Ég er hreinlega farin að hallast að því þessi sýking hafi kannski ekkert með inngjöfina að gera, það virðast margir þjást af öndunarfærasýkingum þessa dagana. ---Við þessi skrif mín er eins og ekkert skemmtilegt gerist, en það er öðru nær því lífið er skemmtilegt, nú og svo styttist í Ameríkuferð. Ætlum auðmjúklega að lofa tengdasyninum að lenda almennilega áður en innrás tengdaforeldranna hefst. Með því að horfa á allar fallegu myndirnar sem ég á af fólkinu okkar bestimanns hvetur það mig til frekari dáða, og segir mér að hætta öllu röfli, og kyngja hvort sem ég get það eður ei þar til næst.
laugardagur, 20. ágúst 2011
hremmingar í rénun
Já, ég þarf ekki annað en að horfa á snúðana mína til að lífið gangi betur, að ég tali nú ekki um stóra snúðinn sem keyrir ungana. Eftir síðustu inngjöf var allt í góðum gír þrátt fyrir allt, og sárin komu í munninn á nokkurnveginn réttum tíma. Í stað þess að hverfa á tveimur dögum fékk ég sýkingu í allan munninn, út í eyru og langt niður í "vil ekki segja hvert". Þá fór nú að syrta í álinn og dugnaðurinn að dvína, því ef ég fæ ekki að borða er voðinn vís. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá er ég loksins að verða frú Guðlaug aftur, enda ekki seinna að vænna, næsta inngjöf er eftir helgi, og þá verð ég að vera orðin nógu góð til að takast á við hana.
fimmtudagur, 4. ágúst 2011
Vegurinn styttist
Jæja, í morgun hófst nýr kafli í lyfjagjöfinni. Uppfull af sterum sit ég hér og trúi varla að þetta sé yfirleitt að gerast, en samt er ég farin að telja niður! Er sem sagt hálfnuð. ---Húrra fyrir því.--- Lyfin sem ég fæ núna eru öðruvísi en trukklyfin sem ég hef fengið, og vonandi léttari.Var sett í frystihanska til að bjarga nöglunum, og það var fjandakornið doldið vont. Líkamshitinn í mér var þó það góður að skipta þurfti þrisvar um hanska. Eftir blóðprufuna sem var tekin áður en lyfin voru blönduð í mig sýndi að ég tek þessu alveg ótrúlega vel. Orðrétt sagði læknirinn að ég væri sko ekki til vandræða.... ég ætla að minna mitt fólk á þetta nokkuð reglulega! Ég þarf ekki ennþá 7-9-13 að fara í milliblóðprufu, gildin mín eru ennþá það góð. ---Húrra fyrir líka.--- Þetta hefur örugglega eitthvað með gildismatið að gera! Ein hliðarverkun getur fylgt svona miklum steragjöfum, og þetta er ekki lygi. Verslunar-æði getur gripið fólk, og þá sér í lagi konur! Bestimann dreif mig því beint í náttstað eftir inngjöfina svona til vonar og vara, og hann hefur mikinn hug á að fara snemma af stað með mig heim á morgun, og mig sem vantaði svoooo margt. Jæja, koma tímar og koma ráð, og kann ég margar leiðir að góðum ráðum. En nú er ég heimaskítsmát...eldrauð og þrútið steratröll sem langar helst að smíða á nóttinni kann ekkert annað ráð en að þrauka þar til bara næst elskurnar mínar. Læt þó eitt Húrra fylgja í lokin og bið ykkur að fagna með mér.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)