mánudagur, 29. desember 2008

Lufsyslugs..taka þrjú.

Veit ekki hvað hleypur í tæknina, en þetta er þriðja tilraunin við að koma mér út í netheima. Eða þá að ég er rakinn klaufi. Titillinn er lýsandi fyrir líf mitt þessa dýrðardaga. Lufsast um með sælutilfinningu, les, elda góðan mat, narta í eitthvað sem ég hef enga þörf fyrir, hitti vini og fjölskyldu og slugsast hér um húsið á þverröndóttum náttbuxum frá Ameríku. Þurfti þó að fara úr þeim á ókristilegum tíma í gær til að dressa mig upp í tónleikaföt, en var fljót í þær aftur eftir að heim var komið. Semsagt, jólin hafa farið vel í mig, og mikið hvað blessuð rjúpan var góð. Upp úr pökkunum kom mikið af fallegum hlutum, en best var myndadagatalið af snúðunum mínum í bláa húsinu. Ég vil helst að árið líði hratt, því mig langar í fleiri! Eftir 33 jól með mínum bestamann er ég oft í vandræðum hvað skuli nú fara í pakkann hans. Fyrir nokkrum jólum fékk hann hjólbörur og hittu þær verulega í mark. Einu sinni gerðist ég djörf svo um munaði. Fór í Húsasmiðjuna, benti á hjólsög og sagðist ætla að kaupa hana. Fannst alveg upplagt að maðurinn ætti einn slíkan grip. Eitthvað glott kom á afgreiðslumanninn, en mér var ekki skemmt og borgaði hálfan handlegg fyrir græjuna. Ekki gat ég borið dásemdina, en reddaði því. Það var mikið og stórt glott sem kom á minn bestamann þegar honum varð dýrðin ljós. Fékk miklu stærra glott en var á afgreiðslumanninum, en það var góðlátlegra. Græjan hefði sómt sér vel á hvaða verkstæði sem er, og þá erum við helst að tala um alvöru trésmíðaverkstæði! Við skemmtum okkur konunglega yfir uppátækinu, en eitt er víst að ég hef ekki lagt út í verkfærakaup síðan. Um næstu jól set ég sennilega utan um mig rauða slaufu og gef bestamann sjálfa mig um aldur og ævi! Hann er miklu bjartari í þessu en ég og klikkar aldrei. Ég ætti við nánari skoðun aldrei að koma nálægt því að kaupa á mig sómasamleg föt, hef greinilega ekki eins gott auga fyrir þesslags innkaupum. Innan tíðar fer daginn að lengja og þá er ekki svo langt í vorið, en þá ætlum við í bláa húsið. Ef "þeir" halda áfram að rugla í okkur með gengi og krónur hef ég ákveðið að synda, nú eða fara á hjólabát yfir hafið, því út vil ek. Það gengur því ekki að lufsast eða slugsast heldur bretta upp ermar. Ég óska öllum gleðilegs árs og þakka fyrir liðið ár. Með von um frið um víða veröld þar til næst.

Lufsyslugs..

Flottur titill og á við um líf mitt þessa dýrðardaga.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Á morgun...

Hjartans vinir nær og fjær. Mig langar að óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Ég er nú ekki sú trúaðasta, en bið samt góðan guð að gera þessa hátíð góða fyrir ALLA. Nú er Þorláksmessa og ég sit hér með mína þanka. Húsið mitt er fallegt og mikil hlýja hefur verið lögð í að gera næstu daga (og alla aðra) notalega. Ég sakna litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu, en veit að kökkurinn, þessi desember-fiskur hjaðnar aðra nótt. Ég ætla að hafa það gott og hugsa fallega til allra. Jólin eru á morgun, og þar til næst hafið það gott.

laugardagur, 20. desember 2008

Jólasveinar...einn og margir.

Ég elska jólasveina, og þeir eru góðir. Dóttlu minni þóttu þeir ekki félegir í æsku og var þessi tími árs alveg hræðilegur fyrir hana. Það væri efni í dágóðan doðrant að lýsa desembermánuði í lífi litlu stelpunnar minnar. Hún er þó ekki hrædd við sveinana í dag og Eyjólfur elskar þá en Nattilíus er doldið tvístígandi. Enda bara 20 mánaða og er baby að sögn stóra bróður. Stúfur var í augum hnátunnar skelfilegastur! (Halló, Stúfur þessi litli sæti!) Í byrjun aðventu settist Stúfur að í kaupfélaginu, hneigði sig og hringdi bjöllu flestum börnum til mikillar gleði, en lygalaust fór ég bara einu sinni með dömuna í kaupfélagið í desember eftir að sá stutti plantaði sér þar niður. Nú, svo lét persónulega kaupfélagið okkar í minni pokann fyrir stóru og freku gæjunum og Stúfur "týndist". Ekki fyrir svo margt löngu fór dóttla mín í heimsókn til góðrar vinkonu, hafði þá verið í burtu í nokkurn tíma. Yfir notalegu og rólegu kaffispjalli rak daman augun í Stúf, þann erkifjanda frá liðinni tíð, fékk svona "flashback" og varð lítil eitt augnablik. Stúfur fékk semsagt framtíðarheimili og er sínu fólki til mikillar ánægju. Kannski er ást mín á jólasveinum tilkomin frá þeim tíma sem hnátan mín átti hvað erfiðast með að sætta sig við þá. Var alltaf að kaupa einn og einn til að reyna að láta hana sættast við þá. Veit ekki, en ég á 45 sveinka í dag sem ég set um allt hús fyrir jólin!--- Hér á bæ er því mikið hóhó.---Á morgun verða stóru tónleikarnir sem koma Hornfirðingum í jólaskapið og hlakka ég til. Það er lítil hætta á að ég felli tár meðan á þeim stendur því ég verð "réttu" megin borðs. ---Veit annars nokkur þarna úti hvað tárakirtlarnir geta framleitt á aðventunni einni saman? --- Hlýtur að vera gott efni í rannsókn. Allavega, jólin eru að koma og ég óska þess svo innilega að allir geti notið þeirra. Lítum til með okkar minnstu bræðrum. Bjart bros, velvild, mannkærleikur, nokkrar smákökur og kerti geta gert kraftaverk. Jólasveinastelpan á rauðu bomsunum kveður þar til næst.

sunnudagur, 14. desember 2008

Taka tvö!

Ýtti á vitlausan takka eins og fleiri. Ætlaði að ýta á save now, en tók feilspor. Hefst þá taka tvö.-- Já, þetta ljóta fer semsagt í mig. Ég er meyr í eðli mínu, en samt sterk, svo lengi sem ég þarf ekki að "díla" við það ljóta. Ég sting þó hausnum ekki í sandinn, og ég veit að heimurinn er ekki tandurhreinn. Horfi þessvegna ( þegar ég horfi) á saklausar myndir, svona góðan endi og allt það. Eitt er það sem ég get ekki ráðið við eru tilfinningar og get skælt yfir ótrúlegustu hlutum. Það eru ekki sár tár, aðeins tilfinningar sem ég get ekki útskýrt. Tónlist hreyfir við mér, og er ég því best geymd réttu megin þegar hún er annars vegar. Þá hrynja ekki tár, en sem njótandi er ég til alls vís. Þessa dagana er ég á þeim buxunum að allt hreyfir við mér. Ég sakna litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu svo mikið á þessum árstíma að mig verkjar stundum. Þetta er kannski bara ömmu/mömmuvæl því það amar ekkert að, og allir eru hraustir. En samt.--- Jólin nálgast og tek ég á móti þeim með vellíðan og tilhlökkun þrátt fyrir litla hjartað. Ég hef lært það gegnum tíðina að baka til jólanna í nóvember vegna anna í desember. Sá mánuður er svo yfirfullur af öllu sem viðkemur tónlist og menningu að það er nóg fyrir mig. Er frekar sein á fæti þrátt fyrir rauðu bomsurnar! (mikið helv... hvað þær virka vel) Í gær fór ég með tónskólabörn sem spiluðu á jólastund fyrir eldri borgara. Börnin voru á öllum aldri, og flest áttu þau ömmu/afa eða langömmu í boðinu. Það hreyfði sko aldeilis við mér. Enn einn plús að búa í litlu samfélagi. Í gærkvöldi fórum við svo bestimann á danskt jólahlaðborð sem er árlegt hér. Það var mjög gaman og löbbuðum við í rólegheitunum heim um eittleytið í stafalogni, á auðri jörð og fullur máninn glotti við tönn. Dagur er að kveldi kominn. Þar til næst, verum eins og við erum ,og góð hvort við annað.

Ég má sko alveg....

.....vera eins og ég er! Alla ævi hefur mér verið meinilla við að horfa á eitthvað ljótt, segja ljótt og lesa ljótt. Allt þetta ljóta í heiminum fer í mig og lætur mér líða illa.

föstudagur, 5. desember 2008

Af rauðum er þetta að frétta.

Mikið varð ég glöð í dag þegar ég gat vígt nýju tútturnar, og verð ég að segja að mér finnst þær verulega “kúl”. Litlu rauðu pjattskórnir eru það líka, semsé, það er því virkilegur stæll á frúnni þessa dagana. Ég vildi að ég gæti hoppað kátínuhoppið hennar Baunar, svo sæl er ég með fínheitin.--- Bærinn minn er orðinn mjög jólalegur og reyna allir að lýsa upp skammdegið með allskonar fínheitum. G-lykillinn er kominn á minn bæ ásamt öðrum útiljósum og er ég alsæl með það. Jósep og María eru kominn með allar sínar eigur á nótnaskápinn og þótt ég flissi alltaf svolítið þegar ég horfi á dýrðina er mér farið að þykja vænt um gripinn þrátt fyrir diskóljósin og tréð í strompinum--- Í skólanum er mikið um að vera svona rétt fyrir jólin, og kórarnir að leggja lokahönd á sitt. Hún dóttir mín kom með yndislega athugasemd í dag….Hvað ætlar þú að gera mamma þegar þú ferð á eftirlaun? Mér varð eiginlega fátt um svör, ég kann ekkert annað en það sem ég geri í dag. Fjandakornið að ég taki upp prjónadót eða klukkustrengi, og ekki get ég ráðið krossgátur daginn út og inn. Ekki get ég lagt stund á fjallgöngur eða sótt ballettíma. Ég hef því ákveðið mig.--- Ég fer bara ekkert á eftirlaun.--- Búinn og heilagur. Annars eru þessar vangaveltur út í hött því ég er enn á besta aldri og á helling eftir vonandi. ---Þessi tími, aðventan er yndislegur, en kökkurinn minn er fastur milli þess sem hann losnar. Svo kemur hann aftur og aftur. Kökkurinn í Ameríku er líka stór, svo við mæðgur kökkumst saman af og til. Þetta tilheyrir og er hreinsandi fyrir sálina. Allavega trúi ég því, en ég sakna nándarinnar. Sennilega hangi ég á þeim öllum í vor þá loksins við hittumst. Mikið hlakka ég til, en þar næst bið ég ykkur vel að lifa.

laugardagur, 29. nóvember 2008

Stígvél og fleira gott!

Þrátt fyrir góðan ásetning líður of langur tími til skrifa, en nú skrifta ég. Fyrir nokkrum vikum kom hér góð vinkona í heimsókn í þessum líka flottu gúmmístígvélum, eldrauðum með svörtum hulsum, reimum og alles. Ég bókstaflega slefaði yfir túttunum háu og einfaldlega varð að eignast eins! Vinkonan reddaði kaupunum og mikil varð ég glöð þegar sendingin kom. Hins vegar er ég alltaf að bíða eftir veðri og færð til að nota dýrðina, varla get ég plampað á þeim rauðu í sól og blíðu. Ég bara máta þau reglulega og dáist að þeim. Síðasta sunnudag fór ég með kvartettinn minn í söng á Breiðdalsvík, hávetur og örugglega not fyrir tútturnar. Nei, ónei, dandalablíða, og alls engin túttufærð. Ég, sem þoli ekki vonda færð er farin að bíða eftir slyddu og snjó! ---Ég hef ákveðið að aflétta leyndóinu úr síðasta pistli, og láta allt í loftið.---Er nánast búin að baka, jólapakkinn til Ameríku farinn, skeifan fer eftir helgi til Ástralíu og ég er búin að læra þá músík sem fyrir liggur. Íslensku jólasveinarnir komnir í glerskápinn, folaldið (dautt náttúrulega) skorið og hakkað, (síðurnar af dýrinu fékk krummi) og síðast en ekki síst, Jesú og fjölskylda með diskóljósunum er komin á nótnaskápinn, og fallegi jólabangsinn gægist undan flyglinum. Mikil herlegheit! --Nú er tíminn sem ég sakna, altso aðventan. Ég aflétti leyndóinu og viðurkenni hér með að ég sakna litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu, og það verulega. Nú hefst tími stóra kökksins, en honum kyngi ég ekki fyrr en á jólanótt. Þá er einhvernveginn sá tími liðinn, og ég get farið að hlakka til að fara í bláa húsið. Tíminn líður nefnilega svo hratt segir Pollýanna mér reglulega. Kæru vinir þarna úti, látið ykkur líða vel þar til næst.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Algjört leyndó!

Það sem ég skrifa hér vil ég ekki segja nokkrum lifandi manni, því alþjóð veit er tveir vita. Það er alls ekki mér að kenna þótt einhver verði fúll vegna þagmælsku minnar, og hið rétta mun aldrei koma í ljós ef ég fæ einhverju ráðið. Ég ætla td. ekki að upplýsa hvar dóttir mín, þá ung að árum týndi fermingarfötunum sínum, ekki segja hvernig gekk á kvartettsæfingu í kvöld, ekki hvað ég set í jólapakkann til Ameríku og alls ekki hvernig mér leið í síðustu viku. Þetta er sko mitt mál, en ég veit þetta allt saman, og miklu meira. Ég kjafta semsagt ekki frá því ég held nefnilega trúnaðinn við mig, en hinir sem ekkert vita geta bara átt sig. ---Þessi inngangur er í takt við talsmáta ráðamanna þjóðarinnar. Yfirklór þeirra er afar sorglegt en bráðfyndið ef maður lítur þannig á málið. Ég hélt í barnaskap mínum að sandkassaleikurinn tilheyrði leikskólabörnum, en þarf greinilega að endurskoða þá trú mína á fyrirbærið. ---Hvað um það, hér er allt í góðu, (en látið ekki nokkurn mann vita af því ) og veðrið leikur við hvurn sinn fingur. Um helgina á ég frí að ég best veit, og ætla þá að baka smákökur, eta þær á síðkvöldum og drekka kalda mjólk með. Gjörssovel! ---Þeir segja að jólin byrji í IKEA, en ÉG veit að það er tómt bull, ef ekki bara eintómt samsæri. Ég fór í Húsó í dag til að "finna" þefinn af jólunum því búðin er full af jóla jóla. Ekki fann ég jólin, en sveif þess í stað á verslunarstjórann og bað hann um að gefa mér gamla, notaða og ryðgaða skeifu með fjöður í. (maðurinn er nefnilega hestamaður í húð og hár) Þarna datt ég niður á eina yndislega og þjóðlega jólagjöf, fer hún alla leið til Ástralíu og á að færa væntanlegum eiganda gæfu og gleði. (ekki segja frá ). Bráðum set ég svo upp hina helgu fjölskyldu með diskóljósunum. Þeir lesendur sem muna dramatíkina í kringum þau kaup "halda munn". Munið svo að þessi pistill er algjört leyndó þar til næst.

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Ja nú er (s)-tuð.

Takk fyrir innlitið síðast, mér þótti vænt um það. Mér finnst að fólk ætti að vera duglegra að kvitta fyrir kaffið, og þá sérstaklega þeir sem segjast vera svokallaðir laumulesarar. Það er víst nóg um laumuspil í okkar annars ágæta landi! Eins og flestir, ef ekki allir er ég fyrir löngu orðin gáttuð og þreytt á fréttaflutningi/leysi dagsins, og hef tekið þann pól í hæðina að trúa engum í stöðunni. Ætla því að taka þessu með æðruleysi og sjá til, en finnst það fúlt. Reiði sem slík er ekki í mér, en mér ofbýður sukkið og óheiðarleikinn sem dúkkar upp á hverjum degi. Fréttamiðlar verða að gæta að því hvað þeir láta í loftið þó svo að þeirra skylda sé að upplýsa okkur, en það er allt á neikvæðum nótum. Ég veit að málin eru grafalvarleg, en það er bara fullt af fólki í þjóðfélaginu sem blátrúir öllu og þolir ekki svona neikvæðni daginn út og inn, og það dugir ekki að segja þeim að hætta að hlusta, þetta smýgur allsstaðar. Í síðustu viku fór ég nokkrum sinnum inn á heimasíðu okkar Hornfirðinga, hornafjordur.is og þar voru eingöngu góðar og spennandi fréttir. Ekki rötuðu þær í ísl. fréttamiðla. Hér er uppgangur, bæjarfélagið stendur vel, næg atvinna og mannlíf gott. Þórbergssetur fékk merka viðurkenningu á dögunum, Matís líka, Nýheimar/þekkingarsetrið fékk flotta viðurkenningu+ Hótel Höfn. 7.bekkingar í grunnskólanum urðu Íslandsmeistarar annað árið í röð í Lego, og Sinfó kom í heimsókn. Í fyrra héldum við UMFÍ landsmót og landsmót ísl. kvennakóra, en hvorugt komst í fréttir nema í pínulitlu framhjáhlaupi. Það nefnilega var enginn drepinn! Eins var það á UMFÍ landsmóti í Þorlákshöfn í sumar sem leið. Ég er þess fullviss að góðar fréttir eru víðar en hér, en ekkert fréttist af því sem gott er og vel gert. Vissulega get ég tuðað vel og lengi um þetta, en læt staðar numið. Í Fréttablaðinu í dag var haft eftir Pétri H. Blöndal eitthvað gáfulegt, og hann titlaður þingmaður Samfylkingar...Missti ég af einhverju af því að mér leiðast fréttirnar? Hafið það gott elskurnar og afsakið (s)tuðið þar til næst.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Söngurinn göfgar og glæðir... og græðir.

Þegar ákveðið var að fara í söngferð og hitta annan karlakór á miðri leið komu á mig vöflur. Tónleikar og gisting á hóteli með húllumhæi fannst mér eitthvað svo út úr mynd þessa dagana. Hvað um það, ég er undirleikari og hef því ósköp lítið að gera með skipulag. Ferðin var farin, og það rann upp fyrir mér mikið ljós í þessari ferð. Ekki það að ljósið hafi ekki verið til staðar, en núna varð það afar sterkt. 60 söngmenn voru samankomnir ásamt sínum konum. Tónleikarnir glimrandi, og alltaf er gaman að fylgjast með hvað aðrir kórar hafa fram að færa. Hótel Laki/Efri Vík við Klaustur var samastaður okkar allra, og þar var ekki í kot vísað. ---Hvernig fara menn að því að reka svona glæsilega, fagmannlega en heimilislega aðstöðu í alla staði svo fjarri "stórborgarmenningunni"? Þeir voru sko ekki í vandræðum með það í Efri Vík.--- Takk, takk, ef einhver ykkar rekst hérna inn.---Glæsilegt hlaðborð og kórarnir skiptust á skemmtiatriðum, og í lok borðhalds komu vertarnir fram og sungu fimmundarsöng.--- Ótrúlegir.--- Ekki heyrði ég minnst á kreppu eða svartsýni í selskapnum, en það skal enginn segja mér að allur þessi fjöldi fólks hafi ekki fengið smörþefinn af frk. kreppu á einhvern hátt. Það getur varla verið að allur hópurinn hafi mikil fjárráð, góða heilsu, haldi sinni vinnu og sé yfir sig hamingjusamt. Þetta kvöld var sungið "nonstop" frá klukkan 10 og fram úr, og það var ekkert gefið eftir. Hvorki í textum né radd "gæðum"! Fjórir gítarar, tvær nikkur, píanó, hristur, skeiðar og jakalele sáu um að söngurinn yrði sem vænlegastur. Sumir kórmenn nestuðu sig til að eiga bita fyrir svefninn, en staðarvoffinn sá sér leik á borði þar sem menn settu kræsingarnar út fyrir svaladyrnar! "Guð blessi hann" sögðu þeir sem höfðu tapað flestum flatkökunum. Allir fóru heim glaðir og kátir eftir vel heppnaðan söng, bæði þann sem var "alvöru" og þeim sem var svona í gleðskap. Kæru bloggvinir, allir ættu að syngja, ef ekki í kór , þá bara í sturtunni, því söngurinn göfgar og glæðir, guðlegan neista í sál. Vittu til eins og maðurinn sagði: Það syngur enginn vondur maður. Þar til næst.

miðvikudagur, 29. október 2008

Held enn haus

Þrátt fyrir lélega stöðu mína í bloggheimum held ég sjó og líður bara nokkuð vel. Vetur konungur er mættur og var snjór yfir öllu í dag, og merkilegt nokk, ég fékk ekki í hnén við að sjá þann hvíta. Gæti aldrei búið á snjóþungum stað nema eiga þrúgur, fjallajeppa með stóru effi, snjósleða og sexhjól með keðjum. Yrði líka að eiga "snjósjálfmokara", vélknúinn, því ég myndi ekki nota minn bestahelming í þvílík verk. Ég er semsagt ekkert að huga að búferlum og lúxustækin eru víst auðseld til útlanda nú um stundir. Dettur mér þá hug allar þær vörur sem hafa verið svo auðfengnar, höfum við eitthvað þær allar að gera? Af hverju þarf maður að vera í kvíðakasti að velja á milli margra tegunda af tómatsósu? Af hverju dádýrs- og kengúrukjöt, og afhverju danskan kjúlla og írskar svínalundir? Að vísu búum við ekki til tómatsósu, en Íslendingar eru sjálfum sér nógir á matvælasviðinu. ---Kaupum íslenskt.--- Ég er að mörgu leyti gamaldags í matarstússi, og finnst búmannlegt að eiga mat í kistunni minni. (við erum svo heppin að hér er sláturhús) Vetrarforðinn tekur kannski í budduna á haustin, en mér finnst þetta betra. Er yfirleitt ekki komin fyrr en seint heim úr kennslu, og kvöldvinna 4 kvöld í viku. Þá er bara að fara í kistuna og ákveða daginn áður hvað borðað verður það kvöldið. Elda svo fyrir fjóra og hita upp afgang...Bingó... Ameríkufarinn er alinn upp við að þurfa að gefa jafnvel út seint að kvöldi hvað hafa skuli í matinn kvöldið eftir! Þetta fannst dóttlunni alltaf svolítið spaugilegt, en svei mér þá, nú á hún kistu! Kannski spyr hún þá bræður/eiginmann hvað þeir vilji hafa í matinn á morgun, hver veit? Með þessu matarkjaftæði verð ég að láta fylgja með að í fyrsta sinn á ævinni bjó ég til sviðasultu um daginn, og mikið hvað hún er góð! ---Svona í lokin er ég að velta því fyrir mér hverjum ég á að trúa, er nefnilega komin með upp í kok af ráðleggingum fræðinga. Það er eins og þetta blessaða fólk hafi ekki lesið sömu skólabækurnar. Ég lærði að 2+2 væru 4, og ekkert hægt að teygja það né toga. Nú ætla ég hinsvegar að trúa á sjálfa mig í einu og öllu, standa með mér og falla, og draga engan með mér í svaðið. Þar til næst.

þriðjudagur, 21. október 2008

Að halda haus.

Alltaf er ég söm við mig, ef ég pirra ekki bloggvini þá pirra ég bara sjálfa mig. Ég get tekið því, en ég á bágt með að skilja afhverju landar mínir í útlöndum skammast sín fyrir að vera Íslendingar og tala tungum. Hvernig í veröldinni er hægt að leggja heila þjóð í einelti, og er ég þá að tala um hinn almenna Jón, en ekki þá fáu sem "bera ábyrgð". Þetta er forheimska af þeim sem stunda. Ég legg ekki fæð á Dana sem þó eru sagðir hafa kúgað íslenska þjóð, eða Breta sem töpuðu þorskastríðinu við okkur. Eftir það voru það sko ekki Bretar sem keyptu af okkur fisk eða seldu okkur olíu. Eigum við að spýta á Dani og Breta? Nei, nei, svona á fólk ekki að haga sér, og ég ætla að gerast svo djörf að halda mínu þjóðerni á lofti hvar og hvenær sem er. Stolt í lopapeysu eða á upphlut, og hinir mega bara eiga sig. Vonandi geta einhverjir tekið undir með mér, eða er ég kannski sú eina með þessa skoðun? ---Síðan síðast hefur tíminn flogið við ýmislegt. Karlakórinn tekur sinn tíma, svo er einnig um kvartettinn að ég tali nú ekki um Gleðigjafana. Allt á fullu í aukastörfunum, og er það vel, því söngurinn göfgar og glæðir. ---Í dag voru flottir tónleikar í tónskólanum þar sem 20 píanónemendur komu fram, og eingöngu með fjórhent. Lífið er gott, og ég ætla að halda haus og vera Íslendingur í húð og hár! Þar til næst.

miðvikudagur, 15. október 2008

Samkennd og hlýhugur.

Ekki veit ég hvernig kaffigestir taka þessum pistli, þeir skammast þá bara í kommentunum. Í þeim "bloggheimum" sem gægist í hafa systurnar reiði og örvilnan ráðið ferð oft á tíðum. Það er ekkert skrítið, ég virði það, og tek heilshugar undir margt sem þar er skrifað. Ég er ekki endilega að leika frk. Pollýönnu, en nú held ég að við ættum öll að skrifa svosem eins og einn pistil hvert þar sem bjartsýnin skín í gegn, og kommenta á slíkum nótum hvert hjá öðru.--- Ég tek það fram að ég finn til með því fólki sem misst hefur vinnuna, að ég tali nú ekki um lífssparnaðinn sem margir hafa tapað. Þá er ég að tala um hinn venjulega mann, um hina er mér nokk sama. Ég hef fengið e-meil frá fjarlægum slóðum þar sem þarlendir fullyrða að við séum að sökkva í sæ með manni og mús og uppétin af Rússum. Mér leiðast svona fullyrðingar, þær gera engum gagn. Virða ber að það eru margir sem þola ekki slíkan fréttaflutning. Því að bæta gráu ofaná svart? Íslendingar hafa um aldir gengið í gegnum hremmingar (að vísu oftast af náttúrunnar völdum), en komist frá þeim. Svo gerum við nú, en til þess þarf samstöðu, og hana eigum við! --Þegar ég tek þátt í afmælum eða brúðkaupum og hef míkrófóninn við höndina læt ég gjarnan gestina fara útá gólfið og mynda hring. Allir takast í hendur og syngja saman eitthvað fallegt lag, rólegt. Þá skapast mikil vinátta sem sýnir að fólki er annt um hvort annað. Núna bið ég mína kaffigesti að búa til stóran hring, og við skulum syngja hvert með öðru "fram í heiðanna ró". Þar til næst, kveðja á alla bæi.

föstudagur, 10. október 2008

Lesist með húmorinn í fyrirrúmi.

Eins og flestir sem ég þekki og hitti eru þreyttir á fréttum dagsins, og ég ætla ekki að bæta þar um. Hugurinn er þó hjá þeim sem hafa unnið hörðum höndum allt sitt líf og tapað sparnaði sínum, og hugurinn er líka hjá hinum venjulega launamanni sem á í erfiðleikum. Ég semsagt vona að við sem þjóð náum að vinna úr þessu ömurlega ástandi, og að þeir háu herrar sem eru í eldlínunni haldi sjó. Framhaldið verður að skýrast síðar. ---Ég hef alltaf haldið uppá góðar fréttir, en með því segja sumir að ég stingi hausnum í sandinn og vilji ekki sjá lífið eins og það er. Það er ekki rétt, ég vil bara halda geðheilsunni! Í dag söng litli Eyjólfur fyrir mig sönginn um dagana, og það var fallegt. Hann er að vísu ekki kominn með alla dagana ennþá, en þetta mjakast. Natti klifraði upp á borð í beinni og var örlítið rasssíður! Þeir bræður eru yndislegir og ég, þessi algjöra tæknifæla elska skybið því það viðheldur nándinni. Svanfríður syngur mikið fyrir strákana sína og elskar Eyjólfur músíkina um Pétur og úlfinn. Nú er altso bókin komin út fyrir börn og er hún á leið til Ameríku. Eyjólfur kíkir á póstbílinn á hverjum degi og bíður, og hann bíður ogg bíííður! Natti nýtur góðs af stóra bróður og er farinn að dilla sér. Ég sakna þeirra, en tíminn flýgur, og áður en varir verður allt gott aftur og við besti helmingurinn á leið til Cary. Þá verður gaman. Í þessum skrifuðu orðum rifjast upp fyrir mér þegar við vorum að koma úr einhverri mall-ferð s.l. sumar í Cary. Á rauðu ljósi renndi maður í bílnum við hliðina niður rúðunni og spurði mig hvert við værum að fara. Jú, ég vissi það og benti vel og rækilega. Ekki vissi ég nákvæmlega þá hvert dóttir mín ætlaði því upplýsingar af þessu tagi eiga bara heima í Hlíðunum! Ég í sakleysi mínu var að ég held að vísa manninum í rétta átt, en í hvaða átt veit ég ekki. Held að mér höndum næst. Ein góð að lokum: Þegar ég á góða stund með sjálfri mér spila ég gjarnan skrabbl við sjálfa mig, og vinn mig iðulega. (stundum vinnur Sigtryggur) Besti helmingurinn ruddist inn í eina svona róstund, gekk að útvarpinu, skipti um rás gekk til dyra og hvarf. Jamm, hver var tilgangurinn? Veit ekki--- en ég veit að þar til næst ætla ég að spila fallega yfir góðri vinkonu og líka að spila við brúðkaup. Kveðja á alla bæi.
Natti undir styrkri afa hönd að læra að labba, skref fyrir skref
Vinnumaður sem kveður að

þriðjudagur, 30. september 2008

Ljóta vitleysa.

Fer ekki út í þá sálma nánar sem titillinn gefur til kynna. Er bara gáttuð og veit ekki hverju ég á að trúa. ---Þegar ég var lítil stelpa sagði mamma mín oft: sannleikurinn er sagna bestur, því ósannindin komast alltaf upp.--- Mamma mín var nefnilega vitur kona, en það er ekki hægt að segja um marga sem tröllríða nú um stundir görðum og grindum í þjóðfélaginu. Sveiattan barasta. Lífið er annars nokkuð stabílt hér fyrir "eystan", og nóg að gera á öllum vígstöðvum. Heyrði því fleygt á dögunum að hér væri einn á atvinnuleysisskrá, og finnst mér það teljast til tíðinda.--- Sem framhald af síðasta pistli þá er tannsi búinn að gera við brotnu framtönnina svo nú er ég aftur falleg til brossins, og líkist alls ekki Bó lengur. Rótarbólgan á undanhaldi, jaxlinn fer í viðgerð fljótlega, og síminn minn er í höndum fagmanna. (að ég held) Dóttir mín segir stundum að ég skuli frekar fara með hann á leikskólann, þar kunni sko fólk til verka þótt lágvaxið sé! Á móti kemur að ég kann að leggja saman debet og credet, sko í höndunum þannig séð og fengið út þá tölu sem ég vil. Ég get líka skrifað á ritvélar eins og þær voru í den tid og notað kalkipappír! Það ætti að slengja saman ungum og öldnum í meira mæli, þá gætu allir lært eitthvað nýtt.--- Fátækleg voru skrifin þennan daginn, en þar til næst safna ég í sarpinn. Kveðja á alla bæi.

mánudagur, 22. september 2008

Hrakfarir -- gamlar og nýjar.

Titillinn er máske ekki alveg kórréttur, en samt. -- Fyrir fjórum árum fæddist litli snúðurinn minn, hann Eyjólfur, eða þann 20. sept. Hnátan mín bjó þá á Akureyri og var ákveðin í að fæða barnið þar. Ásamt Bert ætlaði ég að vera viðstödd fæðinguna. Fyrir áætlaðan fæðingartíma hringdi hin verðandi móðir um miðja nótt og var þá allt komið í gang. Ég sem sagt rauk af stað með töskuna tilbúna og leist mínum besta helmingi ekki sem best á aðstæður. Þetta gerðist nefnilega of snemma fyrir "rétt" tímaplön. Hvað um það, á mínum fjallabíl brunaði ég frá Hornafirði til Akureyrar. Hafði fram að þeim tíma ALDREI tekið olíu á bílinn úr sjáfsala því bestemand sá um slíkt. Samt gat ég það á Egilsstöðum! Mikið lifandis ósköp var Jökuldalurinn langur, svo ég tali nú ekki um öræfin þar fyrir austan. Til að gera langa sögu stutta þá náði ég vel í tæka tíð, og lítill maður leit dagsins ljós, fallegastur og bestastur! Nóttinni eyddu svo foreldrarnir í hreiðrinu á spítalanum með sínum kút, en ég svaf í íbúð hnátunnar. En mikið hvað hann ringdi! Ég var uppgefin og sofnaði fljótt, en þurfti að um miðja nótt á klósett. Þegar ég steig fram óð ég vatnið, og í minningunni upp í klof. Hvað gerði ég þá? Hringdi í besta helminginn og grátbað um ráð frá Hornafirði, en yndislegir eigendur hússins bjuggu á efri hæðinni, en ég hafði ekki rænu á að leita hjálpar þar. (Ásta og Bensi, ef þið lítið hér við þá segi ég: takk fyrir allt. Ég hafði bara ekki vit á að vekja ykkur) Minn elskulegi bað mig ofur rólega að líta á niðurfallið fyrir framan útidyrnar, jú jú, þar var allt í fári. (kjallari) Laufblöð haustsins höfðu yfirfyllt niðurfallið og vatnið átti því greiða leið inn í íbúðina. Þá byrjaði ballið hjá hinni ofurþreyttu frú. Balar,fötur, handklæði, fægiskóflur, gólf-og borðtuskur---allt var notað. Veit ekki hvernig ég fór að þessu, og alltaf með hinn helminginn á eyranu. Í dögun voru gólfin þurr, en allt annað blautt og Eyjólfur svaf í faðmi góðra foreldra. -- Allt fór þó vel og ég er stolt amma tveggja snúða. ---Ég var líka viðstödd fæðingu Natta, en þá gegnum síma, þökk sé tækninni.--- Hrakfarirnar í dag eru: Rótarbólga og penesilín, brotnaði úr framtönn í kvöld og gemsinn minn skiptir um hringitón sí og æ, þannig að ég veit aldrei hvort ég á hringinguna eður ei. Það bjarta í þessu er að tannsi tekur mig í fyrramálið og Martölvan sér um gemsann. Penesilínið verður bara að fá að njóta sín um stund, en þar til kveð ég þar til næst.

miðvikudagur, 17. september 2008

"Klukk" í belg og biðu.

Ég var klukkuð af dóttur minni, en til gamans má geta að hún veit öll svörin. ---Bíómyndir: Svanfríður mín, þú veist að ég elska bara Tónflóð! Fyrir hina sem ekki til þekkja hef ég ekki farið í bíó síðan Karlakórinn Hekla var sýnd, og fékk ég mér þá popp og kók! Sem unglingur sá ég þó mynd sem ég gleymi aldrei. Hún heitir að mig minnir, Days of wine and roses. Alveg mögnuð. ---Sjónvarpsþættir, og það fjórir, úff. --Nágrannar til nokkurra ára, en spaugstofan og útsvar eru algjört "must".-- Hef farið víða um dagana í frí og upplifað margt skemmtilegt. (tónleikaferð um Ítalíu fyrir margar sakir kemur fyrst upp í hugann á þessari stundu. Skrifa kannski um hana seinna.) ---Les mikið: Allt önnur Ella er góð bók, Guðmunda söngkona, Strokið um strengi og fleiri og fleiri. Ég tala nú ekki um allt safnið hennar Guðrúnar frá Lundi. ---Kíki á hornafjörður.is + dagblöðin og allur matur er góður! Ég elska "gamlan mat". Saltkjöt og baunir, hakka í mig súrmat, og hrogn og lifur er sælgæti. Mér hreinlega finnst allt gott nema hafragrautur og brauðsúpa. ---Þá er komið að því síðasta: óskastaðurinn NÚNA er litla bláa húsið í Cary, og það fjórum sinnum. ---Sl. vika hefur verið skemmtileg. Kennarar í Tónó fóru í óvissuferð á föstudaginn var og skemmtum við okkur konunglega. Spiluðum við þjóveg eitt undir jöklum í yndislegu veðri. Ég fullyrði að "blessuð sértu sveitin mín" hafi aldrei hljómað eins vel og þarna. Eftir upphitun við þjóðveginn spiluðum við fyrir 140 kýr+ kálfa í nærliggjandi hjarðfjósi. Ég hef alltaf haldið andlitinu við spilamennsku þar til þá, ég hélt ég myndi deyja úr hlátri, og var ekki ein um það. Kálfur einn dásamlegur baulaði, en var þó auðvitað ekki að baula okkur niður, bara að láta í ljós ánægju sína, ég er viss um það, en þá varð allt vitlaust í fjósinu og allar þessar kýr settu upp halann, bauluðu kálfinum til samlætis og tóku einn góðan hring. Við hættum öllum músíktilraunum, en um leið og tónlistin fjaraði út hættu kusurnar að dansa. ---Þær semsagt elska tónlist.---(veit fyrir víst að nytin datt ekki niður) Eftir flottan mat á góðu sveitahóteli og eftirrétt á næsta bæ þar sem framleiddur er gæðaís var gott að skríða í bólið, og það með hina bestu lykt sem hægt er að hugsa sér. Lykt úr tónlistarhjarðfjósi! Þar til næst.

fimmtudagur, 11. september 2008

Útlitsdýrkun

Takk fyrir góð tölvuráð, og ég hef ákveðið að henda tölvunni minni ekki út í horn, en ég ætla að læra betur á græjuna með góðra manna hjálp. Eitt hef ég þó mér til málsvarnar: ég opna aldrei óþekktan/duló póst, því í verunni er ég afar varkár kona, svo varkár að það jaðrar við fötlun. Ég er bara klaufi, en er þó öll af vilja gerð að gera betur. --- Það er ýmislegt sem ég læt fara í pirrurnar á mér, hvar svo sem þær eru.-- Sat á læknabiðstofu á dögunum og fletti tímaritum. Þau eru full af aðferðum til að líta betur út, hvernig þú átt að klæða þig, hvernig þú átt að mála þig, hvernig þú átt að halda í ástmanninn/makann og bara nefnið það. Í mínum augum heitir þetta útlitsdýrkun, og allir eiga að vera svona og svona til að funkera í lífinu. Fatnaður og húsbúnaður skiptir þarna töluvert miklu máli líka. N.B. þetta sem ég las er einvörðungu fyrir konur. Kannski eru til álíka tímarit fyrir karlpeninginn þó ég hafi ekki séð þau. Mikið finnst mér þetta vond skilaboð til þeirra sem ekki treysta á sitt eigið sjálf og halda að með þessu öllu sé lífshamingjan fundin. Á 57 árum hef ég marga hitt og mörgum kynnst og hefur útlit ekki skipt nokkru máli í því sambandi. Ég er mjög hávaxin og grönn, hef átt vini sem eru litlir og búttaðir og hef átt svarta vini og asíska, sköllótta og rauðhærða. Enginn er eins, þannig er mannflóran, og hefur hver maður sinn sjarma. Ég vil meina að fólk þarf ekki að vera hávaxið með ljóst hár og pakkaútlit til að vera fallegt.--- Einu sinni átti ég kisu sem var flott, og læt ég (gegnum Ameríkufarann) fylgja nokkrar myndir af henni teknar yfir 12 ára tímabil. Krúsa var EKKI há grönn og ljóshærð, þurfti ekki öll kisuúrræðin til að verða einn flottasti og með þyngriever”. Hún varð 10 kíló og mikið elskuð. Þar til næst Brói og Krúsa leika samspil


sunnudagur, 7. september 2008

tölvunörd?

Heil og sæl öllsömul. Það er ekki alveg svo að ég sé pennalöt, annað kom til. Fyrir rúmu ári tók tölvan mín uppá því að frjósa, þrátt fyrir gott hitastig í húsinu! Stundum var allt í lagi, en svo komu dagar sem allt fraus nánast í hel. Ég var orðin nokkuð lunkin við að bæta ástandið með því að slökkva á henni og "ræsa" hana aftur. Gott mál...en bara stundum, og ekki gerði ég svosem neitt í málunum. Hélt bara að ef ég styngi hausnum í sandinn þá hyrfi vandamálið. Í fyrri viku gekk þetta vandamál svo langt að besta helmingnum var nóg boðið og arkaði með gripinn undir armkrikanum til meistarans. Þar sem tölvan er samskiptatæki við fjölskylduna í litla bláa húsinu var brýnt að leysa málið snöggt og örugglega. Meistarinn hringdi og tók að spyrja mig hinna skringilegustu spurninga: Hvernig var vírusvörnum háttað, hvenær tók ég til í gripnum síðast og bla bla, en þegar stórt er spurt verður nefnilega fátt um svör. Ég hef alltso alls ekki gert neitt af því sem meistarinn spurði um. Ég á þennan grip, tek á móti pósti, sendi póst, tala við Ameríkufarann og punktur! Ég tek til heima hjá mér, en enginn hefur sagt mér að ég þurfi að TAKA TIL í tölvunni, eða hvernig á að gera það. Í skólanum vinn ég í tölvunni þegar ég þarf, en þar eru aðrir sem sjá um þessa svokölluðu tiltekt. --- Jamm.--- Meistarinn fann tugi vírusa í gripnum mínum, og TÓK TIL. --- Hallelúja, og málið leyst.--- Eða það hélt ég, en hún frýs enn. Þó er hitastigið vel yfir 20 gráðunum! Nú er bara að krossa fingur og sjá hvort þessi texti skilar sér á veraldarvefinn. En ég veit að meistarinn reddar þessu ef hægt er, en ofaná allt annað þarf ég að læra að taka til í þessu leiðindarapparati. --Tæknin er góð, en getur valdið höfuðverk hjá þeim sem eru tölvufatlaðir, og það er ég svo sannarlega. Hækjurnar mínar eru hjóm eitt miðað við þessi ósköp!---Vikan sem leið var góð í kennslunni og virðist sem stundataflan standi því enginn hefur kvartað, og held ég því ótrauð áfram. Kórastarfið er að detta inn á næstu dögum og fer því vetrarrútínan að rúlla eins og hún hefur gert síðustu 30 ár eða svo. Mér líkar reglulegt tempó.--- Kæru bloggvinir, annaðhvort læri ég almennilega á tölvuna eða hendi henni útí horn. Tölvunördinn kveður þar til næst.

fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Mér er fyrirgefið

Takk fyrir góðar kveðjur, og brúðkaupsdagurinn var frábær, bæði hjá okkur besta helmingnum sem og hjá brúðhjónunum sem stálu senunni. Þau voru svo falleg. Mikil veisla haldin um kvöldið með öllu tilheyrandi, en þá veiktist ég. Jamm, í byrjun skólaárs. Náði þó að henda hækjunum og stíga rólegan dans við minn mann svona í tilefni áranna 33. ---- Kvef og bronkítis eiga aldrei rétt á sér og alls ekki á þessum tíma árs. Læknir og lyf hjálpuðu, og komst ég í skólann í dag, og vonandi stenst stundataflan þegar ég prufukeyri hana á mánudaginn. Mig langar oft að vera galdrakerling þegar kemur að púsla saman stundatöflu, segja bara HVISS, og allt klárt í fyrstu tilraun.--- 23 nemendur í einkatímum, skólinn einsetinn og ALLIR þurfa að komast að á sama tíma! Þá kemur að því, altso forgangsröð þeirra sem stjórna okkur pupulnum. Ég hef verið nokkuð límd við skjáinn síðustu daga og hef oft ekki haldið vatni við þá iðju. Það er bruðlað í öllum hornum þjóðfélagsins, og sukkið er yfirgengilegt. Sumir eru með 60 millur í mánaðarlaun, menn veiða lax í massavís, fljúga um á einkaþotum til að geta keypt sér eina með öllu í einhverri vegasjoppu, og upptalningin er sko ekki búin. En ég læt staðar numið.--- Ljósmæður flýja stéttina, erfitt er að manna í heilbrigðisgeiranum, útigangsfólk er látið lönd og leið, fötluðum úthýst og alltof margir eru látnir lifa undir fátækramörkum. Mér verður illt. Hvar eru þessir menn sem vilja stjórna öllu, hvað eru þeir að gera? Þegar stórt er spurt verðu oft fátt um svör. Svörin á ég því miður ekki, en ráðamennirnir svokölluðu verða að vakna upp af sínum Þyrnirósarsvefni. Mitt í öllu skjáglápinu var þó glæta, ég horfði á Sound of music, örugglega í skipti nr. 203! Lygalaust, ég kann hana utanbókar, bæði lög og texta, en verð alltaf jafn meyr í hjartanu og spennt í maganum við áhorfið. Ég hlýt að vera með einhver heilkenni! Hvað um það, þá er Tónflóð mynd sem hreyfir við mér á svo margan hátt, og svo elska ég Disney myndir! Þar hafið þið það. Reyndi eftir áeggjan Ameríkufarans í eina tíð að horfa á Júragarðinn, en þegar ég var búin að sitja dágóða stund með lokuð augun, og var farin að kíkja blind fyrir vegghornið þá gafst ég upp. Síðan þá held ég mig við Tónaflóð og Disney. Er mér ekki fyrirgefið? Þar til næst.

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Halló þið öll.

Takk fyrir kommentin, það er gaman að þessu öllu. Þó ekki þættinum sem var á RUV í gærkvöldi um fimleikaþjálfun ungra barna í Kína. Mér varð hreinlega flökurt. Heyrði svo viðtal við kínveskan þjálfara í kastljósi kvöldsins, og er himinn og haf milli þessara landa hvað þjálfun varðar. Ég var samt glöð að heyra að honum fannst íslenski veruleikinn betri.--- Ég varð líka mjög glöð með hvert lottóvinningur laugardagsins fór, þótt ég sjái litla glætu í því að einn maður skuli fá alla þessa peningaupphæð. Vonandi verður þeim vel af og fái að vera í friði með sitt fé. ---Ég er líka glöð yfir vel unnu dagsverki hérna á Hólabrautinni, og er líka glöð yfir að vera í góðu formi til að hefja kennslu eftir næstu helgi.---Það er sem sagt margt sem ég get glaðst yfir.--- Á laugardaginn kemur ætla ég að spila við brúðkaup og hef mér til fulltingis ágæta söngmenn.--- Þá er 23. ágúst. ---Þann dag höfum við besti helmingurinn alltaf haldið uppá, og gert okkur dagamun því þá giftum við okkur. Mér finnst núna við hæfi að gefa brúðhjónum dagsins alla mína gleði, og get eingöngu vonað að þau nái að minnsta 33 árum eins og við "bestimann". En það er ekki gefið eins og allir vita, og við hjónin höfum verið heppin. Fyrir það fyrsta að finna hvort annað, og að hafa getað hlúð að þessu "fyrirtæki" sem hjónaband er án þess að verða fyrir "gjaldþroti". Kannski asnaleg lýsing á hjónabandinu, en dugir mér vel. ---Verð að láta eina flakka sem er mjög fyndin í minningunni. Pabbi minn elskulegur leiddi mig inn kirkjugólfið á sínum tíma. "Lingemand" var MJÖG nákvæmur maður og við vorum búin að æfa þennan gæsagang vel heima í stofu. Pabbi átti að leiða mig inn í takt við brúðarmarsinn, og hann söng ég á æfingunum. Þegar til kastanna kom skreið fluga eftir nótum organistans, eða að hann verið svo imponeraður af athöfninni að allt spilið fór einhvernveginn í vaskinn. Pabbi lét það ekki á sig fá heldur stikaði inn kirkjugólfið með mig í eftirdragi,var stundum í takt, en stundum hreinlega stopp. Hann gerði nefnilega allt rétt og það sem fyrir hann var lagt. ---Þegar Svanfríður og Bert giftu sig þá spilaði ég alla tónlistina í athöfninni. (að vísu með smá hjálp frá herra Eyjólfi sem söng stórum) Mér var mikið í mun að spila nú vel og rétt svo sagan endurtæki sig ekki. Það tókst og feðginin birtust svo fallega að ég fæ alltaf ´"kött" í kokið við tilhugsunina. Þetta er nú orðið gott kæru bloggvinir af góðum gömlum minningum, en þær eiga samt alltaf rétt á sér. Látið ykkur líða vel, og mig langar til Ammmerííku! Þar til næst.

mánudagur, 11. ágúst 2008

Fréttir af flækingi...taka tvö

Jæja gott fólk, þetta var langt bloggstopp, því ég var svo upptekin í að vera með faraldsfætur á flækingi. Settist niður áðan og skrifaði að ósk dóttlu minnar langan pistil, en hann fór fjandans til! Veit ekki hvernig gengur núna og krossa fingur. Fyrir allt þetta brölt mitt vil ég fá mikið af kommentum, og hana nú. Áður en við besti helmingurinn fórum til Spánar eyddum við dásemdardegi í að keyra um Reykjanesskagann, og mikið lifandi hvað hann er fallegur. Í mollunni sem tók á móti okkur syðra hugsaði ég fallega um skagann, og í raun um að ég tel að við búum í besta landi veraldar. Nú er ég ekki að deila á þá sem kjósa að búa annarsstaðar, af og frá, er bara að slengja á ykkur mínum heimóttarhætti. ---Ég tel mig vera frjálslynda konu og nokkuð siglda eins og sagt var í gamla daga, en nú var bleik brugðið í ferðinni syðra. Í sundlauginni busluðu tvær mæður með börn í sundfötum, en þær voru huldar svörtu frá toppi til táar. Eiginmennirnir höfðu það svo huggulegt á bakkanum í flottum NIKE stuttbuxum. "Ja, mikill er máttur þinn drottinn hugsaði ég." Við hinar fáklæddari höfum sennilega litið út eins og bjánar. Spánn, eins og venjulega tók vel á móti okkur og við nutum í botn allra gæða sem við gátum. Eyddum degi með spönskum vinum, það er svo dýrmætt að fá að upplifa það sem ekki liggur á lausu fyrir marga. Þegar við lentum í Keflavík var hitastigið þar ekki mikið lægra en syðra, og lá við að farþegarnir æjuðu. Tveimur dögum eyddum við svo með góðum vinum í Borgarfirði, ferðuðumst og pottuðumst í íslenskri náttúru. Við heimkomu fengum við góða gesti og þefuðum að rósunum, og brakandi þerrir gerði allt svo auðvelt. Svo var lagt aftur af stað, og nú í brúðkaup. Athöfnin fór fram í garði hjónanna og var yndisleg. Ég vil endilega endurtaka brúðkaupið með besta helmingnum, því þetta er svo fallegt! Á Spáni gerði ég það sem allar pæjur gera, ég keypti RAUÐA skó og tösku í stíl! Nú er ég hæf í hvað sem er, og auðvitað skartaði ég þessum fínheitum í brullaupinu. Um næstu helgi langar okkur til að eyða meiri olíu.... eftir það sláum við á puttana, heftum hægri fótinn, og etum fjallagrös og bláber fram yfir sláturtíð. Munið eftir kvittinu því ég hafði töluvert fyrir þessu. Þar til næst.

sunnudagur, 13. júlí 2008

Flogin!

Jamm, nú skal haldið í'ann. Garðurinn flottur, 70 fermetrarnir málaðir og húsið hreint. Við besti helmingurinn tékkum okkur út og pössunarhúsflugurnar tékka sig inn. Á næstunni ætla ég að liggja og lesa, skoða mannlífið, borða góðan mat, stinga táslunum í sjóinn og drekka kaldan öl klukkan 5! Þegar ég kem heim verð ég sælleg og hraust og tilbúin til að takast á við nánast hvað sem er. Elskurnar mínar, ekki gleyma að kíkja í kaffi til hennar dóttlu minnar í Ameríku þann 17. júlí. Þá á hún afmæli og hún á örugglega góða köku að smjatta á. Þar til næst...

sunnudagur, 6. júlí 2008

Var skotin...og er skotin!

Syngibjörg beindi haglaranum á mig, og ég læt vaða. Veit samt varla hvað ég á að segja um mig, svo ég ætla að byrja á óskostunum. T.d. er ég langrækin ef einhver gengur illa á minn hlut og er oft óþolinmóð yfir einhverju sem ekki skiptir máli. (asnalegt) Að vísu er ekki ókostur í mínum augum að þola ekki óstundvísi, en hún á ekki að líðast. Þoli ekki hvað ég er sein að fatta brandara, og trúi öllu sem í mig er logið.(nema illmælgi) Er B manneskja þegar ég get leyft mér það, (mörgum finnst það óskostur) get alls ekki borðað brauðsúpu og finnst hafragrautur óyndislegur. Elska kaldan bjór en þoli ekki koníak, rauðvín og viský. Þetta eru ókostirnir sem mér dettur í hug núna, en ég er viss um að þeir eru stærri og fleiri, en kostirnir kæru bloggvinir eru náttúrulega miklu fleiri en lestirnir!! Réttlæti, óeigingirni, stundvísi og heiðarleika reyni ég fylgja af bestu getu. Mér finnst hin almenna manneskja spennandi og hef gaman af að hitta gott fólk.--- Aðra læt ég í friði. ---Einn af mínum "ókostum" sem ég ræð þó lítið við er innilokunarkennd. Sennilega eitthvað gamalt. Allavega verð ég að ráða aðstæðum í það og það skiptið svo ekki fari illa. Meðan Svanfríður mín bjó fyrir norðan áttum við mæðgur saman þar nokkra daga í sól og sumaryl. Ég var eitthvað dauf yfirlitum svo dóttla mín benti mér á snyrtistofu í bænum þar sem ég pantaði lit á augnkonfektið. Lá þar á bekk með augun límd aftur og leið ekki par vel þrátt fyrir rólega tónlist. Allt í einu finn ég hvar snyrtidaman gengur út úr gluggalausu herberginu, slekkur ljósin og lokar hurðinni varlega á eftir sér. Mér varð ekki um sel, en reyndi að harka af mér. Ég harkaði af mér í smástund en var þá farin að skjálfa töluvert en reyndi að anda RÓLEGA --rólega...inn út, ínn út. Dugði ekki til svo ég fór að kalla, en mjög lágt, fannst asnalegt að geta þetta ekki. Enginn heyrði svo ég tók að æpa, og var orðin hálfhrædd um að ég yrði blind ef ég opnaði augun. Loksins var ég bænheyrð og daman kom inn þar sem ég hálfkjökraði að mig sviði í augun! --Algjör lygi.-- Þegar ég gat opnað augun sagði ég dömunni að ég væri haldin innilokunarkennd og mig sviði ekkert í augun. Þetta var alltsaman óyndislegt eins og hafragrautur. Daman reyndi hvað hún gat að spjalla við mig til að ég róaðist almennilega og spurði t.d. hvort ég væri "gÓlfari". Þar sem ég var stödd í ókunnu bæjarfélagi skildi ég ekki spurninguna ( þið vitið, Gaflari og þessháttar) og sagðist því vera Hornfirðingur. Þá stóð daman á gati og öll senan því orðin dálítið vandræðaleg. Þannig er að ég ber alltaf lítið gullnisti um hálsinn sem er áttundapartsnóta, og daman hélt það væri golfkylfa! Hún talaði um "gÓlf" svo það var engin furða að ég misskildi hana. Golf og gólf eru einfaldlega ólík orð. --Get hlegið að þessu núna, en bara smá. Heiða Dís, sem er mín kona hér á Höfn hefur eftir þetta séð til þess að ég get farið í svona yfirhalningu án þess að fríka út. Það gerir hún með nærveru sinni. ---Nú er Humarhátíðin á enda og var skemmtileg í alla staði. Hún fór það vel fram að fjölmiðlar höfðu lítið sem ekkert um hana að segja. Rölt á bryggjunni í góðu veðri gerir manni gott + góðir gestir. Titillinn var: var skotin og er skotin. Er búin að uppljóstra ýmsu svo ég get alveg látið það fylgja að ég er ennþá skotin í bóndanum! Þar til næst.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Sjáiði bara, fínt, fínt.

Eftir mikla málningavinnu (í síðasta pistli) tók ég því rólega því puttarnir þurftu hvíld og olíubað/böð. Spilaði við tvær jarðarfarir svo þá þýddi ekki að ofbjóða sér. Eitt er víst að þegar maður fæðist fylgir dauðinn einhverntímann á göngunni. Hér hafa of margir látist það sem af er ári, og er alltaf erfitt að kveðja vini. Hvert líf er dýrmætt, en í litlu samfélagi þar sem nándin er mikil er tollurinn stór. --- Samt sem áður heldur sólin áfram að skína og lífið gengur sinn vanagang.--- Í dag háþrýstiþvoði ég stéttarnar í garðinum mínum og var hreykin í verklok. Allt svo hreint og fínt, og allur mosi farinn. Náttúrufræðingar hefðu tekið dýfur yfir frekjunni í mér, en ég ákvað að mosinn væri fallegastur úti í þeirri guðsgrænu. Í kvöld æjuðu puttarnir og spurðu hvort ég ætlaði ekki að spila tónleika á fimmtudagskvöldið...úpps...olíubað skal það vera. Eftir fimmtudaginn ætla ég að vera í algjöru fríi frá hljóðfærinu um stund og gera bara nákvæmlega það sem mig langar að gera. En hvað langar mig að gera? Ég ætla að bera fúavörn í 70 metra af timbri, ég ætla að þrífa hvert einasta rósablað í sólskálanum með barnaolíu, ég ætla að reyna að finna Máríerluhreiðrið sem ég held að sé í uppsiglingu í garðinum, (þær voru allavega að gera dodo í dag) ég ætla að búa til sultu og ég ætla að njóta þess að vera á Humarhátíð. Við besti helmingurinn tókum forskot á hátíðina og fórum á Humarhöfnina á laugardagskvöldið og ég held að kokkurinn þar sé galdramaður. Ég á hvítlauk, ég get bakað pizzubotn og ég á humarhala, en ég gæti aldrei gert eins góða pizzu eins og kokkurinn á Höfninni.--- Mæli með þessum stað.--- Eftir kvartettsæfingu í kvöld hóaði ég í bassann og bað hann um að taka fyrir mig eins og tvær myndir...ég á nefnilega ekki "svona vél", bara gamla yndislega. Birtan var svo falleg í kvöld, sólskálinn svo ljómandi og gullregnið í blóma.--- Þannig gerist þetta, og það er bannað að hlæja: Einhver tekur rmyndir og sendir mér þær. Ég áframsendi þær til Svanfríðar bestu dóttur + pistilinn, og hún, þessi elska setur svo punktinn yfir i-ið! Ofureinfalt fyrir góða klaufa eins og mig. Grænu froskastígvélin hans æðsta snúðs taka sig vel út á myndinni og litlu skórnir hans Natta á myndinni eru eins og litla bróður sæmir, fallegastir. Kæru bloggvinir, ég ætla bráðum á Spán en þið fáið örfáa pistla í æð áður. Þar til næst kveð ég undan grænum stígvélum og gullregni.

miðvikudagur, 25. júní 2008

Málarameistari?



 
Þegar sumarið kemur fyllist ég geysilegri löngun til að mála. Ekki málverk, því drátthög hef ég aldrei verið, en að mála utanhúss eru mínar ær og kýr. Ef "bestasti" helmingurinn telur að ekkert þurfi að mála get ég samt alltaf fundið smugur, og þær smugur mála ég. Það er fátt betra en að sitja á rassinum, nú eða á stól og mála. Ég get þessvegna málað allan heiminn ef út í það fer. Pallarnir eins og nýir og timburverkið líka. Nú er bara snudd eftir, (eða þannig) en það verður að bíða fram yfir helgi. Nú eru spilaputtarnir í öðru hlutverki, og verða að vera í lagi. Hér á Höfn er bátur á þurru landi sem dregur að sér margan ferðamanninn. Akurey. Sá bátur hefur tilfinningarlegt gildi fyrir marga því á honum skólaðist margur sjómaðurinn, en aðrir vilja hann jafnvel á burt. Hvað um það, umhverfið er fallegt og það þarf að halda því og báts-skrokknum við. Karlakórsmenn hafa verið ötulir í að vinna verkið, og þar sem ég tel mig vera karlakórakonu tók ég náttúrulega þátt í þeirri vinnu. MÁLNINGARVINNA!  Skipamálning er samt ekki góð í hárið eða á húðina svo mikið er víst. --Ég var alveg viss um það í vetur að nú væri þessi "sumarfíkn" á enda því hnén gætu ekki afborið svona meðferð. Ég get þetta samt og fyrir það er ég þakklát. ---Eftir svosem eins og smátíma förum við helmingarnir til Spánar til að gera ekki neitt. Það sennilega kemur af sjálfu sér þar sem evran verður í fljúgandi hæðum. Hvað um það, þetta er ákveðið og hlakka ég til. Ég vildi svosem heldur vera á leið minni í litla bláa húsið, en það verður ekki á allt kosið. Þetta var allt ákveðið löngu fyrir evrustríðið. Kæru bloggvinir, látið ykkur líða vel og njótið sumarsins. Málarameistarinn kveður þar til næst.

miðvikudagur, 18. júní 2008

Svona gerum við, eða ég.

Takk kæru lesendur sem kvitta fyrir komuna. Veit ekki af hverju mér þykir vænt um það, en svona er það bara. Ég veit svosem ekki heldur af hverju ég/við erum að blogga, þetta er bara eitthvað svo notalegt. Hafði ætlað mér í byrjun sumar að setjast niður á HVERJUM degi og skrifa smá, en tíminn líður og ég geri það ekki. Eins og mér finnst gott að skrifa mig frá deginum. Fer þó minn reglulega rúnt og ætlast til að allir hinir hafi eitthvað nýtt fram að færa. Tvískinnungur frúarinnar aftur á ferð!. Ég ætla ekki að skrifa um síhækkandi verð á öllu eða um bangsana sem dóu, ég hreinlega nenni því ekki. Frekar að segja ykkur að rósirnar mínar dafna vel, ég er búin að juða hendurnar upp að öxlum í pallapússi, og líka búin að bera í þá. Fann vel fyrir því á tónleikunum s.l. laugardag. (Takk fyrir, þeir gengu mjög vel.) Það er eins gott að þetta stúss mitt fer fram bak við hús, því ég ligg ýmist á hliðinni, sit á rassinum, ligg á maganum og stundum hálf á bakinu! Vegfarendum þætti þetta brölt mitt skrítið svo ekki sé meira sagt. Ég er nefnileg góð þegar ég er komin á jörðina, get því mjakað mér ansi langt á rassinum, en vei ef símarnir hringja og ég ekki með þá hangandi á mér og hækjurnar of fjarri . Læt þá bara hringja. Nú ætla ég hins vegar að taka smápásu í þessari handavinnu því töluvert spilerí er framundan. Handaolíubað skal það vera heillin, og það á hverju kvöldi. --Tvennt til: --- Fyrir margt löngu vorum við hjónin með Ameríkufarann okkar í útlöndum, þá 13 ára og sem fyrr opna fyrir öllu. Eitt skipti sáum við hana standa kengbogna og aleina rýna í jörðina, og það í dulitla stund. Við fylgdumst með úr fjarlægð, og smám saman sáum við fólk bætast við og allir rýndu í sömu jörð og daman og var það fyndin sjón, en hún var að horfa á maura vinna sitt verk! Þegar samferðarfólkið sá að þetta var ekkert merkilegra en það svifu þeir á braut. Í minningunni segir þetta litla atvik mér svo mikið. Barnið sér og upplifir, en við hin fullorðnu höfum séð þetta allt áður og látum okkur fátt um finnast. Gleymum því ekki barninu í okkur. --- Humaruppskrift a la Gulla: Takið humarinn úr skelinni. ( auðveldast er að taka hann úr skelinni hálffrosinn). Setjið hveiti í poka+ humarskottin og hristið vel. Bræðið smjölíki/smjör á pönnu og sprengið karrý út í. Steikið skottin smá á hvorri hlið. Mjög stutt. Hellið alvörurjóma yfir. Þegar fer að búbbla þá hellið hvítvíni yfir allt og látið hitna í gegn. (þetta verður svolítið að vera eftir hjartanu) Borðist með hrísgrjónum og góðu brauði. Hvítvínið, ef eitthvað verður eftir drekkist með, annars þarf að opna nýja flösku! Verði ykkur að góðu. Ef einhver lesandinn prófar þennan syndsamlega góða rétt og hann tekst,( nú eða mistekst) látið mig vita.--- Þar til næst.---

þriðjudagur, 10. júní 2008

dittin og dattið!

Maður slær um sig með "fínum" orðum sem betur væru komin uppá íslensku. --Af Hólabrautinni er allt gott og ég dudda mér við ýmislegt þessa dagana. Garðvinnan og rósaskálinn eru í öndvegi en veit þó ekki hvort mikið liggur eftir mig. Er samt ánægð, sérstaklega af því að ég hef harðsperrur í leggjunum í öll mál! Rafmagnsmeðferð hjá sjúkraþjálfara gerir greinilega eitthvert gagn þótt ég vinni alls ekki fyrir þessum harðsperrum. Það gerir tæknin. Í þá tíð þegar ég gekk á fjöll á haustin og smalaði rollum í þrjá daga fann ég fyrir þreytu í vöðvum. Það var eðlilegra því ég vann fyrir þeim sjálf. Í dag getur maður hins vegar látið tæknina vinna fyrir sig, en ég vildi þó gjarna puða fyrir þessu sjálf. Greinilega ekki hægt að gera mér til geðs í þessum málum. ---Það eru mörg mál annars sem brenna á mér, ætla ekki að tíunda þau hér svosem! --- Samt--- Ég skil ekki heimsmálin í dag, skil ekki olíuverðið, skil ekki mannvonskuna, skil ekki auglýsingaflóðið í öllu krepputalinu og skil ekki af hverju ég þoli ekki að mávurinn steli þrastarungum. Ég veit að ég gef krumma að borða, en BARA yfir háveturinn. Ég borða kjöt af lambi sem einhver drap, ég smakka kríuegg á vorin, (ég þoli þó ekki þegar hún er rænd), ég elskaði litla sæta þýska ísbjarnahúnann þótt ég vilji ekki að afinn gangi laus hér á landi, og mér finnst hreindýrskálfur eitthvað það fallegasta sem ég sé, en kjötið gott! Er svolítið græn að mörgu leyti, endurnýti hlutina og flokka, en var rétt í þessu að drepa alla maðkana á trjágróðrinum mínum. Er til meiri tvískinnungskona á ferð? ---Á fimmtudagskvöldið ætlar litla skólalúðrasveitin að halda tónleika í Haukafelli, dásamlegum útivistarreit okkar Hornafirðinga, og veðrið ku eiga að vera gott. Þau eru að fara til Svíþjóðar á mót og veit ég að þau verða okkur til sóma. Þetta fólk, stórt og smátt, á heiður skilinn, eru búin að vinna hörðum höndum til að fjármagna ferðina. Á laugardaginn verða svo tónleikar hjá mínum eldri ásamt kór úr Reykjavík. Þess á milli eldum við HUMAR.. Með þessum nammikveðjum kveð ég þar til næst.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Sögustund á síðkvöldi

Kammerkórinn Hljómeyki er nýkominn úr vel heppnaðri tónleikaferð í Frakklandi, og óska ég þeim söngfuglum innilega til hamingju með árangurinn. Einn af forsprakksmönnum þar á bæ er dóttir góðra hjóna sem ég söng lengi með í den tid, og eftir að hafa hlustað á ferðasögu Hljómeykisfólksins rifjaðist upp fyrir mér skemmtileg upplifun frá 1967! Þá var ég kornungur meðlimur Pólýfónkórsins, en ég og vinkona mín vorum lang yngstar í þessum frábæra kór. Við vorum komin á Europa Cantat í Namur/ Belgíu. Þar voru samankomnir þúsundir til að syngja saman og hver fyrir annan. Dagurinn byrjaði á allsherjar söng í stórri "höll", þar sem allir sungu af blaði og hristu sig saman. Ég sat stundum hjá Týróla bassa sem hristist allur og nötraði þegar hann söng. Flottur, og í stuttbuxum.--- Pólýfón gisti í munkaklaustri, og höfðum við tvær hæðir fyrir okkur. ---Eins og títt er um ungar stúlkur urðum við vinkonurnar yfir okkur "ástfangnar" af tveimur bössum úr Bachkórnum frá Munchen, þeir voru sko á mótorhjóli, og við gengum oft far. Váááá...Eitt kvöld þegar Pólýfón var á heimleið í strætó langaði okkur vinkonurnar að hitta téða bassa og hlusta á þá syngja, nóttin var ung rétt eins og við, en prógrammið var stíft svo nú skyldi fara að sofa. Pabbi forsprakkans (sem áður er getið) sagði í lágum rómi að hurðin á okkar hæð yrði opin, en við mættum ekki vera lengi. Þar með laumuðumst við til baka og áttum skemmtilegt söngkvöld. Engan áttum við peningin til að greiða leigubílnum heim í klaustur, en sungum bara fyrir bílstjórann "hann Tumi fer á fætur". Gott mál og allir glaðir. Þegar við læddumst á hæðina okkar var hurðin læst.....Rúúnar! -- Nú voru góð ráð dýr fyrir lítil hjörtu-- Læddumst á neðri hæðina og drógum andann djúpt. Fyrsta herbergið var upptekið, númer tvö líka...það þriðja var autt og þangað pukruðumst við í myrkrinu. Þegar við kveiktum ljósið blasti við okkur munkakufl á vegg, opin biblía, hálfnagað epli og bælt rúm. Við bara settumst á einbreiða rúmið og héldum áfram að draga andann djúpt, og nú mjög djúpt. Lögðumst svo saman í þetta rúm og bærðum varla á okkur, biðum bara að munkurinn kæmi. Hann kom aldrei, og við lognuðumst útaf, en þá hálfflissandi af taugaveiklun. Morgunin eftir hafði velgjörðarmaður okkar frá því kvöldinu áður verulegar áhyggjur því hann fann vinkonurnar ekki á réttri hæð. Þannig var að hurðin var bara stíf, alls ekki læst, en við þorðum ekki að kippa í og gera óþarfa hávaða. Við vorum semsagt svo vel upp aldar! Kórstjóranum hins vegar fannst við ekki vel upp aldar þegar hann horfði á eftir okkur vinkonunum í íslenska búningnum sitjandi með strókinn aftur úr okkur á mótorhjóli þeirra Bachbassa! Efast um að gamlir Pólýfónfélagar læðist hér inn, en hver veit.....Bið að heilsa ykkur öllum og þakka fyrir góð ár með kórnum. Með þessari langloku um löngu liðna tíð kveð ég alla í kútinn að hætti dóttlu minnar. Þar til næst.

miðvikudagur, 28. maí 2008

Syngjandi sæl öllsömul.

Eftir mikla vinnutörn sl. föstudag fórum við bestu helmingarnir í ferðalag. Þegar bílnum var lagt við hótelið í Stykkishólmi voru 620 km. að baki. Yndislegt veður og falleg er leiðin vestur, sérstaklega Vatnaleiðin. Hólmurinn tók vel á móti gestum sínum, og voru samferðarmenn okkar yfir helgina ekki af verri endanum. Á laugardeginum fórum við í siglingu um Breiðafjörð, og fylltist ég einhverri vellíðan sem erfitt er að útskýra. Læt það vera, en hvílík kyrrð og friður yfir öllu. Um hundrað manns voru í bátnum, og þegar hann renndi sér ljúflega nánast upp í hreiður fuglanna hefði mátt heyra saumnál detta. Enginn vildi raska rónni. Tvo Erni sáum við í návígi svo og alla fuglaflóruna sem þarna verpir. Skipverjar veiddu svo ofan í mannskapinn skelfisk sem við átum og skoluðum niður með kældu hvítvíni. Er hægt að komast nærri móður náttúru en þetta? (að vísu hefur hvítvínið ekkert með náttúruna að gera!) Ef ég þyrfti að velja milli helgarferðar til London og siglingu er ég ekki í vafa hvor ferðin yrði fyrir valinu. Nú á ég bara eftir að fara út í Flatey, og vona ég svo sannarlega að sú ferð verði farin fyrr en síðar. Við fórum svo fyrir jökul á sunnudeginum, og þótt Snæfellsjökull sé kyngimagnaður er sá stóri sem vofir yfir okkur hér öllu glæsilegri! Ekki dvöldum við lengi í Reykjavík, og fórum ekki niður fyrir Ártúnsbrekkuna. Reykjavík nefnilega þrengir að mér. Það er oft sagt að sunnanmönnum finnist svo óendanlega langt að fara upp fyrir brekkuna, en ég er ekkert betri þegar ég þarf að fara til borgarinnar. Rólegheitin og kyrrðin í umhverfinu hér á einfaldlega betur við mig. Á mánudeginum kom svo sumarið....byrjaði í gróðrarstöðinni Borg. Í gær potaði ég svo öllu niður, og nú getið þið svo sannarlega komið í sumarkaffi þegar ykkur hentar! Sumarrósaskálakaffi var það heillin. Tvíbíla vorum við helmingarnir heim, og var það skondið ferðalag. Ég var alltaf með hvíta bílinn fyrir aftan mig og fannst asnalegt að skipta upp helmingunum. Vera í sitt hvorum bílnum. Ég talaði upphátt við sjálfa mig megnið af leiðinni. Eitthvað var bóndinn að tala um þreytu hjá mér, fannst ég hægja fullmikið upp ef ég sá fé á beit uppi í fjalli, ég tala nú ekki um allar einbreiðu brýrnar. Lái mér hver sem vill, og það var gott að koma heim. Nú er bara að fara að yrkja garðinn sinn og huga að ýmsu sem hefur setið á stóra hakanum. Syngjandi sæl kveð ég þar til næst.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Af blómum og froskum

Það má til sanns vegar færa að ég er letibloggari, en hvað um það nú læt ég vaða. Eftir að Ameríkufararnir héldu til síns heima var ég með stóran leiða í hjartanu og kökkinn í kokinu. Sú líðan hinsvegar léttist er frá leið og líður mér bara vel, takk fyrir!  Tíminn hefur liðið hratt og hefur verið ótrúlega mikið að gera. Tónlistarlífið blómstrar, prófavika í skólanum stendur yfir, skólaslit og tvennir tónleikar framundan. Ég er eiginlega að verða búin að fá nóg þetta vorið. Þetta er ekki sagt til að kvarta, heldur til að afsaka bloggletina! ---Þessi tími árs er yndislegur með björtum kvöldum, fuglum og gróðri, allt er að lifna. 18. mars var ekki blaðarða á rósastilkunum í sólskálanum, en núna eru þær að verða feitar og pattaralegar. Eftir tæpan mánuð springa þær fyrstu út og þá verður gaman. Á myndunum hér að ofan sjáið þið fínasta skrautið í sólskálanum, það er grænu froskastígvélin hans Eyjólfs og fyrstu skóna hans. Natti tók þá að vísu í smá fóstur í Íslandsdvölinni, en ég fékk að halda tauinu. Nú á þetta fína tau sinn sess á gömlu rullunni, og er ég að hugsa um að setja örlítið blóm í fínheitin. (þó án þess að skaða tauið eða hylja það) Minn árlegi blómaleiðangur verður 26 maí,  þá er sumarið komið, og ég tek ekki þátt í fleiri krummagusum eða öðrum hretum. ----Þegar sumarið kemur, (þann 26 maí) ætla ég að eyða mörgum stundum í skálanum mínum og garðinum...Ég ætla að....svo ætla ég......ég mun svo....og eftir það ætla ég á Spán. Eftir Spán verða batteríin hlaðin og þá get ég tekist á við annan vetur, sem verður vonandi betri en sá síðasti. Bæði veðurfarslega séð og að helv....hnén verði til friðs. Nú er ég komin svolítið fram úr mér, en ég sagðist ætla láta vaða!--- Þar sem ég elska grænt ( gróður!) má ég til með að láta eina fylgja  varðandi hvursu "græn" ég get verið, og með langan fattara. Um árið vorum við hjónin að keyra suður og hafði gamla brúin yfir Markarfljót skemmst þannig að takmörkuð umferð var leyfð yfir hana. Það hafði alveg farið fram hjá mér. Austan megin við ána stóð á skilti að hafa minnst 10 metra á milli bíla. Bóndinn lagði út í kant og drap á bílnum. Þannig sátum við lengi og spjölluðum. Allt í einu datt mér í hug að spyrja "afpellu" við sætum hér. "Nú það eiga að vera 10 metrar á milli bíla, og það er enginn bíll á undan okkur!" Ok, sagði ég og hélt áfram að spjalla......Heyr heyr, eftir dúk og disk áttaði ég mig, og ég hélt að bóndinn myndi deyja úr hlátri. 25 árum síðar er ég enn svona græn og skil aldrei brandara fyrr en eftir útskýringu. Hver nennir því að eyða á mig bröndurum? En mér er sko nett sama því ég kann að spila á píanó! Þar til næst með grænni kveðju.

mánudagur, 5. maí 2008

Fyrr var oft í koti kátt...

Ekki misskilja titilinn, en kotið er afar tómt núna. Var líflegra, er þó kátt en bara hljóðara. Ég ætla ekki að skrifa sorgarpistil en læt ykkur þarna úti vita að ég sakna Ameríkufaranna. Þó er þetta að jafnast út. Ég held ég taki undir með nokkrum bloggvinum að það er afar erfitt að horfa á eftir ástvinum á flugstöðinni. Allir verða einhvernveginn svo umkomulitlir. ---Dvöl þeirra hér var dásamleg, og við afi urðum börn að nýju. Þrátt fyrir ótrúlegan annatíma upplifðum við öll samveruna á besta hátt. Svanfríður mín er svosem ekki óvön miklum önnum foreldranna á þessum tíma árs. Eitt hefur verið heilagt hér á bæ í áranna rás, kvöldmatur með öllum! Þá er dagurinn krufinn og hver og einn segir það sem honum liggur á hjarta. Í hjarta Eyjólfs var ýmislegt sem þurfti að fá krufningu. Hún var veitt ef hægt var..nú ef ekki þá spurði hann opineygður: APELLU? (Hann getur ekki sagt "afhverju") Ég spurði hann einn daginn apellu við gerðum þetta ekki svona. "Amma mín, talaðu íslensku"! Afinn spurði snúð daginn eftir apellu þetta eða hitt væri svona. Eyjólfur leit í forundran á hann og leiðrétti strax. "Afi, ekki apellu, það er AFPELLU". Þar höfðum við það. Hvað er eitt lítið F milli vina?--- Natti tók fjögur skref á íslenskri grund, en nennti ekki að ganga lengra, og ég hafði ekki roð við honum á skriðinu. ---Svanfríður er falleg og góð sem örvar syni sína frábærlega. Ég þarf því ekki að kvarta, öllum líður vel. Það er bara þetta með fjarlægðina. Talandi um hana. Við komum heim í gærkvöldi úr vel heppnaðri söngferð karlakórsins, en heimferðin tók lengri tíma (frá Hvolsvelli) en að fljúga til Boston! --- Vortónleikar Jökuls eru frá þetta vorið ásamt öðrum framkomum í bili svo og landsmót kvennakóra. Það er gaman að geta sagt það á opinberum vettvangi að mótið gekk mjög vel og allir gengu glaðir frá borði. Ef einhver kvennakórskona kíkir hér inn þá þakka ég fyrir að fá að hafa tekið þátt í mótinu. Kórkonur og eiginmenn þeirra stóðu vel undir öllu því amstri sem fylgir því að halda svona stórt mót. Framundan er svo meiri tónlist, próf, tónleikar, en inn á milli dudda ég í sólskálanum. Þar er nýtt skraut sem ég mun sýna ykkur í næsta pistli. Þar til bið ég ykkur vel að lifa.

föstudagur, 25. apríl 2008

Jamm og jæja.

Allt tekur enda, en þennan endi á ég erfitt með og því best að blása það frá sér. Yfirleitt er ég glöð og kát, en nú er ég full af söknuði því Ameríkufararnir fóru með morgunfluginu suður og kotið er svo tómt. Ég veit, ég veit,--- við erum búin að eiga yndislegar vikur og upplifa margt, en núna er allt samt svo tómt. Ég veit líka að öllum líður vel og ekkert amar að, en samt...Ok..ég veit þetta alltsaman. Mér bara líður svona núna og það skal í ykkur sem nenna að lesa þessar kvartanir. Móðurtilfinningin er sterk, en ég kann ekki að lýsa ömmutilfinningunni, hún er eitthvað fiðrildi sem flögrar um heila, maga og hjarta. Kökkurinn er mjög ofarlega í kokinu og þarf lítið útaf að bera til að hann blómstri. Núna er ég að æfa t.d. lagið ömmubæn fyrir landsmót kvennakóra, og það er stutt í að kökkurinn fái að blómstra við það. Ætla samt að standa mig þegar stundin rennur upp. Kæru bloggvinir nær og fjær, ég óska ykkur gleðilegs sumars og þakka fyrir veturinn. Eftir erilsama tónlistarhelgi ætlum við afi að keyra suður og fylgja okkar fólki úr hlaði. Minna getur það ekki verið. Þar til næst kveður amman og biður góða vættir að vísa veginn.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Smá fréttir.

Hér á bæ er bannað að telja niður, en ég skil ekki hvert tíminn flýgur. Ég hef, ásamt afanum upplifað margar yndisstundir með litlum snúðum og reynt að svara mörgum spurningum. Á bara eftir að reyna að útskýra hvort "guð sendi okkur jólin". Þegar ég var að bögglast við að svara Eyjólfi um hækjurnar mínar og hnén endaði ég á að segjast vera bara gömul amma, og þóttist góð. Nei, sá stutti sagði að ég væri ekki gömul, bara falleg! Þar hafið þið það. Hann var líka sá eini sem tók eftir mikilli breytingu á ömmunni eftir yfirhalningu hár- og snyrtidömunnar. " Þú ert fín og falleg". Bara flottur. Natta hefur farið mikið fram í öllum hreyfingum, er farinn að standa upp sjálfur og tók nokkur skref um daginn. Montinn náungi þar á ferð sem kann að dansa. Sl. laugardag fórum við í fimleika með Eyjólfi, og það var gaman. Langur laugardagur var svo hjá karlakórnum og kom Svanfríður með strákana á æfinguna. Natti skildi lítið í listinni, en sá stóri stóð á kórpallinum hjá afa með opna sálmabók og söng hástöfum. Sem betur fer náðist sá söngur á video. ---Sem sé, lífið er gott á Hólabrautinni.--- Í dag fóru frá okkur bandarískir vinir Svanfríðar og Berts, voru í sinni fyrstu heimsókn. Þau tóku vel á móti okkur vestra og var gaman að geta endurgoldið það á heimavelli. Þau heimsóttu grunnskólann, skoðuðu Jöklasýninguna, löbbuðu um bæinn og snarfestu sig úti á fjörum, varð kalt, lentu í snjóbyl en nutu hverrar mínútu.---Hangikjöt, harðfiskur, nýr fiskur, skyr, síld, og malt + appelsín fór vel í þessa góðu gesti. --- Nú er lokatörnin í tónlistinni, karlakórstónleikar sumardaginn fyrsta og landsmót kvennakóra tveimur dögum seinna. Hljómsveitaræfing var í kvöld fyrir hátíðarkór landsmótsins og gekk vel. Verst að geta ekki fílað sig algjörlega og haft gryfju! Þar til næst....

fimmtudagur, 10. apríl 2008

krakkar út kátir hoppa

Það er svoleiðis á mínum bæ, og hér er mikið fjör. Húsið beinlínis iðar af lífi. Ég veit varla hvar ég á að byrja, mig langar að segja svo margt.--- Í fáum orðum: Ég á yndislega dóttur sem gaf mér tvo ömmustráka, stráka sem eru heilbrigðir og haldið er utan um af foreldrunum. Þótt Svanfríður ætli að læra sagnfræði sé ég hana ekki fyrir mér sem slíkan fræðimann...hún er uppalandi og fræðari sem hvetur á bæði borð. ( Nú hlýt ég að fá komment frá dömunni) Eyjólfur Aiden: Dansar, fer í fimleika, leggur á borð, stjórnar garðvinnu, tvistar með viskastykki á höfðinu, fer í veghús (n.b. Húsasmiðjuna) pissar úti í garði, hjólar, fer í langa göngutúra og stjórnar kórnum mínum. Nathaniel Noble: Hann brosir, borðar, klappar saman höndunum og tyllir sér á tær við flygilinn og spilar. Hann spilar náttúrulega tóma steypu, en hún hljómar fínt. Sérstaklega þegar ég er að vinna við hljóðfærið og Eyjólfur syngur með! Væri gott og verðugt verkefni fyrir tónskáldið Hildigunni að vinna úr! ---Lífið er semsagt gott, en heldur mikið álag í tónlistinni fyrir ömmu sem vill helst vera heima þessa dagana. Allir kórar að uppskera og tónleikar í bunum. Löngum bunum. Takk fyrir að fylgjast með lífinu hér á Hólabrautinni...Þar til næst.

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Námskeið?

Bara að láta vita af mér, öllum örugglega til mikillar gleði. Hér á bæ er mikið líf og vildi ég svo gjarna vinna aðeins minna út á við, og vera meiri spretthlaupari en ég er. Snúðarnir mínir eru miklir ungherrar, fallegir, og sennilega "bestastir" hérna megin Atlandsála! Mér er nokk sama þótt lesendur séu þessu ósammála því ég VEIT betur.--- Matur: Á morgun verða fiskibollur úr dós í bleikri, lambalærin reykt og steikt hafa verið etin, einnig soðinn humar með majonesi og kaldri mjólk. Annað eins léttmeti og pizza, kjúlli og spaghetti hefur verið á borðum, og fljótlega skal á borð borið saltkjöt og baunir....túkall. Snúðar borða nokkuð vel, sá stutti aðeins betur en hinn og kjamsar vel. Lífið er gott. Allir sofnaðir í bænum og ég kveð með bæn á vör. Megi allar góðar vættir vera með mínu fólki sem og öðrum. Þar til næst.

miðvikudagur, 26. mars 2008

Ættarsilfur og gersemar.

Þegar ég var unglingur fékk ég í arf eftir góða konu, heljarinnar matarstell, kaffistell, súkkulaði- og mokkastell. Með öllu þessu "góssi" er mikið af fylgihlutum, og er allt þetta mjög gamalt og fallegt. Einnig fékk ég silfurborðbúnað frá þessari góðu konu. Í þeim pakka er allt frá hatti ofan í skó, og á heimilinu gengur þetta undir nafninu ættarsilfrið. Vitanlega þykir mér vænt um ættarsilfrið og tel mig eiga gersemar. En það fellur á þessar gersemar, og stellin eru notuð við hátíðleg tækifæri.( Ég myndi t.d. aldrei sanka að mér svona hlutum, og borga offjár fyrir) Núna veit ég aftur á móti vel hvernig ættarsilfur og gersemar virka, og virka vel. Það er í formi tveggja lítilla stráka sem hafa stolið hjartanu mínu. Ættarsilfur nr.1 er dóttirin sem fæddi þá af sér, og hún hefur ekki slegið slöku við. Eyjólfur talar íslensku, að vísu enskublandna, en honum fleygir fram með degi hverjum. Mig need vettlinga... I need fara í rennibraut...en kann allt faðirvorið uppá íslensku. Eyjólfur er mikill karakter, sérstaklega þegar hann er í grænu froskastígvélunum! Ég var á æfingu í gærkvöldi fyrir útför, og hann sat á orgelbekknum hjá mér, prúður, með opna bók og stjórnaði! Gerði það nokkuð þokkalega. Syngur fallega og kann að hoppa á annarri! Leggur á borð, gerir það rétt og er yfirsmakkari á sósum. Í þykjustuleikjum er Eyjólfur flottur. Natti minn patti er óskrifað blað ennþá. Meðan hann fær gott í gogginn og þurra bleiu er hann alsæll. Rólegur og alveg ofboðslega fallegur með nýju Navy klippinguna, sex tennur og flott slef. Sko,--- ég held að Eyjólfur eigi eftir að láta að sér kveða á listasviðinu, en Nathaniel verður sagnfræðingur og bókaormur. Kannski hef ég svo mikið rangt fyrir mér, "but so be it". ( svona talsmáti er bannaður á Hólabrautinni nú um stundir!) Nú er klukkan orðin margt, strákarnir steinsofa, bóndinn líka en ættarsilfrið nr.1 horfið á DVD. Semsagt rólegheit. Væmin amma? Ónei, en ég elska fólkið mitt óendanlega og vona að allar góðar vættir veri með þeim. Ég hef sagt áður að ég öfundast ekki út í neinn , en verð að viðurkenna að það er ekki satt! Ég get ekki haldið á Natta mínum nema í sitjandi stöðu. Eyjólfur skilur fótafúann og kyssir á bágtið, en sá stutti nýtur góðs af afa fangi. Á göngu sinni raula þeir saman, annar er djúpur bassi en hinn kvakar yndislega, og saman mynda þeir fallegt tónverk. ----Bert, if you read this blog.... don´t forget we love you and miss you a lot. Your boys are beautiful,( let alone your wife) so keep up the good job. You two are doing great. ---Þar til næst.

þriðjudagur, 18. mars 2008

Nú gaman gaman er..

Gefi lán og yndi hvert ógengið spor, gæfusömum vini hug og þor.--- Þetta er meint í fleirtölu. ---Nú eru tveir litlir strákar steinsofandi í ömmubæ, fallegir og góðir, og mér líður svo sannarlega vel. Þar til næst.

mánudagur, 17. mars 2008

Eirðarleysi...

Það er að hrjá mig eirðarleysið, og það verulega. Var að tala við dótturina sem bíður í Boston eftir flugi heim. Ferðin frá Chicago gekk vel, en núna er komin þreyta í þá bræður. Vonandi sofa þeir í næsta flugi. Bóndinn fór suður í dag og var ansi búralegur með tvo barnastóla í bílnum. Ég get ekki keyrt bíl eiginmannsins svo daginn átti að nota í annað en ferðast á milli staða. Í hvað fór svo dagurinn? Mestmegnis í vafr um húsið og festi ég ekki hugann við neitt, en þóttist þó gera sitt lífið af hverju. Var á kóræfingu í rúma tvo tíma í kvöld en fannst ég spila með báðar hendur fyrir aftan bak. Hvar endar þetta? Jú, ég veit.....þetta endar annaðkvöld, þegar fólkið mitt hefur skilað sér í hús. Núna er ég að bíða eftir sms frá Svanfríði þar sem hún segir mér að nú sé flugferðin heim að hefjast, eftir það ætla ég að fara með allar bænirnar mínar og vita hvort Óli lokbrá heimsæki mig ekki. Í þeim skrifuðu orðum býð ég öllum góða nótt. --- Ps. Getur maður verið með gæsahúð í mallanum af spenningi? Þar til næst.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Með birtu og yl. Taka tvö.

Nú eru farfuglarnir farnir að koma til landsins. Tjaldurinn er kominn í fjöruna fyrir framan Tónskólann sem segir mér að vorið er á næsta leiti. Þessi "bévítans" vetur er að verða búinn og ég sakna veðurfarsins ekki baun. Mér þykir leiðinlegt að vera föst í mínum eigin bíl í innkeyrslunni vegna snjóa, og bóndinn fastur annars staðar. Þrátt fyrir 4 fætur komst ég hvorki lönd né strönd, en gott er að eiga góða granna. Nei, veturinn er ekki minn tími! Þennan óveðursdag fékk ég laaangþráð gleraugu til að hafa á nefinu, og mikið hvað ég var búin að hlakka til. Að þurfa að nota tvenn gleraugu hefur lengi farið í mínar fínustu, og virðist ég aldrei vera með þau réttu þegar á þarf að halda. Vel var vandað, Music tact heitir dýrðin. Í votta viðurvist setti ég svo brillurnar á nefið, og sjá...ég sá ekkert! Fékk kókflöskubotnagler, margfalt sterkara en ég þarf. Mér féllust hendur en þar með byrjaði pirringurinn á óveðursdeginum, og gat því illa höndlað veruna í innkeyrslunni. Lái mér hver sem vill. ---Annars hefur tíminn liðið ljúft, og er mikið að gera í tónlistinni. Herbergi Ameríkufaranna eru tilbúin, ég bara bíð...og bíð og bíð. Bækurnar frá Hildigunni ( fyrir Eyjólf) eru komnar í hillu, bílarnir, púslið og allt hitt er tilbúið í gullakassanum. Natti á líka gullakassa, bara svo það sé á hreinu. Nú er ég sko virkilega farin að telja niður, 6 dagar! ---Þar sem fermingar eru framundan verð ég að láta eina góða fjúka. Þegar Svanfríður fermdist var bara ein athöfn, á Skírdag. Þar sem sá dagur var ansi nærri tónleikadögum varð að hugsa vel í tíma, en fyrst var hún spurð hvort hún vildi fermast. Já, hún vildi það. Þá kom að því að ákveða hvað daman vildi hafa í veislunni, mat eða kaffi. Nei....hvorugt vildi hún. Þá kom spurnarsvipur á okkur foreldrana..Svanfríður vildi brauð, og við það sat. Hún fékk því hlaðin borð af brauði! Þegar hnátan sýndi engin merki um fataáhuga tók ég af skarið, því ekki gat hún fermst í íþróttarbuxum. Fín föt fékk hún, en það vildi svo "óheppilega" til nokkru síðar að þau týndust! Ja, það er vandlifað í henni veröld, en núna elskar hnátan kjóla og rauða skó. Með þessum orðum kveð ég og hlakka óendanlega til farfuglanna minna úr vestri. Þar til næst.

þriðjudagur, 11. mars 2008

Nú fór illa!

Ég vil fá komment! Er búin að sitja sveitt við skriftir, og fannst pistillinn góður. Búmm, allt farið og ég ÞOLI ekki tölvudót. Reyni aftur annaðkvöld undir titlinun Birtu og yl í bæinn. KOMMENT! Frúin frekar fúl kveður.

miðvikudagur, 5. mars 2008

Og ég tek þátt í því..

Bara að láta vita af mér, annað er ekki sæmandi fyrir bloggfrúna. Ég fer minn daglega rúnt um bloggheima og ætlast til nýrra skrifa nokkuð reglulega, en er svo með dratthalahátt sjálf. Lífshlaupið er núna og allir hvattir til að taka þátt í því. Ég hélt að mitt lífshlaup hefði staðið undanfarna hálfa öld og nokkrum árum betur. En fyrst allir eiga að vera með skorast ég ekki undan. Núna er ég til dæmis að eyða orku við að skrifa, það tekur á putta og hugsun. Alla daga príla ég upp margar tröppur í tónlistarskólanum, og niður aftur. Ég eyði sirka 8 klukkutímum á viku með kórum, og þarf að læra mikinn undirleik. Það hlýtur að teljast með í hlaupinu, og í öllu vetrarríkinu eyði ég svo töluverðri orku í að passa mig á að detta ekki á leið minni í bíl og úr. Ég hef aldrei farið í líkamsrækt, eða stundað fjallgöngur og skíði, og aldrei eytt orku í megrunarkúra, þannig að ég á svolítið inni. Ég ætla þó að láta mitt daglega líf duga í átakinu, en hvet náttúrulega alla dyggilega sem skunda á fjöll eða skokka upp í vindinn. Lífshlaup og lífskapphlaup er kannski náskylt, hver veit. --Nú er ég sko farin að telja niður í Ameríkufarana, nákvæmlega 13 dagar! Þrettán dagar í að geta tekið utanum þá, og draumar mínir snúast um þá. Þegar ég var stelpa beið ég eftir að verða stór og beið eftir hinu og þessu, svo óx ég uppúr því að ég hélt. Núna er ég aftur farin að bíða og biðin er jafn óþreyjumikil og hún var í bernsku. En ég kann líka að láta mig hlakka til, því hef ég aldrei gleymt. Ég hlakka til 18.mars, ég hlakka til vorsins, ég hlakka til að fara á Spán í sumar, og ég hlakka til áframhaldandi lífshlaups. Þess vegna tek ég þátt í því. Að endingu þakka ég kommentin frá ykkur og hlakka til að fá fleiri! Þar til næst......

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Bara smart

Vika liðin og allt með kyrrjum kjörum hér á bæ, nema að ég þarf að auka við verðbólgu í þjóðfélaginu. Verð að eignast rauða skó! Hef aldrei átt slíka og hef þar af leiðandi ekki "fílað" mig eins og drottningu, en nú verður gerð bragarbót á.--- Þegar ég sem ung kona flutti á Hornafjörð var ýmislegt sem var framandi, til að mynda málfarið. Hér tala menn um "flaaagið", langt a og mjúkt g. Haaaginn er líka mjúkur, og kvenmannsnafnið Signý er borið fram sem slíkt! Hljómar ekki með tveimur g-um. Orðið "barn" er ekki borið fram sem baddn, og maðurinn minn heitir Örn, með mjúku n hljóði. Konan er oftast tengd við nafn mannsins, ég er sem sé Gulla hans Bróa. (gælunafn bóndans) Vélin er búin að vera og hér keyra menn ofalllega, neðalllega eða utalllega á vegunum. Með sterku l hljóði. Bekkjatusku hafði ég aldrei notað, né heyrt orðið daut. Það var því margt framandi í málinu. Í dag veit ég hvort vélin er búin að vera, nota mína bekkjatusku og ber Signýjarnafnið fram mjög mjúklega. Hitt læt ég vera og ég keyri bara á réttum helmingi veganna.--Að mínu mati má þessi málvenja ekki glatast, en hún verður að vera fólki eðlileg svo hún hljómi fallega.---Nú er búið að klippa í rósaskálanum og set ég inn mynd fljótlega. Það er undravert að fylgjast með gangi mála þar. Þrátt fyrir kulda og snjó er sólin farin að vinna sitt verk. Um næstu helgi verður hér á Höfn heilmikil blúshátíð, það verður blúsað um allan bæ. Sennilega fer hún að mestu fram hjá mér, reyndi í fyrra en skjögraði út. Hefði betur verið með eyrnatappa! Undirbúningur fyrir kórauppskeru vorsins er á fullu og lífið er nokkuð gott. Af þessu má sjá að það er smart að búa á Hornafirði,til orðs og æðis, að ég tali nú ekki um þegar ég verð komin í rauða skó.--Ameríkufararnir lenda á Íslandi að morgni 18. mars og get ég því núna tekið undir með Birtu....iss piss, þetta er að koma. Þar til næst.

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Leikhús,"fjötlun" og hnátan!

Takk fyrir innlitið þið í bloggheimum sem kíkið og kvittið. Bara gaman að því. Vika síðan síðast og margt hefur áunnist sem betur fer. Ég er alveg að verða búin að læra syrpuna sem endar í "klæmexi", þarf sennilega að læra hann utanbókar! Mér varð um margt skemmt þegar ég las blogg hnátunnar um leikhúsferðina á dögunum. Svanfríður hefur kunnað Vesalingana í mörg ár, og sagði gjarnan að þegar hún yrði stór ætlaði hún að fara að sjá sýninguna. Nú hefur draumurinn ræst, og gat ég samglaðst henni verulega.--- Alltaf verið hrifnæm hún Svanfríður.--- Í gegnum tíðina höfum við foreldrarnir farið oft með henni í leikhús, og ekki þekki ég neinn annan sem tekur eins mikinn þátt í leiknum. "Hallæristeórinn" kemur upp í hugann: Hann svaf hjá einhverri, og tómt vesen. Við mæðgur sátum mjög framarlega, og þegar pabbi dömunnar í leiknum kom að þaut tenorinn út en skildi eftir sig buxurnar. Þá stóð sú stutta upp, baðaði út öllum vængjum og hrópaði hátt: Þú gleymdir buxunum!---Hún tvítók það---! Þegar pabbi hennar fór með hnátunni á gott leikrit í Þjóðleikhúsinu gleymdi hún gleraugunum, en dó ekki ráðalaus því maðurinn fyrir framan hana hafði sín á nefinu sem greinilega pössuðu henni allvel. Sat skökk og skæld allan tímann og hreyfði sig í takt við manninn til að sjá sem best. Henni leiddist ekki að fara á tónleika hjá Sinfó, eða í óperuna. Allt var þetta hin besta skemmtun. Í útlöndum var hnátan hinn besti ferðafélagi, var fljót að skanna svæðið og finna út hvað hægt var að gera skemmtilegt. Dubbaði sig upp fyrir kvöldið, pantaði súpu í forrétt og gleypti í sig allt sem hún sá og heyrði. Ekki skrítið þótt Svanfríður hafi "misst" vatnið, fengið gæsahúð og hroll við að sjá loksins Vesalingana. Hef ekki spurt Bert hvort hún hafi látið hátt á sýningunni. Kæmi mér ekki á óvart. Í síðasta pistli dótturinnar tæpir hún á fötlun. Þegar ég þurfti að dvelja langdvölum t.d á Reykjalundi var daman stundum með í för. Á Reykjalundi var mikið af fötluðu fólki, enda staðurinn endurhæfingarstöð. Svanfríður sá aldrei athugarvert við neinn. Þvældist aftan á rafmagnshjólastólum, leiddi blinda, og spilaði við þá sem kunnu svarta pétur. Er skrítið þótt hún þoli ekki steriotýpur, eða þá sem koma ekki til dyranna eins og þeir eru klæddir? Nei, segi ég, mamman. ---Kannski hef ég farið yfir strikið í upprifjunni á gömlum dögum, en þeir eru mér svo kærir, þeir koma upp í hugann á hverjum degi. Mér finnst gott að hugsa til þeirra og finnst þá endilega að allir vilja deila þeirri gleði með mér. Hvað um það, nú er stutt í Ameríkufarana og ég ætla sko að segja mínum snúðum að þeir eigi að taka vel eftir öllu sem er í kringum þá og læra að lifa lífinu lifandi. Það hafi mamma þeirra gert. Þar til næst....

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Mannleg..?

Þá er komið að því! Gott eftir annasaman dag að setjast niður og tæma hugann af þönkum. Það sagði við mig góð kona á dögunum að ég skrifaði svo "mannlega" pistla, og auðvitað tók ég það sem hrós....en eftirá að hyggja fór ég að efast um að það væri spennandi aflestrar....lagðist svo í djúpar "pælingar" og taldi að þeim loknum að mér væri óhætt. Þau blogg sem ég les eru mannleg, mér finnst gott að lesa þau og mér finnst gott að fá komment frá hinum sem eru líka mannleg. (veit ekki alveg hvað konan átti við, við erum jú öll mannleg) Í foreldrahúsum ólst ég upp við elsku, var alin upp í KFUK, ólst líka upp í kórum og tónlistarskólum. Allsstaðar voru mannleg samskipti í hávegum höfð. Eftir að ég fór út á vinnumarkaðinn hefur tónlistarkennsla verið mitt líf, og þar eru mannleg samskipti mikil.--- Einkakennsla, kórstjóri og undirleikari.--- Í því starfi hlýtur að reyna verulega á mannleg samskipti. Mér er ekki tamt að rífast...mér leiðist ef fólk er ósátt, og ef ég væri kóngur eins og í ævintýrunum liði öllum eins og mér, fyrir utan hnén! Ég er meira að segja svo "mannleg" að ég veiði óæskileg skordýr og gef þeim frelsi, og gef krumma líka að borða. Svona er ég nú mannleg og góð!!! ----Nú eygir í Ameríkufarana---- Ég get varla beðið. Ætla að búa til barnaherbergi með leikföngum, gullakassa, bókum og huggulegheitum. Ég ætla að baka súkkulaðitertu, ég ætla að eiga rúsínur og ég ætla að.........gera svo margt. En áður en barnaherbergið verður standsett ætla ég að vera búin að læra alla músíkina sem ég þarf að læra, því þá verður flygillinn notaður í að spila Lilla klifurmús og aðra nauðsynlegri músík. Á þessum mannlegu nótum kveð ég þar til næst.