þriðjudagur, 30. september 2008

Ljóta vitleysa.

Fer ekki út í þá sálma nánar sem titillinn gefur til kynna. Er bara gáttuð og veit ekki hverju ég á að trúa. ---Þegar ég var lítil stelpa sagði mamma mín oft: sannleikurinn er sagna bestur, því ósannindin komast alltaf upp.--- Mamma mín var nefnilega vitur kona, en það er ekki hægt að segja um marga sem tröllríða nú um stundir görðum og grindum í þjóðfélaginu. Sveiattan barasta. Lífið er annars nokkuð stabílt hér fyrir "eystan", og nóg að gera á öllum vígstöðvum. Heyrði því fleygt á dögunum að hér væri einn á atvinnuleysisskrá, og finnst mér það teljast til tíðinda.--- Sem framhald af síðasta pistli þá er tannsi búinn að gera við brotnu framtönnina svo nú er ég aftur falleg til brossins, og líkist alls ekki Bó lengur. Rótarbólgan á undanhaldi, jaxlinn fer í viðgerð fljótlega, og síminn minn er í höndum fagmanna. (að ég held) Dóttir mín segir stundum að ég skuli frekar fara með hann á leikskólann, þar kunni sko fólk til verka þótt lágvaxið sé! Á móti kemur að ég kann að leggja saman debet og credet, sko í höndunum þannig séð og fengið út þá tölu sem ég vil. Ég get líka skrifað á ritvélar eins og þær voru í den tid og notað kalkipappír! Það ætti að slengja saman ungum og öldnum í meira mæli, þá gætu allir lært eitthvað nýtt.--- Fátækleg voru skrifin þennan daginn, en þar til næst safna ég í sarpinn. Kveðja á alla bæi.

mánudagur, 22. september 2008

Hrakfarir -- gamlar og nýjar.

Titillinn er máske ekki alveg kórréttur, en samt. -- Fyrir fjórum árum fæddist litli snúðurinn minn, hann Eyjólfur, eða þann 20. sept. Hnátan mín bjó þá á Akureyri og var ákveðin í að fæða barnið þar. Ásamt Bert ætlaði ég að vera viðstödd fæðinguna. Fyrir áætlaðan fæðingartíma hringdi hin verðandi móðir um miðja nótt og var þá allt komið í gang. Ég sem sagt rauk af stað með töskuna tilbúna og leist mínum besta helmingi ekki sem best á aðstæður. Þetta gerðist nefnilega of snemma fyrir "rétt" tímaplön. Hvað um það, á mínum fjallabíl brunaði ég frá Hornafirði til Akureyrar. Hafði fram að þeim tíma ALDREI tekið olíu á bílinn úr sjáfsala því bestemand sá um slíkt. Samt gat ég það á Egilsstöðum! Mikið lifandis ósköp var Jökuldalurinn langur, svo ég tali nú ekki um öræfin þar fyrir austan. Til að gera langa sögu stutta þá náði ég vel í tæka tíð, og lítill maður leit dagsins ljós, fallegastur og bestastur! Nóttinni eyddu svo foreldrarnir í hreiðrinu á spítalanum með sínum kút, en ég svaf í íbúð hnátunnar. En mikið hvað hann ringdi! Ég var uppgefin og sofnaði fljótt, en þurfti að um miðja nótt á klósett. Þegar ég steig fram óð ég vatnið, og í minningunni upp í klof. Hvað gerði ég þá? Hringdi í besta helminginn og grátbað um ráð frá Hornafirði, en yndislegir eigendur hússins bjuggu á efri hæðinni, en ég hafði ekki rænu á að leita hjálpar þar. (Ásta og Bensi, ef þið lítið hér við þá segi ég: takk fyrir allt. Ég hafði bara ekki vit á að vekja ykkur) Minn elskulegi bað mig ofur rólega að líta á niðurfallið fyrir framan útidyrnar, jú jú, þar var allt í fári. (kjallari) Laufblöð haustsins höfðu yfirfyllt niðurfallið og vatnið átti því greiða leið inn í íbúðina. Þá byrjaði ballið hjá hinni ofurþreyttu frú. Balar,fötur, handklæði, fægiskóflur, gólf-og borðtuskur---allt var notað. Veit ekki hvernig ég fór að þessu, og alltaf með hinn helminginn á eyranu. Í dögun voru gólfin þurr, en allt annað blautt og Eyjólfur svaf í faðmi góðra foreldra. -- Allt fór þó vel og ég er stolt amma tveggja snúða. ---Ég var líka viðstödd fæðingu Natta, en þá gegnum síma, þökk sé tækninni.--- Hrakfarirnar í dag eru: Rótarbólga og penesilín, brotnaði úr framtönn í kvöld og gemsinn minn skiptir um hringitón sí og æ, þannig að ég veit aldrei hvort ég á hringinguna eður ei. Það bjarta í þessu er að tannsi tekur mig í fyrramálið og Martölvan sér um gemsann. Penesilínið verður bara að fá að njóta sín um stund, en þar til kveð ég þar til næst.

miðvikudagur, 17. september 2008

"Klukk" í belg og biðu.

Ég var klukkuð af dóttur minni, en til gamans má geta að hún veit öll svörin. ---Bíómyndir: Svanfríður mín, þú veist að ég elska bara Tónflóð! Fyrir hina sem ekki til þekkja hef ég ekki farið í bíó síðan Karlakórinn Hekla var sýnd, og fékk ég mér þá popp og kók! Sem unglingur sá ég þó mynd sem ég gleymi aldrei. Hún heitir að mig minnir, Days of wine and roses. Alveg mögnuð. ---Sjónvarpsþættir, og það fjórir, úff. --Nágrannar til nokkurra ára, en spaugstofan og útsvar eru algjört "must".-- Hef farið víða um dagana í frí og upplifað margt skemmtilegt. (tónleikaferð um Ítalíu fyrir margar sakir kemur fyrst upp í hugann á þessari stundu. Skrifa kannski um hana seinna.) ---Les mikið: Allt önnur Ella er góð bók, Guðmunda söngkona, Strokið um strengi og fleiri og fleiri. Ég tala nú ekki um allt safnið hennar Guðrúnar frá Lundi. ---Kíki á hornafjörður.is + dagblöðin og allur matur er góður! Ég elska "gamlan mat". Saltkjöt og baunir, hakka í mig súrmat, og hrogn og lifur er sælgæti. Mér hreinlega finnst allt gott nema hafragrautur og brauðsúpa. ---Þá er komið að því síðasta: óskastaðurinn NÚNA er litla bláa húsið í Cary, og það fjórum sinnum. ---Sl. vika hefur verið skemmtileg. Kennarar í Tónó fóru í óvissuferð á föstudaginn var og skemmtum við okkur konunglega. Spiluðum við þjóveg eitt undir jöklum í yndislegu veðri. Ég fullyrði að "blessuð sértu sveitin mín" hafi aldrei hljómað eins vel og þarna. Eftir upphitun við þjóðveginn spiluðum við fyrir 140 kýr+ kálfa í nærliggjandi hjarðfjósi. Ég hef alltaf haldið andlitinu við spilamennsku þar til þá, ég hélt ég myndi deyja úr hlátri, og var ekki ein um það. Kálfur einn dásamlegur baulaði, en var þó auðvitað ekki að baula okkur niður, bara að láta í ljós ánægju sína, ég er viss um það, en þá varð allt vitlaust í fjósinu og allar þessar kýr settu upp halann, bauluðu kálfinum til samlætis og tóku einn góðan hring. Við hættum öllum músíktilraunum, en um leið og tónlistin fjaraði út hættu kusurnar að dansa. ---Þær semsagt elska tónlist.---(veit fyrir víst að nytin datt ekki niður) Eftir flottan mat á góðu sveitahóteli og eftirrétt á næsta bæ þar sem framleiddur er gæðaís var gott að skríða í bólið, og það með hina bestu lykt sem hægt er að hugsa sér. Lykt úr tónlistarhjarðfjósi! Þar til næst.

fimmtudagur, 11. september 2008

Útlitsdýrkun

Takk fyrir góð tölvuráð, og ég hef ákveðið að henda tölvunni minni ekki út í horn, en ég ætla að læra betur á græjuna með góðra manna hjálp. Eitt hef ég þó mér til málsvarnar: ég opna aldrei óþekktan/duló póst, því í verunni er ég afar varkár kona, svo varkár að það jaðrar við fötlun. Ég er bara klaufi, en er þó öll af vilja gerð að gera betur. --- Það er ýmislegt sem ég læt fara í pirrurnar á mér, hvar svo sem þær eru.-- Sat á læknabiðstofu á dögunum og fletti tímaritum. Þau eru full af aðferðum til að líta betur út, hvernig þú átt að klæða þig, hvernig þú átt að mála þig, hvernig þú átt að halda í ástmanninn/makann og bara nefnið það. Í mínum augum heitir þetta útlitsdýrkun, og allir eiga að vera svona og svona til að funkera í lífinu. Fatnaður og húsbúnaður skiptir þarna töluvert miklu máli líka. N.B. þetta sem ég las er einvörðungu fyrir konur. Kannski eru til álíka tímarit fyrir karlpeninginn þó ég hafi ekki séð þau. Mikið finnst mér þetta vond skilaboð til þeirra sem ekki treysta á sitt eigið sjálf og halda að með þessu öllu sé lífshamingjan fundin. Á 57 árum hef ég marga hitt og mörgum kynnst og hefur útlit ekki skipt nokkru máli í því sambandi. Ég er mjög hávaxin og grönn, hef átt vini sem eru litlir og búttaðir og hef átt svarta vini og asíska, sköllótta og rauðhærða. Enginn er eins, þannig er mannflóran, og hefur hver maður sinn sjarma. Ég vil meina að fólk þarf ekki að vera hávaxið með ljóst hár og pakkaútlit til að vera fallegt.--- Einu sinni átti ég kisu sem var flott, og læt ég (gegnum Ameríkufarann) fylgja nokkrar myndir af henni teknar yfir 12 ára tímabil. Krúsa var EKKI há grönn og ljóshærð, þurfti ekki öll kisuúrræðin til að verða einn flottasti og með þyngriever”. Hún varð 10 kíló og mikið elskuð. Þar til næst Brói og Krúsa leika samspil


sunnudagur, 7. september 2008

tölvunörd?

Heil og sæl öllsömul. Það er ekki alveg svo að ég sé pennalöt, annað kom til. Fyrir rúmu ári tók tölvan mín uppá því að frjósa, þrátt fyrir gott hitastig í húsinu! Stundum var allt í lagi, en svo komu dagar sem allt fraus nánast í hel. Ég var orðin nokkuð lunkin við að bæta ástandið með því að slökkva á henni og "ræsa" hana aftur. Gott mál...en bara stundum, og ekki gerði ég svosem neitt í málunum. Hélt bara að ef ég styngi hausnum í sandinn þá hyrfi vandamálið. Í fyrri viku gekk þetta vandamál svo langt að besta helmingnum var nóg boðið og arkaði með gripinn undir armkrikanum til meistarans. Þar sem tölvan er samskiptatæki við fjölskylduna í litla bláa húsinu var brýnt að leysa málið snöggt og örugglega. Meistarinn hringdi og tók að spyrja mig hinna skringilegustu spurninga: Hvernig var vírusvörnum háttað, hvenær tók ég til í gripnum síðast og bla bla, en þegar stórt er spurt verður nefnilega fátt um svör. Ég hef alltso alls ekki gert neitt af því sem meistarinn spurði um. Ég á þennan grip, tek á móti pósti, sendi póst, tala við Ameríkufarann og punktur! Ég tek til heima hjá mér, en enginn hefur sagt mér að ég þurfi að TAKA TIL í tölvunni, eða hvernig á að gera það. Í skólanum vinn ég í tölvunni þegar ég þarf, en þar eru aðrir sem sjá um þessa svokölluðu tiltekt. --- Jamm.--- Meistarinn fann tugi vírusa í gripnum mínum, og TÓK TIL. --- Hallelúja, og málið leyst.--- Eða það hélt ég, en hún frýs enn. Þó er hitastigið vel yfir 20 gráðunum! Nú er bara að krossa fingur og sjá hvort þessi texti skilar sér á veraldarvefinn. En ég veit að meistarinn reddar þessu ef hægt er, en ofaná allt annað þarf ég að læra að taka til í þessu leiðindarapparati. --Tæknin er góð, en getur valdið höfuðverk hjá þeim sem eru tölvufatlaðir, og það er ég svo sannarlega. Hækjurnar mínar eru hjóm eitt miðað við þessi ósköp!---Vikan sem leið var góð í kennslunni og virðist sem stundataflan standi því enginn hefur kvartað, og held ég því ótrauð áfram. Kórastarfið er að detta inn á næstu dögum og fer því vetrarrútínan að rúlla eins og hún hefur gert síðustu 30 ár eða svo. Mér líkar reglulegt tempó.--- Kæru bloggvinir, annaðhvort læri ég almennilega á tölvuna eða hendi henni útí horn. Tölvunördinn kveður þar til næst.