föstudagur, 9. janúar 2015
Gamalt og nýtt.
Gleðilegt ár allir nær og fjær. Nú eru liðnir margir mánuðir síðan ég skrifaði síðast, og samt er ég allra kerling æstust í að halda blogginu lifandi. Það er greinilega ekkert að marka hvað frúin segir. Eftir Ameríkuferð s.l sumar gekk lífið sinn vanagang svona frameftir hausti. Ýmislegt kom uppá eins og gengur og gerist,en ég stóð allt af mér það sem að mér var rétt. Verkfall tónlistarkennara leystist og þá var hægt að láta alla putta og hendur standa fram úr ermum. Jólin haldin hátíðleg eftir tilheyrandi klökkva á aðventunni, sem braust svo út í góðan grát á miðnætti Gamlárskvöld. Við mæðgur erum verulega samstíga í þessu öllu saman svona yfir hafið.--- Gjafir og matur var í besta lagi yfir hátíðirnar, og bestimann ánægður með grænu vaðstígvélin sem hann fékk frá sinni elskandi eiginkonu! So? Hann vantaði græn stígvél! Hann fékk stiga í fyrra og hjólbörur árið þar áður. Allt eigum við, og það sem vantar þurfum við varla nema þá stígvél. Við eigum líka hvort annað og í tilefni af því ætlum við að "skreppa" til litlu fjölskyldunnar í Ameríku í sumar. Allt klárt og kvitt, og það á alltaf að halda uppá 40 ára brúðkaupsafmæli ef hægt er. --- Gamla árið er semsagt liðið og allt sem því fylgdi og þetta nýja ár verður déskolli gott, eiginlega betra ef eitthvað er. Ég ætla sem fyrr að ulla á allan krankleika, ef það dugar ekki lem ég hann með báðum hækjunum og þær eru svartar og nýjar. Myndin sem fylgir þessum orðum er af yndislegri lítilli kirkju að Hofi í Öræfum. Ég spilaði við fallega athöfn þar á dögunum og ég er viss um að ef Guð er til er hann í litlu kirkjunni undir fjöllunum og hjá öllu því góða fólki sem býr í nálægðinni. Þetta er sumarmynd, en upplifunin eins og var á dögunum er ekki síðri. Dansandi norðurljós, stjörnubjart, algjört logn og hvít fjöllin alveg að detta ofaná mann. Þarna býr gott fólk, og ég er viss um að fyrir utan öræfahiminhvolfið er þar fullt af litlum álfum og englum þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)