mánudagur, 30. desember 2013
Til móts við nýtt ár.
Jæja," þá eru jólin búin" ku ég hafa sagt hátt og snjallt 5 ára hnáta þegar síðasti jólapakkinn var opnaður. Síðan þá hefur þetta verið orðatiltæki hjá stórfjölskyldunni. Mín jól í dag eru hins vegar ekki búin, nýt friðarins og rólegheitanna, náttbuxnanna minna og bókanna. Nýt þess að dunda í eldhúsinu og hugsa fyrir næstu máltíð! (Steiktur fiskbúðingur úr dós var í kvöld með allskonar gúmmelaðe!) Ekki segja neinum frá. Óskandi að svona líðan væri á öllum bæjum, allsstaðar. Eftir að Svanfríður mín flutti að heiman og tengdamamma féll frá höfum við bestimann alltaf haldið jól og áramót hvort með öðru. Margir undra sig á þessu því allir vilja sig á stórhátíðum. Okkur líður vel með tvímenninginn því við erum svo vel gift sjáið til! Það sagði gömul frænka bestimanns þegar hún var að hrósa mér fyrir eitthvert spileríið. Hennar fleygu orð voru: Þetta er ekkert mál fyrir þig Gulla mín, þú ert svo vel gift! Það var og......Málið var að henni fannst allt sem ég gerði vel vera af því að ég var svo vel gift. Dásamlegt. Semsagt, stórhátíðar eru ekkert vandamál nema bara stundum þegar kemur að kaupum á jólagjöfum og pakkaálesningu. ( við eigum nefnilega meira en okkur vantar) Bestimann er frárri á fæti en ég, ég elda og hann skal svo sannarlega fá að hlaupa með pakkana. Það eina sem heftir helst hlaupin eru of margar rjúpur í maga karls, og þar af leiðandi tekur þetta allt sinn tíma. Nú, svo er lestur jólakorta og seinni messa bestimanns. Það er semsagt heilmikil prósessía sem fer fram á okkar bæ. Margar góðar gjafir fengum við, en upp úr stendur árlegt myndadagatal frá Ameríku og sex metra langur stigi sem ég gaf mínum heittelskaða. Já, ég sagði og skrifaði sex metra langur stigi og hann varð yfir sig glaður. Þarf þá ekki lengur að kvarta yfir stigaleysi, vondum lánsstigum og heimagerðum klömbrurum þegar þarf að fara hátt. Allir sáttir með sitt og prjónakjóllinn sem ég fékk var yndislegur. Nú er enn eitt árið að renna sitt skeið, og fólk gjarnan lítur um öxl og jafnvel strengir heit fyrir næsta ár. Ég kem nokkuð vel undan þessu ári, heilsan bara vel við hæfi og heilbrigðiskerfið virkar. Ætla því ekki að dvelja í fortíðinni, en lifa í núinu því það er það sem heldur. Eina heitið mitt er fyrir næsta ár er að láta mig hlakka til Ameríkuferðar í sumar. Allt kvittað og klárt. Myndin hér að ofan er af því fólki sem ég elska mest, en það vantar þó einn á hana, en hann munum við knúsa líka á sumri komanda. Kæru vinir, gleðilegt ár þar til næst og kærar þakkir fyrir rafræna og lifandi samfylgd á árinu.
föstudagur, 20. desember 2013
Er líða fer að jólum....
Heil og sæl þarna úti í víðáttunni. Hér á kærleiks eins og ein orðar það svo skemmtilega gengur allt vel og jólin á næsta leiti. Maður spyr gjarnan annan: ertu búinn að öllu? Ég svara því til nokkuð satt og rétt að ég hafi ekki svo mikið fyrir hlutunum, við erum jú bara tvö og getum gert alla skapaða hluti nánast á öllum tímum. Ég baka alltaf í nóvember því jólamánuðurinn er oft ansi þungur hjá tónlistarfólki, og er það bara hluti af jólunum. Sveinkarnir mínir eru allir komnir á sinn stað, og sjáið bara eineggja "tvillingana" á efri myndinni, þeir eru sko búralegir, og ef vel er gáð má sjá þann montna frá frú Sigurbjörgu. Eftir helgi fæ ég einn feitan frá Þýskalandi, hlakka til að kynnast honum. Í dag kom gömludansadiskur Jökuls í okkar hendur, og svei mér þá, hann er þrælskemmtilegur, er eiginlega mjög stolt af honum. Syng þar eitt lag með strákunum og hafði gaman að öllu saman. Ef þið viljið kaupa hann og dansa eftir honum á stofugólfinu látið mig bara vita. Rúsínan í þessum hornfirska pylsuenda er að nú hef ég í höndunum farmiða fyrir okkur bestimann til Kaliforníu í sumar, kvittað og greitt, sagt og skrifað! Núna finnst mér stór köggull farinn af brjóstinu og aðventukökkurinn hefur mildast einungis við að horfa á seðlana. Ég veit varla hvernig maður færi að án skybe...en, mamma lifði af með okkur systur langdvölum í útlöndum og við bestimann lifðum af skiptinemaárið hennar Svanfríðar minnar. Þannig að þegar upp er staðið er styttra á milli allra í dag en i den tid. Svo mikið er víst. Ég vil óska ykkur öllum með kíkið í kaffi, kvittað eða ókvittað innilegrar jólahátíðar og megi nýtt ár færa okkur frið í hjarta þar til næst. Gleðileg jól.
laugardagur, 7. desember 2013
Heima er best...
Jæja þá er Reykjavíkurferðin frá, og sú næsta verður ekki fyrr en í mars, ef guð lofar eins og kerlingin sagði. Veðurkrákan ég ætti helst ekki að fara út fyrir pípuhlið frá hausti og fram á vor. Bara það eitt að þurfa að mæta í Rvík. að vetri til á sérstökum degi getur hreinlega gert út úr mér. Hálka, stormur, snjór og grjótfok er það sem ég hugsa um daga og nætur áður en farið er. Ég veit....asnalegt. Núna bar svo við að við fengum nokkurnveginn sumarfæri og rjómablíðu báðar leiðir, þannig við bara sungum hástöfum okkur til skemmtunar og til að fagna góðri skoðun á frúnni. Meinlaust var brjóstið mitt, bara bólgur sem hægt er að meðhöndla. Þar með ætla ég ekki að eiga fleiri andvökunætur út af því. Vil heldur vaka af einhverju skemmtilegu.--- Mikið hvað ég varð glöð þegar bestimann sótti jóla-jóla kassann, þvílík dýrð og dásemd. Jesú og fam. er komin á nótnaskápinn og spiladósaflygillinn stendur ofaná mínum ekkidósaflygli! Fyrir mörgum árum keypti ég lítinn feitan sveinka sem situr eins og klessa og brosir fallega. Í byrjun nóv. fórum við bestimann í Rauða kross búðina á Háaleitisbraut að kaupa lesefni. Þar sá ég í einu horninu einn einmana sveinka, albróður þess sem ég hafði keypt fyrir löngu. Þessi situr bara öðruvísi og afslappaðri. Nú hafa þessir eineggja tvíburar náð saman og haga sér vel á eldhúsbekknum mínum. Á góðum stað stendur svo einn sveinki sem er langur og mjór, og jafnvel alþakinn glimmeri. Hann er monthani, en mjög elskulegur. Hann heldur á pakka í annarri hendinni og glottir út í annað. Mér finnst alveg óendanlega vænt um þennan svein. Hún frú Sigurbjörg sá hann í Ástralíu, hugsaði til mín, keypti hann og gaf mér. Sveinkastelpu á ég líka sem mér þykir jafnvænt um og slánann. Þórunn í Kotinu gaf mér hann þegar ég lauk geislameðferðinni. Litla sveina situr á útvarpinu. Þegar ég sé þessa vini mína hugsa ég fallega til gefendanna. Í þessum skrifuðu orðum er ég svo þakklát. Ég er þakklát fyrir lífið með öllu því sem það fleygir í mig, og ætla að reyna að láta þras og leiðindi fljóta hjá þar til næst.
föstudagur, 22. nóvember 2013
Að kveldi dag.....
Mér finnst þessi mynd af dóttlu minni algjör draumur, hvílík litadýrð í öllu, plús brosinu hennar. Hún nefnilega var "doldið" sein að starta sér í gang. Hékk einhvernveginn út á hlið og brosti, en ég tróð koddum allt um kring og tók myndir. Natti minn, litli snúður er mjög líkur mömmu sinni og það er vel hægt að sjá fjölskyldu og ættarsvip úr öllum áttum. Einhverntíman skrifaði ég hér inn á síðuna upphaf míns lífs og er það ekkert drama, en dapurlegt eigi að síður. Ég er afskaplega fegin og glöð yfir að hafa eignast að endingu foreldra og systkini þrátt fyrir að blóð okkar sé ekki samkvæmt dna. Það er nefnilega svo merkilegt að manni þarf ekki að líka blóðið, og ekki er öllum í mun að leita upprunans til að kynnast því. Ég hef haft allan þann tíma sem ég hef viljað til að kynnast mínu blóðfólki, en mömmu og pabba fólk er mitt fólk. Það er því gaman í raun að sjá að ég og dóttlan mín erum ekki bara líkar hvor annarri, heldur nánast öllum blóð-ættflokknum. Þó eru þeir til sem hafa talið mig líka mömmu í tali og töktum! Hver dregur dám af sínum. -- Nú er aðventan á næsta leiti og kökkurinn fer að segja til sín. Þið munið...hann hverfur þegar jólin ganga í garð. Þangað til skælum við dóttla mín sennilega af og til til að hreinsa loftið í kringum okkur. ---Við bestimann héldum, og vorum alveg ákveðin í að til Rvík. færum við ekki fyrr en í mars, en plön breytast. Það á að skoða brjóstið mitt vel og vendilega aftur til að segja okkur að Rvík. sé ekki á dagskrá fyrr en í mars! Krossum alla fingur og tær, en fyrst við þurfum að fara suður ætla ég að kaupa enn einn feitan og flottann sveinka í safnið þar til næst.
föstudagur, 8. nóvember 2013
Öppdeit...
Það er sama og venjulega, skrifa ekki eins og ég ætla mér. Kannski vegna þess að ég þarf að vera í ró og næði og spá og "spögúlera" eins og gengur og gerist á ritvellinum. Var að ljúka við lestur Skuggasunds eftir Arnald og dáist að sagnameistaranum, því sá hlýtur að hafa þurft að spá. Það eru svoooo margar bækur sem mig langar að lesa og ætla að lesa því bráðum koma blessuð jólin. Nú eru liðin tæp 2 ár síðan ég kláraði krabbameinsmeðferðina og skil ég varla hvernig þetta tókst alltsaman. Hef verið í strangri gæslu síðan, og hef ég/við aldrei þurft að kvarta undan okkar ágæta heilbrigðiskerfi án þess að ég fari nánar út í rekstur þess og forgangsröðun. Þið vitið alveg hvað ég á við. Málið er líka að við heyrum oftar um það í fjölmiðlum það sem miður fer, en alltof sjaldan góðu hliðarnar. Við eigum hins vegar alveg úrvals læknateymi sem vill sínum sjúklingum vel. Eins hef ég oft undrað mig á umræðunni um allan kostnaðinn sem konur eins og ég þurfum að punga út. Þekki það ekki á eigin skinni. Áður en ég fer út á hálari brautir þá hefur mér verið sinnt af einstöku teymi. Um daginn fór að ágerast hnútur í mínu eigin brjósti og fór þá virkilega að fara um mig, mig hryllti við hugsuninni einni saman um annan eins skammt og fyrir tveimur árum. Óþarfa svartsýni kannski, en var send í góða rannsókn til að útiloka óhroðann. Kom vel út en sálin hvekktist allnokkuð. Búin þó að ná vopnum mínum og hugsa enn og aftur fallega til allra sem halda í höndina á mér. Myndirnar sem fylgja með þessum skrifum eru teknar síðla sumars á Sólheimum í Grímsnesi. Þar dvöldum við bestimann í viku á yndislegum stað, Bergmáli, sem rekið er af algjörlega yndislegu hugsjónarfólki. Þarna vourm við um 30 manns, öll með einhverja sögu en nutum þess að kynnast hvert öðru í dásamlegu umhverfi. Við bestimann fórum á stúfana og skoðuðum staðinn og allt það sem hann býður uppá. Vinnustofur og slíkt. Þar mættum við fullorðnum manni sem tók okkur tali og var hinn mælskasti. Bestimann spurði sem sannur Íslendingur hverra manna og allt það..... Árni heitir hann og sagði okkur deili á sér, og nefndi þar móður sína sem bar sérstakt nafn. Hann hafði ekki hitt neinn sem hafði þekkt hana, en spurði mig hvort ég hefði kannski kannast við hana. Ég átti ekki til orð, ég bjó á hæðinni fyrir ofan fjölskyldu hans og kom þar mjög oft. Árni var hins vegar ekki þar vegna sinnar fötlunar. Þið hefðuð átt að sjá andlitið á honum þegar þetta uppgötvaðist, hann varð eins og fallegasta sól í heimi. Ég heimsótti hann svo á heimili hans og við spiluðum og sungum. Þetta var dásamlegt og staðurinn Sólheimar eru eitthvað undur sem erfitt er að skilgreina. ---Svo finnst mér steinninn a tarna eitthvað svo yndislegur og auðveldur. ---Lífið semsagt gengur sinn vanagang við vinnu og önnur störf. Cd upptaka að verða búin, kórarnir starfa af miklum móð og styttist í jólalög hjá tónskólanemendum. Hlakka til að taka upp sveinkana mína...einn bættist við í síðustu Rvík. för! Með það í farteskinu sendi ég ljúfar yfir þar til næst.
laugardagur, 26. október 2013
Saknisakn...
Þar sem ég var alveg viss um að mín væri saknað skellti ég mér á svosem eitt blogg. Það eru að vísu flestir hættir að blogga eða kíkja í kaffi, en mér finnst þetta form miklu skemmtilegra en fb. Mín sérlunda. Ég nefnilega ætlaði aldrei að byrja að blogga, en ung og góð stúlka taldi mér trú um að þetta yrði ég að gera og setti mig upp eins og hún kallaði það svo fagmannlega! Sjálf er hún svo löngu hætt að skrifa! --- Fyrir tveimur vikum fórum við bestimann ásamt fylgdarliði norður á Vopnafjörð, og alveg í himinsins blíðu. 16 stiga hiti báða dagana. Þar upplifði ég algjöra menningarveislu, og fékk að taka þátt í henni með kvartettssöng vopnfirskra karla + bestimanns. 3ja tíma veisla, troðfullt hús og engum leiddist. Vopnfirðingar: ef þið læðist hér inn þá eigið þið hrós og heiður skilinn. Fagridalur, Framtíð, Holt og allt hitt....takk. --- Nú, ekki létum við bestimann deigan síga eftir Vopnafjarðarför heldur drifum okkur í málningarvinnu hér á bæ. Nú er allt svo skínandi hvort sem það er bókarskotið, dóttlusvítan eða lyklakippusafn bestimanns. 1100 kippur á vegg og hver og ein þvegin! --- (Er þetta ekki hálfgerð "belun"?!) Skólinn, kórarnir og allt annað sem tengist lífi okkar gengur sinn besta gang, cd upptökur Jökuls að klárast og ég sit sveitt yfir h moll svítu Bach. --- Minn draumur hefur verið lengi að skrifa pistil sem er bara á neikvæðum nótum....þið vitið, svona um ambögur, íþróttamál, ljótar fréttir og dýrkun á vitlausu fólki úti í hinum stóra heimi. En núna komst ég ekki í þann gírinn. Lífið er nefnilega svo miklu skemmtilegra án þessa sem ég ætla þó einhverntíman að skrifa um þar til næst. Sendi ljúfar yfir og allt um kring.
laugardagur, 5. október 2013
Já lífið.....
...er gott, og mikið gott. Síðan síðast hef ég fengið brautskráningu frá kr.meins.skurðlækninum mínum og hinn gaf mér góða skoðun og þarf ekki að koma aftur fyrr en eftir 6 mánuði. Efsta myndin er svolítið skemmtileg. Eftir brjóstnámið dvöldum við bestimann á sjúkrahótelinu í góðri umönnum og mikilli hlýju.Ég átti að æfa mig á að "ganga" upp vegg til að ná góðri teygju á handlegginn. Déskolli sárt. Alltaf þegar við höfum þurft að "ganga til lækna" (þið munið, Guðrún frá Lundi!) þá gistum við á téðu hóteli og mjög gjarnan í sama herberginu. Meðal annars var það mitt verelsi í fimm vikur meðan á geislum stóð. Bestimann setti lítið blýantsstrik í upphafinu, og sést það enn, allavega sjáum við það. Á myndinni sést hversu mikilli teygju ég hef náð, og á samt töluvert eftir .Hef alltaf getað spilað, sú hreyfing tapaðist aldrei, (svona út og suður hreyfing) en ég á erfiðara með að hengja upp þvott, og þar kemur bestimann oft sterkt inn! Síðan síðast:--- Bestimann vaknaði MJÖG snemma daginn eftir góða skoðun frúarinnar og datt þá í hug að skoða bílakaup, og jafnvel að kaupa einn slíkan. Skemmst er frá að segja að bíll var keyptur....algjör drossía! Við þennan fína bíl gat frúin varla látið sig sjást á komandi jazz og dixilandtónleikum öðruvísi en í nýjum kjól. Til að gera langa sögu stutta: Það er lítil yndisleg búð á Njálsgötu 62 sem selur það sem drottningar þurfa, og það fyrir mjög sanngjarnt verð. Þangað fer ég svo sannarlega aftur og mæli með búðinni. --- Síðan síðast: --- Afmælistónleikar og ball....sungið og spilað og ágóðinn rann til Krabbameinsfélags suð-austurlands. Alveg fullt af "pjéningum" sem Hornfirðingar gáfu af heilum hug í viðbót við þá skemmtun sem sóst var eftir. --Alveg magnað hvað samstaða fólks getur náð langt. Bestimann var í denn tid....sko fyrir heilum 49 árum í hljómsveit, Pan kvintett sem spiluðu víða og voru að mér skilst déskolli góðir. Fyrir mína tíð. Áttu búninga og æfðu grimmt. Flottir gæjar. Nú komu þeir saman aftur og hafa bara orðið betri með árunum ef eitthvað er. Fyrir 49 árum voru þeir kornungir og kunnu lítið fyrir sér, en allir músíkalskir og höfðu stóra drauma sem þeir létu rætast. Allar götur síðan hafa þeir verið viðriðnir tónlist hver í sínu lagi og stundum saman og hafa nú reynslu, grátt hár og yfirvegun.--- Síðan síðast ákváðum við bestimann að skreppa aftur norður á Vopnafjörð á næstunni og taka þátt í söng og gleði með heimamönnum. Ég er veðurskræfa og bið því um gott veður í öðrum skilningi en svo oft áður. Því skyldi það ekki ganga upp núna eins og fyrr? Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.
sunnudagur, 15. september 2013
Uppsafn og uppsóp!
Þetta ætlar ekki að ganga eins og til var ætlast. Ég er að átta mig á því að tæknin og ég eigum alls ekki samleið. Kann að setja myndir af myndavélinni á tölvuna, senda og setja inn á þessa síðu. Nú hins vegar gerist ekkert, og ef þetta blog skilar sér ekki verð ég fantafúl. Síðan síðast hefur margt gerst í lífi kotkerlu. Fór í aðgerð í lok ágúst í vonandi lokahnykk á brjóstsvæðinu og eftir það dvöldum við bestimann í algjörri sæluviku á Bergheimum á Sólheimum í Grímsnesi. Dvölin þar gerir manni eitthvað svo ótrúlega gott, maður kemur ekki alveg sami maður til baka. Þeir sem að þessu "batteríi" standa eiga allar heimsins orður skildar.--Eftir þessa dásemdardvöl hófst kennslan og söngför Gleðigjafanna minna undirbúin af krafti. Í gærkvöldi komum við svo heim ferðalúin en alsæl með yndislega tónleika og frábærar móttökur Vopnfirðinga. Ég hef oft spilað þar tónleika sem alltaf hafa verið vel sóttir, og þeir eru höfðingjar heim að sækja. Vopnafjörður er einn af fallegustu bæjarstæðum sem ég þekki og landslagið ótrúlega fallegt. Það er auðfarið á Vopnafjörð, beinn og breiður vegur alla leið. Mæli með honum. Framundan er lífið í allri sinni mynd, og með öllu því sem það býður uppá gott eða slæmt. Ég hef því ákveðið að lífið verði gott og ég hlakka til komandi verkefna sem eru ærin. Þar stendur "doldið" uppúr: Ég er nefnilega að æfa jass og dixilandlög á píanóið og er algjör tréhestur. Sko, ég er ekki dökk á brún á brá hvar sem þeir eru bestir í þessari tegund tónlistar. Ég er rétt aðeins sólbrún eftir Spán með klassík í puttunum. Mér er samt talin trú um að ég geti þetta og fyrst svo er ætla ég bara að æfa mig í að vera swinguð! Núna í vikunni förum við bestimann til Rvík. og þar ætla ég að biðja mína góðu lækna um gott veður fram að næsta vori. Ætlum líka í leikhús og ef ég verð dugleg og heppin hitti ég kannski einhverja góða í Kringlukaffi....læt vita síðar þar til næst.
miðvikudagur, 14. ágúst 2013
Þaðan sem frá var horfið...
Nú í sumar hefur verið algjör ládeyða á þessari síðu, en það hefur sko ekki verið nein ládeyða í lífi okkar bestimanns. Sumarið hefur verið hreint út sagt viðburðarríkt í meira lagi, fullt hús af yndislegu fólki og mikið líf. Kotkerling losnaði úr koti sínu á réttum tíma til að uppgötva mikla sýkingu, og þá fór um Gvend og meyna...allt sumarið framundan. Á mánuði tókst þó að lemja þetta niður, en ég stóð uppi og bölvaði út í loftið. Maður má nú stundum! Að fá að hafa Svanfríði og snúðana tvo var mikil upplifun og mikil gleði sem ég get alls ekki skýrt út svo vel sé, enda ætla ég ekki að reyna það en hjartað mitt er fullt af ást og væntumþykju. Henni dóttlu minni er ekki fisjað saman. Íslenskukunnátta strákanna og skilningur þeirra á málinu er aðdáunarverð, og allt skrifast það á móðurina. Hvort sem það er faðirvorið, lög með Ragga Bjarna eða hreint og klárt bölv...allt gert af stakri prýði. Það var mikið brallað og allir upplifðu eins og til var ætlast. Það var því erfitt að kveðja, en Spánn var á næsta leiti svo það dreifði huganum. Þar vorum við bestimann svo í vellystingum og með góðu fólki í 12 daga. --- Ég hef alltaf elskað sól og hita og þoli mjög vel þannig letilifnað í smátíma. Nú var hinsvegar Bleik brugðið "a bit". Krabbameinsmeðferðin öll og lyfjaátið hefur skilið eftir sig sitt lítið af hverju. Núna þurfti ég að passa mig extra vel, en það eyðilagði ekkert fyrir mér, ég varð bara örlítið varkárari. Við eigum góða Spánska vini sem alltaf gaman er að hitta hvort sem það er á Spáni eða hér á Hólabrautinni. Fyrst þegar við kynntumst var sonurinn pínupeð, varla talandi. Í dag er hann stærri en ég og alltaf jafn fallegur og góður. Áður en ég get litið við verða mínir strákar svona stórir og fallegir, jafnvel fallegri, og ég ætla að sjá til þess að vera á staðnum þegar þeir detta í fullorðinsgírinn! Segi og skrifa. Núna fer lífið aftur á móti að taka á sig annan blæ og vetrarstarfið að hefjast. Áður er það gerist fer ég í enn eina smáaðgerðina, beinþéttnimælingu og sitthvað fleira. Eftir það ætlum við bestimann að dvelja í viku í Bergmáli, Sólheimum og hver veit, kannski næ ég að stika staðinn á eftir Reyni Pétri göngugarpi. Allavega næ ég ekki að halda í við hann. Myndin hér að ofan var tekin fyrir rúmri viku og ég ætla að orna mér við hugsunina um Spán, en fyrst þarf ég að knúsa vesturfarana. Hvernig og hvenær af þessu öllu verður kemur bara í ljós þar til næst.
föstudagur, 7. júní 2013
Fréttir af kotkerlingu.
Verulega sumarlegt blogg, sólin skín og fyrsta rósin opnaði sig í dag og tileinka ég hana öllum sem kíkja hér inn. Nýi sólpallurinn gasalega flottur og væri ekki amalegt að bjóða í ball. Í dag er frúin hálfnuð í kotinu og get því á morgun farið að telja niður, er í raun byrjuð.....eða þannig. Get þó ýmislegt gert í rólegheitunum og læt lítið hagga mér. Tek skutlutúr á hverjum degi og dáist að bænum mínum. Hann er svo fallegur og öllu svo vel við haldið. Nú getur maður skokkað á skutlunni meðfram ströndinni á dúnmjúku malbiki. Þið verðið bara að koma til Hafnar og sjá hvað ég er að tala um. Ykkur verður sko ekki í kot vísað! Svo fyndin....."Gamla búð" var vígð í dag í nýrri og fallegri mynd á hafnarsvæðinu. Þetta er drottning allra húsa hér að mínu mati og er Hornfirðingum til mikils sóma.--- Jæja, ekki á morgun, ekki hinn heldur HINN koma Ameríkufararnir. Ég er svo spennt að það heldur fyrir mér vöku endrum og sinnum. Svali= tékk....Kókómjólk= tékk...hjól= tékk og allt hitt= tékk svo nú er bara að bíða, oog bííða ooog bíííðða. Svo þegar allir eru komnir í hús líður tíminn allt of hratt. Með sólarkveðju á alla bæi þar til næst.
föstudagur, 24. maí 2013
HANSÍKOTI!
Ég vil þakka ykkur kæru vinir góðar kveðjur mér til handa. Nú er ég vonandi farin að sjá fyrir endan á þessu ferli sem hefur staðið yfir í rúm tvö ár. Til að segja söguna eins og hún er get ég ekki fengið uppbyggingu á nýju brjósti, skömm sé geislunum. En, minn frábæri læknir lagaði því mitt eigið brjóst og gerði mig eins góða og hægt er. Böggull fylgir þó skammrifi, ég var sett í kot, kot sem er mig lifandi að sjúddirarirei! Var búin að heyra sögur af koti og leist ekki á. Núna er ég hinsvegar komin í 6 vikna kot nætur og daga. Má taka það af til að sturta mig, spurning um að dvelja bara undir bununni. Þegar ég var lítil var bannað að blóta, pabbi þoldi nefnilega ekki ljótan munnsöfnuð. Ég bölvaði þessvega aldrei, hvorki heima né heiman. Hinsvegar lærði ég hjá bróður mínum að segja Hans í Koti mjög hratt, og þá varð úr það orð sem ég vil segja um kotið þessa dagana. ----Núna er ég verulega farin að bíða eftir Ameríkuförum, verð að láta tímann líða hvort eð er. Það er því fullt dagsverk að bíða eftir þeim. ---Vorið er komið, allt orðið grænt, rósirnar dafna, nýr sólpallur kominn og ég horfi á þetta alltsaman og stjórna því sem ég get og fæ að stjórna þar til næst.
föstudagur, 3. maí 2013
Tæknivangaveltur í einu orði.
Ég get svo svarið það....tæknin og ég fylgjumst ekki alveg að. Ég hef reynt, það veit Guð, en ég held ég gefist upp í því skjóli að ég sé komin á "þann aldur"! Á þó tölvu sem ég vildi ekki vera án og á venjulegan gamaldagssíma sem sumir hlæja að. App er t.d. eitthvað sem ég lét viljandi framhjá mér fara lengi vel, ég tala nú ekki um hinn víðfræga heimabanka. Kemst ekki hjá því lengur að "ignora" þetta, en svei mér þá, ég strögglast enn við. ( Hef nefnilega yndislegar bankakonur hér í bæ sem sjá um mín mál. Til þess eru þær þessar elskur!) Sko...ég á ekki svona síma sem er nánast fastur við hvern mann, síma sem gerir allt...ef þú kannt á hann. Ég hræðist svoleiðis tól. Ég t.d. vil geta farið í strætó án þess að fletta öllum leiðum upp í einhverju appi, ( fer sjaldan í strætó) pantað mér leikhúsmiða í gegnum síma og svo margt annað sem hefur með mannleg samskipti að gera. Nota bene, ég er komin á fallegan aldur og má því ýmislegt. Nóg um það. 40 ára afmælistónleikar eru búnir, óperusöngvarinn kominn og farinn, prófin í skólanum byrjuð og Gleðigjafarnir sungu á hádegistónleikum í dag. Á morgun förum við í söngferð, tvennir tónleikar og ball á eftir. Jawell, eins og karlinn sagði. --- Eftir tónleikana 9. maí keyri ég "söður" og býð eins og fyrr í kaffi þann 10unda handan við búðina góðu. Ef ég er ekki þar fyrir einhverja slysni þá dugar kannski að hringja í þrjár stuttar og eina langa eins og heima á Gunnlaugsstöðum þar til næst.
sunnudagur, 21. apríl 2013
Ljósadýrð húsið fyllir...
Á ferð okkar bestimanns suður um daginn fórum við að vanda í Rauðakross búðina í Austurveri til að kaupa bækur. Gerum það gjarna og skilum þeim jafnvel aftur til að aðrir geti keypt. Gott ráðslag og fín nýting á lesefni. Ég var fljót að velja og rölti um. Sá ég ekki hvar tvö ljós sátu á hillu og biðu eftir að ég keypti þau. Nákvæmlega ljós eins og mig "vantaði" og í sama stíl og steindi glugginn minn er. Í tuttugu ár hafa verið í þessu bókaskoti einhverjir alljótustu ljósakastarar ever. Bestimann var ekkert yfir sig hrifinn, en það þýðir ekki að deila við ljósameistarann á heimilinu. Ljósin voru keypt, veskið opnað og tólfþúsund krónur borgaðar. Svo datt okkur hjónum að kíkja í Bauhaus....ekki getur maður verið maður með mönnum án þess að fara í þá búð. Ferlega leiðinleg gönguferð um t.d. ljósadeildina. Minnug ljósanna góðu fór ég skoða og spekúlera. Jújú, mörg fín og flott ljós, en ekkert eins flott og mitt ljós. Rak svo augun í ljós, ekkert spes svosem...það kostaði 106.000 krónur! Hver kaupir ljós á 106.000 krónur? Mér hálfpartinn svelgdist á...sér yfirhöfuð einhver hvað fjandans ljósið kostar? Allavega er ég alsæl með mín ljós, og bestimann hreifst með sinni frú og allir ánægðir. ---Núna er að hefjast mikil vinnu- og tónleikatörn sem endar 9. maí en þá fer ég suður og "geng til lækna".. Yndislega orðað hjá Guðrúnu frá Lundi. ( Búin að lesa hana alla) Föstudaginn 10. maí ætla ég hinsvegar að fá mér kaffisopa í Kringlunni svona uppúr 4....og ég býð í kaffi með mér, allavega þeim fyrsta sem kemur, hinir verða bara að borga fyrir sig sjálfir! Fyrir framan Byggt og búið er fínasta kaffihús. ---Nú eru 49 dagar þar til mitt fólk kemur frá Ameríku, og já, ég tel. Svei mér þá, ég hlakka ósegjanlega til þar til næst.
föstudagur, 5. apríl 2013
Af listfengi!
Heil og sæl öll um kring. Stundum er maður misskilinn, og það er oft fyndið. Ekki hef ég getað státað af teikni-eða hannyrða listfengi á ævinni, það fengu systkini mín í aftur á móti í vöggugjöf. Ég fékk bara annað, ekki síðra skal ég segja ykkur og mitt mesta yndi þegar fer að vora er að mála og gera fínt eins og sagt er. Altso utanhúss. Sá svona líka bráðskemmtilega ámálaða steina í görðum hjá henni dóttlu minn í Ameríku, og myndaði grimmt og galið, ákveðin í að gera svona líka. Við bestimann lögðum okkur verulega fram í að finna tvo steina sem hentuðu í verkið, annan ætlaðan okkur en hinn til góðs granna. Nú er komið vor og þá mundaði ég pensilinn, var búin að grandskoða myndirnar að vestan og teikna upp á blað. ( Hann Halldór bróðir hefði varla getað betur!) Allt klárt og ég yfir mig ánægð með afraksturinn og bestimann hrósaði mér fyrir listfengið. Jæja, svo kom að því að sýna gestum og gangandi, og það örlaði á stolti hjá frúnni. Okkar bestu og traustustu vinir klikkuðu aldeilis.......Nei en flott, kettir bannaðir! Einn meira að segja gerðist svo djarfur að spyrja hvort þetta virkaði! Hvursu listblindir geta menn og konur orðið? Mér er spurn....sjá ekki allir að þetta er bannmerki á þjófa?!!! Og þetta sem menn töldu vera kattareyru er sko kraginn á þjófs-frakkanum og hana nú. Ég er viss um að þá á enginn eins flott bannmerki og moi!--- Neðri myndin sýnir svo mikla list, bæði frúna og fjallið þar til næst.
föstudagur, 22. mars 2013
Larfurinn lifandi!
Titillinn er eitthvað svo Séð og heyrt-legur. Þið vitið, svona sætar saman og allt það. Ég þekki suma sem þola ekki svona ódýr rímuð orð í blaði! Mér finnst t.d. miklu betra rím þegar litli Eyjólfur minn rímaði: Jólasveinn/skóhorn. Það þarf ekki ritsmíðamenn á launum til að það virki. ---Jæja, nú er stóra skoðunin búin og ég kom vel út úr henni. Læknirinn sagði mig engum til vandræða og held ég vel í þá skoðun. Eftir svefnlitlar nætur á undan skoðun var eins og valtari "hebbði" keyrt yfir mig þegar henni lauk. Hélt ég væri orðin sjóuð, en...vonandi verð ég aldrei of sjóuð. Að vera ekki sjóaður er maður á lífi og kann að meta það betur, ekkert er sjálfsagt í henni veröld. Alla vega mín trú.-- Eftir langa starfsævi við hljóðfærið hef ég ennþá mörg fiðrildi í maganum og sálinni þegar ég kem fram, kann ekki annað og vona að ég verði aldrei af örugg eða kærulaus. Þá er ég hætt, og hana nú. ---Í Rvík. fórum við bestimann fínt út að borða með vinum. Héldum semsé uppá gott gengi. Frábært kvöld og frábær þjónusta, en fyrsti skammtur af mat stóðst ekki kisupróf. Seinni skammtur hinsvegar sælgæti. Bestimann vildi gefa mér að smakka á sínum rétti en svo fór að bitinn góði rann ljúflega í hvítvínsglasið mitt. Nú átti ég ekki mat og ekkert vín! Hvað gera klassadömur þá? Veit ekki um þær, en ég flissaði og fannst þetta frekar fyndið en þó sérstaklega svipurinn á mínum besta vini. Þjónarnir björguðu svo öllu og við fórum södd og sæl út, en ég held að ég fari annað næst. --- Eftir tékkið fór ég í vímu og keypti skokk í góðri búð. Maður á ekki að fara oft í góðar búðir til að kaupa skokka, en, ég ætla samt aftur í maí þegar næsta holl hefst í afturbatanum. Þangað til ætla ég að klára alla tónleika og próf, lesa bækur, elda góðan mat, spila og syngja inná disk og vonandi eitthvað meira. Þegar læknahollið er búið hefst biðin eftir yndislegu fólki frá Ameríku. Hjól og kojur fyrir snúðana í höfn, bækur og annað verður líka klárt, og Natti fær að sofa í efri koju! ---Eins og titillinn segir er larfurinn á lífi, hress og kátur að vanda þar til næst.
laugardagur, 2. mars 2013
Fúdendfönn!
Það er virkilega gaman að vera til og búa í bænum mínum. Hátt til lofts og vítt til veggja, og jöklaútsýnið er milljón dollara virði. Í gærkvöldi var ég svo sannarlega minnt á hve allt getur verið fallegt ef maður nennir að horfa og njóta. Food and fun ( angi af fyrirbærinu) var í mikilli óvissuveislu í Fundarhúsinu í Lóni, en það er úti í óendanleikanum, langt frá byggð. Stjörnubjartur himinn, norðurljósin lýstu upp dimmuna og útlendingarnir stundu af lotningu. Friðarkertin í tugavís gerðu svo staðinn að draumaveröld. Það var gaman að geta tekið þátt í að skemmta við svona aðstæður. Stakir Jakar þjónuðu til borðs í fínum lopapeysum og brustu svo í söng reglulega. Þetta var ævintýri. -- Ég var í lopakjól, átti betur við en dressið sem sést hér að ofan. Ég fullyrði að frúin var sko aldeilis fín í flíkinni, en ég kann ekki ennþá að nota alla fídusa sem hún býður uppá. Fer í læri við tækifæri, en Jökull er klárlega með´etta. Lífið semsagt gengur sinn vanagang hér með nokkrum u beygjum sem alltaf má búast við, en þær beygjur eru bara gefandi og góðar.--- Fékk bréf frá Lansanum og á ég að mæta í stóratékkið 14 og 15. mars. Finn fyrir fiðrildum af og til en ég held að þau séu mest í sálinni og fljúgi svo burt að skoðun lokinni. 9. mars eru tvö ár liðin frá því að ég fékk greiningu, ótrúlegt hvað tíminn líður og í raun ekki svo erfitt að líta í baksýnisspegilinn. Held semsagt áfram göngu minni í gegnum tilveruna með bestimann mér við hlið og yndislegt fólk í Ameríku. (sem við fáum að faðma áður en langt um lýkur) Þar til næst bið ég alla vel að lifa.
föstudagur, 8. febrúar 2013
Gellur og gúmmelaði!
Jæja gott fólk, enginn lengur á blogginu svo ég get látið öllum illum látum hér ef mér sýnist. Margt hefur gerst síðan síðast en ekkert af því svosem markvert, og þó. Fékk pest en lagaðist sem betur fer, búin að halda skemmtilegt matarboð með the silver boys og þeirra konum, búin að hlæja og gráta og lifa lífinu. Karlakórinn heldur áfram að halda uppá fertugs afmælið og lætur sauma á mig flott föt hjá Millibör! Ein flík sem getur verið þrjár flíkur. Ég þarf bara að læra hvernig maður vefur þessu til og frá. Það margborgar sig sem sagt að vera undirleikari hjá sama kórnum í tæp 40 ár! Talandi um Millibör....hönnuðurinn þar er aldeilis ótrúlegur.( er ung kona) 5 ára nám...og ég kann varla að þræða nál. ( Ok, hún kann ekki að spila!). Nú, svo er bestimann búinn að klippa í sólskálanum og ég held áfram að elska fólkið mitt. Sérstaklega það í Ameríku. ---Hlakka til sumarsins, og tel að lífið sé bara nokkuð gott. Fer í stóra tékkið í mars og bið einfaldlega um gott veður mér og mínum til handa. Síðast þegar ég fór fannst mér svo ógnarlangt í næsta tékk....en tíminn líður svo hratt að maður nær varla að snúa sér við.--- Nemendur sem ég fékk í nám fyrir margt löngu eru þessa dagana að fá bílpróf... er farin að kenna barnabörnum vinafólksins! Þetta er náttúrulega bara dásamlegt. Talandi um gellur og gúmmelaði...ég er gellan í nýju fötunum og við bestimann ætlum að eta glænýjar gellur á morgun. Gúmmelaðið fær svo krummi þar til næst út í tómið.
laugardagur, 12. janúar 2013
Farwell Franz...
Gleðilegt ár þið þarna úti í víðáttunni og takk fyrir gengið ár. Ég hef ákveðið að árið 2013 verði gott ár og mun betra en 2012. Hvernig ég fæ það til að virka veit ég ekki, en samt...ég trúi því. Þó datt mín eðlislæga bjartsýni niður við fréttir vikunnar, og lái mér hver sem vill. Ég bið alla góða vætti að halda í höndina á þeim sem eiga bágt. -- Mamma mín blessunin sagði gjarnan þegar eitthvað erfitt var búið og ekkert til að halda í: Farwell Franz. Ekki veit ég afhverju hún sagði þetta, en það virkaði flott og ég ætla að gera þau að mínum varðandi liðið ár. ---Í rúmt ár hef ég verið mjög reglulega hjá sjúkraþjálfara, yfirleitt tvisvar í viku. Þetta hefur verið barningur og vont oft á tíðum. Í gær gerðist svo eitthvað....ég gat teygt meira en áður og sársaukinn minni. Þetta er sem sagt að skila sér og hefur það reynst rétt að krabbamein og eftirleikur er ekki spretthlaup....langhlaup skal það vera og ég ætla að koma sigurviss í mark. --Lífið hér gengur sinn vanagang, karlakórinn Jökull fagnar 40 ára afmæli og ætlar að gera margt og mikið, hinir sönghóparnir mínir eru í góðu standi og er ég að byrja 20.árið með Gleðigjöfum. ---Núna er ég farin að hlakka til sumarsins því þá ætla tveir litlir guttar að "míga í saltan sjó" hér. Sé þá fyrir mér standa á bryggjusporðinum og láta það vaða! Sem sagt, ekkert svosem að frétta nema þetta með gamla árið...Farwell Franz þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)