fimmtudagur, 27. september 2007

Kóngur á limminu!

Fyrirsögnin skrýtin, en ég vildi að ég gæti verið kóngur einn dag. Ég myndi verða eins og galdrakarlinn, með stafinn um allan heim og gera hann vænlegri. Það er ekki minn stíll að kveina og kvarta fyrir alþjóð, en mér ofbýður fréttirnar, bæði innlendar og útlendar. Fíkniefnin, nauðganir,dómskerfið,( á stundum) svik og prettir, fordómar, peningaþvætti og barsmíðar allskonar. Stríð, trúarheift, valdníðsla, svelt börn, barnaþrælkun ásamt öllum óhroðanum birtast svo á skjánum í öll mál. Inn á milli birtast svo fallegar fréttir, og tek ég sem dæmi starf það sem Njörður P. Njarðvík stendur fyrir í Afríku.---Ljós í öllu myrkrinu.---Á Íslandi virðist það viðgangast að fólk gangi út úr verslunum þar sem afgreiðslufólkið er ekki mælandi á íslenska tungu. Sem Íslendingur vil ég að verslunar- og þjónustufólk tali sama mál og ég, en mér dytti aldrei í hug að lítillækka mig né viðmælanda minn með dónaskap. Ljót var fréttin í gær um heyrnaskertu konuna sem unnið hefur um árabil í IKEA við góðan orðstír, hún vill færslu í starfi því kúnninn er svo oft dónalegur. --Það eru margir landar okkar sem eru illa talandi á því ástkæra ylhýra og muldra ofaní bringu sér þannig að óskiljandi verða. --Skyldu þeir fá ofanígjöf?--Þeir eru kannski betri í þeirri "alþjóðavæðingu, tvítengdri" og sproka bara ensku, og segja svo per se þegar þeir verða mát því það er svo fínt! En hvað veit ég? Eitt veit ég þó að tvær vikur í dag eru liðnar frá hnéaðgerðinni og er ég farin að sjá fyrir endan á þessari heimavist í bili. Margar bækur eru að baki, og nú er ég með Þrettándu söguna á náttborðinu. Skemmtileg og vel skrifuð bók eftir Diane Setterfield. Stefni á kennslu á mánudaginn því mín er saknað, og það er svo gaman! Ég hef verið með einhverfan píanónemanda í nokkur ár og hann er virkilega góður og klár nemandi. Hann saknar mín... hann spyr um mig....og það er yndislegt. Þó ekki væri nema fyrir hann FER ég á mánudaginn og hana nú...... Búinn og heilagur!

laugardagur, 22. september 2007

kisuþankar

Takk fyrir innlitið þið sem eru þarna úti í vonda veðrinu, því nú blæs hann hressilega. Nú er að verða vika síðan ég kom heim og hefur hún liðið heldur rólega fyrir minn smekk. Ég er búin að lesa, og lesa, og leeesa. Herbjörg sú norska er áleitin og erfið, en góð samt....... Öfugsnúin meðmæli ..... 700 síður af Kurt Wallander, og ég gæti hér um bil leyst morðgátur af erfiðistu sort. Spurning um hvort ég taki bara ekki til við Ölduföllin hennar Guðrúnar frá Lundi aftur, eða jafnvel rauðar ástarsögur....umh...Allavega vika í viðbót heima....er orðin hundleið og mig langar í kisu! Loppa hennar Hildigunnar er frek en flott, og myndskeiðið hjá píanófrænku Baunar af kisu frænkunnar er óborganlegt. Kíki þangað á hverjum degi. Dömur.. fleiri myndir. Ég átti kisu sem hét Krúsa. Þegar Svanfríður mín var í 10. bekk var þetta spurning um samræmdu stærðfræðina og kisu. Auðvitað náði stelpan, og Krúsa kom á heimilið. Hún lést í hárri elli að kisualdri, og var dásamleg. Krúsa hafði þann siðinn á að færa okkur allt mögulegt í búið. Ekki voru það lifandi eða dauð dýr, heldur hlutir sem hún náði í úti. Krúsa stal af snúrum nágrannanna, sokkum og þvíumlíku. Barnaskó kom hún með heim, nammipoka, rakettuprik, þvottasvamp, kókópuffspakka og bara nefnið það. Krúsa elskaði að láta ryksuga sig og baða. Hún át gúrkur og rósablöð, tók lýsi og elskaði humar. Söng með 2. tenor á raddæfingum, hataði 1. tenor en lét sér 1. bassa í léttu rúmi liggja. (ég raddæfi ekki 2. bassa) Sem kettlingur skreið hún innst í hörpu flygilsins og lá þar meðan ég æfði mig, og vakti mig á morgnana með því að láta járn-fóta-raspinn detta nokkrum sinnum í gólfið. Þegar Krúsa fór í kisuhimnaríkið flúði ég norður í land til upprunalega eigandans, og lét bóndann, frændann og dýralækninn um síðustu hindrunina. Það var sárt, en Krúsa er jörðuð undir blómstrandi gullregni hér í garðinum. Þrátt fyrir allt langar mig í kisu, en mig langar þó allra mest í Krúsu. Hvursu væminn getur maður orðið?

þriðjudagur, 18. september 2007

Eitt spor fram fyrir ekkjumann!

Titill þessa pistils var leikur sem ég þekkti sem barn, en er búin að gleyma.( Gaman væri ef einhver gæti rifjað hann upp). Er þó hálfpartinn í þeim leik þessa dagana, held ég. Allavega geng ég afar hægt um húsið mitt, tel sporin milli herbergja og veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Þess vegna geng ég bara á fjórum! Takk fyrir góðar kveðjur, ég er semsagt komin heim og er í fullri vinnu við að láta mér batna. Að mörgu leyti er ég ofvirk og hef gaman af dagsins amstri, svo nú um stundir er Bleik hálfbrugðið, en á móti kemur geysilegt "jafnaðargeð" sem er algjör nauðsyn. Nú leggst ég í orðsins fyllstu merkingu í lestur. Finnst verst að hér um árið las ég í einni beit alla titlana hennar Guðrúnar frá Lundi, a.m.k. 39 að tölu, og þar á eftir Arnald, Lísu Marklund og marga fleiri. Ég hefði betur geymt mér alla sveitarómantíkina hennar Guðrúnar þar til nú. Guðrún var nú ekki talin hátt skrifaður rithöfundur á sínum tíma, þó var hún "best seller" þótt enginn vildi viðurkenna að hafa lesið hana! Í dag er Guðrún lesin ofan í kjölinn af bókmenntafræðingum og skrifaðar eru um hana ritgerðir. --Bara góð með allan sinn uppáhelling, kjaftasögur og kleinubakstur, en fræðin skemma engan. -- Eiginmaðurinn fór í dag í bókasafnið og kom með margar bækur sem ég er að moða úr. Þær eru úr öllum áttum, en ég er búin með ævisögu Goldu Meir, og eftir lestur hennar er ég eins og jójó um málefni Mið-austurlanda. En maður þarf svosem ekki að skilja allt og geta krufið það til mergjar, en kerla hefur verið mikilmenni á margan hátt. -Þar sem ég þarf að dudda mér heima við um tíma verð ég að hafa eitthvað huggulegt fyrir stafni, svo þið þarna úti, komið nú með uppástungur að góðum bókum, en ekki sjálfhjálparbókum!--- Ég held ég ráði við þann part, og ekki stinga uppá að ég taki fram prjónana. Syngibjörg er í þeim geiranum! Krossgátur og "scrabbl" eru alltaf við hendina, svo og Lifandi vísindi: Þar las ég dag furðulega grein þar sem læknirinn mælir með tóbaksreyk til lífgunar! (að vísu frá árinu 1774) Fýsibelgur var fylltur af tóbaksreyk sem síðan var blásið inn í afturendann á þeim sem drukknuðu í ánni Thames. Dygði það ekki til átti að reyna að blása hinum heilsusamlega reyk í gegnum nefið á þeim drukknaða og niður í lungun! Svo mörg voru þau orð.-- Dugleg að kíkja í kaffi elskurnar.

mánudagur, 10. september 2007

Vöggugjöf----afgangsstærð?

Mér var margt gott gefið í vöggugjöf, þótt ég haldi því nú stundum fram að ég hafi verið afgangsstærð. Það er að vísu nokkuð ljóst að svo er ekki... kona sem er 1.80 á hæð getur varla talist afgangsstærð. Eitt af því sem gleymdist að setja í minn langa skrokk var lengri leiðsla á mörgum sviðum. Ég hlæ yfirleitt á vitlausum stöðum og "fatta" alls ekki brandara. Það eru margar góðar sögur um þennan skort minn. Einu sinni horfði ég agndofa á frétt í sjónvarpinu um graðfola sem var metinn á tugi miljóna, og fannst mér mikið til koma um ágæti þessa hests og tók að segja frá. Vinur okkar hjóna var þá nýbúinn að kaupa nýja rútu uppá sama pening og graddinn var verðlagður á, og rútan var með vaski. Enn og aftur fór ég að segja fréttirnar og bætti nú rútukaupunum við. Allir hlóu, því ég gerði ekki greinarmun á "vaskinum" og handlaug! Í dag nenni ég ekki að þykjast skilja, en skil samt að þessa leiðslu hef ég ekki nema í litlum mæli. Annað sem gleymdist að gefa mér voru sæmileg hné, þau dugðu bara fram á 18. ár. Síðan þá hef ég farið í á annan tug aðgerða, og legg í eina slíka á næstu dögum. Er það furða að ég hafi stundum hugsað um afgangsstærðina þegar bæði leiðsla og hné fóru forgörðum?! Nú ætla ég að hætta að velta þessum hlutum fyrir mér og halda áfram að vera ég með öllu sem mér tilheyrir. --Eftir nokkrar umræður hér á síðunni og öðrum um íslenskt mál verð ég að deila spurningu sem ég fékk fyrir löngu. Lítið barn horfði á hækjurnar mínar og spurði opineygt: Hvað skeði fyrir þig, var hrint þér, eða lentirðu fyrir slysi?!!! Er furða þótt ástkæra ylhýra sé á undanhaldi... Kveð með bros á vör og óska sjálfri mér til hamingju með að vera eins og ég er.

miðvikudagur, 5. september 2007

Um hvað?

Þessir titlar vefjast oft fyrir mér því ég læt gjarnan hugann reika. Hvað um það, nú er tími á að reyna sig á ný á ritvellinum. Kærar þakkir fyrir kikkið og kvittið lesendur góðir, mér þykir vænt um innlitið. ---Fyrir nokkru setti ég inn myndir af fallegu rósunum mínum. Þær eru enn blómstrandi. Við hjónin höfum oft velt því fyrir okkur hve gamlar þær eru, og hversu lengi rósir yfirleitt lifa. Sólskálinn var til staðar þegar við keyptum húsið, 1990. Í dag vitum við að rósirnar okkar voru settar niður 1983 og blómstruðu ári seinna. Þær eru sem sagt orðnar 23 ára gamlar! Það væri gaman að heyra frá einhverjum þarna úti sem þekkir til aldur rósa! --- Nú þegar haustar langar mig til að taka út sumarið. Það hófst með miklu ferðalagi til fjölskyldunnar í litla bláa húsinu í Ameríku. ( Í mínum huga er bara eitt lítið blátt hús í Ameríku) Þar var yndislegt að vera, og taka þátt í lífinu sem þar er. Eitt er víst að ég er mjög stolt mamma/tengdamamma, en ekki síst amma, það er stórt hlutverk og gott. Eyjólfur Aiden er dásamlegur strákur, greindur og skemmtilegur, og sterklíkur föður sínum í útliti. Nathaniel rólegur og vær, og afar líkur mömmu sinni í útliti eins og hún var sem lítið barn. Þau hjón hafa fengið góða blöndu, og tekst vel upp í sínu hlutverki. --- Heimkoman var erfið, söknuður og tímamunur sáu til þess, en það fennti svolítið í sporin er á leið. Humarhátíð, garðvinna, gestakomur og þessháttar hélt öllu í réttum skorðum í rúman mánuð, en þá fórum við í letigírinn á Spán. Það er nefnilega nauðsynlegt að gæla við þann gír af og til. Brún, sátt og sæl erum við svo tilbúin í slag vetrarins. -- Kennslan hafin og er ég með alla mína fyrri nemendur, og bætti við mig einum nýjum. Það var gott að hitta þá og hefja leik. Kórarnir eru almennt ekki byrjaðir, en líður að því, þá verða þrjú til fjögur kvöld frátekin.-- Oft á þessum tíma árs hef ég fundið fyrir smá depurð. Dimmt, kalt, ófærð, hálka. Ekki beint tilhlökkunarefni, en nú ber svo við að ég finn ekki þessa tilfinningu. Veturinn hlýtur því að verða ljúfur, og jafnvel bjartur! Með þessum orðum kveð ég, ljúf, björt og brosandi.