laugardagur, 30. apríl 2011

Næsta skref

Stórtónleikar í gærkvöldi, og flottir, maður lifandi og nánast fullt hús. Í stað blómvandar í lokin fékk ég svakalega töff húfu. Sé mest eftir því að hafa ekki opnað gjöfina og spilað aukalögin með hið flotta höfuðfat. Get nú státað af einum sjö höfuðfötum sem virkilega slá út hattabilunina í brullaupi nokkru bresku sem vonandi endist sem lengst. -- Sjúkraþjálfan linaði auma vöðva í v.handlegg í morgun og er þetta fyrsti dagurinn í fimm vikur sem ég finn verulegan mun til hins betra þrátt fyrir mikið álag í gærkvöldi. Í morgun tók síðan hárgreiðsludaman mín við mér með sinni yndislegu nærveru og gerði mig gasalega drengjalega til höfuðsins. Svei mér , ég er fín en doldið létt á hoveded. Sumsé, er í stífri aðlögun fyrir lyfjagjöf mánudagsins. Veit ekki "rassgat" hvernig hún kemur til með að virka á frúna, en vona og trúi því út í hið óendanlega að ekkert hér eftir geti orðið eins slæmt og það sem búið er. Er þó ekki að kvarta, en þetta hafa verið djöfullegar vikur, en ég læt ekki bugast. Á morgun ætlum við bestimann á tvenna tónleika....sjáið til...menningarferð í bland við annað. Fóstbræður klukkan "fjégur" og óperan klukkan átta. Þessir yndislegu tenorar eru flottir hver á sinn hátt, en ef þeir ætla að keppa hver nær hæst og með mestu hljóðunum, þá lem ég þá með hækjunum. Get það alveg skal ég segja ykkur. ---Nú er kominn "Össurar"tími á þessi skrif svo hætta ber á stundinni. En hvað gerir maður ekki þegar Óli Lokbrá neitar að kíkja við? Bestimann kom með "frábæra" lausn á dögunum sem mér líst vel á, allavega ef maður er ekki raunsær,,,,,,bara ástfanginn eftir tæp 40 ár. Bestimann langar til að ræna mér og taka mig á eyðieyju þar sem ekkert slæmt getur komið fyrir..... Vitið þið hvar þessi eyja er? --Ég veit hvar hún er....Ætla ekki að segja ykkur núna hvar hún er, en endilega reynið að finna það út. Ég ætla að upplýsa ykkur seinna hvar hún er. Ég á þetta blogg og ræð því öllu hér, líka þeirri eyðieyju hvar bestimann ætlar að planta sér með sinn ránsfeng. Elskurnar þarna úti, ég þarf allan styrk sem þið getið gefið. 2. maí er dagurinn sem ég þarf á ykkur að halda. Þar til næst skal menningin blómstra og við bestimann ætlum að lifa lífinu lifandi þar til næst.

föstudagur, 22. apríl 2011

Að kvöldi dags.




Þrátt fyrir allt náði ég að klára tónleika með Gleðigjöfum og Stökum Jökum, þau skiptu með sér tónleikunum. Á þessum myndum sjást stakir syngja með mínum mönnum úr Gleðigjöfum, svo tökum "við" stakir lagið uppá við og erum vinir. Sveinar kátir og allt það. Ég var alveg 100% á því að reyna að klára þessa tvo hópa mína með tónleikum, og það hófst. Var í raun góð æfing fyrir tónleika karlakórsins sem verða í næstu viku, því þar þarf ég að taka nokkra góða spretti á píanóinu. Hef þó ekki alveg orku í að sitja við æfingar mjög lengi, en reyni að gera eins vel og ég get. --- Lífið er nokkuð þokkalegt á þessum bæ og vorið er komið. Tjaldurinn vappar í fjörunni, lóan er í stórum hópum á kirkjuhólnum og þrestirnir eru að undirbúa búskapinn hér í garðinum. Hef ekki getað notað skutluna mína núna í nokkurn tíma og er virkilega farin að þrá að nota hana, en þori ekki að offra heilsunni í útivist því lyfjagjöf hefst eftir rúma viku.
Er nokkuð bjartsýn á sjálfa mig eftir að hafa fengið þær fréttir að beinaskanninn sýndi einungis fögur bein! Það var síðasti hræðsluferillinn. "Upp með sálina stelpa saggði ég þá" og við það ætla ég að standa þar til næst.

laugardagur, 16. apríl 2011

Húfur og hattar


Sko, ég er kona sem hef aldrei notað höfuðföt. Í mesta lagi hef ég sett á mig skyggni (ágætt) í mikilli sól á suðurslóðum. Núna er ég sextug og í aðlögun! Það er sko hreint ekkert gefið að mér líki við að nota húfur og hatta. Hvað um það, aðlögunin hlýtur að skila sér. --- Ef þið rekið augun í veggteppið að baki mér, (sem þið komist ekki hjá) keypti ég það fyrir margt löngu af mikið fötluðum listamanni sem bjó í Skálatúni. Horfði smám saman á listaverkið verða til, en það tók langan tíma að klára það. Peysan góða sem ég klæðist er einnig listaverk, og ég sjálf sem manneskja er líka listaverk. Maðurinn er eitt allsherjar listaverk. -- Bíðið bara þar til næst, ég á fleiri húfur!

miðvikudagur, 13. apríl 2011

jamm

Tók stórt skref í dag, og fékk þrjár húfur, fjandi smart barasta. Allavega ætla ég að horfa þannig á þetta. Undirbúningur er af hinu góða tel ég mér trú um og þar sem ég er svo trúuð á sjálfa mig get ég gert allt mögulegt. Líka að vera eins og Florence Nightengale einn daginn, Mary Poppins annan daginn og Greta Garbo þann þriðja. Svo ætla ég líka að eiga túrban að hætti ríkra olíufursta! ----- Í síðustu suðurferð drukknaði minn dásamlegi sími í LGG morgundrykk. Fer ekki út í það nánar, en það er víst hægt að drekkja síma í LGG. Svaraði ekki kosnaði að gera við hann, svo í morgun lagði ég í símakaup. Og það get ég sagt með svo miklum sann að ég veit akkúrat ekkert um fídusuna í þessum græjum. Sá Nokiasími sem nálgaðist að vera eins og sá sem drukknaði fæst ekki í landinu sem stendur, svo þá helltist yfir mig valkvíði, og ekki hafði afgreiðslumaðurinn nokkurn skilning á fötlun minni. Ropaði því þó út úr sér að þessi hérna væri mikið keyptur og þætti góður. Það dugði mér og ég festi mér einn þannig. Spurði mannin hvort þetta væri Nokia........Nei....þetta er LG! Það lá við að ég skellti upp úr. Síminn er flottur, ekki vantar það, en ég þyrfti að fá einhvern í 5 bekk til að kenna mér á hann. ---- Fer í síðustu rannsóknina á morgun fyrir lyfjagjöfina, og verð fegin að fá hvíld frá amstrinu þar til hún byrjar. Sendi ljúfar yfir þar til næst.

laugardagur, 9. apríl 2011

Áfram skal haldið

Enn og aftur þakka ég ykkur þarna úti fyrir stuðninginn, hann er ómetanlegur. --Nú er að halda í næsta verkefni, og það geri ég með bjartsýnina að vopni og þeim styrk sem ég finn allsstaðar. Eftir ótal rannsóknir og viðtöl við teymið er meðferðin ákveðin, og byrja ég í lyfjameðferð 2. maí. Fæ inngjöf á þriggja vikna fresti, og alls verða þær átta. Fjórar fyrstu með dálitlu trukki, en hinar fjórar ögn léttari. 8. ágúst er þá þeim kafla lokið, og sá næsti tekur við. Ég er á fullu að reyna að undirbúa mig andlega fyrir það sem koma skal, þannig að sem fæst komi mér á óvart. Ég hef líka ákveðið að gúggla ekkert eða að reyna að gerast sérfræðingur, og fara ekki eftir rauna/reynslusögum annarra. Þetta hljómar kannski hrokafullt, en það getur enginn sagt mér hvernig mér kemur til með að líða, því hver og einn er sérstakur og upplifir hlutina á mjög ólíkan hátt. Ætla því að leggja allt mitt traust á þá sem eru að lækna mig, og reyna að halda mér eins flott á floti og ég get. Hef fulla trú á mér og mínu teymi og hana nú. ---- Þrátt fyrir allt næ ég að mestu að klára mínar skuldbindingar fyrir vorið. Tónleikar með Gleðigjöfum, Stökum jökum og karlakórnum nást í þessum mánuði, en kennslunni næ ég því miður ekki að klára. Ferð okkar bestimanns í lítið blátt hús frestast örlítið, en vonandi "meika é´ða" í Kanada. Á ljúfum nótum bið ég ykkur vel að lifa, og munum að lífið er of gott til að eyða því karp og vitleysu. Þar til næst.....