mánudagur, 29. desember 2008

Lufsyslugs..taka þrjú.

Veit ekki hvað hleypur í tæknina, en þetta er þriðja tilraunin við að koma mér út í netheima. Eða þá að ég er rakinn klaufi. Titillinn er lýsandi fyrir líf mitt þessa dýrðardaga. Lufsast um með sælutilfinningu, les, elda góðan mat, narta í eitthvað sem ég hef enga þörf fyrir, hitti vini og fjölskyldu og slugsast hér um húsið á þverröndóttum náttbuxum frá Ameríku. Þurfti þó að fara úr þeim á ókristilegum tíma í gær til að dressa mig upp í tónleikaföt, en var fljót í þær aftur eftir að heim var komið. Semsagt, jólin hafa farið vel í mig, og mikið hvað blessuð rjúpan var góð. Upp úr pökkunum kom mikið af fallegum hlutum, en best var myndadagatalið af snúðunum mínum í bláa húsinu. Ég vil helst að árið líði hratt, því mig langar í fleiri! Eftir 33 jól með mínum bestamann er ég oft í vandræðum hvað skuli nú fara í pakkann hans. Fyrir nokkrum jólum fékk hann hjólbörur og hittu þær verulega í mark. Einu sinni gerðist ég djörf svo um munaði. Fór í Húsasmiðjuna, benti á hjólsög og sagðist ætla að kaupa hana. Fannst alveg upplagt að maðurinn ætti einn slíkan grip. Eitthvað glott kom á afgreiðslumanninn, en mér var ekki skemmt og borgaði hálfan handlegg fyrir græjuna. Ekki gat ég borið dásemdina, en reddaði því. Það var mikið og stórt glott sem kom á minn bestamann þegar honum varð dýrðin ljós. Fékk miklu stærra glott en var á afgreiðslumanninum, en það var góðlátlegra. Græjan hefði sómt sér vel á hvaða verkstæði sem er, og þá erum við helst að tala um alvöru trésmíðaverkstæði! Við skemmtum okkur konunglega yfir uppátækinu, en eitt er víst að ég hef ekki lagt út í verkfærakaup síðan. Um næstu jól set ég sennilega utan um mig rauða slaufu og gef bestamann sjálfa mig um aldur og ævi! Hann er miklu bjartari í þessu en ég og klikkar aldrei. Ég ætti við nánari skoðun aldrei að koma nálægt því að kaupa á mig sómasamleg föt, hef greinilega ekki eins gott auga fyrir þesslags innkaupum. Innan tíðar fer daginn að lengja og þá er ekki svo langt í vorið, en þá ætlum við í bláa húsið. Ef "þeir" halda áfram að rugla í okkur með gengi og krónur hef ég ákveðið að synda, nú eða fara á hjólabát yfir hafið, því út vil ek. Það gengur því ekki að lufsast eða slugsast heldur bretta upp ermar. Ég óska öllum gleðilegs árs og þakka fyrir liðið ár. Með von um frið um víða veröld þar til næst.

Lufsyslugs..

Flottur titill og á við um líf mitt þessa dýrðardaga.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Á morgun...

Hjartans vinir nær og fjær. Mig langar að óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Ég er nú ekki sú trúaðasta, en bið samt góðan guð að gera þessa hátíð góða fyrir ALLA. Nú er Þorláksmessa og ég sit hér með mína þanka. Húsið mitt er fallegt og mikil hlýja hefur verið lögð í að gera næstu daga (og alla aðra) notalega. Ég sakna litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu, en veit að kökkurinn, þessi desember-fiskur hjaðnar aðra nótt. Ég ætla að hafa það gott og hugsa fallega til allra. Jólin eru á morgun, og þar til næst hafið það gott.

laugardagur, 20. desember 2008

Jólasveinar...einn og margir.

Ég elska jólasveina, og þeir eru góðir. Dóttlu minni þóttu þeir ekki félegir í æsku og var þessi tími árs alveg hræðilegur fyrir hana. Það væri efni í dágóðan doðrant að lýsa desembermánuði í lífi litlu stelpunnar minnar. Hún er þó ekki hrædd við sveinana í dag og Eyjólfur elskar þá en Nattilíus er doldið tvístígandi. Enda bara 20 mánaða og er baby að sögn stóra bróður. Stúfur var í augum hnátunnar skelfilegastur! (Halló, Stúfur þessi litli sæti!) Í byrjun aðventu settist Stúfur að í kaupfélaginu, hneigði sig og hringdi bjöllu flestum börnum til mikillar gleði, en lygalaust fór ég bara einu sinni með dömuna í kaupfélagið í desember eftir að sá stutti plantaði sér þar niður. Nú, svo lét persónulega kaupfélagið okkar í minni pokann fyrir stóru og freku gæjunum og Stúfur "týndist". Ekki fyrir svo margt löngu fór dóttla mín í heimsókn til góðrar vinkonu, hafði þá verið í burtu í nokkurn tíma. Yfir notalegu og rólegu kaffispjalli rak daman augun í Stúf, þann erkifjanda frá liðinni tíð, fékk svona "flashback" og varð lítil eitt augnablik. Stúfur fékk semsagt framtíðarheimili og er sínu fólki til mikillar ánægju. Kannski er ást mín á jólasveinum tilkomin frá þeim tíma sem hnátan mín átti hvað erfiðast með að sætta sig við þá. Var alltaf að kaupa einn og einn til að reyna að láta hana sættast við þá. Veit ekki, en ég á 45 sveinka í dag sem ég set um allt hús fyrir jólin!--- Hér á bæ er því mikið hóhó.---Á morgun verða stóru tónleikarnir sem koma Hornfirðingum í jólaskapið og hlakka ég til. Það er lítil hætta á að ég felli tár meðan á þeim stendur því ég verð "réttu" megin borðs. ---Veit annars nokkur þarna úti hvað tárakirtlarnir geta framleitt á aðventunni einni saman? --- Hlýtur að vera gott efni í rannsókn. Allavega, jólin eru að koma og ég óska þess svo innilega að allir geti notið þeirra. Lítum til með okkar minnstu bræðrum. Bjart bros, velvild, mannkærleikur, nokkrar smákökur og kerti geta gert kraftaverk. Jólasveinastelpan á rauðu bomsunum kveður þar til næst.

sunnudagur, 14. desember 2008

Taka tvö!

Ýtti á vitlausan takka eins og fleiri. Ætlaði að ýta á save now, en tók feilspor. Hefst þá taka tvö.-- Já, þetta ljóta fer semsagt í mig. Ég er meyr í eðli mínu, en samt sterk, svo lengi sem ég þarf ekki að "díla" við það ljóta. Ég sting þó hausnum ekki í sandinn, og ég veit að heimurinn er ekki tandurhreinn. Horfi þessvegna ( þegar ég horfi) á saklausar myndir, svona góðan endi og allt það. Eitt er það sem ég get ekki ráðið við eru tilfinningar og get skælt yfir ótrúlegustu hlutum. Það eru ekki sár tár, aðeins tilfinningar sem ég get ekki útskýrt. Tónlist hreyfir við mér, og er ég því best geymd réttu megin þegar hún er annars vegar. Þá hrynja ekki tár, en sem njótandi er ég til alls vís. Þessa dagana er ég á þeim buxunum að allt hreyfir við mér. Ég sakna litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu svo mikið á þessum árstíma að mig verkjar stundum. Þetta er kannski bara ömmu/mömmuvæl því það amar ekkert að, og allir eru hraustir. En samt.--- Jólin nálgast og tek ég á móti þeim með vellíðan og tilhlökkun þrátt fyrir litla hjartað. Ég hef lært það gegnum tíðina að baka til jólanna í nóvember vegna anna í desember. Sá mánuður er svo yfirfullur af öllu sem viðkemur tónlist og menningu að það er nóg fyrir mig. Er frekar sein á fæti þrátt fyrir rauðu bomsurnar! (mikið helv... hvað þær virka vel) Í gær fór ég með tónskólabörn sem spiluðu á jólastund fyrir eldri borgara. Börnin voru á öllum aldri, og flest áttu þau ömmu/afa eða langömmu í boðinu. Það hreyfði sko aldeilis við mér. Enn einn plús að búa í litlu samfélagi. Í gærkvöldi fórum við svo bestimann á danskt jólahlaðborð sem er árlegt hér. Það var mjög gaman og löbbuðum við í rólegheitunum heim um eittleytið í stafalogni, á auðri jörð og fullur máninn glotti við tönn. Dagur er að kveldi kominn. Þar til næst, verum eins og við erum ,og góð hvort við annað.

Ég má sko alveg....

.....vera eins og ég er! Alla ævi hefur mér verið meinilla við að horfa á eitthvað ljótt, segja ljótt og lesa ljótt. Allt þetta ljóta í heiminum fer í mig og lætur mér líða illa.

föstudagur, 5. desember 2008

Af rauðum er þetta að frétta.

Mikið varð ég glöð í dag þegar ég gat vígt nýju tútturnar, og verð ég að segja að mér finnst þær verulega “kúl”. Litlu rauðu pjattskórnir eru það líka, semsé, það er því virkilegur stæll á frúnni þessa dagana. Ég vildi að ég gæti hoppað kátínuhoppið hennar Baunar, svo sæl er ég með fínheitin.--- Bærinn minn er orðinn mjög jólalegur og reyna allir að lýsa upp skammdegið með allskonar fínheitum. G-lykillinn er kominn á minn bæ ásamt öðrum útiljósum og er ég alsæl með það. Jósep og María eru kominn með allar sínar eigur á nótnaskápinn og þótt ég flissi alltaf svolítið þegar ég horfi á dýrðina er mér farið að þykja vænt um gripinn þrátt fyrir diskóljósin og tréð í strompinum--- Í skólanum er mikið um að vera svona rétt fyrir jólin, og kórarnir að leggja lokahönd á sitt. Hún dóttir mín kom með yndislega athugasemd í dag….Hvað ætlar þú að gera mamma þegar þú ferð á eftirlaun? Mér varð eiginlega fátt um svör, ég kann ekkert annað en það sem ég geri í dag. Fjandakornið að ég taki upp prjónadót eða klukkustrengi, og ekki get ég ráðið krossgátur daginn út og inn. Ekki get ég lagt stund á fjallgöngur eða sótt ballettíma. Ég hef því ákveðið mig.--- Ég fer bara ekkert á eftirlaun.--- Búinn og heilagur. Annars eru þessar vangaveltur út í hött því ég er enn á besta aldri og á helling eftir vonandi. ---Þessi tími, aðventan er yndislegur, en kökkurinn minn er fastur milli þess sem hann losnar. Svo kemur hann aftur og aftur. Kökkurinn í Ameríku er líka stór, svo við mæðgur kökkumst saman af og til. Þetta tilheyrir og er hreinsandi fyrir sálina. Allavega trúi ég því, en ég sakna nándarinnar. Sennilega hangi ég á þeim öllum í vor þá loksins við hittumst. Mikið hlakka ég til, en þar næst bið ég ykkur vel að lifa.