föstudagur, 28. janúar 2011

Axlaröxl.

Það þykir sko ekki fínt nú til dags að axla ábyrgð, en menn tala þó fjálglega um að svo beri að gera.--- En það eru bara hinir sem eiga að gera það.--- Ég veit ekki betur en ég hafi þurft að axla ábyrgð þegar ég fimm ára var látin skila dúkkulísunum sem ég stal forðum úr bókabúðinni, var látin skila góssinu! Ég bar líka ábyrgð þegar ég sló víxilinn fyrir mínu fyrsta píanói á fullorðinsárum, og ég hef alltaf, segi og skrifa, axlað ábyrgð á velferð minnar fjölskyldu. Þó það nú væri. ---Fyrir nokkrum árum var ég að spila konsert með góðri óperusöngkonu, og þurfti flettara í einu stykkinu. Þar sem nótnalesandi flettarar liggja ekki á lausu fyrir hunda og manna fótum ákvað bestimann að nú væri komið að því. Hann skyldi altso fletta, það væri nú ekki mikið mál. Æfði sig vel og lengi, og ég þurfti ekki að rymja "fletta núna" út úr mér á ögurstundu. Allt gekk vel þar til kom að síðasta konsertinum. Hann fletti jú alveg á réttum stað, gekk síðan frá píanóinu og tók hækjurnar mínar með sér! Í klappinu sá ég hvar hann sat aftast í salnum skælbrosandi með hækjurnar mínar á milli hnjánna. Þetta gat varla orðið asnalegra. Axlaði hann ábyrgð? Ég veit það ekki, því það er enn hlegið að atvikinu. Í ljósi líðandi stundar ætla ég að hætta að hlæja að þessu og krefjast þess að minn bestimann axli ábyrgð á þessu flettaradæmi og biðjist að minnsta kosti afsökunnar. Ég ætlast þó ekki til að hann segi sig lausan frá mér og mínum frekar en hinir þarna úti. (sitji hann sem fastast) Nú er Kanadaferð framundan, og tel ég nokkuð ljóst að ég þurfi flettara, en bestimann verður ekki fyrir valinu! Ég vil að menn axli ÁBYRGÐ þar til næst. ----- Ps. Það er eins gott að minn elskulegi sé ekki að þvælast um á blogginu!.

þriðjudagur, 18. janúar 2011

Fegurð.


Það eru ekki allir með sömu skoðun á hvað er fallegt, en hver skoðun á rétt á sér.
Ég upplifi mikla fegurð þessa dagana, og er hún fólgin í ýmsu. Hér er alauð jörð, en birtan er að aukast, hænufet hvern dag. Það er fegurð fólgin í því. Hreindýrin sem þvælast fyrir okkur í mínum fjórðungi eru líka falleg, og skýin eru dásamleg. Ungur nemandi minn sem hélt að tiltekin nóta héti Þ var líka sætt. Lítill frændi bestimanns sem var á heimleið frá dagmömmu í dag í fylgd mömmu og ömmu var dásamlegur á sínum stuttu fótum. - Það var fallegt.- Í kvöld var kóræfing hjá mínum Gleðigjöfum hvar sem hver og einn er fallegur og veitir ekkert annað en gleði. Margt annað get ég talið upp sem er fegurð í mínum kolli, en sennilega gubba þá einhverjir af væmninni. Mætti ég þá frekar biðja um svona fegurðarfréttir í fjölmiðlum en þær sem dynja yfir okkur alla tíð, og ég skal glöð hafa gubbupoka mér við hlið ef væmnin keyrir úr hófi. --Á þessum nótum í Þ sendi ég ljúfar yfir þar til næst.

sunnudagur, 9. janúar 2011

Hvippurinn og hvappurinn!

Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegs árs, með þökk fyrir innlitin á síðasta ári. Það hefur heldur fækkað í þessum bloggheimi frá því sem áður var, og sakna ég margra. Er haldin einhverju heilkenni þar sem mér finnst að allt eigi að vera eins og var, en altso eftir mínu höfði!
Jólin eru búin og grýla farin, en það verður víst ekki langt þar til jóladótið verður tekið fram á ný ef fer sem horfir. Nánast kominn miður mánuður. Grýluljósmyndin hefur fengið sinn sess á heimilinu og enn fær bestimann smá hland fyrir hjartað við að horfa á hana! ---- Eins og það er gott að flækjast um á náttbuxunum í góðu fríi er jafn ömurlegt að þurfa að hanga í þeim og vera með samviskubit. Bölvuð flensupest gerði mér lífið leitt í viku, en nú er ég að ná vopnum mínum og held glaðbeitt og hress út í vinnuvikuna og er bara bjartsýn. Ekki svooo langur tími þar til litla fjölskyldan mín í Ameríku sameinast á ný, og ekki svoooo langt þar til við bestimann sjáum þau. Ég er hreykin eins og hani á haug hvað þau hafa öll staðið sig vel. --- Hef ótrúlega lúmskt gaman af þegar dóttlan mín lýsir talanda nattalíusar. ----Ég viðhef (ó)-virka hlustun og brosi í laumi og minningarnar flæða fram, því einu sinni var hnátan lítil og þurfti að tala, og hún gat talað endalaust. Þegar við vorum t.d. að koma frá Reykjavík og sáum Höfn af hæðinni hjá Stapa var eins og flóðgáttir hefðu endanlega opnast, og bunan stóð út úr henni. ---Yndislegt í minningunni.---Mér skilst að ég hafi verið eins sem barn, og ef enginn nennti lengur að hlusta þá söng ég bara. Enginn skyldi halda að eðlið segi ekki til sín. --- Áramótaheit gaf ég engin nema þau að halda áfram að reyna að vera mér og öðrum góð. Á þeim nótum sendi ég ljúfar yfir þar til næst.