föstudagur, 16. mars 2012

Eitt ár...

Eitt ár er ekki langur tími í stóru myndinni, en fyrir suma líður það seint, aðrir lifa það ekki af og enn aðrir baslast áfram. Ég tilheyri því síðasta, en fannst á tímabili hinir möguleikarnir ættu við mig líka. Akkúrat núna er eitt ár síðan lífi okkar bestimanns var snúið á hvolf í orðsins fyllstu merkingu. Bæði "hérmegin Atlandsála og hinumegin". Þegar verst lét var ég alveg skíthrædd en þá taldi bestimann að okkur væri nú algjörlega óhætt. Við það sat og ég kemst ekki upp með neitt múður. --- Þegar ég lít yfir árið verð er ég hissa hve "auðveldlega" það leið. Allavega er það liðið og ég stend/sit hér nokkuð keik og funkera þokkalega. Það er allavega búið að skemmta sér dulítið yfir að nokkurnveginn stóð ég alltaf kl. X og eldaði kvöldmat. Það fannst mér alveg nauðsynlegt, annars væri allt tapað! -- Eftir 2 vikur fer ég í fyrstu skoðun eftir meðferð og burra ég stundum með vörunum.... þið vitið.... setjið vísifingur á milli blautra var og segið prummmmmph! Ég kann ekkert annað ráð til að ná hugarró og vissu um að ég sé mikið heil heilsu. Mér er sagt að ég líti svoooo vel út, ég sé með svoooo flott hár og litaraftið sé engu líkt. Þessu ætla ég að trúa, og trúi í raun. Ég vil bara að skoðunin sé búin og Einar segi allt það sem ég var að skrifa. Mér er nefnilega ekki lagið að vera þolinmóð nema þegar mér sjálfri hentar! -- Ps. eins og í bréfaskrifunum í þá gömlu góðu er ég farin að hlakka verulega til að fljúga vestur í lítið blátt hús, og Tjaldurinn er kominn í fjöruna fyrir neðan Tónskólann. Jibbí þar til næst.

laugardagur, 10. mars 2012

Rokrokrokrok!

Ég held ég hljóti að fjúka út í veður og vind í sterkustu hviðunum, en áður, verð ég að láta ykkur vita að ég fer að sjá La Bohem og Vesalingana mjög bráðlega! Já já og enga öfund. Bið bestimann að fergja mig svo plönin standist þar til næst.

laugardagur, 3. mars 2012

Fréttaveitan að eystan

Frúin doldið úfin, en það er ekki gott að gera, þetta er svo sjálfstætt hár. Fór í mína fyrstu klippingu á dögunum og fannst ég vera voða stór stelpa. Er líka búin að fara í fótsnyrtingu með gasalega fáar tásluneglur, en það var samt gott. Það er líka gott að puttaneglurnar eru ekki lengur brúnar, hafa vaxið í rólegheitum fram hvítar og fínar. ---Ég ákvað á sínum tíma að skrifa mig frá hlutunum og hef staðið við það. Líður betur með það einhverra hluta vegna, og mér finnst bloggið mitt ekki vera verri staður en annar til að leyfa huganum að ráfa. Ég veit um marga sem hafa gengið í gegnum svona hremmingar án þess liggur við, að nokkur fái pata af því hvernig þeim líður, og að skrifa þetta á veraldarvefinn er guðlast hjá mörgum. Jamm, sem betur fer erum við misjöfn, en ég er viss um að ferlið er auðveldara ef maður lokar ekki allt og læsir inni. ---Í fimm ár á ég að taka eina pillu á dag svo ég verði nú alveg örugglega laus við allan óþverra. Margar konur ( þær sem þola téða pillu) kalla hana demantinn. Jæja, hörkukellan ég gafst endanlega upp á demantinum. Gaf honum þriggja mánaðar séns.... búið spil.... Varð gjörsamlega ómöguleg eins og amma mín sagði stundum. Það þýddi ekki gott. Núna er ég á 11. degi án "grjótsins" ( ekki demantur) er fír og flamme og stekk á milli stóla eins og hind. Dofi í puttum og tám á verulegu undanhaldi, og frúin bara dafnar. Systurlyf verð ég sett á og ku konur þola það betur. Vonandi á það um mig. Það er með ólíkindum að það skuli þurfa hálfdrepa mann til að koma manni á lappirnar á ný. ---Annars er allt í góðu, kennsla og kórastarf gefa mér það sem þarf til að viðhalda huga og hönd og við bestimann erum farin að huga að Ameríkuför með snemmsumarsskipunum, því þar er fólk sem við þráum að faðma. Seinna í þessum mánuði fer ég í fyrstu skoðun eftir meðferð og ég er viss um að hún kemur vel út, mér líður þannig. Á leið minni suður ætla ég að drekka kaffi í stóru bláu húsi. Það er gott að eiga góða að í litlu bláu húsi og stóru bláu húsi þar til næst.