föstudagur, 11. júlí 2014

Verslunarhættir?!

Jæja, nú er frúnni nóg boðið og er þá mikið sagt. Nú vantaði nýtt grasteppi í sólskálann, og þá skyldi það keypt. Ég fékk þetta dýrindis tilboð á rétta teppinu hjá Bauhaus, keypti það og borgaði. Sæl og glöð, og nú skyldi sko verða fínt hjá rósunum. Það gamla vel bætt og komið í GÖT. Síðan kom bréf frá hausnum sem sagði að afhending yrði 9. júní, en þarna var kominn 12. júní og ég orðin vel langeyg eftir dýrðinni og lagðist því í símann. VELKOMIN TIL BAUHAUS sagði einhver rödd og bauð mér að velja einhverja tölu. Allt tók þetta um 40 mínútur þangað til að maður nokkur sagði mér að svona teppi væri bara alls ekki til. Það var og.....greitt og alles. Ég hélt kúlinu en lét heyra í mér og gaf þeim einn séns. Hringdi svo aftur seinn og þá var mér sagt að LJÓSIN væru nánast tilbúin til afhendingar! Ljós....ég keypti grasteppi. Það var leiðrétt, og aftur fengu þessir höndlarar einn séns til, en ég krafðist þess að þegar helv.....teppið kæmi yrði flutningskostnaðurinn alfarið þeirra mál. Ef ekki fengu þeir dýrðina í hausinn aftur á þeirra kostnað. Hélt kúlinu. Í gærmorgun hringdi svo hausinn, bað um reikningsnúmer svo þeir gætu greitt sendingarkostnaðinn á LJÓSUNUM. Það var og....missti kúlið en gerðist ofur kurteis og það lak hreinlega út úr mér hvursu vitlausir mér fannst þetta dót allt vera. Ok. Í dag bjóst ég við teppi....ekkert teppi, bólar ekki á því, en 4000 krónur komu inn á minn reikning. Miðað við stærð og umfang teppis, 4sinnum7 kostar gott betur undir það hingað. Það segja mér fróðir menn. Ég er þannig dauðhrædd um að fá ljós í hendurnar, smápakka sem kostar ekki nema 4000kall undir.--- Hvað gera bændur þá...segi og skrifa...missi kúlið alveg og hætti að vera kurteis því svona verslunarhættir með tómum aulum á gólfinu eru til vansa og hana nú þar til næst!     PS. Ætti kannski að vera glöð...liggja á teppinu böðuð ljósum?!

fimmtudagur, 15. maí 2014

Vorvindar glaðir

Allir hættir að lesa blogg og komnir út í vorið, og þeir sem eru í tónlist af einhverju tagi eru að uppskera eftir veturinn. Tónleikar stórir og smáir út um allar koppagrundir. Ég er búin að taka þátt í þessari uppskeru hér og þar og hef haft gaman af. Prófin búin og skólaslit framundan. Gleðigjafarnir mínir verða svo með sína tónleika á sunnudaginn og eftir þá ætla ég að bregða mér af bæ í 3 vikur. Fer í meðferð við einu og öðru, en aðallega snýst þessi ferð um að reyna að setja punktinn yfir i-ið brjóstalega séð. Þetta er nú ekki tíminn sem ég kysi helst að eyða í Rvík, sólskálinn, garðurinn og allt annað eins og kerlingin sagði. Fátt er svosem títt af mínum vígstöðvum fyrir utan framantalið, og lífið er bara nokkuð stabílt. Hugsa með ánægju fram á sumarið, og hugsa með mikilli gleði til Kaliforníu hvar við verðum nokkuð lengi. ----Í þessum skrifuðu orðum er allt að verða vitlaust í sjónvarpinu.....handbolti....og menn að tapa sér í útskýringunum. Tvær rásir á RÚV og íþróttir á báðum. Ég yrði hissa ofaní tær ef Rúv myndi t.d.sýna klukkutíma þátt frá landsmóti kvennakóra sem haldið var um síðustu helgi. Nei... ekki nógu spennó. Handbolti og svo strax á eftir leiðin á HM. (að vísu ekki í kvöld) Nauðungarsjónvarp, og sumu er gert hærra undir höfði en öðru og að því sögðu  sendi ég ljúfar yfir til þeirra sem kíkja hér inn þar til næst.

föstudagur, 25. apríl 2014

Fjörutíu ár og hananú


Gleðilegt sumar þið þarna úti og takk fyrir veturinn. Nú  er enn einn að baki, og leið hann í sjálfu sér mjög hratt þegar litið er í baksýnisspegilinn. Þessi baksýnisspegill er dálítið magnaður. Fyrir rétt rúmum 40 árum flutti ég á Höfn og hér hefur mér liðið vel. Þá var hér nýstofnaður karlakór, karlakórinn Jökull. Frumkvöðlarnir voru stórhuga og kór skyldi stofna. Þáverandi stjórnandi sá um það sem til þurfti og var vel lipur á píanóið. Eg þá kemur bestimann til sögunnar, og  kórnum til uppdráttar! Bestimann fór suður, féll fyrir ungri konu og flutti hana inn! Fyrir það þakkaði fyrrverandi yfirvald hér honum ævinlega fyrir.  Ég semsagt byrjaði sem undirleikari Jökuls fyrir nákvæmlega 40 árum. Ég var bara 23ja ára og kunni ósköp lítið inná þetta alltsaman. Hafði þó alla tíð sungið í kórum og stundað tónlistarnám. Fyrsta lagið sem ég spilaði með Jökli var Íslands hrafnistumenn, og síðan bættust þau við eitt af öðru, og nú er svo komið að ég á fullar hirslur af karlakórsnótum, og margar handskrifaðar af mér meiri meisturum. Þegar ég var yngri leit ég óskaplega upp til undirleikara þess tíma og fannst þeir alltaf hafa verið til og yrðu örugglega alltaf til staðar. Nú er svo komið að ég er orðin ein af þeim, og alltaf með sama kórnum. Yngsti söngmaður Jökuls er fæddur eftir 1990. Þetta er skrítið, því tíminn hefur liðið hraðar en 40 árin segja til um. Tvenna tónleika utan héraðs á þessum árum hef ég ekki spilað: Dóttla mín var á leið í heiminn, og var í hnjáaðgerð  hitt skiptið. --- Dóttlan ólst upp með karlakórinn sér við hlið eins og svo mörg önnur börn hér á staðnum. Flottasta lag sem Svanfríður mín heyrði 5 ára gömul var Brennið þið vitar.....með KARLAKÓR RVÍK:! Hef löngu fyrirgefið henni það, því KRingar eru flottir. Allavega, Jökull lifir enn og ég lifi með honum eitthvað áfram, en ég yrði bara glöð ef einhver 23ja ára kæmi og bæði um pláss þar til næst.

laugardagur, 12. apríl 2014

Enn legg ég í'ann.


Mætti halda að ég væri sérstaklega sjálfhverf, en mér finnst þessar myndir alveg dásamlegar. Sú efri var tekin á Borginni í den tid, þarna erum við uppstrílaðar frá fínni fatabúð og greiddar og málaðar í takt við  tísku tímans. Það sem kemur mér til að brosa er hversu gjörsamlega dauðar við erum á svipinn, vorum þó bara nokkuð góðar og glaðar. Þarna er greinilega alvara á ferð. Seinna þetta kvöld vorum við svo komnar í síðkjóla með öðruvísi greiðslu. Sú mynd er líka mjög fyndin, en yndisleg. Á  neðri myndinni er ég hinsvegar nokkuð glaðlegri og komin í tískuföt þess tíma. Útvíðar buxur með mjöööög háum streng, hálfgert magabelti en sést ekki fyrir nótnastatífinu.  Í dag......syng ég bara,  er glöð og til fjandans með tískuna.-- Lífið hér á kærleiks eins og einhver orðaði það svo skemmtilega gengur sinn vanagang. Mikið að gera á öllum vígstöðvum. Ég ætla að nota páskafríið í að elda góðan mat,  þurrka af og spila músíkina mína, og æfa með söngkonu og oktettinum mínum. Síðan en ekki síst: dúlla mér í sólskálanum hvar sem allt er á fleygiferð. Þetta  er gott plan. Svo ætla ég líka að spila páska- og fermingarmessu í lítilli kirkju í sveitinni. Ég hlakka til þess. Þar kemst maður nefnilega mjög nálægt lífinu eins og flestir vilja hafa það. Fyrir margt löngu spilaði ég við húskveðju. Það var fallegt, eitthvað sem ég gleymi aldrei, og það var líka í sveitinni. Í dag eru stóru kirkjurnar með stóru orgelin eitthvað svo mikið og stundum yfirþyrmandi. Þá er líka gott að eiga þess kost spila í litlu samfélögunum þar sem lífið virkar hægar, en er það ekki. Lífið er nefnilega ekki bara 101 á hverjum stað. ( Við eigum 101 hér á Höfn!)  Í lok maí fer ég "söður" og verð í 3 vikur.  Er bara nokkuð brött með það, því eftir þá meðferð skal ég ætla að ég verði eins heilbrigð og danska meri kóngsins. Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.

föstudagur, 21. mars 2014

Vorkoma?



Sko, þessar myndir eru svolítið þannig að hljóð og mynd fara tæplega saman. Rósin fallega er tekin úr gaddfreðnum sólskála í byrjun þessa árs, eitthvað sem gerist aldrei. ( Alltaf hlýindi.)  Hin myndin er tekin núna á dögunum af dyrum sólskálans....þar inni er lífið að brjótast fram þrátt fyrir óáran í veðrinu. Þeir sem búa á öllum öðrum hornum landsins hlæja örugglega að okkur hér.....Samt... á okkar mælikvarða snjóaði "a lot". Margt hefur sullast á fjörur okkar síðan síðast. Bestimann var skorinn á kvið til að laga nabblakút og frúin gekk til lækna! Fékk fína skoðun hjá krabbameinslækninum, en á í smá basli með mitt eigið brjóst. Það verður lagað í vor og er meinalaust. Þegar þarf að setja upp nál hjá mér verð ég allt í einu eins og Mjallhvít... verð algjör blómablóma. Reyndustu konur og menn hafa gefist upp á mér við þannig aðstæður og kalla þá til ennþá meiri reynslubolta. Í lyfjameðferðinni kom gjarnan ein rússnesk, frábær kona sem ég kallaði babúsku. Var fyrst svolítið hrædd við hana, en það hvarf nú fljótt. Í þessari lotu á dögunum þurfti að kalla eina til og ég beið róleg eftir minni babúsku. Ég beið frekar lengi. Allt í einu birtist engill í konulíki sem hafði unnið á skurðstofu og stungið nær alla landsmenn í tæplega 40 ár. Allar mínar prinsessu æðar opnuðu sig fallega fyrir þessari góðu konu. Ekki veit ég úr hvaða genum fólkið á Lansanum er, en þau hljóta að vera sérstök.  --- Þessar víðfrægu fjörur lágu víða þar syðra, og þar á meðal í Salinn í Kópavogi. Þar sungu Sætabrauðsdrengirnir aldeilis stórkostlega tónleika. Á ekki orð til að lýsa þeirri upplifun. Farið bara sjálf ef þið hafið tækifæri og reynið á eigin skinni .Drengirnir eru fyrir utan að vera 1. flokks söngvarar fanta flottir leikarar. Bestimann nýkominn úr nabblameiddi átti voða bágt þegar hláturinn skók alla.  Á fjörur okkar bestimann rak líka mikið og gott matarboð hér heima, með "the silver boys". Þeir eru engum líkir... og ekki skemma spúsurnar  ---Lífið er semsagt gott og ég ætla að njóta þess. Verð að spranga því hér á veraldavefinn...kaupið ykkur góðan miða í HHÍ þar til næst.

laugardagur, 15. febrúar 2014

Ritstífla... eða leti?

Ég á ekki hund eða kisu til að sýna ykkur, en ég á fólk sem mér þykir svo undurvænt um og vil gjarnan deila því með ykkur.--  En bara smá.--  Mér finnst þessi mynd svo falleg, og ferð litlu fjölskyldunnar út í Papey var yndisleg. --- Ég hef ekki ennþá komist uppá lag með að vera fésbókarkona, ekkert frekar en að vera með heimabanka og "solleiðis". Ákvað eftir að Kristbjörg (sem kíkir ALDREI í kaffi) kom mér til að blogga að skrifa nú reglulega. Hef alls ekki staðið við það, en hef gaman af því þegar ég nenni og ritstíflan truflar ekki og  fann andann til skrifta akkúrat í þessum rituðu orðum.  Evrovísíon afstaðin og ljóst að leikskólakórinn fer fyrir okkar hönd.  Gott mál, hressir menn þar á ferð. Mér finnst nú að það mætti gefa Gleðibankanum einn séns enn..... en hvað veit ég?  Lífið hjá okkur bestimann gengur sinn vanagang sem er bara nokkuð góður gangur. Vinna og allt annað eins og hjá öðrum líður áfram eins og enginn sé morgundagurinn. Mér finnst eins og ég sé kannski að missa af einhverju. Hvar er allur þessi tími sem telur í sólarhringum og misserum? Ég sit með sveittan hársvörð og reyni að halda í þetta allt saman. Tekst þokkalega og tel mig vera komin vel á veg með að læra það sem til þarf þennan veturinn. Svo vill gjarnan bætast í sarpinn og þá er stuð. --- Um þessar mundir eru þrjú ár síðan ég greindist með krabbamein, segi og skrifa: fari það og veri, en ég er heppin. Heppin að ekki fór verr. Samt er eitt sem hefur ekki komist inn í minn gráa haus. Ég hef heyrt og lesið um fólk sem segist ekki hefði viljað fara á mis við svona reynslu. Ég bara hreinlega get ekki sagt það sama, því ég hefði svo sannarlega viljað vera laus við yfir tug hné-aðgerða og krabbamein. Aftur á móti verð ég eins og allir að takast á við það sem í mig er hent hvort sem mér er það leitt eða ljúft.  Ljúft er að hafa staðið sig og ég ætla líka að láta sem ekkert sé þótt táneglurnar kjósi enn og aftur að láta sig hverfa. Helvít...á þeim en einhver ofur jákvæður myndi sennilega segja: farið hefur fé betra, en ég hefði frekar kosið að þær héngu á. Lyf og geislar bjarga, en skilja líka eftir ýmislegt sem ég hef ákveðið að ulla á þar til næst.....segi svo að lokum saltkjöt og baunir....65.

föstudagur, 31. janúar 2014

Það var nebblega.....

Heil og sæl þið þarna úti í víðáttunni. Janúar á enda og maður skilur hvorki upp né niður í tímanum, og ég neita ekki  að " I´ve been there, done that" eigi sér einhverja stoð uppá íslensku. Kannski svolítið rétt. Fyrst bíður maður eftir að fermast, svo að verða átján, svo 21.....klára skóla, gifta sig o.sv.frv. Eftir allt þetta, rúmlega sextug get ég svosem sagt...I've been there og þess vegna líður tíminn svo hratt, þarf ekki að bíða eftir neinu stórmerkilegu nema að lifa lífinu sjálfu. Það gengur nefnilega vel á alla kanta og þorrablótið yfirstaðið með miklum bravúr. Í ár var einvalalið eins og alltaf er í þorrablótsnefndum, því allir verða að vinna saman. Þarna kynnist fólk hvert öðru á annan hátt en venjulega, enginn skorast undan og allir sýna það besta sem þeir eiga. Meira að segja verða allir nokkuð glúrnir söngvarar!  Þetta er það sem mér finnst svo yndislegt við að búa á litlum stað eins og mínum.  Eins og myndin að ofan sýnir þá skemmtum við bestimann okkur konunglega ásamt því að skemmta öðrum. Ef ykkur finnst tjenustupian ( uppá "goldönsku") og bestimann með slaufu ekki sóma sér vel út í byrjun blóts þá þið um það. ---- Það er nokkuð merkileg skemmtan þessi þorrablót, fyrir nú utan að eta sérstakan mat. ( Ólst upp við slíkan og finnst hann lostæti. Því súrari, því betri) Hér á Höfn er kosin ár hvert nefnd til að sjá um blótið. Nefndin sú gerir allt nema að elda matinn og spila fyrir dansleik. Þetta er töluverð vinna sem fólk lítur á sem samfélagsverkefni og leysir vel af  hendi. Mér finnst því ferlega skemmtilegt þegar jafnréttis......?  hvaðanæva af landinu vill hafa puttana í þorrablótum landsbyggðarinnar. "Sinn er siðurinn í landi hverjinu" sagði kerlingin og ég tek undir með henni. Hver og einn má, og á að hafa sín sérkenni ef allir á réttum slóðum eru sáttir. Núna vorum við bestimann elstu pörin, og nutum þess að vinna með yngra fólkinu .Þau eru svo full af orku og andansríki að unun var að vinna með þeim. Á næstunni verður stuttur febrúar og svo og svo....þar til næst....

laugardagur, 11. janúar 2014

Það var og.....


Jájá ég veit, jólin eru búin og ég óska öllum gleðilegs árs. Nú eru allir sveinkarnir mínir lagstir í dvala og ég verð voða glöð en hissa þegar ég tek þá upp næst, hissa á því hvað tíminn líður hratt. Sá á efri myndinni kom rétt fyrir jól frá Þýskalandi, feitur og pattaralegur, algjör rjómalús. Vinahjón komu hér rétt fyrir þrettándann, höfðu farið í jólaþorpið í Hafnarfirði og séð þennan líka fína og sæta jóla"svein" og keyptu fyrir mig. Það sem þau vissu ekki og var svo yndislegt að þessi var sá eini sem mig vantaði í familíuna sem átt hefur heima í eldhúsglugganum nokkuð lengi. Vonandi eignast ég svo fyrir næstu jól þann hollenska með svarta þrælinn sinn. Ég á þá á einhverju plasti til að líma á rúðu, en mig langar bara að eignast stytturnar. Allt í bígerð. Jól og áramót liðu ljúflega og kökkurinn farinn, nú hlakka ég einungis til Ameríkuferðar í sumar. Vorönn að hefjast á öllum tónlistarvígstöðvum, og þorrablót á næstunni. Í  þorrablótsnefnd sitjum við bestimann....það er doldið töff! Við erum ellismellirnir með alveg stórgóðu hugmyndaríku fólki sem víla ekkert fyrir sér. Það er mikil upplifun að vinna með öllu þessu unga fólki og sjá hvað þau eru á góðum stað í lífinu í öllu tilliti, og  sjá líka hvað við bestimann erum  heppin með að hafa lifað það lengi vel virk til að njóta þess að vera þátttakandi og hrífast með yngri kynslóðinni.  Mér finnst t.d. alveg dásamlegt að kenna börnum fyrrum nemenda minna, nemenda sem orðið er fullorðið fólk. Ég þekki bakgrunn barnanna þeirra og líka hvernig hljóðfæri þau eiga! Þetta eru forréttindi skal ég segja ykkur. Fátt er annað títt úr mínum ranni fyrir utan þetta daglega brauð sem allir glíma við. Þarf ekki að fara spönn frá rassi fyrr en í mars, og tel mér trú um að þá séu vetrarveðrin að baki, vitandi þó betur. Eins og bestimann segir gjarnan: þú átt ekki að fara út fyrir pípuhlið frá október og fram í maí. Legg ekki meira á ykkur þar til næst.