjánum þokkalegum þá held ég að nú sé ég komin með meistaragráðu. Ég er nefnilega ekki í þeim forréttindahópi sem ég hélt ég væri, ég er ekkert endilega búin að fá minn skerf af lífinu, ég er mannleg, ég er breysk og get djöflast út í almættið fyrir vonda meðferð. Ég er núna eins og svo oft áður búin að sjá að ég er þrátt fyrir allt forréttindapía sem glímir við nokkurnskonar lúxusvandamál. Ég er ekki að gera lítið úr því sem ég /við erum að ganga í gegnum, en ... það eru svo margir, svo margir sem hafa það milljón sinnum verr en ég. Það læknar mig að vísu ekki, en ég horfi í kringum mig og þakka fyrir það sem ég hef. Þið þarna úti hafið veitt mér mikinn stuðning, og stuðningur er meira virði en margur heldur. --Takk takk. -- Nú er ég að undirbúa mig fyrir tónleikaferð til Kanada, andlega og líkamlega. Á fullt af húfum, skuplum, slæðum og flotta kjóla, og nýjan augnbrúnalit. Hlakka til þegar allt verður í gróanda á kollinum á mér þar til næst.