
Já, ég þarf ekki annað en að horfa á snúðana mína til að lífið gangi betur, að ég tali nú ekki um stóra snúðinn sem keyrir ungana. Eftir síðustu inngjöf var allt í góðum gír þrátt fyrir allt, og sárin komu í munninn á nokkurnveginn réttum tíma. Í stað þess að hverfa á tveimur dögum fékk ég sýkingu í allan munninn, út í eyru og langt niður í "vil ekki segja hvert". Þá fór nú að syrta í álinn og dugnaðurinn að dvína, því ef ég fæ ekki að borða er voðinn vís. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá er ég loksins að verða frú Guðlaug aftur, enda ekki seinna að vænna, næsta inngjöf er eftir helgi, og þá verð ég að vera orðin nógu góð til að takast á við hana.
Ég er hreinlega farin að hallast að því þessi sýking hafi kannski ekkert með inngjöfina að gera, það virðast margir þjást af öndunarfærasýkingum þessa dagana. ---Við þessi skrif mín er eins og ekkert skemmtilegt gerist, en það er öðru nær því lífið er skemmtilegt, nú og svo styttist í Ameríkuferð. Ætlum auðmjúklega að lofa tengdasyninum að lenda almennilega áður en innrás tengdaforeldranna hefst. Með því að horfa á allar fallegu myndirnar sem ég á af fólkinu okkar bestimanns hvetur það mig til frekari dáða, og segir mér að hætta öllu röfli, og kyngja hvort sem ég get það eður ei þar til næst.