föstudagur, 21. mars 2014

Vorkoma?



Sko, þessar myndir eru svolítið þannig að hljóð og mynd fara tæplega saman. Rósin fallega er tekin úr gaddfreðnum sólskála í byrjun þessa árs, eitthvað sem gerist aldrei. ( Alltaf hlýindi.)  Hin myndin er tekin núna á dögunum af dyrum sólskálans....þar inni er lífið að brjótast fram þrátt fyrir óáran í veðrinu. Þeir sem búa á öllum öðrum hornum landsins hlæja örugglega að okkur hér.....Samt... á okkar mælikvarða snjóaði "a lot". Margt hefur sullast á fjörur okkar síðan síðast. Bestimann var skorinn á kvið til að laga nabblakút og frúin gekk til lækna! Fékk fína skoðun hjá krabbameinslækninum, en á í smá basli með mitt eigið brjóst. Það verður lagað í vor og er meinalaust. Þegar þarf að setja upp nál hjá mér verð ég allt í einu eins og Mjallhvít... verð algjör blómablóma. Reyndustu konur og menn hafa gefist upp á mér við þannig aðstæður og kalla þá til ennþá meiri reynslubolta. Í lyfjameðferðinni kom gjarnan ein rússnesk, frábær kona sem ég kallaði babúsku. Var fyrst svolítið hrædd við hana, en það hvarf nú fljótt. Í þessari lotu á dögunum þurfti að kalla eina til og ég beið róleg eftir minni babúsku. Ég beið frekar lengi. Allt í einu birtist engill í konulíki sem hafði unnið á skurðstofu og stungið nær alla landsmenn í tæplega 40 ár. Allar mínar prinsessu æðar opnuðu sig fallega fyrir þessari góðu konu. Ekki veit ég úr hvaða genum fólkið á Lansanum er, en þau hljóta að vera sérstök.  --- Þessar víðfrægu fjörur lágu víða þar syðra, og þar á meðal í Salinn í Kópavogi. Þar sungu Sætabrauðsdrengirnir aldeilis stórkostlega tónleika. Á ekki orð til að lýsa þeirri upplifun. Farið bara sjálf ef þið hafið tækifæri og reynið á eigin skinni .Drengirnir eru fyrir utan að vera 1. flokks söngvarar fanta flottir leikarar. Bestimann nýkominn úr nabblameiddi átti voða bágt þegar hláturinn skók alla.  Á fjörur okkar bestimann rak líka mikið og gott matarboð hér heima, með "the silver boys". Þeir eru engum líkir... og ekki skemma spúsurnar  ---Lífið er semsagt gott og ég ætla að njóta þess. Verð að spranga því hér á veraldavefinn...kaupið ykkur góðan miða í HHÍ þar til næst.