sunnudagur, 30. desember 2007

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag....

Á áramótum koma þessar ljóðlínur oft upp í hugann, og ég lít yfir farinn veg. Farinn vegur hefur verið góður og vonandi verður komandi vegur jafn góður. Ég ætla alla vega að vinna að því. Jólin að baki og önnur hátíð framundan. Jólin hér á bæ voru yndisleg, en örfáir hafa spurt: hvernig var, þið voruð bara tvö? Ég eyddi jólunum með mínum besta vini, og hann eyddi jólunum með sínum besta vini. Við vinirnir leystum pakkahlaupin í bróðerni, og uppúr pökkunum komu fallegar gjafir gefnar af góðum. Fjölskyldudagatalið úr litla bláa húsinu hitti í mark, og gott ef það er ekki svolítið skemmt af viðtakanda með einu og einu tári, en það bara tilheyrir. Naflastrengurinn slitnar nefnilega aldrei. Það kannski teygist á honum, en hann er seigur eins og lífið. Þegar ég flutti á Hornafjörð fannst mömmu hann vera á hjara veraldar, og var hún þó víðsýn og skynsöm kona. Það tók nefnilega allan daginn að keyra austur á vondum vegum, og við gátum ekki "droppað" í kaffi. Mér fannst þetta ekki tiltökumál, því ég fylgdi ástinni.( einhvern tímann verður sú saga sögð) Nú er ég í sömu sporum og mamma, Svanfríður fylgdi sinni ást og býr í sömu tímalengd og tók okkur mömmu að keyra á milli! Nú eru litlir strákar í spilinu mínu, en þar er ég mömmu fremri, því nú er tæknin....Allt í beinni vegna Skype.....Vegna tækninnar fylgist ég nú með ferðum litlu fjölskyldunnar á ferðalagi í Washington DC. Svanfríður bókstaflega stamaði af áhuga þegar ég heyrði í henni í dag, og er ég orðin jafn spennt og hún af allri upplifuninni, en öfunda þau ekki að keyra sína 15 klukktíma heim aftur. Já kæru bloggvinir, ég þeytist í tíma og rúmi í tilfinningaflóði liðins árs og finnst það gott. Er nefnilega úthverf og líður vel með það. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs með þökk fyrir innlitið. Ég á ennþá nóg með kaffinu, svo verið velkomin sem fyrr. Úr þessu undarlega ferðalagi sendi ég áframhaldandi ferðakveðju... Hittumst heil á nýju ári.....

föstudagur, 21. desember 2007

Dásamlegur grautur....

Kæru bloggvinir, nú er jólapistillinn sem kannski fáir lesa því margt þarfara er að gera þessa dagana en að flækjast um í netheimum. ---Hvað um það.--- Ég er alin upp við jólagraut, þá meina ég sko "risalamang" (ekki rétt skrifað). Ég sem ung nýgift kona innleiddi mína siði við jólahaldið, en þó með góðri blöndu við það sem bóndinn ólst upp við. Í tímans rás eru siðirnir orðnir okkar, en alltaf hefur grauturinn góði fylgt okkur. Meðan mamma lifði hringdi ég alltaf í hana klukkan eitt á aðfangadag og við fórum yfir grautargerðina. Bara svona uppá hefðina. Fyrstu jólin mín án mömmu fór allt í vaskinn og ég brynnti músum, en systir mín kom þá til "bjargar". Maðurinn minn elskar grautinn góða, en dóttir okkar hefur aldrei þolað hann. Hún reyndi ár eftir ár í okkar þágu, en kúgaðist bara. "Get ég ekki bara fengið Royalbúðing" spurði sú stutta, og hefur því öll sín jól í foreldrahúsum fengið sinn Royalbúðing! Ég hef í áranna rás búið til ótalmargar tegundir af eftirrétt á jólum, en ekkert hefur gengið í mitt fólk nema grauturinn góði og Royal! Á síðustu jólum var litla fjölskyldan í ameríska bláa húsinu hér, og sem eftirrétt var ég auðvitað með grautinn og hlakkaði til að sjá Eyjólf smjatta á honum, því hann elskar eftirrétti. Og sjá....hann kúgaðist og bað um "eins og mamma". Þá var fokið í flest skjól. Ég verð að taka það fram að grauturinn góði ER góður! ---Í gær þegar öll jólainnkaup voru búin, og þar með allt hráefni í grautargerð kvað minn elskulegi uppúr með að hann langaði nú bara í Royal!! Halló... en grautinn hef ég á jóladag....Siðir og venjur er greinilega breytingum háð, en ég þoli illa að fara útfyrir rammann.--Geri það þó núna með lambahrygg og Royal og ætla að"fíla" mig royal. Mest um vert er að allir fái það sem þeir vilja helst, ég tala nú ekki um þegar hægt er að veita þeim það. ---Í gær var sett upp vefmyndavél beggja megin Atlandshafsins, svo núna höfum við litla fjölskyldan talað og horft.--Yndislegt.--- Eyjólfur hefur sungið fyrir okkur og Svanfríður gefið Natta að borða, allt í beinni. Í kvöld fór ég enn og aftur að brynna músum þegar Eyjólfur söng, en Svanfríður setti plástur á sárið með gullvægri setningu: "Mamma mín, þetta er alveg að verða búið, jólin eru eftir 3 daga!"--- Þar kenndi eggið hænunni.----Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

mánudagur, 17. desember 2007

Flóð og flæði. Síðan birta.







Skrítinn titill en ekki svo vitlaus. Ég hef þann háttinn á að setjast niður og "flæði", en hin undarlega og skringilega veðrátta setur allt á flot. Semsagt, allt á floti allstaðar. Jólin nálgast og mér líður mjög vel, en sakna litlu fjölskyldunnar í Ameríku, er svo úthverf að tárin renna við minnsta tilefni og bæta þannig á allt flæðið sem fyrir er. Minn betri helmingur segir þetta vera heilsubætandi og lengi lífið. Ég trúi honum og leyfi því tárunum að renna þegar þau koma, í þeirri trú að ég verði gömul og hress.( og Birta mín, ég er ekki bomm!)--- Það er annars skrítið hvað þessi árstími hrærir í tilfinningunum, væri ekki gott ef aldrei væru jólin. Þá væri ég örugglega tilfinningalega geld! --Síðasta vika í lífi tónlistarmannsins náði hámarki í gærkvöldi með yndislegum tónleikum.--Þeim stóru, sem segja manni að jólin eru á næsta leiti. Í troðfullri kirkjunni var allt það besta fram borið af öllu því góða fólki sem hér býr og sinnir tónlistinni. Afrakstur tónleikanna renna alltaf til góðra málefna í heimabyggð, og fáir láta sig vanta á slíkri stundu. Það ber að þakka. Næstu tveir dagar fara svo í "skrepperí" með tónskólabörn hingað og þangað um bæinn þar sem jólatónlistar er þörf, og karlakórasöngur hljómar svo á Þorláksmessukvöld í Miðbæ.-- Svo koma jólin.... en enga á ég rjúpuna, og það er skrítið...og ég sakna "ein er upp til fjalla"! Lambahryggurinn kemur bara í staðinn, en ég er ákveðin í að hafa rjúpuilminn í nösunum og þykjast. ---Helví.....refurinn, hann étur alltof mikið, miklu meira en við mannfólkið sem fáum þann hvíta bara einu sinni á ári. En allt gott um það, á einhverju verða þeir félagar krummi og rebbi að lifa. Ekki nægir það sem ég gef þeim af og til. ( þetta má víst ekki fréttast!) ---Í þessu svarta skammdegi, roki og lægðum sem yfir okkur ganga er gott til þess að hugsa að nú birtir brátt.... þess vegna set ég fallega mynd af blómaskálanum hér með langlokunni, vinkonu minni. Eftir tvo mánuði förum við að huga að skálanum og þá verður allt svo bjart. Með þeim orðum sendi ég birtu og yl á alla bæi.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Stekkjastaur kom fyrstur...

Og þá varð allt vitlaust í kotinu, að vísu fyrir margt löngu. Sumsé, dóttirin var skelfingu lostin þegar minnst var á jólasveinana. Fyrir flest börn eru þetta dagar gleði með spennuívafi, en spennan hér á bæ var yfirþyrmandi og skyggði á alla gleðina. Allt kom fyrir ekki, skórinn var á fleygiferð um húsið því ekki ætlaði hnátan að eiga það yfir höfði sér að sjá til sveinka. Um 6 ára aldurinn gáfust allir upp á að tjónka við ástandið, og því fór sem fór. Sveinki setti mjög sjaldan í skóinn, en stundum læddist eitthvað góðgæti í skó mömmunnar sem var í glugga hjónherbergisins, og barst það til dömunnar með ýmsum krókaleiðum. Veit ekki hvað olli þessu, en maður þarf svosem ekki að vita allt og kryfja. Nú fer Stekkjastaur hinsvegar til Ameríku á leið sinni til góðra barna, og vona ég að snúðurinn minn taki vel á móti honum. --Eftir annasama viku og eril í vinnunni finnst mér gott að setjast niður og skrifa mig frá áreitinu...hugurinn tæmist og ég hvílist. Hvað ég skrifa kemur svo bara í ljós...heitir það ekki flæði?..Nú er síðasti spretturinn á öllum vígstöðvum fyrir stóru tónleikana sem verða á sunnudaginn, allir þurfa sitt, en vikan er stundum ekki nógu löng. Þó hefst þetta og allir eru glaðir.--- Ég er glöð, búin að fá jólaljósin upp, þökk sé mínum betri helmingi. Bærinn minn er fallega skreyttur og vildi ég óska að Kári léti vera að feykja öllu til og frá. Ég er mjög vanaföst kona í víðasta skilningi, og smekkur minn er einfaldur. T.d. vil ég hafa allt rautt á jólum, kann ekki á "tískuna". Þó var það svo að ég sá í Reykjavík s.l. janúar yndislegt jólahús með ljósum í. Það var svo fallegt, og ekki skemmdi fyrir helmings afsláttur á dýrðinni. Kassinn var svo settur út í bílskúr við heimkomu. Fyrir stuttu þrábað ég svo betri helminginn að sækja húsið því nú væri sko komið að því að setja það upp. Var búin að finna stað þar sem það nyti sín og hlakkaði mikið til. Bóndinn sótti svo kassann í byrjun aðventu, og sjá......það var ekki hús! Það sem kom uppúr kassafja...... var frelsarinn og öll hans familía + kindur og hirðingjar, allt með blikkandi ljósum og trjágrein uppúr strompinum. Minn elskulegi segir tréð vera í bakgarðinum...en hvernig á ég að átta mig á staðháttum mjög gamallar sögu? Nú voru góð ráð dýr, (ok. þetta var ódýrt) setja upp eður ei? Núna er þetta á nótnaskápnum fyrir allra augum og mér er farið að þykja vænt um "dýrðina". Ætla alltaf að hafa þetta listaverk í öndvegi á jólum héðan í frá, því það hafa mörg orð fallið um dásemdina. Passa mig bara betur næst hvað ég er að kaupa. ---Semsagt, Stekkjastaur kemur í nótt, bæði hingað og til Ameríku. ---Það vona ég að við fáum öll frið og gleði í skóinn í nótt.--- Sofið vært---

miðvikudagur, 5. desember 2007

Ja hérna....

Enn ein vika liðin, og aðventan gengin í garð. Oft óska ég þess að geta bloggað "smá" á hverjum degi, stutt og laggott eins og margir gera með miklum ágætum. Allavega fer ég minn reglulega rúnt á hverjum degi og ætlast til að geta lesið nýtt blogg í hvert skipti. Þeir sem svala minni þörf eiga þakkir skildar, en hvað geri ég svo...kem með langloku einu sinni í viku. Mér er sagt að umferðin á síðuna sé góð, ekki hef ég vit á því, en mér þykir vænt um kommentin. Takk takk. Síðan síðast hefur erillinn verið nokkur, en þó eru randalínurnar, brúnar og hvítar komnar í brúkun, nokkur jólaljós hafa verið sett upp og fríkvöldið í kvöld skilaði dágóðum árangri. Er því í góðum málum...(eins og ég sé ekki alltaf í þeim!) Ein góð bloggvinkona vestur á fjörðum taldi sig hafa farið á nokk rólegan stað vinnulega séð, en sjá...fjörið hjá tónlistarfólki hvar sem er á landinu á þessum árstíma er oft ansi skrautlegt, og hvað þá á litlum stöðum þar sem tiltölulega fáir tónlistarmenn eru.---Ég segi oft, Rudolf hér, Rudolf þar og Rudolf allsstaðar. Þetta er gott og gefur lífinu gildi. Einu hef ég verið að velta fyrir mér.... Hvernig líta bloggvinir út? Suma hef ég hitt en geri mér upp hvernig hinir líta út. Skyldu skrif segja til um hvernig maður er?--- Pæling sem vert er að skoða.--- Ég til dæmis skrifa langlokur, enda 1.80 á hæð! Sá sem skrifar stuttan texta, er hann þá lágur vexti? Æ, þegar stórt er spurt verður lítið um svör...eða er einhver þarna úti sem les í svona hluti? Sumir lesa í skrift, (ekki tölvugerða) í lófa, í augnaráðið og limaburð. ---Lát heyra.---Í samtali í kvöld við dótturina í Ameríku áttaði ég mig á því að við hittumst í NÆSTA mánuði. Ég er sífellt að klifa á því að tíminn sé svo fljótur að líða, en ég er næstum viss um að hann silast áfram frá áramótum til 31. janúar! En núna þýtur hann sem eldur í sinu. Með þeim orðum kveð ég alla þá sem kíkja í kaffi.--Ég á meððí!---

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Hver les á?

Það þýðir víst lítið að blogga ef maður sinnir því ekki, en hér er ég öllum væntanlega til mikillar gleði! Tíminn líður og aðventan handan hornsins. Ég er jólabarn, og ef eitthvað er eykst það með árunum. Þrátt fyrir miklar annir tónlistarmannsins á þessum tíma vil ég halda í gamla siði, siði sem hafa fylgt mér frá barnæsku. Milli mjalta og messu VIL ég baka, þrífa og gera fínt, en næ þó ekki alltaf þessum markmiðum. Hvað um það, ég er þó búin að baka þær litlu og sætu, og ætla ég að finna mér tíma til að baka randalínur og brúna með hvítu! Jólapakkarnir fullir af gulli og gersemum eru farnir til Ameríku og alla leið neðst á hnöttinn.-- Í minni barnæsku voru reglur og jólasiðir í hávegum og það eru góðar minningar. Ekki man ég hvað ég var gömul þegar ég fékk að sofna á eldhúsbekknum rétt fyrir jól af því að mamma var að leggja síðustu hönd á jólakjólinn minn. Eitt hef ég þó aldrei skilið. Eldhúsgólfið heima var alltaf tekið í "nefið" á Þorláksmessu, og eftir þá aðgerð var blöðum dreift yfir til að halda því hreinu! Halló.... við bjuggum ekki í torfbæ! Í minningunni skautaði maður á blöðunum fram undir fimm á aðfangadag. Pabbi skreytti alltaf jólatréð og svo var stofunni læst þar til stundin rann upp, en við reyndum að kíkja á dýrðina gegnum skráargatið, alltaf án árangurs. Eftir matinn og mikla bið var komið að því! Pabbi las á pakkana en ég skottaðist með þá til réttra eigenda, það var mikið hlutverk og vandasamt. Hver fjölskyldumeðlimur opnaði einn pakka og allir skoðuðu gjöfina, og svo koll af kolli. Þetta var því langt kvöld og yndislegt sem lauk með bókarlestri í tandurhreinu rúmi. Svona vil ég hafa þetta enn þann dag í dag. Að vísu set ég ekki blöð á eldhúsgólfið og Brói sér ekki um jólatréð, það gerðum við mæðgur. Á síðustu jólum skreyttum við Eyjólfur Aiden jólatréð og var mér nokk sama hvar á greinarnar skrautið var sett. Svanfríður las á pakkana eins og í gamla daga og Eyjólfur skottaðist með þá. Allt í einu áttaði hann sig á því hvernig þetta fór fram og hóf sjálfur lesturinn... það var skondið...ótalandi maðurinn.... þannig að ég spyr ykkur nú... hver á að lesa í ár? Á Brói að lesa og ég að skottast, eða öfugt? Þetta verður snúið, það segi ég satt. Þakka þeim sem lásu og passið ykkur á myrkrinu.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Vor vikulegi...

Heil og sæl öll í bloggheimum. Tíminn líður svo hratt að ég veit vart hvert hann fer. Í fjöldamörg ár hef ég t.d. alltaf verið búin að baka jólasmákökurnar á þessum tíma, en núna...úpps...tíminn hefur farið í annað, svo núna finnst mér ég eigi að fá kvíðakast yfir bakstursleysinu. Held þó að það sleppi, jólin koma, og ég kem til með að eiga nóg að bíta og brenna. Mest um vert er að geisladiskurinn er kominn í vinnslu og jólapakkinn í litla bláa húsið fer á næstu dögum, og hann er fullur af gulli og gersemum. Mér rann það svoooooo til rifja að heyra um bókarleysið hjá æðstasnúð að það fór allt á fullt að redda málum. Á Hornafirði er ekki bókabúð, bara "sýnishorn" í risaverslun...þoli það ekki....en ég á góða að í Reykjavík. Semsagt,bækur, og fleiri bækur á leið til Ameríku, og þegar við förum út í lok janúar fylli ég flugvélina af bókum! Annars finnst mér dóttir mín vera svo pennafær og oftast með málbeinið í lagi, þannig að henni yrði nú ekki skotaskuld úr því að semja svosem eins og 32 barnabækur. Bæði á íslensku og ensku! --Já, enn og aftur, tíminn líður hratt, svo hratt að allt í einu erum við "gömlu hjónin" orðin alein á jólum. Ég er ekki að kvarta, en hvert flugu árin, eins og mjólkurpósturinn Tevje söng svo fallega? Allavega ætla ég að vera glöð sem fyrr á jólum, og þau byrja ekki í IKEA, þau byrja hjá mér og mínum, og klukkan sex á aðfangadag verð ég meyr, og það er allt í lagi. Nú er ég hinsvegar ekki meyr og kveð því á kórnótum, því æfingin í kvöld sagði mér að allt væri í himnalagi. Með þessum orðum slæ ég botninn úr tunnunni og dríf mig í baksturinn!

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Nú gaman gaman er...

Fyrir ekki margt löngu ákvað ég að segja frá Gleðigjöfum, en það er kór heldri borgara hér í bæ. 1993 tók ég við stjórn þeirra og hef ekki eitt andartak séð eftir því. Það er þó allt annað að stjórna kór eldri borgara heldur en kórum með yngra fólki, maður temur sér öðruvísi vinnubrögð. Í kórnum eru um 36 vel syngjandi félagar sem skiptast jafnt í raddir. Þetta fólk, allflest, hefur sungið í kórum frá því það var barnungt og er því mjög vel með á nótunum, í öllum skilningi. Þau hafa kennt mér margt, þolinmæði, visku og tillitssemi. Það er ekki svo lítið. Frá byrjun hefur fyrrverandi píanónemandi minn, og núverandi tónlistarkennari setið við píanóið og erum við tvær sennilega gamlar sálir, allavega gefa Gleðigjafarnir okkur, á stundum, meira heldur en þeir sem yngri eru. Í þessum hópi er ekki kvartað, varla til í orðabókinni. Þegar frú stjórnandi hefur ákveðið eitthvað er það bara gott. Ég ákvað fyrir tveimur árum að gera geisladisk með söng þeirra, en það fannst þeim í fyrstu algjör óhæfa, en.....Geisladiskurinn er að verða uppseldur og hefur fengið góða dóma. Þau þurfa því alls ekki að biðjast afsökunar á því að vera syngjandi gömul! Gleðigjafar er mjög virkur kór sem hefur innanborðs 7 systkini...á aldrinum..ég veit ekki hvað...en sá elsti er flottur bassi.. níræður! Hvað varðar annað kórastarf hér þessa dagana er mikið í gangi, allsstaðar líf og fjör. Karlakórinn Jökull ætlar að klára upptökur á jóladiskinum næsta laugardag, þannig að ég er búin að fá jóla"fíling" í putta og sál.. Þyrfti að fara að baka smákökur, en er bara farin að safna í jólapakka til litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu í Ameríku... Það er svo gaman....en mest gaman er að,,,,(nú er trommusóló) við ætlum til Ameríku í lok janúar..... Út um gluggann minn núna horfi ég á myrkrið og kyrrðina, og ég held svei mér þá að ég sjái álfa á jörðinni. Þegar stirndi á frosinni jörð sagðist Svanfríður sjá álfa... en þá var hún lítil og hafði skýringar á öllu, og vonandi kennir hún snúðunum að sjá allt sem hún sá með hreinni barnssálinni.... Hlakka til að heyra kvittið..

þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Skipað gæti væri mér hlýtt...

Maður lætur nú ekki mana sig, en kvörtun á bloggleysi barst vestan frá Ameríku. Eyjólf ku hafa langað í pistil, og 6 mánaða bróðir hans tók undir með heljarmiklu awwwwi, hvað svo sem það þýðir. Kannski þýðir það aaafi! ( skýr drengurinn)--- Mér er ennþá ofarlega í huga síðasta blogg dóttur minnar, og held því fast fram sem áður að hún eigi að skrifa...skrifa. Svanfríður er á góðri leið með að "ættleiða" gyðing, og vona ég að henni takist að rita sögu hans á blað svo ekki gleymist. Fyrir mörgum árum var mér lengi samtíma á Reykjalundi maður að nafni Leifur Muller, og kynntist ég honum nokkuð vel. Leifur var fallegur maður en mjög dulur um sitt líf. Ekki vissi ég þá hvað hann hafði orðið að þola á lífsgöngunni. Það var ekki fyrr en bókin um hann kom út að ég áttaði mig á af hverju hann var svona þögull um sitt líf.-- Mér varð orða vant við lestur lífshlaupsins. Hvursu margir eru enn á lífi sem komust úr hildarleik stríðsins? Þarf ekki að skrá sögu þeirra? Ég er ekki að segja að við eigum að velta okkur uppúr eymdinni, en við megum ekki gleyma sögunni , því okkur kemur það við ef einhver þjáist. ---Í dag kveljast milljónir manna um allan heim af ýmsum ástæðum, því miður.--- Ég vildi enn og aftur að ég gæti verið með óskaprik, þá myndi ég...???---Nokkuð er um það hjá bloggurum sem ég "kíki í kaffi" til að gefa upp góðar mataruppskriftir, og sumar hef ég notað. --Takk fyrir það.-- Nú kasta ég gamalkunnri sprengju, og kommentið þið nú!-- Þar sem ég bý í humarbæ kunnum við Hornfirðingar að elda humar á marga vegu.. flottan...gómsætan...vel útlítandi, með þessu bragði, með hinu bragðinum, í skelinni, þar sem hver og einn þarf að brjóta til að verða saddur, og notum puttaskálar og fín handklæði þegar við á.--En best er: Rista brauð og smyrja á það lagi af Gunnars majonesi, (alvöru) raða eins mörgum humarskottum á brauðið og hægt er og þekja svo allan ósómann með enn meira majonesi. Með þessu drekkist blá mjólk, köld. Nú náði ég ykkur, getið þið toppað þetta? Snúðakveðja úr humarbænum.

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Ættin mín svo fríð og fín...



Þann tíma sem Svanfríður Ameríkufari hefur búið vestra fæ ég oft myndir "snúðunum" mínum, Eyjólfi Aiden og Nathaniel Noble. Mynd sem ég fékk í dag af Natta hleypti mikilli hreyfingu á blóðið, og fór ég að hugsa.. ég hugsaði mikið um ættarsvip. Þegar ég var lítil stelpa var ég aldrei lík neinum sem ég þekkti, ég var allt öðruvísi en fólkið í kringum mig. Ég var á sífelldum þeytingi milli fólks fram á 5. ár, semsagt ættleidd og síðan tekin í fóstur af mjög góðu fólki. Mömmu og pabba...en ég var ekkert lík þeim. Vinir mínir voru ýmist líkir mömmu sinni eða pabba, nú jafnvel ömmum og helst frændgarðinum öllum. Ég var lítið að spá í þessa hluti þá því ég vissi nefnilega upprunann, en þurfti ekkert á honum að halda. Þegar Svanfríður fæddist vissi ég alls ekki hvort hún var lík mér, og enginn vissi það, en eitt var víst að pabbi hennar átti töluvert í dömunni. Þá fór að vakna hjá mér spurningin um ættarsvipinn, en hvað vissi ég, og þannig liðu árin.( í dag erum við mæðgur taldar mjög líkar) Eftir að ég varð fullorðin fóru hálfsystkini að banka á dyr, og þá hló ég...Í dyrunum á stundum stóð ég, ég semsagt líktist einhverjum. Það var fyndið, en jafnframt skrítin árás á löngu liðna tíð. Fyrir tveimur árum kom í heimsókn hálfsystir mín sem býr í annarri heimsálfu og við höfðum aldrei sést.. Það var skrítið að sjá hana, hún Svanfríður mín var þarna komin! Skrítið þetta með ættarsvipinn. Eftir að hafa skoðað myndina af Natta í dag náði ég gamla mynd af Svanfríði, maður lifandi, þar kemur þessi svipur svo sterkur í gegn...Skyldi ég eiga hann??... Ég held það.... Eyjólfur Aiden var ekki ólíkur Nathaniel á sama aldri, en hann er samt öðruvísi. Þar er greinilega önnur blanda á ferð. Bert á mjög mikið í þeim svip, en einnig Fljótsdælingar, frændur snáðans. Eyjólfur er með skakka tá, og líka afi hans hér...sama táslan! Eyjólfur er flott blanda og yndislegur. Semsagt kæru bloggvinir, Natti er ótrúlega líkur mömmu sinni sem er á þessum gömlu myndum hér að ofan, Svanfríður hlýtur að vera lík mér þegar ég var lítil og ég er mjög lík sjálfri mér!-- Þar til næst, passið ykkur á flensunni.

laugardagur, 27. október 2007

Dóttir mín, hnátan.

Fallegt fyrir mína hönd var síðasta blogg hnátunnar Svanfríðar. Á dögunum þegar við mæðgur vorum að tala saman á "skypinu" þá var "Eyjóju" að skottast í kringum mömmu sína með sífelldum spurningum, og hann krafðist líka svara. Þetta var yndislegt, því mér fannst eins og ég væri í litla bláa húsinu. Allt í einu galaði Eyjólfur: Ég er búinn mamma!! Þá sprakk ég, og ég mundi svo margt. ---Fyrir 28 árum var ég að spila sem oftar við giftingu og hafði hnátuna með mér í kirkjuna. N.B. Daman var svo meðfærileg og kirkjulega prúð, strax á unga aldri. Dundaði sér við að lita, sama á hvað gekk. Rétt áður en brúðhjónin áttu að ganga inn kirkjugólfið heyrðist á klósettinu undir kirkjuloftinu: MAMMA, búin...o.s.fr.! --- Þökk sé guði fyrir að allir þekktu alla.--- Einu sinni við messu sat sú stutta í kirkjunni í fangi góðs manns og skoðaði bók, vel þegjandi. Þá þurfti presturinn endilega að kynna organistann, og sú stutta þekkti hann sko mjög vel... "það er mamma mín!-- og hátt og snjallt.--- Ég er eins og aðrar mömmur.. búin að tína orma úr vösum hnátunnar, (Heiðarvatn) tína gullsteina og demanta úr vösunum,búin að kaupa ótal sigti eftir síðustu sílaveiðar, bjarga hömrum úr bílskúrnum, reyna að klæða dömuna eftir MÍNUM smekk, og rífast við hana á unglingsárunum að kaupa sér FÖT... Það gekk ekki andskotalaust... henni fannst miklu betra að eyða fatapeningunum í nótur og geisladsiska! Hnátan Svanfríður elskar í dag að sulla með sínum strákum og kaupa á þá föt... og stígvél.. hún er trú sér og sínum. Eyjólfur elskar stígvél, og þau nýju eru græn með froskaaugum.! Skora á þig dóttir góð að sýna þau á blogginu. Eplið fellur nefnilega sjald.. og allt það! Hnátan mín ,dóttirin ameríkufarinn , er semsagt að upplifa allt það sem ég á í farteskinu... yndislegar minningar.--- Ég segi nú bara "tattuduva"....

miðvikudagur, 24. október 2007

Blómlegt


Á vorin, áður en héraðsmótin eru haldin hefst vinnan í þessum yndislega skála. Hann er nokkuð stór og er blómahafið mikið. Í febrúarlok eru rósirnar klipptar nánast niður og skálinn þveginn í hólf og gólf uppúr grænsápu með mikilli natni, og málað það sem þarf. Rósarstilkana þvæ ég líka, róta upp í moldinni og gef áburð. Svo er bara að bíða. Meðan við bíðum er allt sem í skálanum er þvegið uppúr grænsápu, hvert eitt og einasta snitti, smásteinar sem annað. Teppinu rúllað út og húsgögnin sett inn, og enn bíðum við. N.B. rás eitt verður að vera á! Einn góðan veðurdag gerist svo undrið...út úr lágu stilkunum gægjast lítil blöð sem stækka ótrúlega hratt. Bóndinn setur ævinlega prik við Friðarrósina í byrjun maí, áður en við förum í söngferð með karlakórnum.-- (alltaf á svipuðum tíma)-- Frá föstudegi fram á sunnudagskvöld hefur rósin oftast stækkað sirka 7-9 sentimetra. Þótt úti sé köld norðanátt en sól er mjög hlýtt í skálanum og því kjöraðstæður. Þegar skóla lýkur á vorin og allir tónleikar búnir fer ég í mína árlegu blómaferð í Hveragerði. Þar kaupi ég öll pottablómin og næringarríka gróðurmold. Í þessari ferð er ég ein á ferð og vind ofan af mér eftir veturinn. --Versla í gróðrarstöðinni Borg, og hef gert í 12 ár. --Þegar heim er komið pota ég þessu niður, og þá er sko sumarið komið í allri sinni dýrð. Kringum 10. júní springur svo fyrsta rósin út, Friðarrósin. Eftir það er enginn hörgull á rósum hér á bæ vel fram á haustið.--Að drekka morgunkaffið í skálanum er gott, að leggja sig í hádeginu er líka gott, að hafa gesti í skálanum er enn betra, en að sitja að kvöldi til og horfa á undrið er hápunkturinn. Þegar Svanfríður dóttir okkar og Bert giftu sig voru öll blómin við þá athöfn úr skálanum, svo sem brúðarvöndur, rósir í hnappagöt og rósir til veisluskreytinga.-- Þegar rósirnar eru búnar og fella blöðin sýð ég þau gjarnan í potti á eldavélinni og vökva svo rósabeðið með afrakstrinum. Ilmurinn er ótrúlegur! Til að forðast lús strái ég neftóbaki yfir moldina og í gluggakisturnar, en drep þar af leiðandi margt annað kvikt, þ.e. járnsmiði og flugur, en hungangsflugan er sterkari en neftóbakið. Hún gerir nefnilega sitt gagn í svona umhverfi. -- Í októberbyrjun leggst deyfð yfir skálann og þá er bara gengið frá fyrir veturinn, og við hefjumst handa við að bíða....og bíða.. og bíða. --Tíminn líður svo hratt að febrúar verður kominn fyrr en varir og allt hefst á ný.--Hringrás-- Ég þarf að segja ykkur frá Gleðigjöfum--- Það bíður betri tíma, en núna kveður blómakonan frá Hornafirði.

miðvikudagur, 17. október 2007

Þarf ég að lemja mann?

Skrítinn titill, en ekki út í hött. Maður getur nú blásið yfir ýmsu, og hér kemur romsan. Fréttamennskan í fjölmiðlum landsins er stundum (eða oft) ótrúleg. Af hverju þarf alltaf að draga fram það sem er neikvætt? Ef það er ekki neikvætt skal það samt borið á borð fyrir landslýð sem neikvæð frétt.(Á við um öll byggð ból á Íslandi) Hornafjörður er ekki stór bær á landsvísu, en hér er margt í boði og margt mjög jákvætt. Atvinnulíf gott, mannlíf einnig og menningin blómstrar. Þeir sem hér búa vita það, og hví skyldi ekki restin af landsbyggðinni fá fréttir af því líka? Nei, fréttamennska fjölmiðla nær ekki svo langt. S.l. verzlunarmannahelgi var haldið hér landsmót ungra íþróttamanna sem fór fram í yndislegu veðri, og allt gekk mjög vel... Ónei, litlar sem engar fréttir voru fluttar af mótinu í fjölmiðlum, en tekið fram að á Siglufirði gisti enginn fangageymslur! Gott... Eitt og eitt fíkniefnamál komu þó upp hér og hvar á eynni, en duglegi og prúði ungdómurinn á landsmóti var vart talinn til frétta. Árið 1995 hélt karlakórinn Jökull á Hornafirði Kötlumót. (samband sunnlenskra karlakóra) Þar voru samankomnir nokkur hundruð syngjandi karla ásamt sinfóníuhljómsveit Íslands. Ónei, ekkert fjölmiðlafár! ---Enginn laminn---. Um síðustu helgi var landsmót skólalúðrasveita haldið hér á Höfn og tókst það með sæmd, en... ekki létu fjölmiðlar það sig miklu skipta. 450 ungmenni spilandi um allan bæ er ekki fréttnæmt.. enginn lamdi mann og annan...Mig langar að telja svo margt annað upp, en þá fer ég að hljóma enn frekar eins og nöldrandi kona í vesturbænum. Á vori komanda verður á Höfn landsmót kvennakóra og vonandi tekst að koma því á koppinn í fjölmiðlum, hver veit. Ekki það að þetta hafi ekki verið reynt af heimamönnum, en Ártúnsbrekkan en greinilega markmiðið í sparnaðarskyni. "The bottom line is" á góðri íslensku: Af hverju má ekki oftar flytja fréttir sem gleðja hinn venjulega áhorfanda-hlustanda? (Ég veit um "góðar fréttir" sem stundum eru auglýstar í RUV, hef verið þar sjálf). ---Með neikvæðum, nú, eða tvíræðum fréttayfirlýsingum er verið að kynda undir svartsýni fólks utan "nafla alheimsins", og það er að mínu mati ekki verjandi.--- Nú er ég búin að blása nóg..--- Karlakórsæfing, Gleðigjafaæfing og kvartettsæfing það sem af er viku gerir mig glaða.. glaða í hjarta og sinni. Þar hefur ríkt sönggleði, enginn hefur lamið mann og annan og telst því ekki til frétta! Þetta eru samt fréttir vikunnar, mínar fréttir. Látið ykkur líða vel, en ef þið viljið komast á blað sögunnar þá sláið næsta mann.... Ég ætla hinsvegar að halda áfram á rólegu nótunum án þess að komast á blað. Hornfirsk kveðja til allra.

miðvikudagur, 10. október 2007

Vort vikulegt mas...

Miðvikudagarnir virðast vera góðir til skrifa... Sú sem hvatti mig einna mest til að blogga, og setti upp síðuna mína átti erfitt með að kommenta á síðasta pistil. Við hvert innlit las hún alltaf um "kalt malt", og drakk þá þann góða drukk. Mér telst að hún sé búin að innbyrða 7 flöskur.. Hún las semsagt vitlaust!-- Í nokkur ár var ég prófarkalesari, og var mér bölvanlega við ef ég las svo nýprentað blaðið með stafsetningarvillum. Af þeim sökum las ég allt afar vandlega, bæði það sem var skrifað í heimabyggð, og eins það sem kom frá viðurkenndum auglýsingarstofum annarsstaðar frá. Ein slík litaauglýsing var send til birtingar, og hljómaði svo: "Brundæla" til sölu! Ég las oft, og ég las lengi þótt svo mér kæmi þessi auglýsing ekkert við, hún var altso unnin á stofu. Ég spurði minn ektamann hvort hann vissi hvað þetta væri og fékk dulítið glott, en fátt varð um svör. Þessi heiðursstofa var að auglýsa tæki sem dælir upp úr brunnum allskyns óhroða, en mönnum láðist að setja eitt N til að gjörbreyta orðinu! Jamm... átti líka í erfiðleikum með að lesa "skólager" sem skó lager.... Kibba mín, ég skil þig......Um daginn blés hún dóttir mín dálítið... Eyjólfur Aiden er sullari! Meðan dóttirin útlistaði drenginn varð mér hugsað til hnátunnar sem dóttirin var þá. Hvursu oft var hún ekki dregin upp úr forarsvaðinu, stígvélafull, allar buxur blautar, búin að týna vettlingunum og með mikla hárið í einni bendu. Ég tala nú ekki um öll sigtin sem týndust við sílaveiðarnar, og hamrana sem "hurfu" úr bílskúrnum. Eyjólfur Aiden líkist mömmu sinni með þetta, og hann má sulla í gúmmítúttunum og fylla þær. Hann má líka búa til engil í snjónum og forinni, það gerði hnátan!, og hún vildi ekki bleika sæta kápu, það var ekki hægt að hreyfa sig í henni eða leika skemmtilega. Á þessari tölvuöld bíð ég bara eftir að við setjum upp vefmyndavél svo við hér í kotinu sjáum fjölskylduna í litla bláa húsinu í Ameríku. Erum komin uppá lagið með Skype og þykjumst góð. Allt kemur þetta. Eins er það með stigana í Tónlistarskólanum, ég er ennþá í þremur mínútum og er alveg sama. Ég kemst samt þótt hægt fari. Tek orð hnátunnar í munn og kveð ykkur í kútinn.

miðvikudagur, 3. október 2007

Bleik tilkynningarskylda

Takk fyrir innlitið þið í bloggheimum, það er bara gaman að þessu. Þegar ég var í foreldrahúsum var nauðsynlegt, og partur í uppeldinu að láta vita af ferðum sínum. Þar sem ég lét alþjóð vita af hnjámálum mínum skal tilkynnast hér með: Ég fór í vinnu s.l. mánudag. Mér var vel fagnað, en sérstaklega af yndislegum einhverfum ungum manni, hann brosti hringinn og sagði djúpum rómi: GOTT... Þar hafði ég það, og þær fjórar mínútur sem það tók mig að labba upp stigann urðu að engu. Þær voru altso taldar. Í fyrramálið mætir þessi sami nemandi, og þá ætlum við að hafa mínúturnar bara þrjár. ---Semsagt, allt skríður þetta þótt í hægagangi sé.-- Nú er ég farin að hlakka til vetrarins því hér á Hornafirði verður mikið um að vera í öllu lífinu sem endranær. Komandi helgi verður hin árlega frumsýning Skemmtifélagsins og landsmót skólalúðrasveita blæs svo til sóknar eftir rúma viku. Kórar, leikfélög og annað sem tilheyrir mannlegu lífi er að vakna úr sumardvalanum og lífið blómstrar. Í lok apríl verður svo annað landsmót haldið, og það var landsmót hér um verzlunarmannahelgina. Hornafjörður er sumsé ekki bara humarbær, heldur landsmótsbær með stóru Béi! Annað (á landsvísu) fylgir vetrarbyrjun , en það er hið háa Alþingi. Nú rífst þar hver og einn sem hann getur, en finnst mér mestur tíminn fara í það hvað "hinir eru asskoti" vitgrannir. Þessir þjóðkjörnu fulltrúar þjóðarinnar ættu að huga frekar að því sem er mikilvægt og sleppa fúkyrðunum hvers í annan garð.---Kalt mat!---Nú,- svo er forseti vor út um allar koppagrundir, er hér í dag, en þar á morgun....Kínverjar til í allt.... Nú um stundir er bleiki liturinn allsráðandi á landinu, og vona ég að allir kaupi sér bleika slaufu. --Konur, -ekki slugsa þegar krabbameinsleit er annarsvegar, drífum okkur. Pistilinn skrifaði ég.

fimmtudagur, 27. september 2007

Kóngur á limminu!

Fyrirsögnin skrýtin, en ég vildi að ég gæti verið kóngur einn dag. Ég myndi verða eins og galdrakarlinn, með stafinn um allan heim og gera hann vænlegri. Það er ekki minn stíll að kveina og kvarta fyrir alþjóð, en mér ofbýður fréttirnar, bæði innlendar og útlendar. Fíkniefnin, nauðganir,dómskerfið,( á stundum) svik og prettir, fordómar, peningaþvætti og barsmíðar allskonar. Stríð, trúarheift, valdníðsla, svelt börn, barnaþrælkun ásamt öllum óhroðanum birtast svo á skjánum í öll mál. Inn á milli birtast svo fallegar fréttir, og tek ég sem dæmi starf það sem Njörður P. Njarðvík stendur fyrir í Afríku.---Ljós í öllu myrkrinu.---Á Íslandi virðist það viðgangast að fólk gangi út úr verslunum þar sem afgreiðslufólkið er ekki mælandi á íslenska tungu. Sem Íslendingur vil ég að verslunar- og þjónustufólk tali sama mál og ég, en mér dytti aldrei í hug að lítillækka mig né viðmælanda minn með dónaskap. Ljót var fréttin í gær um heyrnaskertu konuna sem unnið hefur um árabil í IKEA við góðan orðstír, hún vill færslu í starfi því kúnninn er svo oft dónalegur. --Það eru margir landar okkar sem eru illa talandi á því ástkæra ylhýra og muldra ofaní bringu sér þannig að óskiljandi verða. --Skyldu þeir fá ofanígjöf?--Þeir eru kannski betri í þeirri "alþjóðavæðingu, tvítengdri" og sproka bara ensku, og segja svo per se þegar þeir verða mát því það er svo fínt! En hvað veit ég? Eitt veit ég þó að tvær vikur í dag eru liðnar frá hnéaðgerðinni og er ég farin að sjá fyrir endan á þessari heimavist í bili. Margar bækur eru að baki, og nú er ég með Þrettándu söguna á náttborðinu. Skemmtileg og vel skrifuð bók eftir Diane Setterfield. Stefni á kennslu á mánudaginn því mín er saknað, og það er svo gaman! Ég hef verið með einhverfan píanónemanda í nokkur ár og hann er virkilega góður og klár nemandi. Hann saknar mín... hann spyr um mig....og það er yndislegt. Þó ekki væri nema fyrir hann FER ég á mánudaginn og hana nú...... Búinn og heilagur!

laugardagur, 22. september 2007

kisuþankar

Takk fyrir innlitið þið sem eru þarna úti í vonda veðrinu, því nú blæs hann hressilega. Nú er að verða vika síðan ég kom heim og hefur hún liðið heldur rólega fyrir minn smekk. Ég er búin að lesa, og lesa, og leeesa. Herbjörg sú norska er áleitin og erfið, en góð samt....... Öfugsnúin meðmæli ..... 700 síður af Kurt Wallander, og ég gæti hér um bil leyst morðgátur af erfiðistu sort. Spurning um hvort ég taki bara ekki til við Ölduföllin hennar Guðrúnar frá Lundi aftur, eða jafnvel rauðar ástarsögur....umh...Allavega vika í viðbót heima....er orðin hundleið og mig langar í kisu! Loppa hennar Hildigunnar er frek en flott, og myndskeiðið hjá píanófrænku Baunar af kisu frænkunnar er óborganlegt. Kíki þangað á hverjum degi. Dömur.. fleiri myndir. Ég átti kisu sem hét Krúsa. Þegar Svanfríður mín var í 10. bekk var þetta spurning um samræmdu stærðfræðina og kisu. Auðvitað náði stelpan, og Krúsa kom á heimilið. Hún lést í hárri elli að kisualdri, og var dásamleg. Krúsa hafði þann siðinn á að færa okkur allt mögulegt í búið. Ekki voru það lifandi eða dauð dýr, heldur hlutir sem hún náði í úti. Krúsa stal af snúrum nágrannanna, sokkum og þvíumlíku. Barnaskó kom hún með heim, nammipoka, rakettuprik, þvottasvamp, kókópuffspakka og bara nefnið það. Krúsa elskaði að láta ryksuga sig og baða. Hún át gúrkur og rósablöð, tók lýsi og elskaði humar. Söng með 2. tenor á raddæfingum, hataði 1. tenor en lét sér 1. bassa í léttu rúmi liggja. (ég raddæfi ekki 2. bassa) Sem kettlingur skreið hún innst í hörpu flygilsins og lá þar meðan ég æfði mig, og vakti mig á morgnana með því að láta járn-fóta-raspinn detta nokkrum sinnum í gólfið. Þegar Krúsa fór í kisuhimnaríkið flúði ég norður í land til upprunalega eigandans, og lét bóndann, frændann og dýralækninn um síðustu hindrunina. Það var sárt, en Krúsa er jörðuð undir blómstrandi gullregni hér í garðinum. Þrátt fyrir allt langar mig í kisu, en mig langar þó allra mest í Krúsu. Hvursu væminn getur maður orðið?

þriðjudagur, 18. september 2007

Eitt spor fram fyrir ekkjumann!

Titill þessa pistils var leikur sem ég þekkti sem barn, en er búin að gleyma.( Gaman væri ef einhver gæti rifjað hann upp). Er þó hálfpartinn í þeim leik þessa dagana, held ég. Allavega geng ég afar hægt um húsið mitt, tel sporin milli herbergja og veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Þess vegna geng ég bara á fjórum! Takk fyrir góðar kveðjur, ég er semsagt komin heim og er í fullri vinnu við að láta mér batna. Að mörgu leyti er ég ofvirk og hef gaman af dagsins amstri, svo nú um stundir er Bleik hálfbrugðið, en á móti kemur geysilegt "jafnaðargeð" sem er algjör nauðsyn. Nú leggst ég í orðsins fyllstu merkingu í lestur. Finnst verst að hér um árið las ég í einni beit alla titlana hennar Guðrúnar frá Lundi, a.m.k. 39 að tölu, og þar á eftir Arnald, Lísu Marklund og marga fleiri. Ég hefði betur geymt mér alla sveitarómantíkina hennar Guðrúnar þar til nú. Guðrún var nú ekki talin hátt skrifaður rithöfundur á sínum tíma, þó var hún "best seller" þótt enginn vildi viðurkenna að hafa lesið hana! Í dag er Guðrún lesin ofan í kjölinn af bókmenntafræðingum og skrifaðar eru um hana ritgerðir. --Bara góð með allan sinn uppáhelling, kjaftasögur og kleinubakstur, en fræðin skemma engan. -- Eiginmaðurinn fór í dag í bókasafnið og kom með margar bækur sem ég er að moða úr. Þær eru úr öllum áttum, en ég er búin með ævisögu Goldu Meir, og eftir lestur hennar er ég eins og jójó um málefni Mið-austurlanda. En maður þarf svosem ekki að skilja allt og geta krufið það til mergjar, en kerla hefur verið mikilmenni á margan hátt. -Þar sem ég þarf að dudda mér heima við um tíma verð ég að hafa eitthvað huggulegt fyrir stafni, svo þið þarna úti, komið nú með uppástungur að góðum bókum, en ekki sjálfhjálparbókum!--- Ég held ég ráði við þann part, og ekki stinga uppá að ég taki fram prjónana. Syngibjörg er í þeim geiranum! Krossgátur og "scrabbl" eru alltaf við hendina, svo og Lifandi vísindi: Þar las ég dag furðulega grein þar sem læknirinn mælir með tóbaksreyk til lífgunar! (að vísu frá árinu 1774) Fýsibelgur var fylltur af tóbaksreyk sem síðan var blásið inn í afturendann á þeim sem drukknuðu í ánni Thames. Dygði það ekki til átti að reyna að blása hinum heilsusamlega reyk í gegnum nefið á þeim drukknaða og niður í lungun! Svo mörg voru þau orð.-- Dugleg að kíkja í kaffi elskurnar.

mánudagur, 10. september 2007

Vöggugjöf----afgangsstærð?

Mér var margt gott gefið í vöggugjöf, þótt ég haldi því nú stundum fram að ég hafi verið afgangsstærð. Það er að vísu nokkuð ljóst að svo er ekki... kona sem er 1.80 á hæð getur varla talist afgangsstærð. Eitt af því sem gleymdist að setja í minn langa skrokk var lengri leiðsla á mörgum sviðum. Ég hlæ yfirleitt á vitlausum stöðum og "fatta" alls ekki brandara. Það eru margar góðar sögur um þennan skort minn. Einu sinni horfði ég agndofa á frétt í sjónvarpinu um graðfola sem var metinn á tugi miljóna, og fannst mér mikið til koma um ágæti þessa hests og tók að segja frá. Vinur okkar hjóna var þá nýbúinn að kaupa nýja rútu uppá sama pening og graddinn var verðlagður á, og rútan var með vaski. Enn og aftur fór ég að segja fréttirnar og bætti nú rútukaupunum við. Allir hlóu, því ég gerði ekki greinarmun á "vaskinum" og handlaug! Í dag nenni ég ekki að þykjast skilja, en skil samt að þessa leiðslu hef ég ekki nema í litlum mæli. Annað sem gleymdist að gefa mér voru sæmileg hné, þau dugðu bara fram á 18. ár. Síðan þá hef ég farið í á annan tug aðgerða, og legg í eina slíka á næstu dögum. Er það furða að ég hafi stundum hugsað um afgangsstærðina þegar bæði leiðsla og hné fóru forgörðum?! Nú ætla ég að hætta að velta þessum hlutum fyrir mér og halda áfram að vera ég með öllu sem mér tilheyrir. --Eftir nokkrar umræður hér á síðunni og öðrum um íslenskt mál verð ég að deila spurningu sem ég fékk fyrir löngu. Lítið barn horfði á hækjurnar mínar og spurði opineygt: Hvað skeði fyrir þig, var hrint þér, eða lentirðu fyrir slysi?!!! Er furða þótt ástkæra ylhýra sé á undanhaldi... Kveð með bros á vör og óska sjálfri mér til hamingju með að vera eins og ég er.

miðvikudagur, 5. september 2007

Um hvað?

Þessir titlar vefjast oft fyrir mér því ég læt gjarnan hugann reika. Hvað um það, nú er tími á að reyna sig á ný á ritvellinum. Kærar þakkir fyrir kikkið og kvittið lesendur góðir, mér þykir vænt um innlitið. ---Fyrir nokkru setti ég inn myndir af fallegu rósunum mínum. Þær eru enn blómstrandi. Við hjónin höfum oft velt því fyrir okkur hve gamlar þær eru, og hversu lengi rósir yfirleitt lifa. Sólskálinn var til staðar þegar við keyptum húsið, 1990. Í dag vitum við að rósirnar okkar voru settar niður 1983 og blómstruðu ári seinna. Þær eru sem sagt orðnar 23 ára gamlar! Það væri gaman að heyra frá einhverjum þarna úti sem þekkir til aldur rósa! --- Nú þegar haustar langar mig til að taka út sumarið. Það hófst með miklu ferðalagi til fjölskyldunnar í litla bláa húsinu í Ameríku. ( Í mínum huga er bara eitt lítið blátt hús í Ameríku) Þar var yndislegt að vera, og taka þátt í lífinu sem þar er. Eitt er víst að ég er mjög stolt mamma/tengdamamma, en ekki síst amma, það er stórt hlutverk og gott. Eyjólfur Aiden er dásamlegur strákur, greindur og skemmtilegur, og sterklíkur föður sínum í útliti. Nathaniel rólegur og vær, og afar líkur mömmu sinni í útliti eins og hún var sem lítið barn. Þau hjón hafa fengið góða blöndu, og tekst vel upp í sínu hlutverki. --- Heimkoman var erfið, söknuður og tímamunur sáu til þess, en það fennti svolítið í sporin er á leið. Humarhátíð, garðvinna, gestakomur og þessháttar hélt öllu í réttum skorðum í rúman mánuð, en þá fórum við í letigírinn á Spán. Það er nefnilega nauðsynlegt að gæla við þann gír af og til. Brún, sátt og sæl erum við svo tilbúin í slag vetrarins. -- Kennslan hafin og er ég með alla mína fyrri nemendur, og bætti við mig einum nýjum. Það var gott að hitta þá og hefja leik. Kórarnir eru almennt ekki byrjaðir, en líður að því, þá verða þrjú til fjögur kvöld frátekin.-- Oft á þessum tíma árs hef ég fundið fyrir smá depurð. Dimmt, kalt, ófærð, hálka. Ekki beint tilhlökkunarefni, en nú ber svo við að ég finn ekki þessa tilfinningu. Veturinn hlýtur því að verða ljúfur, og jafnvel bjartur! Með þessum orðum kveð ég, ljúf, björt og brosandi.

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Gamaldags?

Ég held það, enda fædd um miðja síðustu öld. Kanasjónvarpið, þvottalaugarnar, strætóar með stórt húdd og fáar steyptar götur í Reykjavík og svo mætti lengi telja. Íslenska sjónvarpið kom þegar ég var unglingur, og fyrsta kvöldið sem sent var út voru götur borgarinnar tómar. Det var i den tid eins og sagt er, en ég stend mig að því að hugsa stundum afturábak og bera saman nútíð og fortíð. Ekki er það alltaf fortíðinni í hag, en samt....... Ég hef áður þeyst hér um á síðu minni um tækniundur nútímans og þarf ég endilega að bæta um betur. --Gamaldags?--- eða hef ég bara ekki náð að fylgjast með? Lái mér hver sem vill, því tæknin er fljótari en heilinn í mér virkar. Hver sá sem kominn er á minn aldur man ekki eftir auglýsingunni: Frá hatti ofaní skó,PLÓ.--- Í dag las ég auglýsingu sem sagði mér að ég ætti að breyta viðhorfi mínu til lísins, sagði mér einnig að með því að kaupa bæri það vott um félagslegan hreyfanleika!! Að endingu stóð: Vertu genuine.--- Það var og.----- Það var verið að auglýsa bíl, af tegundinni Ford.--- Við hjón höfum átt Ford, en ég man ekki til að viðhorf okkar til lífsins hafi breyst á nokkurn hátt við að eiga þannig tegund. Viðhorf mitt til lífsins hefur ekki breyst þrátt fyrir allt auglýsingaskrum heimsins, ég held bara mínu lífi áfram í sátt og samlyndi við (vonandi) Guð og menn.--- Í dag horfði ég á haustið smjúga um garðinn minn. Tugir þrasta voru að róta upp fína kurlinu í birkibeðinu, örugglega að tína alla þá maðka sem þeir geta borið við flug sitt burt frá landinu. Þá kom "soldið" haust í mig, en það er allt í lagi, því í dag var ég glöð. Glöð yfir yndislegum tónleikum sem ég hlustaði á í gærkvöldi, (Sigurður Flosason og Sólrún Bragadóttir)yfir stundaskránni minni sem er að smella saman, yfir litla Nattanum mínum í Ameríku sem er orðinn 8 kíló, og yfir æðstasnúð sem var svo duglegur hjá tannlækninum í gær. Þrátt fyrir allt ELSKA ég nútímatækni, því hún færir mig nær þeim sem ég elska mest. Þakka þeim sem á hlýddu!!

mánudagur, 27. ágúst 2007

Heyr heyr!

Stutt og laggott: Hvað varð um teljarann?

mánudagur, 20. ágúst 2007

haust?

Hvenær eru skilin milli sumars og veturs, og hvenær byrjar haustið? Kannski þegar skólarnir byrja, kannski eftir verslunarmannahelgina eða kannski bara um miðjan september. Ég hallast að því síðastnefnda. Að mínu mati byrja skólarnir of snemma, og lenging skólaársins er ekki fýsilegur kostur, allavega ekki fyrir mörg landsbyggðabörn. Núna er farið að rökkva en börnin á Höfn eru ennþá í fallin spýta og öðrum útileikjum því veðrið er einfaldlega of gott til að fara inn að sofa. Ég er að setja mig í haustkennaragírinn, og hlakka til eftir mánuð, þá er nefnilega haustið komið og allt farið að renna ljúflega. Þá eru allir "ástar,menningar,franskir,danskir,ítalskir og færeyskir dagar yfirstaðnir en kjötsúpuát og sláturtíð tekin við. Það er annað sem fylgir haustinu:, alto hausttískan sem tröllríður í öllum glanstímaritum nútímans. Núna veit ég t.d að Smoky augnförðunin verður áberandi á vetri komanda. Það er gott að vita það, en auðvitað gat ég svosem sagt mér það sjálf .. liggur í augum uppi. Náttúran og gróðurinn breytist eftir árstíðum, allt er svo bjart á sumrin en "smoky" á veturna, því þá er allt svo kalt! Svo á maður líka að nota gott rakakrem sem fyllir upp í hrukkur og aldeilis ómissandi er að nota rakasprey! Þá veit maður það. Konan sem var á undan mér í Leifsstöð fyrir stuttu hefur vitað þetta langt á undan mér, því hennar snyrtivörur kostuðu 35 þúsund krónur, en hún var bara ekkert fallegri en ég!!--- En, til að við konur séum nú réttu megin í tískunni við súpu-berja og sláturgerð á haustdögum skulum við ekki gleyma að eiga "nauðsynlegustu" hluti í buddunni. Sumsé, augnhárabrettara, gott sólarpúður og hyljara. (nb. hvað eigum við að hylja?) Ég býð góða nótt með hausttísku-augnförðun á heilanum.

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Gæðablóð

Ég hef lengi talið mér trú um að ég sé gæðablóð, góð við menn og málleysingja. Í raun hef ég alltaf vitað það með sjálfri mér. Núna er það deginum ljósara en með pínulítið öðrum formerkjum. Moskítóflugur sem sagt elska mig, því ég er svo mikið gæðablóð. Fyrsta kvöld okkar hjóna í sæluríkinu Spáni gleymdi ég öllum varúðarráðstöfum og var því gjörsamlega etin upp að hnjám. Það ætla ég rétt að vona að þessi óværa komi aldrei til Íslands því þá flyt ég á Norðurpólinn. Þrátt fyrir flugnabit áttum við yndislega daga þar sem letigenin voru allsráðandi. Aðalspurningin þegar líða tók á daginn var sú að spá í hvað við vildum borða! Að lalla um undir heitum himni og skoða mannlífið er ljúft. Að sitja úti á svölum og "hlusta" á stjörnurnar í 27 stiga hita er gott fyrir sálina. Þó er best fyrir sálina að koma heim. Eftir hverja utanlandsferð finn ég svo vel hvað við eigum gott land. Við getum endalaust þrasað út af alltof háu verðlagi,vitlausum pólitíkusum, virkjunum, samráðum og álverum, en þegar upp er staðið búum við í hreinu og tæru landi, og leyfum okkur að bruðla með ýmislegt, t.d.vatn. Talandi um vatn, þá finnst mér alltaf fyndið þegar Íslendingar kaupa sér vatn úti í sjoppu, við sem eigum dásamlegt vatn beint úr krananum, og það er barist í heiminum um vatn. -- Það er gott að vera komin heim, og með þeim orðum kveður gæðablóðið bitna!

sunnudagur, 22. júlí 2007

Debet og kredet

Nú er komið að síðustu færslunni í bili hjá B konunni því Spánn kallar.--Ekki veit ég bloggfélagar af hverju þessi litla saga kom upp í kollinn, en svona er þetta bara. Fyrir margt löngu kom lítil hnáta og bað mig um að "lána" sér aura, en upphæðin er gleymd. Aðspurð sagðist hún þurfa að versla tyggjó. Aurana fékk hún að "láni" vel að merkja, keypti tyggjó en afganginum af kaupunum skilaði hnátan og sagði sperrt: "Nú skuldar þú mér X krónur"! Bíddu við, sagði ég, þú fékkst lán, og skuldar mér þar af leiðandi. Nei.... nei... ekki var það svo að sú stutta skyldi viðskiptin, en allt gott með það. Á þessum tíma fékk daman gjarnan "lánaða" peninga til að kaupa sér lítið eitt smotterí, skilaði alltaf afganginum, og taldi þá að ég skuldaði sér þá upphæð! Við, foreldrarnir, reyndum hvað við gátum að koma hnátunni í skilning um debet og kredet en lítil viðbrögð fengust við þeirri kennslu þá. Höfðum reyndar gaman af öllu saman svona okkar í millum. ( lesist með L hljóði!). Þegar sú stutta var með okkur í Búlgaríu hér um árið var landið enn handan járntjalds og efnahagur landsins afar sérkennilegur að okkar mati. Engin kort, bara beinharðir dollarar, og var þeim alltaf skipt á svörtu. Fyrir það fengust margar "lefsur" eins og sú stutta kallaði myntina, en nota bene þegar hér var komið var sú stutta orðin eldri en tvævetur. Lítið var hægt að kaupa í þessu fallega landi, en mannanna gæði voru yndisleg. Á leið okkar á ströndina tók daman eftir gömlum manni sem sat í litlu rjóðri með eldgamla baðvog sér við hlið. Á þessum tíma var fullkomin vigtunargræja út um allt í hinum vestræna heimi og var nýlunda. Pupullinn setti peninga í rauf til að finna út hæð og "rétta" þyngd viðkomandi. Þetta vissi daman, og var því óþreytandi að láta vigta sig hjá þeim gamla og borga vel fyrir!! Hún sem sagt vorkenndi manninum, og skildi stritið. Ég hef aldrei séð, eða kynnst neinum sem hefur verið vigtuð eins oft, og það í sumarfríi! Þetta var fallegt-- Nú er þessi stutta löngu búin að læra á debet og kredet og hefur í áranna rás margfalt borgað tyggjópeningalánið til baka. Nú er bara að sjá hvernig hennar synir fara að þegar þá vantar aura fyrir smotteríi. Lifið heil, og gaman væri að sjá ykkur kvitta. Spánarfari kveður úr hornfirskri ró.

miðvikudagur, 18. júlí 2007

Út um mýrar og móa....

syngur mjúkrödduð lóa...--- Spóinn er þarna líka því nú iðar allt af fuglalífi. Nóttin er björt og B manneskjan á langlokuskónum! Á þessum há-bjargræðistíma er allt svo bjart og gott. ---Eitt er það sem ég hef aldrei vanist á er að horfa mikið á sjónvarp, og allra síst á þessum tíma. Gerði þó heiðarlega tilraun í nokkur skipti nú á dögunum, en ekki varð ég nú uppnumin. Allar þessar auglýsingar gera mig hálfarga. Lu-skrækjandi stelpur, óléttur karlmaður að bíða eftir boltanum, bl(a)ka Vanisssssið sem tekur burt bl(a)ttina og ofaní kaupið eru svo þessar "dásamlegu" dressman auglýsingar, þar sem ég get sko valið minn eigin dressman! Ég er búin að horfa með öðru hvernig hægt er að læra að taka til í húsinu, velja bestu dansarana, bestu fyrirsæturnar, gera "upp" annars falleg andlit og keppni í öllum andsk...... og ég gæti haldið áfram. Læt hér þó staðar numið. ---Fyrir helgi komu til okkar góðir gestir, tveir spánskir herramenn. Annar er atvinnuljósmyndari en hinn er mikill áhugamaður um ljósmyndun, og fóru þeir hringinn til að taka myndir. Þetta er í annað skiptið sem þeir koma til okkar, og eru uppnumdir af landinu. Á föstudagskvöldið þegar þeir fóru yfir þær 400 myndir sem þeir höfðu tekið þann daginn sáu þeir að einn ísinn við Jökulsárlónið hafði ekki komið nægilega vel út. Nú voru góð ráð dýr. Morguninn eftir skruppu þeir því vestur að lóni, tóku myndir og drifu sig síðan austur á land! Ég vona svo innilega að þessi tiltekni jaki hafi ekki verið farinn. Fjandakornið að maður sjálfur hefði nennt þessu í öðru landi, en það er gaman hvað þeir eru hrifnir af landi og þjóð.---Það eina sem var Spánverjunum mínum örlítið til trafala var blessuð sólin, en eftir viku ætlum við hjónin að fara til Spánar og láta hana gæla við letigenin í okkur. Þá skal legið og lesið, spáð og spekúlerað. Á kvöldin ætla ég að njóta þess að sitja úti og horfa á heitt myrkrið og hlusta á stjörnurnar. Þegar Svanfríður dóttir okkar var að ferðast með okkur í útlöndum sem lítil stelpa horfði hún oft upp í dimman himininn og sagði angurvær og blíð: Heyrið þið ekki í stjörnunum? Hljóðið sem hún heyrði var í bjöllum og öðrum skordýrum, en í dag segi ég og skrifa, við heyrum í stjörnunum! Útskýringar hjá börnum eru svo einfaldar og flottar að við eigum að reyna að hugsa stundum eins og þau.-- Fyrir svefninn ætla ég með bókina mína út í rósaskála og finna ilminn á meðan ég les, þá hlýtur að síga á mig höfgi. Á blaðsíðu 165 í þessari frómu bók stendur orðrétt. Stysta setning sem inniheldur alla stafi íslenska stafrófsins er: "Kæmi ný öxi hér ykist þjófum nú bæði víl og ádrepa". Ástkæra ylhýra kveður.

fimmtudagur, 12. júlí 2007

Það er margt skrítið í kýrhausnum

Það fylgir starfi mannsins mín að sjá um tvo kirkjugarða. Á vorin þegar sú vinna hefst má ég teljast heppin að fá hann í vinnu hér heima við. Til að létta undir og blíðka bóndann rétti ég honum oft hjálparhönd í þessum tveimur görðum og hef gaman af. Við kirkjuna að Stafafelli í Lóni er yndislegur garður, gamall, gróinn og friðsæll. Í stóru barði norðan við kirkjuna verpir máríuerla og önnur í grjóthleðslunni undir kirkjunni. Sambúðin við garðyrkjumanninn gengur vel, og tekur hann mikið tillit til búskaparins í barðinu. Allt í einu sjáum við hvar þröstur er að bauka við hreiðrið, og flýgur hann með eitthvað í gogginum á brott. Bölvaður, hann var að ræna! Máríuerlan var í upphafi með 5 unga, en nú eru eftir þrír. Garðyrkjumaðurinn jarðsetti einn. Í gær kíktum við ofur varlega í húsið í barðinu, og voru allir þrír við góða heilsu, en þrösturinn missti tvö væn prik hjá okkur hjónum. Fræðingur sem ég hafði tal af hafði ekki heyrt um að þröstur rændi hreiður nema ef vera kynni að máríuerlan hefði rænt hreiðurstæði hans, þá væri ævarandi fýla í gangi. Þetta fannst mér merkilegt, en náttúran lætur ekki að sér hæða.---Í dag vorum við hjónin svo í Hafnarkirkjugarði að hreinsa beð. Í kringum okkur vappaði þröstur, svo nálægt að hann nánast snerti okkur. Hann vissi sem var, að við að snúa öllu við var von á möðkum. Ég "eiginlega" fyrirgaf þrestinum í Lóninu! --- Þeir vita greinilega sínu viti.--- Annað í haus þessa stundina er þetta með að vera A eða B manneskja. Sennilega telst ég til B flokksins að þessu leyti. Allavega yfir sumartímann. Veit fátt betra en að snudda í rósunum mínum seint á kvöldin meðan nóttin er björt. Á það jafnvel til að tætast í beði eftir "háttatíma" þeirra sem telja sig vera A. Mér finnst þetta allt í lagi, en það er oft talað dálítið niðrandi um þessar B manneskjur! "Af hverju ferðu ekki fyrr að sofa, og vaknar svo snemma í fyrramálið til að rótast í beðunum" heyri ég stundum. Er ekki bara allt í lagi að vera B manneskja? Ég bara svona velti þessu upp. Mér líður mjög vel með það, og tek það fram að ég get vel vaknað árla morguns ef með þess þarf. --- Ég veit ekki hvað er tilhlýðanleg lengd á færslu, og ef ég er með langloku sem enginn nennir að lesa til enda þá verður svo að vera. Langlokan hefur kannski eitthvað með hæð mína að gera, það er 1.80! Kveð ykkur með brosi á vör klukkan að verða ELLEFU.

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Blómahaf


Þessi blóm eru í blómaskála okkar hjóna. Hlúum við vel að þeim og finnst okkur birta til þegar þau opna sig á sumrin.
Finnið þið ekki lyktina?

mánudagur, 9. júlí 2007

Bærilega gekk það síðast, þannig að ég legg í hann aftur. Hornfirðingar hafa gjarnan sagst vera með sundfit því mikið getur ringt hér. Nú er öldin önnur, varla kemur dropi úr lofti. Bæjarbúar þenja því garðslöngur sínar í allar áttir svo gróðurinn skrælni ekki. Við hjónin höfum ekki tekið þátt í svoleiðis austri og bíðum bara eftir vætunni sem við þekkjum svo vel. Vittu til, eins og karlinn sagði bráðum fer hann að rigna og við förum á kaf eins og hér um árið. Það er nefnilega annað hvort í ökkla eða eyra. Hvað um það, lífið er gott og ég er loksins búin að hafa betur en arfinn. Fari hann og veri því garðurinn ER stór. Rósaskálinn minn er í fullum skrúða og er hann er eins og Eden yfir að líta. ( Ég er viss um að sá garður hefur litið líkt út!) Það er því mikil lukka að ég skyldi veljast í tónlistarkennslustarfið, þá á ég góðan sumartíma. Ef þið lesendur góðir eigið leið um Hornafjörð langar mig að benda á nýjan veitingarstað sem heitir Humarhöfnin. Þar er aldeilis frábær humar á boðstólum. Ekki það að það sé eini humarstaðurinn, Höfn er "nebblega" HUMARBÆR. Kveðja úr kotinu

laugardagur, 7. júlí 2007

Heil og sæl þið sem kíkið hingað inn. Ég veit svosem ekkert hvað ég að koma mér í, en mátti til með að prófa. Vinkona dóttur minnar kom til mín og sagði þetta blog dæmi ekkert mál, en eftir hálftíma kennslu og áhorf á dömuna vinna helltist yfir mig þessa gamalkunna tölvu- og tæknifóbía. En, nú er ég að kasta mér út í þá djúpu og verð að krafla mig áfram. Til hvers að blogga spyrja margir. Svar mitt er ósköp einfalt, það er gaman að lesa blogg hjá pennafæru fólki, og þótt ég sé kannski telji mig ekki í þeim hópi finnst mér gaman að skrifa. Ég ætla ekki að rægja mann og annan eða vera stóryrt. Mig langar bara eins og svo marga að skrifa stundum, og þá um eitthvað sem kemur upp í hugann. Dóttir mín hefur bloggað í langan tíma og hef ég mjög gaman að lesa skrifin hennar, þrátt fyrir að vera í nær daglegu sambandi við hana símleiðis eða í gegnum tölvuna. Á síðu dóttur minnar eru margir linkar, og fer ég daglega rúnt á síðunni, og hef mjög gaman að. Þar eru mjög margir góðir bloggarar, og vil ég þakka ykkur öllum fyrir skemmtileg skrif. Það stendur yfirleitt efst á síðu "alvöru" bloggara: Allt um mig! Úpps, þar gleymdi ég að læra Kibba mín, en það kemur. Hver er ég? Ég er 56 ára Reykvíkingur en flutti til Hornafjarðar 1974. Ég er tónlistarkennari, kórstjóri og píanóleikari. (meðleikari). Er gift góðum manni sem heitir Örn og saman eigum við dótturina Svanfríði Eygló Ameríkufara. Þar eigum við hjónin fyrirmyndartengdason og tvo algjöra gullmola, þá Eyjólf Aiden tæpra þriggja ára og Nathaniel Nobel fæddan 24. apríl, nánast nýr.-- Þeir eru flottastir.-- Lífið er gott, því það er gott að eiga góða fjölskyldu. Nú er ég búin að marglesa yfir þennan texta svo nú er bara að ýta á réttan takka og þá, plúpps,! veraldarvefurinn tekur við. Þvílík tækni. Það væri gaman ef einhver kvittar, því þá veit ég að ég get þetta sko alveg. Heilsa úr kotinu.

föstudagur, 6. júlí 2007

Nýtt Blogg

testing testing