sunnudagur, 30. desember 2007

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag....

Á áramótum koma þessar ljóðlínur oft upp í hugann, og ég lít yfir farinn veg. Farinn vegur hefur verið góður og vonandi verður komandi vegur jafn góður. Ég ætla alla vega að vinna að því. Jólin að baki og önnur hátíð framundan. Jólin hér á bæ voru yndisleg, en örfáir hafa spurt: hvernig var, þið voruð bara tvö? Ég eyddi jólunum með mínum besta vini, og hann eyddi jólunum með sínum besta vini. Við vinirnir leystum pakkahlaupin í bróðerni, og uppúr pökkunum komu fallegar gjafir gefnar af góðum. Fjölskyldudagatalið úr litla bláa húsinu hitti í mark, og gott ef það er ekki svolítið skemmt af viðtakanda með einu og einu tári, en það bara tilheyrir. Naflastrengurinn slitnar nefnilega aldrei. Það kannski teygist á honum, en hann er seigur eins og lífið. Þegar ég flutti á Hornafjörð fannst mömmu hann vera á hjara veraldar, og var hún þó víðsýn og skynsöm kona. Það tók nefnilega allan daginn að keyra austur á vondum vegum, og við gátum ekki "droppað" í kaffi. Mér fannst þetta ekki tiltökumál, því ég fylgdi ástinni.( einhvern tímann verður sú saga sögð) Nú er ég í sömu sporum og mamma, Svanfríður fylgdi sinni ást og býr í sömu tímalengd og tók okkur mömmu að keyra á milli! Nú eru litlir strákar í spilinu mínu, en þar er ég mömmu fremri, því nú er tæknin....Allt í beinni vegna Skype.....Vegna tækninnar fylgist ég nú með ferðum litlu fjölskyldunnar á ferðalagi í Washington DC. Svanfríður bókstaflega stamaði af áhuga þegar ég heyrði í henni í dag, og er ég orðin jafn spennt og hún af allri upplifuninni, en öfunda þau ekki að keyra sína 15 klukktíma heim aftur. Já kæru bloggvinir, ég þeytist í tíma og rúmi í tilfinningaflóði liðins árs og finnst það gott. Er nefnilega úthverf og líður vel með það. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs með þökk fyrir innlitið. Ég á ennþá nóg með kaffinu, svo verið velkomin sem fyrr. Úr þessu undarlega ferðalagi sendi ég áframhaldandi ferðakveðju... Hittumst heil á nýju ári.....

föstudagur, 21. desember 2007

Dásamlegur grautur....

Kæru bloggvinir, nú er jólapistillinn sem kannski fáir lesa því margt þarfara er að gera þessa dagana en að flækjast um í netheimum. ---Hvað um það.--- Ég er alin upp við jólagraut, þá meina ég sko "risalamang" (ekki rétt skrifað). Ég sem ung nýgift kona innleiddi mína siði við jólahaldið, en þó með góðri blöndu við það sem bóndinn ólst upp við. Í tímans rás eru siðirnir orðnir okkar, en alltaf hefur grauturinn góði fylgt okkur. Meðan mamma lifði hringdi ég alltaf í hana klukkan eitt á aðfangadag og við fórum yfir grautargerðina. Bara svona uppá hefðina. Fyrstu jólin mín án mömmu fór allt í vaskinn og ég brynnti músum, en systir mín kom þá til "bjargar". Maðurinn minn elskar grautinn góða, en dóttir okkar hefur aldrei þolað hann. Hún reyndi ár eftir ár í okkar þágu, en kúgaðist bara. "Get ég ekki bara fengið Royalbúðing" spurði sú stutta, og hefur því öll sín jól í foreldrahúsum fengið sinn Royalbúðing! Ég hef í áranna rás búið til ótalmargar tegundir af eftirrétt á jólum, en ekkert hefur gengið í mitt fólk nema grauturinn góði og Royal! Á síðustu jólum var litla fjölskyldan í ameríska bláa húsinu hér, og sem eftirrétt var ég auðvitað með grautinn og hlakkaði til að sjá Eyjólf smjatta á honum, því hann elskar eftirrétti. Og sjá....hann kúgaðist og bað um "eins og mamma". Þá var fokið í flest skjól. Ég verð að taka það fram að grauturinn góði ER góður! ---Í gær þegar öll jólainnkaup voru búin, og þar með allt hráefni í grautargerð kvað minn elskulegi uppúr með að hann langaði nú bara í Royal!! Halló... en grautinn hef ég á jóladag....Siðir og venjur er greinilega breytingum háð, en ég þoli illa að fara útfyrir rammann.--Geri það þó núna með lambahrygg og Royal og ætla að"fíla" mig royal. Mest um vert er að allir fái það sem þeir vilja helst, ég tala nú ekki um þegar hægt er að veita þeim það. ---Í gær var sett upp vefmyndavél beggja megin Atlandshafsins, svo núna höfum við litla fjölskyldan talað og horft.--Yndislegt.--- Eyjólfur hefur sungið fyrir okkur og Svanfríður gefið Natta að borða, allt í beinni. Í kvöld fór ég enn og aftur að brynna músum þegar Eyjólfur söng, en Svanfríður setti plástur á sárið með gullvægri setningu: "Mamma mín, þetta er alveg að verða búið, jólin eru eftir 3 daga!"--- Þar kenndi eggið hænunni.----Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

mánudagur, 17. desember 2007

Flóð og flæði. Síðan birta.Skrítinn titill en ekki svo vitlaus. Ég hef þann háttinn á að setjast niður og "flæði", en hin undarlega og skringilega veðrátta setur allt á flot. Semsagt, allt á floti allstaðar. Jólin nálgast og mér líður mjög vel, en sakna litlu fjölskyldunnar í Ameríku, er svo úthverf að tárin renna við minnsta tilefni og bæta þannig á allt flæðið sem fyrir er. Minn betri helmingur segir þetta vera heilsubætandi og lengi lífið. Ég trúi honum og leyfi því tárunum að renna þegar þau koma, í þeirri trú að ég verði gömul og hress.( og Birta mín, ég er ekki bomm!)--- Það er annars skrítið hvað þessi árstími hrærir í tilfinningunum, væri ekki gott ef aldrei væru jólin. Þá væri ég örugglega tilfinningalega geld! --Síðasta vika í lífi tónlistarmannsins náði hámarki í gærkvöldi með yndislegum tónleikum.--Þeim stóru, sem segja manni að jólin eru á næsta leiti. Í troðfullri kirkjunni var allt það besta fram borið af öllu því góða fólki sem hér býr og sinnir tónlistinni. Afrakstur tónleikanna renna alltaf til góðra málefna í heimabyggð, og fáir láta sig vanta á slíkri stundu. Það ber að þakka. Næstu tveir dagar fara svo í "skrepperí" með tónskólabörn hingað og þangað um bæinn þar sem jólatónlistar er þörf, og karlakórasöngur hljómar svo á Þorláksmessukvöld í Miðbæ.-- Svo koma jólin.... en enga á ég rjúpuna, og það er skrítið...og ég sakna "ein er upp til fjalla"! Lambahryggurinn kemur bara í staðinn, en ég er ákveðin í að hafa rjúpuilminn í nösunum og þykjast. ---Helví.....refurinn, hann étur alltof mikið, miklu meira en við mannfólkið sem fáum þann hvíta bara einu sinni á ári. En allt gott um það, á einhverju verða þeir félagar krummi og rebbi að lifa. Ekki nægir það sem ég gef þeim af og til. ( þetta má víst ekki fréttast!) ---Í þessu svarta skammdegi, roki og lægðum sem yfir okkur ganga er gott til þess að hugsa að nú birtir brátt.... þess vegna set ég fallega mynd af blómaskálanum hér með langlokunni, vinkonu minni. Eftir tvo mánuði förum við að huga að skálanum og þá verður allt svo bjart. Með þeim orðum sendi ég birtu og yl á alla bæi.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Stekkjastaur kom fyrstur...

Og þá varð allt vitlaust í kotinu, að vísu fyrir margt löngu. Sumsé, dóttirin var skelfingu lostin þegar minnst var á jólasveinana. Fyrir flest börn eru þetta dagar gleði með spennuívafi, en spennan hér á bæ var yfirþyrmandi og skyggði á alla gleðina. Allt kom fyrir ekki, skórinn var á fleygiferð um húsið því ekki ætlaði hnátan að eiga það yfir höfði sér að sjá til sveinka. Um 6 ára aldurinn gáfust allir upp á að tjónka við ástandið, og því fór sem fór. Sveinki setti mjög sjaldan í skóinn, en stundum læddist eitthvað góðgæti í skó mömmunnar sem var í glugga hjónherbergisins, og barst það til dömunnar með ýmsum krókaleiðum. Veit ekki hvað olli þessu, en maður þarf svosem ekki að vita allt og kryfja. Nú fer Stekkjastaur hinsvegar til Ameríku á leið sinni til góðra barna, og vona ég að snúðurinn minn taki vel á móti honum. --Eftir annasama viku og eril í vinnunni finnst mér gott að setjast niður og skrifa mig frá áreitinu...hugurinn tæmist og ég hvílist. Hvað ég skrifa kemur svo bara í ljós...heitir það ekki flæði?..Nú er síðasti spretturinn á öllum vígstöðvum fyrir stóru tónleikana sem verða á sunnudaginn, allir þurfa sitt, en vikan er stundum ekki nógu löng. Þó hefst þetta og allir eru glaðir.--- Ég er glöð, búin að fá jólaljósin upp, þökk sé mínum betri helmingi. Bærinn minn er fallega skreyttur og vildi ég óska að Kári léti vera að feykja öllu til og frá. Ég er mjög vanaföst kona í víðasta skilningi, og smekkur minn er einfaldur. T.d. vil ég hafa allt rautt á jólum, kann ekki á "tískuna". Þó var það svo að ég sá í Reykjavík s.l. janúar yndislegt jólahús með ljósum í. Það var svo fallegt, og ekki skemmdi fyrir helmings afsláttur á dýrðinni. Kassinn var svo settur út í bílskúr við heimkomu. Fyrir stuttu þrábað ég svo betri helminginn að sækja húsið því nú væri sko komið að því að setja það upp. Var búin að finna stað þar sem það nyti sín og hlakkaði mikið til. Bóndinn sótti svo kassann í byrjun aðventu, og sjá......það var ekki hús! Það sem kom uppúr kassafja...... var frelsarinn og öll hans familía + kindur og hirðingjar, allt með blikkandi ljósum og trjágrein uppúr strompinum. Minn elskulegi segir tréð vera í bakgarðinum...en hvernig á ég að átta mig á staðháttum mjög gamallar sögu? Nú voru góð ráð dýr, (ok. þetta var ódýrt) setja upp eður ei? Núna er þetta á nótnaskápnum fyrir allra augum og mér er farið að þykja vænt um "dýrðina". Ætla alltaf að hafa þetta listaverk í öndvegi á jólum héðan í frá, því það hafa mörg orð fallið um dásemdina. Passa mig bara betur næst hvað ég er að kaupa. ---Semsagt, Stekkjastaur kemur í nótt, bæði hingað og til Ameríku. ---Það vona ég að við fáum öll frið og gleði í skóinn í nótt.--- Sofið vært---

miðvikudagur, 5. desember 2007

Ja hérna....

Enn ein vika liðin, og aðventan gengin í garð. Oft óska ég þess að geta bloggað "smá" á hverjum degi, stutt og laggott eins og margir gera með miklum ágætum. Allavega fer ég minn reglulega rúnt á hverjum degi og ætlast til að geta lesið nýtt blogg í hvert skipti. Þeir sem svala minni þörf eiga þakkir skildar, en hvað geri ég svo...kem með langloku einu sinni í viku. Mér er sagt að umferðin á síðuna sé góð, ekki hef ég vit á því, en mér þykir vænt um kommentin. Takk takk. Síðan síðast hefur erillinn verið nokkur, en þó eru randalínurnar, brúnar og hvítar komnar í brúkun, nokkur jólaljós hafa verið sett upp og fríkvöldið í kvöld skilaði dágóðum árangri. Er því í góðum málum...(eins og ég sé ekki alltaf í þeim!) Ein góð bloggvinkona vestur á fjörðum taldi sig hafa farið á nokk rólegan stað vinnulega séð, en sjá...fjörið hjá tónlistarfólki hvar sem er á landinu á þessum árstíma er oft ansi skrautlegt, og hvað þá á litlum stöðum þar sem tiltölulega fáir tónlistarmenn eru.---Ég segi oft, Rudolf hér, Rudolf þar og Rudolf allsstaðar. Þetta er gott og gefur lífinu gildi. Einu hef ég verið að velta fyrir mér.... Hvernig líta bloggvinir út? Suma hef ég hitt en geri mér upp hvernig hinir líta út. Skyldu skrif segja til um hvernig maður er?--- Pæling sem vert er að skoða.--- Ég til dæmis skrifa langlokur, enda 1.80 á hæð! Sá sem skrifar stuttan texta, er hann þá lágur vexti? Æ, þegar stórt er spurt verður lítið um svör...eða er einhver þarna úti sem les í svona hluti? Sumir lesa í skrift, (ekki tölvugerða) í lófa, í augnaráðið og limaburð. ---Lát heyra.---Í samtali í kvöld við dótturina í Ameríku áttaði ég mig á því að við hittumst í NÆSTA mánuði. Ég er sífellt að klifa á því að tíminn sé svo fljótur að líða, en ég er næstum viss um að hann silast áfram frá áramótum til 31. janúar! En núna þýtur hann sem eldur í sinu. Með þeim orðum kveð ég alla þá sem kíkja í kaffi.--Ég á meððí!---