föstudagur, 22. mars 2013
Larfurinn lifandi!
Titillinn er eitthvað svo Séð og heyrt-legur. Þið vitið, svona sætar saman og allt það. Ég þekki suma sem þola ekki svona ódýr rímuð orð í blaði! Mér finnst t.d. miklu betra rím þegar litli Eyjólfur minn rímaði: Jólasveinn/skóhorn. Það þarf ekki ritsmíðamenn á launum til að það virki. ---Jæja, nú er stóra skoðunin búin og ég kom vel út úr henni. Læknirinn sagði mig engum til vandræða og held ég vel í þá skoðun. Eftir svefnlitlar nætur á undan skoðun var eins og valtari "hebbði" keyrt yfir mig þegar henni lauk. Hélt ég væri orðin sjóuð, en...vonandi verð ég aldrei of sjóuð. Að vera ekki sjóaður er maður á lífi og kann að meta það betur, ekkert er sjálfsagt í henni veröld. Alla vega mín trú.-- Eftir langa starfsævi við hljóðfærið hef ég ennþá mörg fiðrildi í maganum og sálinni þegar ég kem fram, kann ekki annað og vona að ég verði aldrei af örugg eða kærulaus. Þá er ég hætt, og hana nú. ---Í Rvík. fórum við bestimann fínt út að borða með vinum. Héldum semsé uppá gott gengi. Frábært kvöld og frábær þjónusta, en fyrsti skammtur af mat stóðst ekki kisupróf. Seinni skammtur hinsvegar sælgæti. Bestimann vildi gefa mér að smakka á sínum rétti en svo fór að bitinn góði rann ljúflega í hvítvínsglasið mitt. Nú átti ég ekki mat og ekkert vín! Hvað gera klassadömur þá? Veit ekki um þær, en ég flissaði og fannst þetta frekar fyndið en þó sérstaklega svipurinn á mínum besta vini. Þjónarnir björguðu svo öllu og við fórum södd og sæl út, en ég held að ég fari annað næst. --- Eftir tékkið fór ég í vímu og keypti skokk í góðri búð. Maður á ekki að fara oft í góðar búðir til að kaupa skokka, en, ég ætla samt aftur í maí þegar næsta holl hefst í afturbatanum. Þangað til ætla ég að klára alla tónleika og próf, lesa bækur, elda góðan mat, spila og syngja inná disk og vonandi eitthvað meira. Þegar læknahollið er búið hefst biðin eftir yndislegu fólki frá Ameríku. Hjól og kojur fyrir snúðana í höfn, bækur og annað verður líka klárt, og Natti fær að sofa í efri koju! ---Eins og titillinn segir er larfurinn á lífi, hress og kátur að vanda þar til næst.
laugardagur, 2. mars 2013
Fúdendfönn!
Það er virkilega gaman að vera til og búa í bænum mínum. Hátt til lofts og vítt til veggja, og jöklaútsýnið er milljón dollara virði. Í gærkvöldi var ég svo sannarlega minnt á hve allt getur verið fallegt ef maður nennir að horfa og njóta. Food and fun ( angi af fyrirbærinu) var í mikilli óvissuveislu í Fundarhúsinu í Lóni, en það er úti í óendanleikanum, langt frá byggð. Stjörnubjartur himinn, norðurljósin lýstu upp dimmuna og útlendingarnir stundu af lotningu. Friðarkertin í tugavís gerðu svo staðinn að draumaveröld. Það var gaman að geta tekið þátt í að skemmta við svona aðstæður. Stakir Jakar þjónuðu til borðs í fínum lopapeysum og brustu svo í söng reglulega. Þetta var ævintýri. -- Ég var í lopakjól, átti betur við en dressið sem sést hér að ofan. Ég fullyrði að frúin var sko aldeilis fín í flíkinni, en ég kann ekki ennþá að nota alla fídusa sem hún býður uppá. Fer í læri við tækifæri, en Jökull er klárlega með´etta. Lífið semsagt gengur sinn vanagang hér með nokkrum u beygjum sem alltaf má búast við, en þær beygjur eru bara gefandi og góðar.--- Fékk bréf frá Lansanum og á ég að mæta í stóratékkið 14 og 15. mars. Finn fyrir fiðrildum af og til en ég held að þau séu mest í sálinni og fljúgi svo burt að skoðun lokinni. 9. mars eru tvö ár liðin frá því að ég fékk greiningu, ótrúlegt hvað tíminn líður og í raun ekki svo erfitt að líta í baksýnisspegilinn. Held semsagt áfram göngu minni í gegnum tilveruna með bestimann mér við hlið og yndislegt fólk í Ameríku. (sem við fáum að faðma áður en langt um lýkur) Þar til næst bið ég alla vel að lifa.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)