fimmtudagur, 31. mars 2011
kafli 2
Jæja gott fólk, nú hefst kafli 2. Ekki varð mér að ósk minni um auðveldu leiðina út, ónei. Lyfja- og geislameðferð verður mitt aðalverkefni næstu mánuðina, en byrja ekki alveg strax. Er algjörlega meinalaus, og ekkert hefur dreift sér. Fyrir það má þakka. Nú hefur öllu mínu lífi verið snúið á haus og ég er greinilega ekki í neinum forréttindahópi sem sleppur alltaf! Ég ætla ekki að ríða grindum og görðum, reyni heldur að tækla þetta á annan veg. Bjartsýni og æðruleysi verða því að vera mínir fylgifiskar á næstunni, ég má ekki við öðru. Hvort það tekst alltaf veit ég ekki, en það veit sá sem allt veit að ég ætla að leggja mig alla fram, en ég er viss um að við bestimann eigum eftir að gráta, bölva og hlæja, en saman ætlum að komast í gegnum streðið. Þið þarna úti hafið veitt mér mikinn stuðning, og stuðning þarf ég áfram. Ég hef ákveðið að skrifa á síðuna mína eftir því sem ég get, finnst eins og það kunni að hjálpa mér. Nú ætlum við heim á Höfn í nokkra daga og ná vopnum okkar. Semsagt, svona fór um sjóferð þá þar til næst.
þriðjudagur, 29. mars 2011
dagur 9
Dagurinn í dag var fjandi strembinn, en losnaði þó við drenið. Þá er bara ein hjásvæfa eftir sem ég að reyna að vingast við. Matarlystin lætur aðeins á sé kræla, en þetta er óttalegt kropp. Ég fæ lystina ekki fyrr en eftir fimmtudaginn, og dett svo almennilega í gírinn þegar ég kemst heim. Þegar ég hugsa og horfi á litla fólkið mitt fyrir vestan eykur það kjarkinn og bjartsýnina. Í hana rígheld ég og bið enn og aftur að fimmtudagurinn gefi mér byr undir báða vængi og taki smám saman stóra kökkinn sem læðist að mér af og til og sendi hann austnorðvesturogniður. Svo mörg voru þau orð þar til næst þið góða fallega fólk.
sunnudagur, 27. mars 2011
Dagur 7
Annars er ég hætt að telja því þetta er bara ég! Lífið lufsast áfram í dálitlum hægagangi sem er gott bæði fyrir sál og líkama. Ég hef lært það í gegnum tíðina að með því að anda djúpt og ná venjulegri hugarró eru mér margir vegir færir, ég geri eins og dýr eyðimerkurinnar, hægi eins mikið á líkamsstarfseminni og ég get. Blóðþrýstingur er því venjulega þessa dagana 67 á móti 122, eða alveg eins og hjá reyklausri unglingsstelpu!. Húmorinn minn er að ná sér á strik sem sannaðist í fyrradag. Fór í stólaleikfimi hér á stofnuninni og var langyngst. Allrahanda æfingar með höndum og handleggjum þar sem ég var ekki að sýna tilþrif þrátt fyrir góðan vilja. Ok hugsaði ég, það kemur, bara 3 sólarhringar frá aðgerð. Síðan voru fótaæfingar og þá skeit nú í það! Ég svosem gat allt sem ég átti að gera, en frú tónlistarkennarinn var alltaf skrefi á eftir og var það verulega fyndið. Ég vissi alveg hvernig átti að fara að þessu, en hljóð og mynd fór ekki saman. Allavega lyftist sálin töluvert, og hún hélt takti. -------Nú eru 4 dagar þar til stóridómur fellur á einhvern veg. Mig langar svo að koma vel út úr þessu að mig verkjar. Mig langar svo að allir komi vel út úr öllu svona, en það er barnaleg einföld ósk því skyldi ég sleppa en ekki hinir? Þið skiljið samt hvað ég er fara. Að fara? jú, ég ætla til Kanada í söngferð og líka í lítið blátt hús. Allar góðar vættir gefi mér styrk til efna þetta allt. Þið úti vitið hreint ekki hversu mikinn styrk þið hafið gefið mér, og munið gera áfram. Á þessum nótum ætla ég að reyna að sættast við hjásofelsin mín, drenið og draugaverkina. Ef ég næ 4 tíma svefni dansa ég eins og ein góð orðaði það svo skemmtilega. Það er kátínuhopp þar til næst.
föstudagur, 25. mars 2011
Dagur 5
Sterkari í dag en í gær, og sálin bjartari. Kemst ekki í neitt nema í serk og víðar náttbuxur, en þær ku jú vera í tísku. Vonandi verð ég laus við drenið fljótlega eftir helgi, og þá ætla ég að fara í föt með stóru effi. Ég finn svo mikinn stuðning og mikla hlýju allsstaðar, það er örugglega mikil lækning sem kemur frá öllum þessum fallegu sálum. Þegar við bestimann fengum greininguna henti ég sígarrettunum og þar við situr, og ég er svo hreykin af mér. Í dag í vel upplýstu samfélagi ætti enginn að byrja að reykja, það er bara þannig. Að takast á við reyklaust líf er létt, og jafnvel á stundinni sem ákvörðunin var tekin. Ég er nefnilega þannig sem hrútur.......allt eða ekkert! Ég laumaðist niður í morgun í píanóið sem hér er og ég gat spilað. Ég veit náttúrulega ekki um úthaldið nákvæmlega núna, en krafturinn er til staðar og enginn dofi í vinstri handlegg. Enn og aftur gott fólk, takk fyrir stuðninginn og ef ég má gera kröfur þá er vel þegið að þið haldið áfram að hugsa fallega því biðin er doldið erfið. Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.
miðvikudagur, 23. mars 2011
dagur 3.
Mikið þakka ég góðar kveðjur og bænir mér til handa. Það er ómetanlegt að vita af ykkur öllum þarna úti. Nú er fyrsti kaflinn búinn, og við tekur rúmlega vikubið sem vonandi endar vel. Ég ætla að halda áfram að hugsa fallega, og standa mig. Við bestimann sendum ljúfar yfir þar til næst.
sunnudagur, 20. mars 2011
Ferðalag
Kæru góðu vinir þarna úti, ég þakka innilega fyrir hlýhug og góðar óskir. Í fyrramálið legg ég af stað í þetta ferðalag og vona að mér takist að ulla framan í allt sem er ljótt og ógeðslegt. Ég veit ekki hvenær ég skrifa aftur, en þar til sendi ég ykkur kveðju Guðs og mína.
föstudagur, 18. mars 2011
Rússibanaferð!
Kæru vinir þarna úti. Nú er ég að upplifa eitthvað sem ég get ekki lýst öðruvísi en verulegum hremmingum. Mér finnst eins og ég hafi keyrt stjórnlaust á steinvegg. Fyrir tveimur vikum fór ég í árlega brjóstaskoðun, og núna stend ég frammi fyrir að missa annað brjóstið. Aðgerðin verður gerð á mánudaginn og það eina í stöðunni er standa í báðar fætur. Ég er sterk kona, þokkalega greind, hraust, bjartsýniskella að eðlisfari og ætla mér að reka þennan fjanda af höndum mér. Þetta geri ég ekki ein og vinalaus. Þvílíkt lækna og hjúkrunarteymi sem heldur utanum okkur...... Þetta fólk kann sitt fag, og á það ætla ég að treysta. Fjölskylda okkar beggja sem og vinir eru gull. Vinátta og sterk fjölskyldubönd gera kraftaverk vil ég trúa. Bestimann er sem fyrr minn klettur, og ég hans, svo saman erum við gott team. Restin af teyminu okkar er í landinu stóra hvar ég vona að Bert verði kominn heim til að halda utanum sig og sitt fólk. Lifið í friði og látið tékka á ykkur öll sem eitt. Þar til næst.
föstudagur, 11. mars 2011
Bara smá......
Ætlaði að skrifa, en læt það bíða betri tíma. Nú er hugurinn við tónleika sunnudagsins með þeim ungverska, en mig vantar mína alkunnu hugarró. Hún kemur, og skal koma þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)