fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Hver les á?

Það þýðir víst lítið að blogga ef maður sinnir því ekki, en hér er ég öllum væntanlega til mikillar gleði! Tíminn líður og aðventan handan hornsins. Ég er jólabarn, og ef eitthvað er eykst það með árunum. Þrátt fyrir miklar annir tónlistarmannsins á þessum tíma vil ég halda í gamla siði, siði sem hafa fylgt mér frá barnæsku. Milli mjalta og messu VIL ég baka, þrífa og gera fínt, en næ þó ekki alltaf þessum markmiðum. Hvað um það, ég er þó búin að baka þær litlu og sætu, og ætla ég að finna mér tíma til að baka randalínur og brúna með hvítu! Jólapakkarnir fullir af gulli og gersemum eru farnir til Ameríku og alla leið neðst á hnöttinn.-- Í minni barnæsku voru reglur og jólasiðir í hávegum og það eru góðar minningar. Ekki man ég hvað ég var gömul þegar ég fékk að sofna á eldhúsbekknum rétt fyrir jól af því að mamma var að leggja síðustu hönd á jólakjólinn minn. Eitt hef ég þó aldrei skilið. Eldhúsgólfið heima var alltaf tekið í "nefið" á Þorláksmessu, og eftir þá aðgerð var blöðum dreift yfir til að halda því hreinu! Halló.... við bjuggum ekki í torfbæ! Í minningunni skautaði maður á blöðunum fram undir fimm á aðfangadag. Pabbi skreytti alltaf jólatréð og svo var stofunni læst þar til stundin rann upp, en við reyndum að kíkja á dýrðina gegnum skráargatið, alltaf án árangurs. Eftir matinn og mikla bið var komið að því! Pabbi las á pakkana en ég skottaðist með þá til réttra eigenda, það var mikið hlutverk og vandasamt. Hver fjölskyldumeðlimur opnaði einn pakka og allir skoðuðu gjöfina, og svo koll af kolli. Þetta var því langt kvöld og yndislegt sem lauk með bókarlestri í tandurhreinu rúmi. Svona vil ég hafa þetta enn þann dag í dag. Að vísu set ég ekki blöð á eldhúsgólfið og Brói sér ekki um jólatréð, það gerðum við mæðgur. Á síðustu jólum skreyttum við Eyjólfur Aiden jólatréð og var mér nokk sama hvar á greinarnar skrautið var sett. Svanfríður las á pakkana eins og í gamla daga og Eyjólfur skottaðist með þá. Allt í einu áttaði hann sig á því hvernig þetta fór fram og hóf sjálfur lesturinn... það var skondið...ótalandi maðurinn.... þannig að ég spyr ykkur nú... hver á að lesa í ár? Á Brói að lesa og ég að skottast, eða öfugt? Þetta verður snúið, það segi ég satt. Þakka þeim sem lásu og passið ykkur á myrkrinu.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Vor vikulegi...

Heil og sæl öll í bloggheimum. Tíminn líður svo hratt að ég veit vart hvert hann fer. Í fjöldamörg ár hef ég t.d. alltaf verið búin að baka jólasmákökurnar á þessum tíma, en núna...úpps...tíminn hefur farið í annað, svo núna finnst mér ég eigi að fá kvíðakast yfir bakstursleysinu. Held þó að það sleppi, jólin koma, og ég kem til með að eiga nóg að bíta og brenna. Mest um vert er að geisladiskurinn er kominn í vinnslu og jólapakkinn í litla bláa húsið fer á næstu dögum, og hann er fullur af gulli og gersemum. Mér rann það svoooooo til rifja að heyra um bókarleysið hjá æðstasnúð að það fór allt á fullt að redda málum. Á Hornafirði er ekki bókabúð, bara "sýnishorn" í risaverslun...þoli það ekki....en ég á góða að í Reykjavík. Semsagt,bækur, og fleiri bækur á leið til Ameríku, og þegar við förum út í lok janúar fylli ég flugvélina af bókum! Annars finnst mér dóttir mín vera svo pennafær og oftast með málbeinið í lagi, þannig að henni yrði nú ekki skotaskuld úr því að semja svosem eins og 32 barnabækur. Bæði á íslensku og ensku! --Já, enn og aftur, tíminn líður hratt, svo hratt að allt í einu erum við "gömlu hjónin" orðin alein á jólum. Ég er ekki að kvarta, en hvert flugu árin, eins og mjólkurpósturinn Tevje söng svo fallega? Allavega ætla ég að vera glöð sem fyrr á jólum, og þau byrja ekki í IKEA, þau byrja hjá mér og mínum, og klukkan sex á aðfangadag verð ég meyr, og það er allt í lagi. Nú er ég hinsvegar ekki meyr og kveð því á kórnótum, því æfingin í kvöld sagði mér að allt væri í himnalagi. Með þessum orðum slæ ég botninn úr tunnunni og dríf mig í baksturinn!

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Nú gaman gaman er...

Fyrir ekki margt löngu ákvað ég að segja frá Gleðigjöfum, en það er kór heldri borgara hér í bæ. 1993 tók ég við stjórn þeirra og hef ekki eitt andartak séð eftir því. Það er þó allt annað að stjórna kór eldri borgara heldur en kórum með yngra fólki, maður temur sér öðruvísi vinnubrögð. Í kórnum eru um 36 vel syngjandi félagar sem skiptast jafnt í raddir. Þetta fólk, allflest, hefur sungið í kórum frá því það var barnungt og er því mjög vel með á nótunum, í öllum skilningi. Þau hafa kennt mér margt, þolinmæði, visku og tillitssemi. Það er ekki svo lítið. Frá byrjun hefur fyrrverandi píanónemandi minn, og núverandi tónlistarkennari setið við píanóið og erum við tvær sennilega gamlar sálir, allavega gefa Gleðigjafarnir okkur, á stundum, meira heldur en þeir sem yngri eru. Í þessum hópi er ekki kvartað, varla til í orðabókinni. Þegar frú stjórnandi hefur ákveðið eitthvað er það bara gott. Ég ákvað fyrir tveimur árum að gera geisladisk með söng þeirra, en það fannst þeim í fyrstu algjör óhæfa, en.....Geisladiskurinn er að verða uppseldur og hefur fengið góða dóma. Þau þurfa því alls ekki að biðjast afsökunar á því að vera syngjandi gömul! Gleðigjafar er mjög virkur kór sem hefur innanborðs 7 systkini...á aldrinum..ég veit ekki hvað...en sá elsti er flottur bassi.. níræður! Hvað varðar annað kórastarf hér þessa dagana er mikið í gangi, allsstaðar líf og fjör. Karlakórinn Jökull ætlar að klára upptökur á jóladiskinum næsta laugardag, þannig að ég er búin að fá jóla"fíling" í putta og sál.. Þyrfti að fara að baka smákökur, en er bara farin að safna í jólapakka til litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu í Ameríku... Það er svo gaman....en mest gaman er að,,,,(nú er trommusóló) við ætlum til Ameríku í lok janúar..... Út um gluggann minn núna horfi ég á myrkrið og kyrrðina, og ég held svei mér þá að ég sjái álfa á jörðinni. Þegar stirndi á frosinni jörð sagðist Svanfríður sjá álfa... en þá var hún lítil og hafði skýringar á öllu, og vonandi kennir hún snúðunum að sjá allt sem hún sá með hreinni barnssálinni.... Hlakka til að heyra kvittið..

þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Skipað gæti væri mér hlýtt...

Maður lætur nú ekki mana sig, en kvörtun á bloggleysi barst vestan frá Ameríku. Eyjólf ku hafa langað í pistil, og 6 mánaða bróðir hans tók undir með heljarmiklu awwwwi, hvað svo sem það þýðir. Kannski þýðir það aaafi! ( skýr drengurinn)--- Mér er ennþá ofarlega í huga síðasta blogg dóttur minnar, og held því fast fram sem áður að hún eigi að skrifa...skrifa. Svanfríður er á góðri leið með að "ættleiða" gyðing, og vona ég að henni takist að rita sögu hans á blað svo ekki gleymist. Fyrir mörgum árum var mér lengi samtíma á Reykjalundi maður að nafni Leifur Muller, og kynntist ég honum nokkuð vel. Leifur var fallegur maður en mjög dulur um sitt líf. Ekki vissi ég þá hvað hann hafði orðið að þola á lífsgöngunni. Það var ekki fyrr en bókin um hann kom út að ég áttaði mig á af hverju hann var svona þögull um sitt líf.-- Mér varð orða vant við lestur lífshlaupsins. Hvursu margir eru enn á lífi sem komust úr hildarleik stríðsins? Þarf ekki að skrá sögu þeirra? Ég er ekki að segja að við eigum að velta okkur uppúr eymdinni, en við megum ekki gleyma sögunni , því okkur kemur það við ef einhver þjáist. ---Í dag kveljast milljónir manna um allan heim af ýmsum ástæðum, því miður.--- Ég vildi enn og aftur að ég gæti verið með óskaprik, þá myndi ég...???---Nokkuð er um það hjá bloggurum sem ég "kíki í kaffi" til að gefa upp góðar mataruppskriftir, og sumar hef ég notað. --Takk fyrir það.-- Nú kasta ég gamalkunnri sprengju, og kommentið þið nú!-- Þar sem ég bý í humarbæ kunnum við Hornfirðingar að elda humar á marga vegu.. flottan...gómsætan...vel útlítandi, með þessu bragði, með hinu bragðinum, í skelinni, þar sem hver og einn þarf að brjóta til að verða saddur, og notum puttaskálar og fín handklæði þegar við á.--En best er: Rista brauð og smyrja á það lagi af Gunnars majonesi, (alvöru) raða eins mörgum humarskottum á brauðið og hægt er og þekja svo allan ósómann með enn meira majonesi. Með þessu drekkist blá mjólk, köld. Nú náði ég ykkur, getið þið toppað þetta? Snúðakveðja úr humarbænum.

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Ættin mín svo fríð og fín...Þann tíma sem Svanfríður Ameríkufari hefur búið vestra fæ ég oft myndir "snúðunum" mínum, Eyjólfi Aiden og Nathaniel Noble. Mynd sem ég fékk í dag af Natta hleypti mikilli hreyfingu á blóðið, og fór ég að hugsa.. ég hugsaði mikið um ættarsvip. Þegar ég var lítil stelpa var ég aldrei lík neinum sem ég þekkti, ég var allt öðruvísi en fólkið í kringum mig. Ég var á sífelldum þeytingi milli fólks fram á 5. ár, semsagt ættleidd og síðan tekin í fóstur af mjög góðu fólki. Mömmu og pabba...en ég var ekkert lík þeim. Vinir mínir voru ýmist líkir mömmu sinni eða pabba, nú jafnvel ömmum og helst frændgarðinum öllum. Ég var lítið að spá í þessa hluti þá því ég vissi nefnilega upprunann, en þurfti ekkert á honum að halda. Þegar Svanfríður fæddist vissi ég alls ekki hvort hún var lík mér, og enginn vissi það, en eitt var víst að pabbi hennar átti töluvert í dömunni. Þá fór að vakna hjá mér spurningin um ættarsvipinn, en hvað vissi ég, og þannig liðu árin.( í dag erum við mæðgur taldar mjög líkar) Eftir að ég varð fullorðin fóru hálfsystkini að banka á dyr, og þá hló ég...Í dyrunum á stundum stóð ég, ég semsagt líktist einhverjum. Það var fyndið, en jafnframt skrítin árás á löngu liðna tíð. Fyrir tveimur árum kom í heimsókn hálfsystir mín sem býr í annarri heimsálfu og við höfðum aldrei sést.. Það var skrítið að sjá hana, hún Svanfríður mín var þarna komin! Skrítið þetta með ættarsvipinn. Eftir að hafa skoðað myndina af Natta í dag náði ég gamla mynd af Svanfríði, maður lifandi, þar kemur þessi svipur svo sterkur í gegn...Skyldi ég eiga hann??... Ég held það.... Eyjólfur Aiden var ekki ólíkur Nathaniel á sama aldri, en hann er samt öðruvísi. Þar er greinilega önnur blanda á ferð. Bert á mjög mikið í þeim svip, en einnig Fljótsdælingar, frændur snáðans. Eyjólfur er með skakka tá, og líka afi hans hér...sama táslan! Eyjólfur er flott blanda og yndislegur. Semsagt kæru bloggvinir, Natti er ótrúlega líkur mömmu sinni sem er á þessum gömlu myndum hér að ofan, Svanfríður hlýtur að vera lík mér þegar ég var lítil og ég er mjög lík sjálfri mér!-- Þar til næst, passið ykkur á flensunni.