miðvikudagur, 25. júní 2008

Málarameistari?



 
Þegar sumarið kemur fyllist ég geysilegri löngun til að mála. Ekki málverk, því drátthög hef ég aldrei verið, en að mála utanhúss eru mínar ær og kýr. Ef "bestasti" helmingurinn telur að ekkert þurfi að mála get ég samt alltaf fundið smugur, og þær smugur mála ég. Það er fátt betra en að sitja á rassinum, nú eða á stól og mála. Ég get þessvegna málað allan heiminn ef út í það fer. Pallarnir eins og nýir og timburverkið líka. Nú er bara snudd eftir, (eða þannig) en það verður að bíða fram yfir helgi. Nú eru spilaputtarnir í öðru hlutverki, og verða að vera í lagi. Hér á Höfn er bátur á þurru landi sem dregur að sér margan ferðamanninn. Akurey. Sá bátur hefur tilfinningarlegt gildi fyrir marga því á honum skólaðist margur sjómaðurinn, en aðrir vilja hann jafnvel á burt. Hvað um það, umhverfið er fallegt og það þarf að halda því og báts-skrokknum við. Karlakórsmenn hafa verið ötulir í að vinna verkið, og þar sem ég tel mig vera karlakórakonu tók ég náttúrulega þátt í þeirri vinnu. MÁLNINGARVINNA!  Skipamálning er samt ekki góð í hárið eða á húðina svo mikið er víst. --Ég var alveg viss um það í vetur að nú væri þessi "sumarfíkn" á enda því hnén gætu ekki afborið svona meðferð. Ég get þetta samt og fyrir það er ég þakklát. ---Eftir svosem eins og smátíma förum við helmingarnir til Spánar til að gera ekki neitt. Það sennilega kemur af sjálfu sér þar sem evran verður í fljúgandi hæðum. Hvað um það, þetta er ákveðið og hlakka ég til. Ég vildi svosem heldur vera á leið minni í litla bláa húsið, en það verður ekki á allt kosið. Þetta var allt ákveðið löngu fyrir evrustríðið. Kæru bloggvinir, látið ykkur líða vel og njótið sumarsins. Málarameistarinn kveður þar til næst.

miðvikudagur, 18. júní 2008

Svona gerum við, eða ég.

Takk kæru lesendur sem kvitta fyrir komuna. Veit ekki af hverju mér þykir vænt um það, en svona er það bara. Ég veit svosem ekki heldur af hverju ég/við erum að blogga, þetta er bara eitthvað svo notalegt. Hafði ætlað mér í byrjun sumar að setjast niður á HVERJUM degi og skrifa smá, en tíminn líður og ég geri það ekki. Eins og mér finnst gott að skrifa mig frá deginum. Fer þó minn reglulega rúnt og ætlast til að allir hinir hafi eitthvað nýtt fram að færa. Tvískinnungur frúarinnar aftur á ferð!. Ég ætla ekki að skrifa um síhækkandi verð á öllu eða um bangsana sem dóu, ég hreinlega nenni því ekki. Frekar að segja ykkur að rósirnar mínar dafna vel, ég er búin að juða hendurnar upp að öxlum í pallapússi, og líka búin að bera í þá. Fann vel fyrir því á tónleikunum s.l. laugardag. (Takk fyrir, þeir gengu mjög vel.) Það er eins gott að þetta stúss mitt fer fram bak við hús, því ég ligg ýmist á hliðinni, sit á rassinum, ligg á maganum og stundum hálf á bakinu! Vegfarendum þætti þetta brölt mitt skrítið svo ekki sé meira sagt. Ég er nefnileg góð þegar ég er komin á jörðina, get því mjakað mér ansi langt á rassinum, en vei ef símarnir hringja og ég ekki með þá hangandi á mér og hækjurnar of fjarri . Læt þá bara hringja. Nú ætla ég hins vegar að taka smápásu í þessari handavinnu því töluvert spilerí er framundan. Handaolíubað skal það vera heillin, og það á hverju kvöldi. --Tvennt til: --- Fyrir margt löngu vorum við hjónin með Ameríkufarann okkar í útlöndum, þá 13 ára og sem fyrr opna fyrir öllu. Eitt skipti sáum við hana standa kengbogna og aleina rýna í jörðina, og það í dulitla stund. Við fylgdumst með úr fjarlægð, og smám saman sáum við fólk bætast við og allir rýndu í sömu jörð og daman og var það fyndin sjón, en hún var að horfa á maura vinna sitt verk! Þegar samferðarfólkið sá að þetta var ekkert merkilegra en það svifu þeir á braut. Í minningunni segir þetta litla atvik mér svo mikið. Barnið sér og upplifir, en við hin fullorðnu höfum séð þetta allt áður og látum okkur fátt um finnast. Gleymum því ekki barninu í okkur. --- Humaruppskrift a la Gulla: Takið humarinn úr skelinni. ( auðveldast er að taka hann úr skelinni hálffrosinn). Setjið hveiti í poka+ humarskottin og hristið vel. Bræðið smjölíki/smjör á pönnu og sprengið karrý út í. Steikið skottin smá á hvorri hlið. Mjög stutt. Hellið alvörurjóma yfir. Þegar fer að búbbla þá hellið hvítvíni yfir allt og látið hitna í gegn. (þetta verður svolítið að vera eftir hjartanu) Borðist með hrísgrjónum og góðu brauði. Hvítvínið, ef eitthvað verður eftir drekkist með, annars þarf að opna nýja flösku! Verði ykkur að góðu. Ef einhver lesandinn prófar þennan syndsamlega góða rétt og hann tekst,( nú eða mistekst) látið mig vita.--- Þar til næst.---

þriðjudagur, 10. júní 2008

dittin og dattið!

Maður slær um sig með "fínum" orðum sem betur væru komin uppá íslensku. --Af Hólabrautinni er allt gott og ég dudda mér við ýmislegt þessa dagana. Garðvinnan og rósaskálinn eru í öndvegi en veit þó ekki hvort mikið liggur eftir mig. Er samt ánægð, sérstaklega af því að ég hef harðsperrur í leggjunum í öll mál! Rafmagnsmeðferð hjá sjúkraþjálfara gerir greinilega eitthvert gagn þótt ég vinni alls ekki fyrir þessum harðsperrum. Það gerir tæknin. Í þá tíð þegar ég gekk á fjöll á haustin og smalaði rollum í þrjá daga fann ég fyrir þreytu í vöðvum. Það var eðlilegra því ég vann fyrir þeim sjálf. Í dag getur maður hins vegar látið tæknina vinna fyrir sig, en ég vildi þó gjarna puða fyrir þessu sjálf. Greinilega ekki hægt að gera mér til geðs í þessum málum. ---Það eru mörg mál annars sem brenna á mér, ætla ekki að tíunda þau hér svosem! --- Samt--- Ég skil ekki heimsmálin í dag, skil ekki olíuverðið, skil ekki mannvonskuna, skil ekki auglýsingaflóðið í öllu krepputalinu og skil ekki af hverju ég þoli ekki að mávurinn steli þrastarungum. Ég veit að ég gef krumma að borða, en BARA yfir háveturinn. Ég borða kjöt af lambi sem einhver drap, ég smakka kríuegg á vorin, (ég þoli þó ekki þegar hún er rænd), ég elskaði litla sæta þýska ísbjarnahúnann þótt ég vilji ekki að afinn gangi laus hér á landi, og mér finnst hreindýrskálfur eitthvað það fallegasta sem ég sé, en kjötið gott! Er svolítið græn að mörgu leyti, endurnýti hlutina og flokka, en var rétt í þessu að drepa alla maðkana á trjágróðrinum mínum. Er til meiri tvískinnungskona á ferð? ---Á fimmtudagskvöldið ætlar litla skólalúðrasveitin að halda tónleika í Haukafelli, dásamlegum útivistarreit okkar Hornafirðinga, og veðrið ku eiga að vera gott. Þau eru að fara til Svíþjóðar á mót og veit ég að þau verða okkur til sóma. Þetta fólk, stórt og smátt, á heiður skilinn, eru búin að vinna hörðum höndum til að fjármagna ferðina. Á laugardaginn verða svo tónleikar hjá mínum eldri ásamt kór úr Reykjavík. Þess á milli eldum við HUMAR.. Með þessum nammikveðjum kveð ég þar til næst.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Sögustund á síðkvöldi

Kammerkórinn Hljómeyki er nýkominn úr vel heppnaðri tónleikaferð í Frakklandi, og óska ég þeim söngfuglum innilega til hamingju með árangurinn. Einn af forsprakksmönnum þar á bæ er dóttir góðra hjóna sem ég söng lengi með í den tid, og eftir að hafa hlustað á ferðasögu Hljómeykisfólksins rifjaðist upp fyrir mér skemmtileg upplifun frá 1967! Þá var ég kornungur meðlimur Pólýfónkórsins, en ég og vinkona mín vorum lang yngstar í þessum frábæra kór. Við vorum komin á Europa Cantat í Namur/ Belgíu. Þar voru samankomnir þúsundir til að syngja saman og hver fyrir annan. Dagurinn byrjaði á allsherjar söng í stórri "höll", þar sem allir sungu af blaði og hristu sig saman. Ég sat stundum hjá Týróla bassa sem hristist allur og nötraði þegar hann söng. Flottur, og í stuttbuxum.--- Pólýfón gisti í munkaklaustri, og höfðum við tvær hæðir fyrir okkur. ---Eins og títt er um ungar stúlkur urðum við vinkonurnar yfir okkur "ástfangnar" af tveimur bössum úr Bachkórnum frá Munchen, þeir voru sko á mótorhjóli, og við gengum oft far. Váááá...Eitt kvöld þegar Pólýfón var á heimleið í strætó langaði okkur vinkonurnar að hitta téða bassa og hlusta á þá syngja, nóttin var ung rétt eins og við, en prógrammið var stíft svo nú skyldi fara að sofa. Pabbi forsprakkans (sem áður er getið) sagði í lágum rómi að hurðin á okkar hæð yrði opin, en við mættum ekki vera lengi. Þar með laumuðumst við til baka og áttum skemmtilegt söngkvöld. Engan áttum við peningin til að greiða leigubílnum heim í klaustur, en sungum bara fyrir bílstjórann "hann Tumi fer á fætur". Gott mál og allir glaðir. Þegar við læddumst á hæðina okkar var hurðin læst.....Rúúnar! -- Nú voru góð ráð dýr fyrir lítil hjörtu-- Læddumst á neðri hæðina og drógum andann djúpt. Fyrsta herbergið var upptekið, númer tvö líka...það þriðja var autt og þangað pukruðumst við í myrkrinu. Þegar við kveiktum ljósið blasti við okkur munkakufl á vegg, opin biblía, hálfnagað epli og bælt rúm. Við bara settumst á einbreiða rúmið og héldum áfram að draga andann djúpt, og nú mjög djúpt. Lögðumst svo saman í þetta rúm og bærðum varla á okkur, biðum bara að munkurinn kæmi. Hann kom aldrei, og við lognuðumst útaf, en þá hálfflissandi af taugaveiklun. Morgunin eftir hafði velgjörðarmaður okkar frá því kvöldinu áður verulegar áhyggjur því hann fann vinkonurnar ekki á réttri hæð. Þannig var að hurðin var bara stíf, alls ekki læst, en við þorðum ekki að kippa í og gera óþarfa hávaða. Við vorum semsagt svo vel upp aldar! Kórstjóranum hins vegar fannst við ekki vel upp aldar þegar hann horfði á eftir okkur vinkonunum í íslenska búningnum sitjandi með strókinn aftur úr okkur á mótorhjóli þeirra Bachbassa! Efast um að gamlir Pólýfónfélagar læðist hér inn, en hver veit.....Bið að heilsa ykkur öllum og þakka fyrir góð ár með kórnum. Með þessari langloku um löngu liðna tíð kveð ég alla í kútinn að hætti dóttlu minnar. Þar til næst.