föstudagur, 24. maí 2013
HANSÍKOTI!
Ég vil þakka ykkur kæru vinir góðar kveðjur mér til handa. Nú er ég vonandi farin að sjá fyrir endan á þessu ferli sem hefur staðið yfir í rúm tvö ár. Til að segja söguna eins og hún er get ég ekki fengið uppbyggingu á nýju brjósti, skömm sé geislunum. En, minn frábæri læknir lagaði því mitt eigið brjóst og gerði mig eins góða og hægt er. Böggull fylgir þó skammrifi, ég var sett í kot, kot sem er mig lifandi að sjúddirarirei! Var búin að heyra sögur af koti og leist ekki á. Núna er ég hinsvegar komin í 6 vikna kot nætur og daga. Má taka það af til að sturta mig, spurning um að dvelja bara undir bununni. Þegar ég var lítil var bannað að blóta, pabbi þoldi nefnilega ekki ljótan munnsöfnuð. Ég bölvaði þessvega aldrei, hvorki heima né heiman. Hinsvegar lærði ég hjá bróður mínum að segja Hans í Koti mjög hratt, og þá varð úr það orð sem ég vil segja um kotið þessa dagana. ----Núna er ég verulega farin að bíða eftir Ameríkuförum, verð að láta tímann líða hvort eð er. Það er því fullt dagsverk að bíða eftir þeim. ---Vorið er komið, allt orðið grænt, rósirnar dafna, nýr sólpallur kominn og ég horfi á þetta alltsaman og stjórna því sem ég get og fæ að stjórna þar til næst.
föstudagur, 3. maí 2013
Tæknivangaveltur í einu orði.
Ég get svo svarið það....tæknin og ég fylgjumst ekki alveg að. Ég hef reynt, það veit Guð, en ég held ég gefist upp í því skjóli að ég sé komin á "þann aldur"! Á þó tölvu sem ég vildi ekki vera án og á venjulegan gamaldagssíma sem sumir hlæja að. App er t.d. eitthvað sem ég lét viljandi framhjá mér fara lengi vel, ég tala nú ekki um hinn víðfræga heimabanka. Kemst ekki hjá því lengur að "ignora" þetta, en svei mér þá, ég strögglast enn við. ( Hef nefnilega yndislegar bankakonur hér í bæ sem sjá um mín mál. Til þess eru þær þessar elskur!) Sko...ég á ekki svona síma sem er nánast fastur við hvern mann, síma sem gerir allt...ef þú kannt á hann. Ég hræðist svoleiðis tól. Ég t.d. vil geta farið í strætó án þess að fletta öllum leiðum upp í einhverju appi, ( fer sjaldan í strætó) pantað mér leikhúsmiða í gegnum síma og svo margt annað sem hefur með mannleg samskipti að gera. Nota bene, ég er komin á fallegan aldur og má því ýmislegt. Nóg um það. 40 ára afmælistónleikar eru búnir, óperusöngvarinn kominn og farinn, prófin í skólanum byrjuð og Gleðigjafarnir sungu á hádegistónleikum í dag. Á morgun förum við í söngferð, tvennir tónleikar og ball á eftir. Jawell, eins og karlinn sagði. --- Eftir tónleikana 9. maí keyri ég "söður" og býð eins og fyrr í kaffi þann 10unda handan við búðina góðu. Ef ég er ekki þar fyrir einhverja slysni þá dugar kannski að hringja í þrjár stuttar og eina langa eins og heima á Gunnlaugsstöðum þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)